20.10.2007

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 20. október 2007

 

Dramatísk sápuópera og fyrirferð karla á þingi

 

Stundum er pólitík betri en bestu sápuóperur. Það hefur sannast í borgarmálunum undanfarnar vikur. Það vantaði bara eins og eitt ástarævintýri inn í söguþráðinn og þá hefði allt sem einkennir góðar sápuóperur verið til staðar. Leynimakk, svik, gífuryrði. Eins dauði, annars brauð.

Einhvern veginn hélt ég að ráðhúsfjörið mynda hafi einhver áhrif í þinghúsinu. Það svakalegasta sem hefur gerst var að Alfreð Þorsteinsson kom í hádegismat og heilsaði bæði Ingibjörgu Sólrúnu og Össuri Skarphéðinssyni. Samsærisbjöllur hringdu í öllum hornum, en ekkert gerðist.

Sjálfstæðismenn hafa verið misupplitsdjarfir frá því að borgardramatíkin byrjaði. Sápuóperan var kannski meira eins og hryllingsmynd í þeirra augum, og einhverjir vilja finna sökudólginn.

Sumir benda á Vilhjálm, aðrir á Björn Inga og enn aðrir á borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Öllu lágværari eru raddirnar sem vilja kalla flokksforystuna til ábyrgðar fyrir að hafa ekki gripið í taumana þegar ljóst var í hvað stefndi.

Geir H. Haarde steig loks fram í vikunni og gerði það sem góðir leiðtogar eiga að gera á svona stundum; hvatti flokksmenn til að snúa bökum saman og horfa fram á veginn.

Engar hrakspár

Ráðhúsdramað hefur styrkt stöðu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn enn frekar, þó ekki nema bara með því að sá nokkrum óttafræjum í brjóst sumra sjálfstæðismanna. Vinstri stjórn í borginni gerði möguleikann á vinstri stjórn á landsvísu nálægari. En hægri menn geta þó huggað sig við að forsætisráðherra er með þingrofsvald, og getur beitt því ef í hart stefnir.

Stjórnarandstöðuflokkunum hefur þó ekki enn tekist að reka fleyg milli ríkisstjórnarflokkanna og utan frá séð virðist samstarfið ganga ágætlega.

Samfylkingin á mikið undir því að halda trúverðugleika sínum og því má ætla að forystan myndi hugsa sig tvisvar um áður en hún gerðist þátttakandi í einhverri byltingu. Þess vegna ætla ég ekki að skipa mér í hóp þeirra sem spá samstarfsslitum, a.m.k. ekki á næstunni.

Máttlítill minnihluti

Alþingi er í raun allt öðruvísi núna en það var á vordögum. Nýir þingmenn koma inn með nýjar áherslur en að sama skapi er ásýnd þingheims önnur. Síðasta vetur stillti stjórnarandstaðan saman strengi sína en núna eru flokkarnir þrír svo ólíkir, og svo langt frá því að geta myndað raunhæfan valkost við núverandi stjórnvöld, að það eru litlar líkur á samhæfðum aðgerðum.

Þrátt fyrir að þingmenn stjórnarandstöðunnar séu flestir vinnusamir og reyni að halda stjórnarflokkunum við efnið þá er minnihlutinn máttlítill, einkum og sér í lagi vegna fámennis.

Það er umhugsunarefni hvort ekki þurfi að búa betur að stjórnarandstöðuflokkum á Alþingi. Sú hugmynd hefur komið fram að formenn allra flokka fái aðstoðarmenn, líkt og ráðherrar, og hún er nógu góð til að henni megi hrinda í framkvæmd sem fyrst. Það má líka velta því upp hvort það væri hægt að setja lög um að ef meirihlutinn er mjög öflugur þá megi fjölga starfsmönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar.

Rígnegldir við ræðustólinn

Annað sem er umhugsunarefni í lýðræðisríki er hversu áberandi karlar hafa verið í ræðustól Alþingis það sem af er þingvetri.

Konur eru nú þriðjungur þingmanna sem er talsvert undir meðaltali á Norðurlöndunum en vel yfir meðaltali á heimsvísu, sem er í kringum 17%. Hlutfall kvenna á þingi hefur hins vegar ekki endurspeglast í þátttöku þeirra á þingfundum, og stundum hafa umræður um heilu málaflokkana farið fram án þess að konur taki til máls.

Þegar tæpar þrjár vikur voru liðnar af þingvetri höfðu karlar haldið 657 ræður en konur aðeins 153. Ræður karla hafa einnig verið talsvert lengri og þeir hafa verið í ræðustóli í 84% af þingfundartíma en konur aðeins 16%. Þessi mikli munur verður því sannarlega ekki skýrður með því að konur séu helmingi færri en karlar á þingi. Þá hlýtur fólk að spyrja sig: Hvað veldur?

Klisjukenndasta skýringin væri að konur séu ragari við að taka til máls á þingi. Önnur skýring gæti verið að karlar sjái sig alltaf knúna til að tala og það lengi. Ræðurnar séu á köflum innihaldslitlar og jafnvel stundum fluttar til að koma þeim sjálfum á framfæri, en ekki sjónarmiðunum.

Enn ein skýring gæti verið að fólk treysti frekar körlum en konum til þess að tala. Þeir fái því meiri hvatningu og þeim sé frekar teflt fram af þingflokkunum. Þá er líka mögulegt að skýringanna sé að leita í þeim málum sem hafa verið rædd, þau séu einfaldlega karllægari. Í umræðum um mögulega einkavæðingu Landsvirkjunar tóku t.d. bara karlar til máls en í umræðum um stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum var kynjahlutfallið jafnt.

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að það sé um blöndu af þessum skýringum að ræða þegar kemur að hlut karla í ræðustól á Alþingi en hafna því um leið að hægt sé að kalla konur einar til ábyrgðar. Hitt er þó víst að lýðræðisins vegna er mikilvægt að leiðrétta þennan mikla mun. 

13.10.2007

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 13. október 2007

 

Riddarinn sem hætti að vera andlag

 

VIKA er langur tími í pólitík, segja spekingarnir alltaf þegar mikið gengur á. En vika getur líka verið leiðinlegur tími í pólitík, eins og ég sagði rétt eftir hádegi á fimmtudag og lét orð eins og ládeyðu og tilbreytingarleysi fylgja með.

Það var eins og þingheimur væri dofinn og það er kannski lýsandi fyrir stemmninguna að ein mest spennandi uppákoman í vikunni var þegar Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði að auðlindir sem eru í almannaeigu ættu “ekki endilega að vera andlag einkavæðingar”. Ögmundi Jónassyni, þingmanni Vinstri grænna, misheyrðist og hélt að Geir hefði sagt að auðlindirnar ættu ekki endilega að vera allar einkavæddar. “Skildi ég það rétt?” spurði Ögmundur, og það gerði hann ekki, því Geir kom upp í pontu rétt á eftir honum og leiðrétti misskilninginn. Og þá upphófst svakalegt fjör í litla þingfréttaritarabakherberginu. Hvað meinar maðurinn með “andlag einkavæðingar”? Er þetta kannski stórfrétt?

Grunnskólamálfræðin var ekki alveg til taks þessa stundina og þrátt fyrir að Google hafi hjálpað mér að rifja upp að andlag væri “fallorð, fallsetning, fallháttur eða bein ræða, sem stendur ævinlega í aukafalli og stýrist af sagnorði”, þá var ég engu nær.

Í örvæntingu minni hringdi ég í próförk Morgunblaðsins og spurði hvað forsætisráðherra hefði eiginlega átt við. Jú, andlag þjófnaðar er þýfið sjálft.

Ég tautaði þetta nokkrum sinnum meðan ég fór á salernið og þar sem ég stóð og þvoði hendur mínar rann þetta allt upp fyrir mér. Ef andlag þjófnaðar er þýfið sjálft, þá hlýtur andlag einkavæðingar að vera það sem er einkavætt!

Ég sneri hróðug aftur upp í litla bakherbergið og tilkynnti kollegum mínum hátíðlega að ég væri búin að fá botn í málið. Svo talaði ég í belg og biðu um frumlag, andlag, sagnfyllingu, þýfi, þjófnað, einkavæðingu og orkulindir.

Á göngum þingsins fóru fram miklar æfingar með notkun andlagsins sem fæstir höfðu heyrt minnst á síðan í samræmdu prófunum eða í mesta lagi í menntaskóla. Þingmenn eru andlag endalausrar gagnrýni og Viðey er andlag friðar og ég hlýt að vera andlag Morgunblaðsins, eða er Morgunblaðið kannski andlag mitt? Alla vega, þá hefði þetta getað verið fyndið ef ég hefði verið búin að átta mig almennilega á stóra andlagsmálinu.

En svo fjaraði andlagsfjörið út og ég var aftur sest í tilbreytingarleysið í bakherberginu að hlusta á umræður um fjáraukalög og reyna um leið að koma einhverju á blað um enn eina umræðuna um meinta einkavæðingu auðlinda landsins. Ég glímdi við eirðarleysið og var eiginlega orðin sannfærð um að ég hefði misst áhugann á pólitík, væri komin með hræðilegan starfsleiða eða væri jafnvel bara að uppgötva að blaðamennska ætti ekkert við mig. Og einmitt þá gerðist það: “Hafið þið heyrt eitthvað um að meirihlutinn í borginni sé fallinn?”

Allir ruku í símann og ég hljóp upp og niður tröppurnar á þinginu til að reyna að rekast á fólk sem gæti vitað hvað væri í gangi, og viti menn, hann var fallinn!

Í hálfa aðra klukkustund hélt ég áfram að hringja og hlaupa upp og niður tröppurnar og mér var farið að líða eins og ég væri ekki lengur aumur þingfréttaritari með óviðráðanlegan starfsleiða. Nei, mér fannst ég meira vera riddari á þönum um þinghúsið með upptökutæki að vopni og að sjálfsögðu ávallt viðbúin, líka við því að hlaupa út á ráðhúsplan og breytast í borgarfréttaritara eða borgarfréttariddara og fylgjast með nýjum meirihluta ganga í takt eftir Vonarstræti með Dag B. Eggertsson í broddi fylkingar.

Og einhvern veginn gladdist ég svo mikið, í sjálfhverfu minni, yfir að hafa fundið starfsánægjuna aftur. Þingfréttir frá því um morguninn voru ekki lengur fréttir, meirihlutinn var ekki lengur meirihluti og ég var ekki lengur andlag leiðinlegra þingfunda.

 

06.10.2007

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 6. október 2007

 

Ræðuskraut og sessunautar

 

Ég minnist þess að á einhverju tímabili í grunnskóla hafi kennarinn minn tekið upp á því að láta okkur nemendurna draga um sæti. Þetta var svakalega spennandi enda fátt mikilvægara en að hafa góðan og skemmtilegan sessunaut í skólanum. Ég man ekki hvar ég lenti nema í eitt skiptið þegar ég sat uppi án sessunautar og það þóttu mér harkaleg örlög fyrir málglatt barn eins og mig.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér nú í vikubyrjun þegar alþingismenn drógu um sæti í þingsal og ég er ekki frá því að þeir hafi verið álíka spenntir og ég um árið.

Sætaskipan er langt frá því að vera einfalt mál á vinnustöðum og hvað þá á þjóðþingum. Á finnska þinginu sitja flokkarnir saman og raðast frá hægri til vinstri í salnum eftir stöðu í pólitík. Í S-Afríku ákveða þingflokkarnir hins vegar sín í milli hver fær hvaða sæti. Kjördæmin ráða sætaskipan í Noregi en í Englandi sitja stjórn og stjórnarandstaða gegnt hvor annarri.

Það hljómar kannski hálfundarlega að draga um sæti. Mestu andstæðingar geta lent í að sitja hlið við hlið heilan vetur og kannski má færa rök fyrir að það takmarki samstarf þingflokkanna að þeim sé dreift um salinn með þessum hætti. Þó er vert að hafa í huga að þingmenn eyða aðeins litlum hluta tíma síns í þingsalnum og í öllum lengri umræðum er salurinn sjaldnast fullskipaður.

Það að dregið sé um sæti á Alþingi minnir á að hver og einn þingmaður er aðeins bundinn af sannfæringu sinni. Jafnframt getur það komið í veg fyrir vandamál sem kunna að koma upp þegar þingmaður segir sig úr flokki og gengur jafnvel í annan.

Mislíflegar ræður

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana sl. þriðjudagskvöld gáfu tóninn fyrir þingveturinn en ræðurnar voru sannarlega misfjörlegar. Ræða forsætisráðherra var nánast eingöngu upptalning á því sem þegar hefur verið gert eða tilkynnt og ekkert gert til að lífga upp á töluna. Ekkert skáldlegt, ekkert grín – bara hráar staðreyndir.

Skemmtilegasta ræðan þetta kvöld var hins vegar án efa ræða Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna og hann sýndi að hann er risinn upp á nýjan leik. Einna mestum spretti náði hann þegar ríkisstjórnin var orðin “hin frjálslynda, umburðarlynda jafnaðarmannaumbótastjórn eða hvað hún kallar sig svo hátíðlega á stundum, milli þess sem hún kennir sig við gliðnunar- og sprungusvæðið Þingvelli”, og sömuleiðis þegar hann taldi ráðherrana í salnum og komst upp í tólf þrátt fyrir hugmyndir forsætisráðherra um að fækka ráðuneytum.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, átti einnig fína spretti í ræðuhöldum kvöldsins og má flokka hann sem skáldlegasta ræðumanninn, t.d. þegar hann notaði tækifærið og hnýtti í iðnaðarráðherra: “Össur Skarphéðinsson er hamingjusamur með að vera orðinn ráðherra á nýjan leik. Hann vaknar oft á nóttunni og strýkur yfir grásprengt skeggið. Gamli byltingarsinninn stenst ekki mátið og tekur hamskiptum í bloggheimum. Hann er stjórnarsinni á daginn en stjórnarandstæðingur á nóttunni. Hann blótar á laun.”

Nú má vel vera að það sé einungis ósanngjörn krafa fjölmiðlafólks í leit að krassandi fyrirsögnum að ræður séu líflegar og kannski er réttasta leiðin að koma bara því sem þarf til skila í svona ræðum. Annað orðagjálfur og skáldlegheit sé tilgerðarlegt og brandarar standast jú ekki alltaf tímans tönn. Engu að síður ætla ég að standa fast á því að ræður megi gjarnan skreyta, þó ekki sé nema bara til að lífga upp á hversdagsleikann, nú þegar myrkrið verður sífellt meira.

Fjörugur þingvetur?

Þessi vika á þingi bar merki þess að efnahagsmál verða eitt af stærstu málum vetrarins. Þingmenn tala ýmist um efnahagsvandann eða efnahagsundrið og fyrir óbreytta leikmenn er ekki nokkur leið að skilja hvort allt er í volli eða blússandi uppsveiflu og gleði.

Vinstri græn hafa sýnt að þau ætla að halda Samfylkingunni vel við efnið og minna stöðugt á fyrirheit frá fyrri árum. Frjálslyndi flokkurinn ætlar ekki að gefast upp á að minna þingheim á vankanta kvótakerfisins og bága stöðu landsbyggðarinnar og Framsókn sýnir þess merki að hún gæti gengið í endurnýjun lífdaganna nú þegar hún er frjáls frá Sjálfstæðisflokknum.

Þrátt fyrir að ríkisstjórnin styðjist við mikinn þingmeirihluta er ekki þar með sagt að dauft verði yfir Alþingi í vetur. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa meira frelsi en þeir höfðu á síðasta kjörtímabili enda hafa þeir engan möguleika á að búa til valkost við ríkisstjórnina og þurfa þess vegna ekkert endilega að vinna mikið saman. Að sama skapi hafa þingmenn meirihlutans líka meira frelsi þegar þeir tilheyra stærri hópi.

Minnug þess að þingmenn eru bundnir við sannfæringu sína, og sitja þ.a.l. þvers og kruss um þingsalinn, ætla ég því að leyfa mér að spá líflegum vetri á Alþingi. Kannski verða andstæðingar allt í einu mestu mátar sem sitja hlið við hlið. Og vonandi situr enginn einn.