26.01.2008

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 26. janúar 2008

 

Afneitun þingfréttaritarans

 

Þegar ég hóf störf sem þingfréttaritari var ég spurð að því hvort til stæði að ég sinnti borgarpólitíkinni líka. Ég hélt nú ekki, og útskýrði fyrir viðmælanda mínum með viðeigandi lýsingarorðum að í borginni gerðist hreinlega ekki neitt. Ég hefði einu sinni setið borgarstjórnarfund og þeir væru alveg hræðilega leiðinlegir, þunglamalegir og í allt of stóru rými. Þar væri þrætt fram og aftur um skipulagsmál og hvort mislæg gatnamót ættu að vera hér eða þar. „Hverjum er ekki sama um mislæg gatnamót?“ hrópaði ég. „Borgarstörfin eru engin pólitík, á Alþingi, þar gerast hlutirnir!“

Ég hafði rangt fyrir mér.

Þegar meirihlutinn sprakk í október sl. mátti merkja mikla spennu á göngum Alþingis. Fólk gekk hraðar en venjulega og nefjum var stungið saman í öllum hornum. Við fjölmiðlafólkið stukkum flest út að Tjörn þar sem „Tjarnarkvartettinn“ skráði nöfn sín á spjöld sögunnar, með eftirminnilegum hætti. Ég breyttist á örskotsstundu úr lífsleiðum þingfréttaritara í orkumikinn borgarfréttaritara (sem mér fannst reyndar meira viðeigandi að kalla riddara, einmitt þá).

Ekkert nema kjaftasaga

Nýjasta dramað í borginni átti sér alls ólíkan aðdraganda, a.m.k. í Alþingishúsinu. Upp úr hádegi átti ég símtal við mann sem spurði mig hvort meirihlutinn væri að falla. Ég hélt hann ætti við þingmeirihlutann, hló og sagði að það væri bölvuð vitleysa. Gömul og ný kjaftasaga sem ekkert væri hæft í. Ég kvaddi hann og fór stuttu síðar að fylgjast með umræðum í þingsal um ástandið á Gaza-svæðinu.

Þegar leið á daginn spurði fjölmiðlakona mig hvort ég vissi hvar Ólafur F. ætti heima. Ég gróf það samviskusamlega upp en spurði ekki einnar spurningar um hvað hún vildi Ólafi, sem væri svo knýjandi að símtal dygði ekki til.

Í stuttu máli, þá tók ég hreinlega ekki eftir neinu þennan örlagaríka vetrardag, heldur sat bara og hringlaði með mínar venjubundnu þingfréttir.

Hefði einhver spurt mig hvort Ólafur F. yrði borgarstjóri hefði ég sagt nei. Og haft rangt fyrir mér.

Þegar óstaðfestar fregnir um nýja ráðhúsbyltingu loks bárust stökk ég ekki á fætur heldur rölti rólega niður til að athuga stemmninguna á göngum þingsins. Í þingsal var rætt um hvort fyrirtæki sem halda úti sjóstangveiði ættu að gera það innan kvótakerfisins en gangarnir voru mannlausir.

Skipt um andlit á Netinu

Eftir á að hyggja þá er eins og ég hafi verið í afneitun. Ekki afneitun gagnvart því að einmitt þessi meirihluti væri að taka við, heldur því að önnur bylting ætti sér stað í borginni. Eins og barn alkóhólista sem neitar að trúa að foreldrið sé drukkið, eina ferðina enn.

Mér dugði varla að horfa á blaðamannafundinn í beinni og í staðinn fyrir að umturnast í riddarann sem ég var rúmum hundrað dögum áður kláraði ég mínar þingfréttir og fór svo að sinna áður áætluðum hversdagsleikanum.

Ég hafði spáð því að pólitísku lífi Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar væri lokið. Líklega hafði ég rangt fyrir mér.

Satt best að segja trúði ég því ekki almennilega að nýr meirihluti hefði verið myndaður fyrr en á fimmtudag þegar biðja þurfti fólk að yfirgefa áhorfendapalla ráðhússins vegna mótmæla. Á sama tíma mallaði þingfundur áfram í rólegheitum. Rætt var um úrvinnslu ónýtra raftækja, mögulegt loftslagsráð og tillögu Frjálslynda flokksins um að starfsemi Hafrannsóknastofnunar færist undir umhverfisráðuneytið. Margir fylgdust þó með beinni útsendingu frá látunum í Ráðhúsinu og sumir þingmenn hlupu yfir götuna til að fylgjast með, eða taka þátt. Á vefsíðu Reykjavíkurborgar var skipt um andlit í annað sinn í vetur, og nýtt borgarráð hélt sinn fyrsta fund.

Og hver byltir næst?

Til þess að fullkomna dramatíkina sagði einn borgarfulltrúi af sér einmitt þennan sama dag, án þess þó að það tengdist þessu beint. Ég hafði reyndar spáð því að hann myndi eiga erfitt uppdráttar í pólitík eftir fyrstu byltinguna. Ekki vegna fatakaupa heldur vegna þess að það er ekkert grín að vera í ónáðinni hjá Sjálfstæðisflokknum. Það vill nefnilega svo til að sá flokkur nýtur fylgis í kringum 40% landsmanna, sem eru margir óvinir að eiga.

Smám saman lægir öldurnar og hver veit nema hinn pólitíski hafsjór verði sléttur um stund. Meðan það ástand varir er lítið annað að gera en að velta því fyrir sér hver gerir næstu byltingu. Ekki ætla ég að spá um það, enda óþægilega sjaldan reynst sannspá þegar kemur að borgarpólitík.

 

14.01.2008

 Grein um kosningaeftirlit í Georgíu
Birtist í Morgunblaðinu, 14. janúar 2008

Á krossgötum einræðis og lýðræðis

Segja má að Georgía standi á krossgötum og geti annaðhvort haldið áfram í átt til lýðræðis eða fallið í gamalt far spillingar og valdboðsstefnu. Halla Gunnarsdóttir var við kosningaeftirlit í höfuðborginni Tíblísi og fjallar hér um forsetakosningarnar sem Mikhail Saakashvili vann naumlega.

Alfræðiorðabókum og upplýsingaveitum ber ekki saman um hvort Georgía tilheyrir Asíu eða Evrópu enda liggur landið á mörkum heimsálfanna tveggja. Stundum er sagt að landfræðilega tilheyri Georgía Asíu en pólitískt séð Evrópu enda hafa stjórnvöld landsins horft mjög í vesturátt undanfarin ár.

Georgía hefur vakið talsverða athygli og ekki að ástæðulausu. Fyrir nokkrum árum var landið á mörkum þess að vera hrunið ríki (e. failed state), þ.e. ríki þar sem stjórnvöld eru mjög veik, innri viðir samfélagsins í molum og efnahagsástand bágt. Í dag er efnahagurinn á hraðri uppleið, spilling á undanhaldi og innviðir samfélagsins eru smám saman að styrkjast.

En þessar róttæku breytingar hafa ekki verið sársaukalausar fyrir fólkið sem byggir Georgíu.

Georgía tilheyrði Sovétríkjunum en lýsti yfir sjálfstæði skömmu áður en þau hrundu í upphafi 10. áratugarins. Við tóku mikil ófriðarár, m.a. vegna átaka um yfirráð á núverandi sjálfstjórnarsvæðunum Suður-Ossetíu og Abkasíu. Blóðug uppreisn varð í upphafi árs 1992 og leiddi til þess að fyrsti forseti hins nýsjálfstæða lands neyddist til að flýja land og við stjórnartaumunum tók fyrrverandi utanríkisráðherra Sovétríkjanna, Eduard Shevardnadze. Borgarastríð næstu ára kostaði fjölda fólks lífið en árið 1995 var Shevardnadze formlega kjörinn forseti Georgíu.

Shevardnadzes er ekki minnst með miklum söknuði í Georgíu. Við lok valdatímabils hans var ríkið á barmi falls, lýðræði var aðeins í orði en ekki á borði og spilling var mikil innan stjórnsýslunnar. Helmingur Georgíubúa lifði undir fátæktarmörkum, ríkisstarfsmenn og eftirlaunaþegar fengu sjaldnast greittt og alþjóðlegum lánastofnunum hugnaðist lítt að veita fé til Georgíu.

Eftir blygðunarlaust kosningasvindl í þágu stjórnvalda í þingkosningum árið 2003 þustu Georgíubúar út á götu og úr varð svonefnd Rósabylting – blóðlaus lýðræðisbylting, sem varð fyrirmynd appelsínugulu byltingarinnar í Úkraínu.

Vegna mikils þrýstings steig Shevardnadze til hliðar og Mikheil Saakashvili var skömmu síðar kjörinn forseti með 96% atkvæða. Saakashvili og flokkur hans, sem er með mikinn meirihluta á þinginu, hefur lagt áherslu á að auka frelsi í viðskiptum, uppræta spillingu og ýta undir erlend viðskipti.

Ljósviti frelsis”

Saakashvili hefur horft mjög til vesturs og óskað eftir aðild að Evrópusambandinu auk þess að fylgja eftir áformum forvera síns í embætti með umsókn um aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO).

Vestrænir leiðtogar hafa stutt Saakashvili og George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, sótti Georgíu heim árið 2005 og sagði landið vera „ljósvita frelsis í heiminum”.
Nágrönnum Georgíu, Rússum, hugnast lítt daður Saakashvilis við vestrið og samskipti þessara tveggja ríkja hafa ekki verið verri síðan Georgía sleit sig frá Sovétríkjunum skömmu fyrir hrun þeirra.

Til að veikja Georgíu hafa Rússar reynt að beita efnahagslegu valdi sínu, m.a. með innflutningsbanni á georgískar vörur, auk þess að hafa lokað landamærum milli landanna tveggja. Georgísk stjórnvöld hafa brugðist við með því að beina viðskiptum sínum til vesturs og reyna að minnka þörf sína fyrir orku frá Rússlandi.

Taumlaus einkavæðing

Einkavæðing hefur verið ofarlega á blaði í flestum stjórnvaldsaðgerðum Saakashvilis og félaga en einkavæðingarferlið hefur sætt gagnrýni fyrir að vera ekki gagnsætt. T.a.m. kom það öllum að óvörum þegar tilkynnt var að óþekktu bresku fyrirtæki yrðu veitt yfirráð yfir lestarkerfi Georgíu. Gjörningurinn var harkalega gagnrýndur og svo fór að stjórnvöld féllu frá áformunum á endanum á þeim forsendum að breska fyrirtækið hefði ekki staðið við sitt.

Þá hefur því verið haldið fram að rekja megi suma af hinum mörgu einkavæðingarsamningum til rússneskra ríkisfyrirtækja en fyrrverandi fjármálaráðherra hefur notað orðið „af-einkavæðing” (e. de-privatisation) og vísar til þess að einkavæðingin sé í raun ríkisvæðing sem geti leitt til þess að Georgía festist í neti Rússa.

Á hraðferð til frjálsari viðskiptahátta hafa ráðamenn Georgíu verið tilbúnir til að stytta sér leið undir þeim formerkjum að það kosti tímabundnar fórnir að ná árangri. Fyrir vikið hefur verið troðið á réttindum fólks, þ.m.t. eignarréttinum, og bæði þing og dómstólar eru undanlátssöm hinni sterku ríkisstjórn. Í skjóli mikils meirihluta flokks síns á þingi hefur Saakashvili aukið vald forsetans á kostnað þingsins og illa hefur verið búið að stjórnarandstöðunni. Flestar lagasetningar má rekja til þriggja manna úr innsta hring forsetans.

Mótmæli lamin niður

Á sama tíma og einkavæðing hefur verið reglan fremur en undantekningin hafa félagsleg málefni setið alfarið á hakanum. Ekkert öryggisnet eða velferðarkerfi er fyrir hendi í Georgíu, lítið hefur verið gert í málefnum flóttamanna, aldraðra og atvinnulausra og hópar sem stóðu höllum fæti hafa sokkið dýpra í pytti fátæktar.
Þetta hefur virkað sem lóð á vogarskálar þeirra sem hafa gagnrýnt stjórnvöld en síðastliðin tvö ár hefur óánægjan farið vaxandi. Fremstur í flokki gagnrýnenda var fyrrverandi varnarmálaráðherra, Irakli Okruashvili, sem hafði snúist gegn sínum gamla nána samstarfsfélaga Saakashvili og sakað hann um siðleysi og kúgun.
Tveimur dögum eftir að Okruashvili tilkynnti stofnun ný flokks var hann handtekinn og m.a. ásakaður um peningaþvætti, fjárkúgun og misnotkun á valdi í ráðherratíð sinni. Okruashvili flúði til Þýskalands og berst nú gegn því að verða framseldur til Georgíu.

Stjórnarandstöðuleiðtogar fordæmdu handtökuna og skipulögðu mótmælagöngur sem að lokum leiddu til mikilla fjöldamótmæla við þingið í Tiblisi 2. nóvember sl.

Viðbrögð Saakashvilis komu mörgum vinum og velunnurum hans á Vesturlöndum í opna skjöldu.

Þegar mótmælin, sem voru friðsamleg, höfðu staðið í nokkra daga og ekkert lát var á var óeirðalögreglunni sigað á mannfjöldann. Lögreglan beitti táragasi, vatnsbyssum og gúmmíbyssum, og að því er vitni herma; grófu ofbeldi, til að hrekja mótmælendur á brott. Blaðamenn voru lamdir og lögreglan eyðilagði tæki fjölmiðla, þ.m.t. myndavél ljósmyndara New York Times. Sjónvarpsstöðvum sem ekki voru í eigu ríkisins var lokað og Saakashvili lýsti yfir neyðarástandi í landinu.

Harkalegar aðgerðirnar voru svo réttlættar með því að í raun stæðu Rússar á bak við mótmælin og að andstæðingar stjórnvalda væru á sveif með þeim. Erfitt hefur reynst að benda á sannanir fyrir þessum kenningum en sé miðað við úrslit forsetakosninganna sem og óbindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um mögulega aðild Georgíu að NATO er ljóst að flestir Georgíubúar horfa til Evrópu og Bandaríkjanna í alþjóðapólitík en fæstir norður til Rússlands.

Kosningar rétt fyrir jól

Saakashvili áttaði sig fljótlega á áhrifum þessara aðgerða á orðspor Georgíu. Eftir um tvær vikur var neyðarástandinu aflétt og forsetinn lét undan þrýstingi stjórnarandstöðunnar um að boða til forsetakosninga, ári fyrir tímann.

Það var því í skugga þessara atburða sem Georgíubúar gengu að kjörborðunum 5. janúar sl. og settu hring utan um eitt nafn af sjö á kjörseðli. Saakashvili rak mikla kosningabaráttu og um gjörvalla Tíblísi mátti sjá stór auglýsingaskilti: Saakashvili með gamla fólkinu; Saakashvili með verkamönnum; Saakashvili með börnum. Alþjóðlegir eftirlitsaðilar sögðu óskýr mörk vera milli aðgerða ríkisins annars vegar og kosningabaráttu Saakashvilis hins vegar. Vesturlönd, og þá einkum Bandaríkin, hafa einnig verið gagnrýnd fyrir að hafa „veðjað á einn hest” í Georgíu fremur en að leggja megináherslu á leikreglur lýðræðisins.

Á götum Tíblísi daginn fyrir kosningar var erfitt að ímynda sér að komið gæti til mikilla láta vegna forsetakosninganna. Borgin var fallega skreytt í tilefni af jólum þeirra Georgíubúa, hinn 7. janúar. Fyrir framan þinghúsið, þar sem tveimur mánuðum fyrr stóðu tugþúsundir manna og hrópuðu slagorð gegn forsetanum, var lítill markaður, leiktæki og svið fyrir skemmtiatriði.

Þykk snjóbreiða lá yfir öllu en það gerist ákaflega sjaldan að það snjói eitthvað að ráði í höfuðborginni. Fyrir vikið átti fólk oft erfitt með að fóta sig og illa búnir bílar drifu oft ekki upp brattar brekkur.

Hvort færðin og nálægð jólanna hafi haft áhrif á kosningaþátttöku skal ekki fullyrt um en ríflega helmingur kjósenda nýtti atkvæðisrétt sinn.
Mörg hundruð alþjóðlegra og innlendra kosningaeftirlitsmanna settu svip sinn á kosningarnar og stundum var þröng á þingi á kjörstöðum vegna margra eftirlitsmanna.
Margvíslegear reglur giltu um framkvæmd kosninganna til að koma í veg fyrir kosningasvindl en þeim var ekki alltaf fylgt eftir. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) gerði athugasemdir við ýmsa þætti kosninganna en taldi þær engu að síður hafa staðist alþjóðlegar kröfur um lýðræðislegar kosningar að mestu leyti.

Saakashvili lýsti fljótlega yfir sigri í kosningunum og þegar öll atkvæði voru talin hafði hann ríflega helming atkvæða. Því kemur ekki til annarrar umferðar eins og lög kveða á um ef enginn frambjóðandi fær yfir 50%.

Stjórnarandstaðan sagði hins vegar bæði fyrir og eftir kosningar að niðurstöðurnar væru ekki marktækar og sakaði Saakashvili og hans fólk um kosningasvindl.
Helsti keppinautur Shaakashvilis, Levan Gachechiladze, boðaði til fjöldamótmæla daginn eftir kosningar og um 4-5 þúsund manns komu saman og hrópuðu slagorð, en mótmælin fóru friðsamlega fram.

Tap þrátt fyrir sigur

Spurningar vakna um hvort það hafi verið nægilegt að framkvæmd kosninganna hafi uppfyllt að „mestu leyti” alþjóðlegar kröfur enda var sigur Saakashvilis naumur.

Vandi Georgíu er sá að fjöldi fólks hefur ekki trú á lýðræðiskerfinu. Kaótískir kjörstaðir, misvel undirbúnar kjörnefndir og óþarflega langur tími í talningu atkvæða ýtir enn frekar undir tortryggni fólks.

Það er jafnframt erfitt að átta sig á hvort sannleikskorn leynist í hástemmdum í yfirlýsingum stjórnarandstöðunnar. Ef Íslendingar hefðu litla trú á framkvæmd kosninga hér á landi má ætla að eftir kosningar heyrðist fjöldinn allur af samsæriskenningum um úrslitin.

Þó að Saakashvili hafi unnið kosningarnar verður ekki framhjá því litið að tap hans er mikið. Í síðustu kosningum hlaut hann 96% atkvæða, en keppinautarnir voru kannski ekki mikil áskorun. Stjórnarandstaðan hefði eflaust mátt auglýsa sig betur og kannski sameina krafta sína, en hið jákvæða er að nú er a.m.k. raunveruleg stjórnarandstaða til staðar, sem er aftur höfuðatriði fyrir áframhaldandi lýðræðisþróun í Georgíu.

Georgía stendur á krossgötum. Landið getur þróast áfram í átt til lýðræðis en til þess þurfa stjórnvöld að breyta áratugalangri hefð; hafna spillingu alfarið og leggja meiri áherslu á lýðræðið en framlengingu eigin valdatíma. Hin leiðin er að koma sér fyrir í gamalkunnu fari valdboðsstefnu og einræðis, en það er ólíklegt að fólkið í landinu sætti sig við það.

Helstu heimildir:

BBC

Georgia: Sliding Towards Authoritariansism? Skýrsla International Crisis Group.
Statement of Preliminary Findings and Conclusions. www.osce.org

Wikipedia

  • Í hnotskurn
  • Íbúar Georgíu telja tæpar fimm milljónir en landið er um 2/3 hlutar af stærð Íslands.
  • Svæðið var eitt af þeim fyrstu í heiminum til að taka upp kristni á fyrri hluta 4. aldar.
  • Saga Georgíu er mjög mörkuð af erlendum afskiptum enda hefur landið verið undir yfirráðum Persa, Araba, Tyrkja, Mongóla og Rússa.
  • Georgíska er með sitt eigið ritmál og ríka bókmenntahefð.

halla@mbl.is