Þingbréf
Birtist í Morgunblaðinu, 17. nóvember 2007
Byssur og barnakynhneigð á rólegu þingi
Yfirbragð Alþingis hefur verið með rólegra móti undanfarið og nýir sem gamalreyndir þingmenn hafa haft orð á því. Þeir sem muna einhver ár aftur í tímann segja að það sé eðlilegt á fyrsta þingvetri nýs kjörtímabils. Þá hafa sumir nefnt sterkan meirihluta og litla og ósamstiga stjórnarandstöðu sem mögulegar skýringar fyrir deyfðinni á Alþingi. Kannski má bæta því við að ríkisstjórnarsamstarfið virðist ekki alveg vera búið að festa sig í sessi í huga margra, ekki síst eftir allt borgarstjórnardramað. Flokkarnir passa sig því á að vera góðir hver við annan, svona ef ske kynni að þeir þurfi á vináttunni að halda síðar.
En ég ætla að gerast svo hátíðleg að spá því að ríkisstjórnarsamstarfið verði farsælt og endist a.m.k. út kjörtímabilið, ef ekki lengur. Þess vegna hvet ég þingmenn til að hætta að vera of hógværir og þá fær fréttaþyrsta fjölmiðlafólkið kannski aðeins meira að gera.
Margar kynhneigðir
Kolbrún Halldórsdóttir mælti í vikunni fyrir frumvarpi til breytinga á hjúskaparlögum sem kveður á um að ein lög eigi að gilda um samkynhneigð og gagnkynhneigð pör. Enginn stjórnarliði tók þátt í umræðunum en þetta er eitt af þeim málum sem væri mjög gaman að fá sem flesta þingmenn til að taka afstöðu til. Allir sem tóku til máls voru fylgjandi frumvarpinu að undanskildum Jóni Magnússyni, þingmanni Frjálslyndra, sem taldi að réttindi samkynhneigðra mætti tryggja á annan hátt í lögum.
Sú skoðun á fullan rétt á sér en Jón fór þó út á hálan ís þegar hann talaði um að til væri „margs konar kynhneigð“ og að sumar væru refsiverðar samkvæmt hegningarlögum.
Jón færðist í fyrstu undan því að svara þegar hann var inntur eftir því hvað hann ætti við en nefndi síðan barnakynhneigð og sagðist reikna með að allir væru sammála um að hún ætti að vera refsiverð.
Samkvæmt íslenskri orðabók er kynhneigð „hneigð manns til gagnstæðs eða sama kyns í ásta- og kynlífsefnum“. M.ö.o. nær orðið kynhneigð yfir það kyn sem fólk hneigist til og varla hægt að tala um fleiri kynhneigðir en gagnkynhneigð, samkynhneigð og tvíkynhneigð. Engin ástæða er til þess að spyrða umræðu um samkynhneigð saman við ofbeldi gegn börnum.
Fundarstjórn
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur greinilega ekki setið auðum höndum undanfarið. Í vikunni mælti hann fyrir þremur frumvörpum og lagði fram tvö og allt eru þetta vel unnin og þörf frumvörp, t.d. um almannavarnir og um meðferð sakamála.
Björn kom hins vegar dálítið á óvart þegar hann tók sér hálfpartinn fundarstjórnarvald á Alþingi í vikunni. Samkvæmt dagskrá átti Björn að ræða almenn hegningarlög en þegar hann var búinn að tala í u.þ.b. mínútu áttaði fólk sig á því að hann var að flytja ræðu um almannavarnafrumvarpið. Forseti hringdi bjöllunni og benti á mistökin en Björn þakkaði bara fyrir og hélt ótrauður áfram. Það er mögulegt að forseti hafi sagt Birni að halda áfram, án þess að það hafi heyrst, en þetta leit a.m.k. ankannalega út. Mikill órói greip um sig í þingsal og ekki síst hjá þingmönnum sem voru á mælendaskrá.
Hugsanlega áttaði Björn sig ekki strax og hélt þess vegna áfram en forseti þingsins hefði með réttu átt að stöðva hann aftur og óska eftir að hann byrjaði á réttu máli.
Með búnt og byssu
Vinstri græn ollu usla sl. fimmtudag í umræðum um kúvendingu sveitarstjórnar Flóahrepps sem hefur þvert á fyrri áætlanir ákveðið að setja Urriðafossvirkjun á aðalskipulag. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hóf umræðuna og sagði lýðræðislega kjörna fulltrúa hafa „bakkað með sitt nei og sína sannfæringu“ og ekki þorað annað andspænis ægivaldinu sem Landsvirkjun er. Steingrímur J. Sigfússon bætti um betur og sagði Landsvirkjun hafa mætt á staðinn daginn eftir að hreppsnefndin hafnaði virkjunaráformum „með seðlabúntið í annarri hendinni og byssuna í hinni“.
Þetta eru þung orð. Er verið að halda því fram að Landsvirkjun beri fé á sveitarstjórnir og að þær taki við því? Ef svo er þá er um mjög alvarlegt mál að ræða og þyrfti að taka upp á öðrum vettvangi og þar sem allir sem aðild eiga að málinu geta svarað fyrir sig.
Hitt er svo annað mál og það er að Guðfríður Lilja og félagar fengu lítil sem engin svör við spurningum sínum. Ætla stjórnvöld að axla einhverja ábyrgð í málinu? Landsvirkjun er ríkisfyrirtæki og þess vegna geta stjórnvöld ekki bara bent á sveitarfélögin. Hvar stendur Samfylkingin? Afstaða stjórnvalda þarf að vera skýr, hver svo sem hún er.
Duglegir varaþingmenn
En til að enda annars óþarflega neikvætt þingbréf á jákvæðu nótunum þá langar mig að hrósa þeim varaþingmönnum sem hafa komið inn á þing það sem af er þingvetri. Þeir hafa sannarlega tekið hlutverk sitt alvarlega og ekki setið með hendur í skauti sér. Þannig eru nú til meðferðar í þinginu fjögur frumvörp, ein þingsályktunartillaga og ellefu fyrirspurnir sem varaþingmenn hafa lagt fram. Mörg málanna eru í takt við pólitíska stefnumótun sem hefur átt sér stað innan flokkanna og til fyrirmyndar að varaþingmenn, sem koma oftast bara inn á þing í tvær vikur, taki af skarið með svona miklum myndarbrag.
10.11.2007
Þingbréf
Birtist í Morgunblaðinu, 10. nóvember 2007
Utanríkismál og ósammála ráðherrar
Utanríkismál voru efst á baugi á Alþingi í vikunni. Umræður um munnlega skýrslu utanríkisráðherra tóku allan fimmtudaginn en fyrr í vikunni höfðu stjórnarandstæðingar og stjórnarliðar deilt um íslensku friðargæsluna og loftslagsmál.
Forsætisráðherra sagði á Alþingi að það væri hans skoðun að Ísland ætti að freista þess að fá svonefnt íslenskt ákvæði samþykkt í næstu samningalotu í loftslagsmálum. Það vakti talsverða athygli vegna þess að umhverfisráðherra er á annarri skoðun, þó að það hefði kannski ekki þurft að koma neinum á óvart að hugmyndafræðilegur ágreiningur væri milli stjórnarflokkanna í þessum efnum. Ráðherrarnir sögðu nægan tíma til stefnu til að taka ákvarðanir og það verður spennandi að fylgjast með því ferli.
Daprar umræður
Utanríkismál eru eitt af mínum stærstu áhugamálum og þess vegna var ég talsvert spennt fyrir umræðunni um munnlega skýrslu utanríkisráðherra. Skýrslan var ágæt og tók á helstu málum að undanskildum Evrópumálum en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra tók fram að hún hygðist leggja fram sérstaka skýrslu um þau í janúar.
Ég verð hins vegar að játa að ég varð fyrir vonbrigðum með umræðurnar. Kannski var ég með of miklar væntingar um að þingmenn myndu nota tækifærið og þylja upp hugsjónir sínar um heimsmálin, en ég er hrædd um að háar væntingar hafi ekki einar og sér nægt til að valda vonbrigðum. Að ólöstuðum þeim sem lögðu greinilega vinnu í undirbúning og tóku þátt í umræðunni af bæði áhuga og þekkingu, virtust sumir þingmenn fara upp í pontu allt að því óundirbúnir eða með sáralítið fram að færa.
Á köflum þóttu mér málefni Íslands vera helst til mikið í brennidepli. Þótt það sé eðlilegt upp að vissu marki þegar utanríkismál Íslands eru rædd var það fullmikið af því góða þegar stór hluti ræðu eina fulltrúa Framsóknarflokksins í umræðunni snerist um starfsmannamál Ratsjárstofnunar. Nú má vel vera að illa hafi verið vegið að forstjóra stofnunar en það er spurning hvort bollaleggingar um það eigi ekki heima á öðrum stað en í umræðum um eins stóran og viðamikinn málaflokk og utanríkismál eru.
Minni mæting á nefndarfundi?
Innan við fjórðungur þingmanna tók þátt í umræðunum og mjög fáir fylgdust með þeim í salnum allan tímann. Af því að Íslendingar eru svo hrifnir af höfðatölu þá má segja að Frjálslyndi flokkurinn hafi tekið mestan þátt enda fóru þrír af fjórum þingmönnum flokksins upp í pontu.
Tveir af níu nefndarmönnum í utanríkismálanefnd þingsins lögðu ekkert til málanna og sáust satt best að segja lítið í þinghúsinu. Nú skal að sjálfsögðu hafa þann fyrirvara á að þingmenn geta fylgst með umræðum á skrifstofum sínum og í sumum tilvikum getur verið um mjög eðlilegar fjarvistir að ræða.
Þetta leiðir samt hugann að orðum sem einn gamalreyndur þingmaður lét falla á göngum þinghússins á dögunum en hann hafði af því þungar áhyggjur að þátttaka í þingstörfum færi minnkandi. Mæting á nefndarfundi væri oft léleg og hann var á því að þannig hefði það ekki alltaf verið. Þingmaðurinn setti þó þann fyrirvara að um huglægt mat væri að ræða og það getur vel verið að hann sjái fortíðina í óþarflega miklum ljóma. Hvorki er hægt að sannreyna né hrekja orð þingmannsins því að upplýsingar um mætingar á nefndafundi eru ekki fáanlegar en hafi hann rétt fyrir sér vekur það spurningar um starf og hlutverk kjörinna fulltrúa.
Þingmennskan sé aðalstarf
Þegar meirihlutinn er sterkur og með marga menn í þingnefndum og stjórnarandstaðan ósamstillt og veik má vel vera að í sumum tilfellum sé það ekki höfuðatriði fyrir afgreiðslu mála að allir nefndarmenn séu til staðar. Og ekki ætla ég að halda því fram að þingmenn hafi ekki í nógu að snúast. Stjórnmál geta verið tímafrek og sumir hafa skyldum að gegna innan sinna flokka. Þingmenn þurfa að hitta margt fólk og sinna ýmsu tilfallandi, eins og að halda ræður á ráðstefnum og fundum, heimsækja stofnanir og spjalla við kjósendur.
Einhverjir þingmenn sinna samhliða þessu öðrum störfum eða námi. Þeim er að sjálfsögðu, eins og öllum þjóðfélagsþegnum, frjálst að ákveða hvað þeir gera við tíma sinn og margir Íslendingar eru bæði í námi og vinnu eða í fleiri en einu starfi. Hins vegar má spyrja hvort þetta geti verið ástæðan fyrir því að þátttaka í þingstörfum er verri en æskilegt væri og að sumum virðist ekki gefast tími til nægilegs undirbúnings. Ef svo er þá er það áhyggjuefni fyrir lýðræðið enda væri það augljós afturför að fara til baka til þess tíma þegar þingmennskan var ekki aðalstarf þeirra sem henni sinntu.
03.11.2007
Þingbréf
Birtist í Morgunblaðinu, 3. nóvember 2007
Bleikar gjafir og konur með siðgæðistilfinningu
ÞINGMANNAMÁL tóku mestan tíma Alþingis í vikunni sem er að líða. Fyrir fréttaþyrsta fjölmiðla eru þau kannski ekkert sérstaklega spennandi, ekki af því að þingmenn skorti góðar hugmyndir, heldur miklu fremur vegna þess að þingmannamál hljóta svo sjaldan fullnaðarafgreiðslu.
Þótt þingmanni takist að ná þverpólitískri samstöðu er alls óvíst að málið komist á dagskrá viðeigandi nefnda og hvað þá á dagskrá þingsins þegar þar að kemur. Mikil og góð vinna þingmanna fer því í súginn og framkvæmdavaldið er með mun sterkari stöðu fyrir vikið.
Þingmenn ættu að hugleiða það hvort þeir sjái sér ekki sjálfir fært að breyta þessu. Þeir geta sameinast um að koma ákveðnum málum á dagskrá þó ekki sé nema bara til að fá að greiða atkvæði um þau, og um leið yrðu ráðherrum send skýr skilaboð um að þeir séu ekki einir færir um að gera breytingar.
Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, lýsti því yfir í vikunni að hann ætlaði ekki að standa í vegi fyrir því að bjór- og léttvínsfrumvarpið svonefnda hlyti afgreiðslu í allsherjarnefnd. Staðan væri nefnilega sú að meirihluti nefndarmanna væri mótfallinn frumvarpinu og gæti því hæglega komið í veg fyrir að það rataði út úr nefndinni. Haft var eftir Jóni í fréttum Ríkisútvarpsins að hann hefði kynnt þá afstöðu sína þegar hann kom inn á þing í fyrsta sinn sem varaþingmaður, fyrir tuttugu árum, að hann teldi ekki hlutverk nefnda að stöðva mál. Fleiri þingmenn mættu taka sér Jón til fyrirmyndar í þessum efnum enda er mun æskilegra fyrir kjósendur að geta séð svart á hvítu hver afstaða kjörinna fulltrúa er og það er erfitt ef málin týnast í nefndum.
Bleikar gjafir í barnaafmæli
Miklar umræður spunnust á þingi í vikunni um nýtt frumvarp félagsmálaráðherra um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt frumvarpið og þingflokkar beggja stjórnarflokkanna tekið það til meðferðar. Þrátt fyrir að sumir þingmenn hafi sett fyrirvara við frumvarpið þá voru allir sem komu upp í pontu sammála um markmiðin og ekki nóg með það, heldur mótmælti því enginn að ákveðið misrétti væri milli karla og kvenna í samfélaginu.
Pétur Blöndal vildi þó heldur einblína á jafnrétti fólks, enda ætti mismunun milli fólks af sama kyni sér líka stað. Pétur vakti samt einnig athygli á því að ólík framkoma við börn af sitthvoru kyninu gæti haft talsverð áhrif og rifjaði upp barnaafmæli hjá stúlku þar sem allar gjafir voru bleikar og ýttu mjög undir hefðbundin kynhlutverk.
Konur skortir dómgreind en hafa meiri siðgæðistilfinningu
Það ættu kannski ekki að þykja stórtíðindi að þingmenn séu nokkurn veginn á einu máli um að komið sé fram við konur og karla á ólíkan hátt. Hins vegar þarf ekki að horfa langt aftur til að komast að því að skoðanir hafa sannarlega verið skiptar í gegnum tíðina. Þannig sagði Albert Guðmundsson í þingræðu um fyrstu jafnréttislögin, sem hann var lítið hrifinn af, árið 1976: “Eru einhver dæmi þess að atvinnurekendur hafi beinlínis mismunað fólki eftir kynferði? Ég hef aldrei nokkurn tíma heyrt þess getið og hefði gaman af að fá hér dæmi um það.”
Sé horft til baka til baráttunnar fyrir kosningarétti má einnig finna ýmis kostuleg ummæli sem oftar en ekki byggðust á ákveðnum hugmyndum um hæfileika og hlutverk kynjanna. Í umræðu um frumvarp um kosningarétt kvenna árið 1911 sagði Jón Ólafsson: “Ég er því hlynntur, að konur fái jafnrétti við karlmenn, því að þótt gáfnafari og lundarfari sé ólíkt farið og konur skorti oftast dómgreind á við karlmenn, þá bæta konur það upp með öðrum kostum. Siðgæðistilfinning kvenna er meiri en karla og þær láta síður leiðast af eigingjörnum hvötum.”
Jón Jónsson frá Múla var hins vegar á því að konan sómdi sér best innan veggja heimilisins (kannski á bak við eldavélina?): “Staða konunnar er aðallega sú, hér eins og annars staðar, að vera móðir og húsmóðir og ég geri ráð fyrir að enginn sé svo djarfur að halda því fram, að það sé þýðingarminna að ala upp börn og standa fyrir heimili en að halda misjafnar ræður á Alþingi. Það er því einfalt og auðsætt, að sérhvað það, sem dregur huga konunnar frá heimilinu, er úr hinni lakari átt og þarf mikið gott á móti að koma ef ábati á að verða að því.”
Snúið upp á handlegg?
Í umræðum um frumvarp félagsmálaráðherra í vikunni héldu stjórnarandstöðuþingmenn því fram að Samfylkingin hefði þurft að snúa upp á handlegg Sjálfstæðisflokksins til að fá frumvarpið lagt fram. Stjórnarliðar, þ.m.t. félagsmálaráðherra, blésu á þetta og sögðu Sjálfstæðisflokkinn standa heilshugar að baki frumvarpinu.
Engu að síður settu sjálfstæðisþingmenn fram ákveðna fyrirvara í samræmi við stefnu síns flokks. M.a. létu þeir í ljósi áhyggjur af þeim kvöðum sem eru lagðar á atvinnulífið og heimild Jafnréttisstofu til að beita dagsektum.
Undirrituð verður hins vegar að játa að hún hnaut aðeins um gagnrýni þess efnis að frumvarpið væri e.t.v. “of kvennamiðað”. Í umræðunum virtust a.m.k. flestir vera á einu máli um að það hallaði ívið meira á konur en karla í samfélaginu. Er þá eitthvað óeðlilegt við að frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé kvennamiðað?
Hvað sem öðru líður voru umræðurnar um jafnréttisfrumvarpið með þeim líflegri sem hafa átt sér stað það sem af er þingvetri. Hitt er svo annað, og kannski bæði fagnaðar- og áhyggjuefni, að af þeim sextán þingmönnum sem tóku til máls voru aðeins fimm konur og þá er meðtalin Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra.