Þingbréf
Birtist í Morgunblaðinu, 31. maí 2008
Klikkandi þingmenn, skjálfti og nóttin sem var í gær
Halla Gunnarsdóttir
Samkomulag um þingfrestun náðist í gær, sagði Ögmundur Jónasson á morgunvakt RÚV á fimmtudagsmorgun. Ég var varla komin á fætur og missti hafragrautinn næstum í gólfið. „Í gær!“ hrópaði ég og þusaði svo með látum um að ég hefði jú hangið á Alþingi fram til miðnættis, einmitt í von um að samkomulag næðist og ég gæti komið því í Morgunblaðið áður en það fór í prentun.
Ögmundur átti sín einskis ills von þegar ég stökk á hann í þinginu og og vildi útskýringar á þessu. Jú, samkomulag hafði náðst milli kl. 1 og 2 um nóttina. „Það heitir ekki gær, það heitir nótt, útlendingar myndu meira að segja tala morgun,“ tuðaði ég við örþreyttan þingflokksformanninn. En samkomulag hafði náðst og dagskráin gekk því hraðar en annars hefði mátt búast við.
Síðustu dagar Alþingis fyrir þingfrestun eru alltaf dálítið kaótískir. Á göngunum er aðallega rætt um eitt: Hvaða mál fara í gegn og hvenær kemst þingið heim? Enginn veit neitt en einhvern veginn verður stemmningin eins og allir séu saman í þessu, saman í óvissunni.
Í heilan vetur er búið að leggja fram hundruð mála og þræta um þau fram og aftur. Deila um þingsköp og deila um dagskrá. Svo allt í einu á síðustu dögunum gerist allt. Aldrei er meira líf á Alþingi. Ráðherrar og þingmenn á vappi, starfsfólk á þönum og fjölmiðlafólk að reyna að átta sig á hvað er eiginilega um að vera.
Æst kona og æstur stigi
Hringt er inn til atkvæðagreiðslu og þingsalurinn fyllist af lífi. Forseti tilkynnir hvað er verið að greiða atkvæði um og svo heyrast mörg „klikk“ þegar þingmenn ýta á hnappana. Já eða nei, eða sitja hjá.
Klikk, og orkufrumvarpið, sem tók um 12 klukkustundir að ræða, er orðið að lögum. Klikk, og nú geta trassar fengið háa sekt fyrir að láta ekki skoða bílinn sinn.
Atkvæðagreiðslum lýkur og ræðuhöldin taka við að nýju. Ég skrepp út í háskóla og gleymi mér í spjalli í Nýja garði. Allt í einu kippist ég við og man að sjávarútvegsráðherra ætlaði að koma með einhverja yfirlýsingu varðandi kvótakerfið og álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Ég kveð í flýti (eða kvaddi ég kannski ekki?), hálfdett út um dyrnar og hjóla í spani niður á þing. Við dyrnar út í Alþingisgarð gæða nokkrir þingmenn sér á konfekti (konfekt í Alþingishúsinu þýðir langir fundir, þá fáum við súkkulaði). Þó að ég sjái fjölda þingmanna, sem þýðir að sjávarútvegsráðherra er varla í ræðustóli með tímamótayfirlýsingar, er ég enn stressuð og hleyp af stað upp stigann. En stiginn er jafnæstur og ég. Ég stoppa.
Í þingsal stendur Guðbjartur Hannesson og talar um samninga milli þeirra sem eiga sumarbústaði og þeirra sem eiga landið sem bústaðirnir eru í. Hann er hinn rólegasti meðan jarðskjálftinn ríður yfir og heldur svo ræðu sinni áfram. Kjartan Ólafsson situr í forsetastóli. Á sama tíma hrynja myndir af veggjum á heimili hans á Suðurlandi. Heilu bókaskáparnir detta um koll og eldhúsið fyllist af glerbrotum.
Sumir hlupu út úr þinghúsinu, sem er auðvitað hið eina rétta í stöðunni, aðrir hlupu bara eitthvert og enn aðrir stóðu kyrrir, eins og ég.
Þeir þingmenn sem eiga heimili á Suðurlandi drifu sig heim strax eftir jarðskjálftann. Þingfundur hélt áfram og tímamótayfirlýsingar sjávarútvegsráðherra voru víst á dagskrá kl. 4, en ekki hálffjögur eins og ég hafði óttast. Kvótakerfið verður endurskoðað, sagði ráðherrann, en Grétar Mar Jónsson var hinn ósáttasti og blandaði samana tveimur þekktustu ummælum seinni tíma stjórnmálasögunnar, þegar hann sakaði menn um skítlegt eðli og kallaði þá druslur í leiðinni.
Allir í beinni
Líklega voru það frekar lætin í jörðinni en lætin í Grétari sem ollu því að stemmningin í Alþingishúsinu var breytt. Í mötuneytinu vék Alþingisrásin fyrir beinni útsendingu Ríkissjónvarpsins og allir töluðu um hvar þeir voru þegar skjálftinn reið yfir og í leiðinni hvar þeir voru þegar jörðin skalf síðast svona mikið.
Dómsmálaráðherra, sem annars svarar helst ekki spurningum fjölmiðla öðruvísi en í tölvupósti, var ítrekað í beinni útsendingu, eins og reyndar fjöldi fólks, enda komst ekkert annað að en jarðskjálftinn. Líklega gerðist fátt í heiminum í gær.
Merk yfirlýsing sjávarútvegsráðherrans komst ekki að í fréttum sjónvarps og atvinnubílstjórarnir sem komu með líkkistur á Austurvöll fengu enga athygli.
Eftir kvöldverðarhlé voru aftur atkvæðagreiðslur. Klikk, klikk, klikk, hljómaði um salinn og Ísland á nú ný lög um öll skólastigin. Þingmenn voru sumir orðnir þreyttir en sáu fram á að greiða atkvæði inn í nóttina.
Í mötuneytinu sátu ráðherrabílstjórarnir, ekki með neinar líkkistur, þó þeir séu atvinnubílstjórar. Nóg af konfekti á borðum og hvort sem það var vegna sykursins, þreytunnar eða léttisins yfir að náttúran hafði ekki leikið okkur verr, þá var aðeins meiri gálgahúmor í fólki en venjulega.
Ljósmyndari Morgunblaðsins mætti á staðinn á ellefta tímanum. Við höfðum vonast til að ná klassískri mynd af því þegar svarnir andstæðingar fallast í faðma og kyssast í bak og fyrir eftir þingfrestun. En í staðinn fékkst bara mynd af þreyttum þingmönnum, enn að tala.
Mogginn fór í prentun. Ég fór heim að sofa. Ráðherrabílstjórarnir biðu enn. Í þingsal heyrðist aftur „klikk klikk“ og nú mega einhleypar konur fara í tæknifrjógvun.
24.05.2008Þingbréf
Birtist í Morgunblaðinu, 24. maí 2008
Breytt vor, Jesús og horfnir eldveggir
Beljurnar eru víst ekki lengur eins æstar á vorin og áður, að því er fram kom í Morgunblaðinu í gær. Ástæðuna má rekja til þess að þær eru ekki bundnar á bás allan veturinn heldur geta spókað sig aðeins um í fjósinu.
Vorin á Alþingi eru líka breytt enda nú í fyrsta sinn starfað eftir nýjum þingskapalögum. Þess vegna er Alþingi t.a.m. enn að störfum en ekki farið í sumarleyfi. Pressan ætti að vera minni en undanfarin ár enda gert ráð fyrir nokkrum þingfundadögum í september, áður en þingi er slitið, og þá verður hægt að klára þingmál sem liggja fyrir þessu þingi. Nýtt þing tekur svo til starfa 1. október.
Þrátt fyrir þetta svigrúm var fundað fram á nótt í vikunni við mikil mótmæli stjórnarandstæðinga. Þeir eru komnir í vorskap og Bjarni Harðarson lýsti því svo á bloggi sínu að nú væri hafin vertíð nöldurs og málþófs. En hver er tilgangurinn með málalengingunum? Jú, stjórnarmeirihlutinn vill koma fjölda mála í gegn og með því að taka langan tíma í að ræða þau getur stjórnarandstaðan komið í veg fyrir að sum mál nái fram að ganga og um leið komið einhverjum sinna mála á dagskrá.
Enn um kristilegt siðgæði
Það vakti talsverðar umræður í vetur þegar menntamálaráðherra lagði fram frumvarp til grunnskólalaga en í því er m.a. gert ráð fyrir að „kristilegt siðgæði“ fari út úr upptalningu yfir þá þætti sem eiga að móta skólastarf. Framsóknarmenn lögðu þunga áherslu á að kristnin væri áfram í grunnskólunum. Í öðrum flokkum voru skiptari skoðanir en kristnu sjónarmiðin urðu greinilega ofan á því menntamálanefnd Alþingis hefur lagt til að starfshættir grunnskóla eigi auk annars að mótast af „kristinni arfleifð íslenskrar menningar“. Einhvern veginn stórefast ég um að það skipti höfuðmáli í starfsháttum grunnskóla hvort kveðið er á um kristni í lögunum eða ekki. En það eru engin sannfærandi rök fyrir því að nefna þurfi sérstaklega ein trúarbrögð umfram önnur trúarbrögð eða trúleysi, enda varasamt bæði í sögulegu og alþjóðlegu ljósi.
Guðni Ágústsson hefur hins vegar þungar áhyggjur af kristni og grunnskólalögum og lýsingar hans hafa verið dramatískar eftir því. Í umræðum í vikunni sagði hann: „Það er ekkert til neitt siðgæði í rauninni nema kristið siðgæði.“
Hvað á Guðni við? Varla eru samfélög búddista, múslima eða trúleysingja siðlaus með öllu og Guðni hlýtur þar að auki að vita að siðgæði mótast af fleiri þáttum en trúarbrögðum.
Hruninn eldveggur
Það er víst að nálgast að verða hefð að ég fjalli um varnarmál í þessum pistli, enda eitt stærsta pólitíska málið þessa dagana. Á fundi Varðbergs og Samtaka um vestræna samvinnu í vikunni kom skýrt fram í máli Bjarna Benediktssonar, formanns utanríkismálanefndar Alþingis, að sú hugmynd að halda hér áfram með „loftrýmiseftirlit“, eftir að bandaríski herinn yfirgaf landið, hafi komið frá íslenskum stjórnvöldum. Sama sagði Ellisif Tinna Víðisdóttir, nýráðinn forstjóri Varnarmálastofnunar, í viðtali við morgunútvarp Rásar 1 sl. miðvikudag. Greinilega hefur verið breytt um kúrs í hinni opinberu orðræðu enda hefur hingað til verið talað eins og fullmótaðar tillögur um tilhögun mála hafi komið frá hermálanefnd NATO.
Annað sem vekur eftirtekt er að nú er umræðan um „eldvegginn“ á undanhaldi en hann átti að vera milli borgaralegra verkefna og „varnartengdra“ og mikil áhersla var lögð á aðgreininguna í greinargerð með varnarmálafrumvarpinu. Í áðurnefndu viðtali gerði Ellisif hins vegar mikið úr borgaralegri starfsemi og svaraði játandi spurningu fréttamannsins um hvort stofnunin ætti að sinna „borgaralegri hlið varnarmálanna“.
Umfjöllun Fréttablaðsins í gær um frönsku liðsveitirnar, sem nú eru hér á landi, vekur einnig upp ýmsar spurningar. Þar segir Stéphane Azou liðsforingi að auk þess að geta flogið til móts við óþekktar flugvélar geti frönsku orrustuþoturnar beðið vélarnar að fylgja sér eftir eða neytt þær til að lenda. Í versta falli „… öfum við getu til þess að tortíma vélinni með flugskeytum. En þetta „versta fall“ mun ekki gerast. Það er enginn óvinur í sjónmáli,“ segir Azou. Þetta eru hálfundarlegar yfirlýsingar. Ég geri ekki ráð fyrir því að hann sé að ræða um títtnefndar rússneskar spengjuflugvélar því það gæti leitt til stríðsástands. En ef um annars konar flugvélar er að ræða, hver tæki ákvörðun um að beita hervaldi eða „tortíma“ flugvél? Er það franskur yfirmaður orrustusveitarinnar eða NATO? Og hvaða aðkomu hafa íslensk stjórnvöld?
Ef halda á úti starfsemi hér á landi sem byggir á aðstæðum sem „mögulega geta komið upp“ þarf líka að svara brýnum spurningum sem vakna við þessar „mögulegu aðstæður“.
17.05.2008
Þingbréf
Birtist í Morgunblaðinu, 10. maí 2008
Kaldastríðstal og þingmenn í 1. persónu
Nú eru aðeins örfáir starfsdagar eftir á Alþingi fyrir sumarleyfi og dagskráin þéttist eftir því. Ljóst er að þingmenn þurfa að sætta sig við kvöldfundi þessa síðustu daga eigi að takast að ljúka við öll þau þingmál sem liggja fyrir. Eldhúsdegi hefur verið flýtt um einn dag að ósk Ríkissjónvarpsins en ástæðan er vináttulandsleikur í karlafótbolta sem sýna á beint frá einmitt sama kvöld. Þetta er skondin ástæða en ætli áhugafólk um fótbolta og pólitík, eins og ég, fagni því ekki að þurfa af hvorugu að missa.
Alþingi hefur upp á nokkra daga að hlaupa í haust til að klára mikilvæg mál en samkvæmt nýju þingskaparlögunum eru þingfundir í byrjun september. Þingmál sem ekki tekst að ljúka fyrir þann tíma þarf að leggja aftur fram á nýju þingi sem er sett 1. október.
Í síðasta þingbréfi gerði ég svokallaða „loftrýmisgæslu“ NATO-ríkjanna að umtalsefni og þá miklu fjármuni sem ráðgert er að verja til reksturs Varnarmálastofnunar. Ritstjóri 24 stunda, Ólafur Þ. Stephensen, tók þetta upp í leiðara 14. maí sl. og vitnaði til orða minna. Ólafur segir vel sloppið að verja aðeins 200 milljónum króna í varnir landsins en það er áætlaður árlegur kostnaður við veru erlendra herja hér á landi. Það má vel vera, en er vel sloppið að verja 1.350 milljónum króna til reksturs Varnarmálastofnunar?
Fylgst með Rússum
Engin haldbær rök hafa komið fram fyrir því að ratsjáreftirlitið, sem er dýrasti þátturinn, hefði ekki mátt vera í höndum borgaralegra stofnana, á borð við Flugstoðir sem fylgjast með öllu borgaralegu flugi. Og það hljómar hálfankannalega fyrir 300 þúsund manna þjóð að halda úti dýru ratsjáreftirliti á tveimur stöðum.
Eitt helsta verkefni Varnarmálastofnunar verður að fylgjast með flugi Rússa í grennd við landið og að sama skapi verður helsta hlutverk erlendu herjanna, þegar þeir eru hér á landi, að fljúga til móts við Rússa og fylgja þeim út fyrir það svæði sem Ísland hefur eftirlit með. Til að taka af allan vafa þá er flug Rússanna ekki ólöglegt enda eru þeir inni á alþjóðlegu flugsvæði en ekki í íslenskri lofthelgi. Engin hernaðarógn er talin stafa af Rússafluginu þó að það geti vitaskuld verið truflandi, ekki síst fyrir borgaralegt flug.
Er kalda stríðinu lokið?
Staðreyndin er sú að tilgangurinn með „loftrýmisgæslunni“ er aðeins táknrænn og pólitískur enda vita Rússar vel að Ísland er í NATO. Ekki þarf franskar orrustuþotur til að sýna fram á það. Auk þess eru NATO-ríkin ekki á einu máli um nauðsyn þessarar loftrýmisgæslu. Hún er t.d. aðeins að nafninu til í Slóveníu.
Stjórnvöld, og aðrir sem hafa borið í bætifláka fyrir þessa íslensku sérútfærslu á „loftrýmisgæslu“ (þrisvar til fjórum sinnum á ári, tvær til þrjár vikur í senn), hafa ekki svarað því hvernig varnir landsins eru tryggðar á þeim tímum ársins þegar enginn erlendur her er hér á landi. Verður ekki hálfvandræðalegt ef Rússar taka rúntinn um landið daginn eftir að Frakkar fara?
Talsmenn „loftrýmisgæslunnar“ reyna að sýna fram á að þess háttar öryggis- og varnarmál séu ríkjum allt að því eðlislæg, en ekki háð gildismati. Með því eru þeir í raun að leitast við að styrkja samstöðuna gegn „sameiginlegum óvini“. Þessi kaldastríðsorðræða er barn síns tíma, eins og Christopher Coker, prófessor í stjórnmálafræði við London School of Economics, lagði áherslu á í frábærum fyrirlestri við Háskóla Íslands fyrir skömmu.
Að halda því fram að þeir hermenn sem koma hingað í örfáar vikur fái mikilvæga þjálfun sem gæti komið sér vel ef ógn steðjaði að landinu er líka nokkuð langsótt eftiráskýring. Það eru litlar líkur á því að umræddar flugsveitir yrðu sendar hingað vegna reynslu sinnar hér, ekki síst ef þær væru við störf annars staðar í heiminum. Þar að auki gildir varnarsamningurinn við Bandaríkin enn á ófriðartímum.
Vissulega getur fólk greint á um hvernig eigi að verja fjármunum til öryggis- og varnarmála en afskaplega lítil umræða hefur farið fram um forgangsröðun í þeim efnum hér á landi. Danir líta t.d. svo á að Danmörku stafi engin hernaðarógn af öðru ríki og því leggja þeir ekki áherslu á landvarnir í hefðbundnum skilningi. Framlag þeirra felst í þátttöku í alþjóðlegum aðgerðum eins og friðargæslu.
Því á sú spurning fyllilega rétt á sér hvort farið sé skynsamlega með fjármuni. Þau rök sem stjórnvöld og Ólafur Stephensen hafa lagt fram til réttlætingar því mikla fé sem ráðgert er að verja til Varnarmálastofnunar og heræfinga hér á landi, eru ekki nógu sannfærandi. Markmiðin eru enn óskýr og það sama má segja um þær hættur sem bregðast á við.
Hamast við að halda ró sinni
En á aðeins léttari nótum. Það má eflaust saka mig um meinfýsni en ég safna stundum saman spaugilegum ummælum sem falla á Alþingi. Þingmenn eru ekki öfundsverðir af því að þurfa oft að koma óundirbúnir upp í ræðustól og auðvitað eiga þeir það til að mismæla sig. Enskuslettur eiga það líka til að heyrast í hita augnabliksins, við litla hrifningu unnenda íslenskunnar. Þannig sagði einn ráðherra þetta væri „ekki pointið“ og annar talaði um „kombakk“. Einn forseta Alþingis kallaði líka fram smábros hjá undirritaðri þegar hann bað þingmenn um að ávarpa hver annan í 1. persónu. Þingmaður VG sagði forsætisráðherra „hamast við að halda ró sinni“ sem er óneitanlega fyndin orðasamsetning og framsóknarmaður sagði forsendur fjárlaga „mölbrostnar“.
Þá var dálítið spaugilegt þegar fyrrverandi borgarfulltrúi rifjaði upp í ræðustóli Alþingis störf sín „handan tjarnarinnar“. En ætli ég verði ekki bara að fara að ráðum eins þingmanna Frjálslynda flokksins og „brjóta odd af stífni“ minni og hætta að hafa áhyggjur af málfari!
10.05.2008
Þingbréf
Birtist í Morgunblaðinu, 10. maí 2008
Óljós rök fyrir miklum fjárútlátum
Koma franskrar hersveitar til Íslands markar sannarlega söguleg tímamót eins og margir hafa haldið fram þessa vikuna. Annars vegar er þetta í fyrsta sinn sem aðrir en Bandaríkjamenn eru hér á landi við „loftrýmisgæslu“ og hins vegar er ljóst að Frakkar hyggjast gera breytingar á stefnu sinni gagnvart Atlantshafsbandalaginu (NATO) og munu sennilega verða aftur fullgildir aðilar að herstjórn þess á næsta ári, rúmlega fjörutíu árum eftir að þeir sögðu sig úr henni.
Breytingarnar sem þurfti nauðsynlega að gera hvað íslensk varnarmál varðar eftir að bandaríski herinn ákvað að yfirgefa Ísland hafa reglulega komið upp á Alþingi í vetur, ekki síst þar sem talsverð fjárútlát fylgja aukinni ábyrgð Íslendinga á eigin vörnum.
Við brotthvarf hersins komst starfsemi Ratsjárstofnunar í uppnám enda var hún starfrækt af hernum og hafði það verkefni með höndum að fylgjast með allri flugumferð á svokölluðu loftvarnarsvæði Íslands, sem nær yfir u.þ.b. 150 sjómílna radíus um landið. Þetta kallast „loftrýmiseftirlit“ en Frakkar eru hins vegar hér við „loftrýmisgæslu“, sem felur m.a. í sér að fljúga til móts við herþotur komi þær inn á svæðið. Rétt er að taka fram að lofthelgin er aðeins 12 sjómílur og þess vegna er fylgst með margfalt stærra svæði en Ísland hefur yfirráðarétt yfir.
Hvaðan komu tillögurnar?
Þegar bandaríski herinn fór var ákveðið að leita á náðir NATO en því hefur ítrekað verið haldið fram, bæði af ráðamönnum og embættismönnum, að tillögur um að loftvarnarkerfið yfir Íslandi yrði áfram starfrækt hafi komið frá hermálanefnd bandalagsins. Af þessu mætti ætla að nefndin hafi sjálf lagt fram tillögur um hvernig vörnum og herviðbúnaði skyldi háttað hér. Samkvæmt mínum heimildum var í meginatriðum um tillögur frá íslenskum stjórnvöldum að ræða, sem hermálanefndin féllst svo á, en Ísland á auðvitað sæti í nefndinni eins og öll hin 25 aðildarríki NATO. Svona orðræða er hálfvandræðaleg, vonandi búa nægilega góð rök að baki þessum ákvörðunum.
Samkvæmt upplýsingum á kynningarfundi fyrir blaðamenn í utanríkisráðuneytinu sl. mánudag segir í loftvarnarstefnu NATO að loftrýmiseftirlit og -gæsla séu lykilatriði í að tryggja öryggi þjóða. Reyndar er engin samræmd stefna um slíkt eftirlit og gæslu hjá NATO þjóðum, sem ekki ráða yfir eigin flugher. Íslendingar eru nú komnir með sérlausn sem felst í því að NATO-þjóðir koma hingað að jafnaði fjórum sinnum á ári í tvær eða þrjár vikur í senn og Frakkar eru þar fyrstir í röðinni en dvelja í sex vikur. Ef loftrýmisgæsla er lykilatriði í að tryggja öryggi þjóða hvers vegna á hún aðeins að vera hér á landi hluta úr árinu? Er Ísland þá óvarið í millitíðinni?
Dýrt spaug
Þessi viðbúnaður erlendra herja hér á landi á aðeins við um varnir á friðartímum. Ef til ófriðar kemur gildir varnarsamningurinn við Bandaríkjamenn. Einhvern veginn læðist að manni sá grunur að verið sé að nota gömul meðul við nýjum sjúkdómum. Sífellt er rætt um að kalda stríðinu sé lokið og að nú séu nýir tímar en samt er verið að beita nákvæmlega sömu aðferðum og var beitt í kalda stríðinu. Rússar fljúga inn á „loftvarnarsvæðið“, sem er á alþjóðlegu flugsvæði, og ef herþotur eru til staðar eru þær sendar á móti þeim. Þetta er nákvæmlega sami leikurinn. Og einmitt þess vegna hljómar varnarviðbúnaðurinn ekki sannfærandi í eyrum fólks. Hinn vandinn er sá að erfitt er að átta sig á hvaða ógnir steðja að Íslandi. Þess vegna hefði verið mun eðlilegra að niðurstaða hættumatsnefndar, sem á að skila af sér í haust, hefði legið fyrir áður en ákvarðanir um varnarviðbúnað voru teknar.
Þetta væri kannski ekki stórmál ef leikurinn væri ókeypis. Því fer víðsfjarri. Hin nýja Varnarmálastofnun kostar skattgreiðendur hátt í hálfan annan milljarð í ár. Það er álíka há fjárhæð og varið er í að reka Háskólann á Akureyri. Þar að auki kostar 200 milljónir á ári að hafa hér erlenda heri.
Ratsjáreftirlitið er kostnaðarfrekasti þátturinn en á sama tíma hafa Flugstoðir eftirlit með öllu borgaralegu flugi. Hefði það fyrirtæki ekki getað tekið verkefni Ratsjárstofnunar yfir með minni tilkostnaði? Leyndarhyggjurökin duga skammt í þessum efnum enda er verið að minnka feluleiki í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Var látið á það reyna hjá NATO að semja um að Ísland fengi að reka ratsjáreftirlitið samhliða eftirliti með borgaralegu flugi?
Þessi málaflokkur er mikilvægur og mjög kostnaðarsamur og þess vegna þarf tilgangurinn með verkefnunum að vera alveg skýr og allar upplýsingar uppi á yfirborðinu.