12.07.2007

Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 12. júlí 2007

Nauðgaði óvart

Mér hefur alltaf þótt svolítið gaman að slást. Að sjálfsögðu bara í gamni. Um daginn var ég í matvöruverslun og bauðst til að aðstoða gamlan mann, sem gekk við staf, við að koma sjálfum sér og innkaupapokanum heim. Hann var fámáll en það fór vel á með okkur. Þegar við komum að dyrunum heima hjá honum ýtti ég honum inn fyrir þannig að hann hrasaði og datt í gólfið. Svo fórum við að slást.

Gamli maðurinn sagði ekkert fyrst um sinn en þegar ég stóð yfir honum með stafinn hans á lofti, og naut þess að hafa yfirhöndina, hvíslaði hann ámátlega: “Ekki”. Þá hætti ég auðvitað um leið, enda var þetta bara leikur.

Nú er kannski vissara að taka fram að ofangreind saga er uppspuni. Ég efast um að nokkur lesi hana og dragi þá ályktun að ég hafi engan veginn getað áttað mig á því að samþykki mannsins fyrir gamnislagnum væri ekki til staðar.

En ef við breytum aðeins dæminu og ímyndum okkur að karl ýti konu inn á salerni, læsi að baki sér, girði niður um hana, ýti henni niður og byrji af hörku að hafa við hana samræði (eða önnur kynferðismök) þar sem hún liggur í kremju milli salernisskálar og veggjar, þá er auðvitað augljóst að maðurinn getur engan veginn vitað hvort samþykki konunnar er til staðar nema hún mótmæli harðlega og ýti honum af sér. Að þeirri niðurstöðu kemst Héraðsdómur Reykjavíkur a.m.k. í nýföllnum dómi en ofangreint atvik átti sér stað á Hótel Sögu í mars sl.

Dómurinn telur frásögn stúlkunnar sem á í hlut trúverðuga en tekst engu að síður, með eindregnum vilja, að sýkna manninn þar sem ekki þykir sannað að ofbeldi hafi átt sér stað. Vegna skorts á mótspyrnu hafi manninum ekki mátt vera ljóst að samþykki væri ekki til staðar.

M.ö.o. nauðgaði hann (í almennum skilningi, ekki lagatæknilegum) óvart.

Í dóminum koma fram öll klassísku stefin: Hún var drukkin, hún barðist ekki á móti, var kannski vingjarnleg við hann til að byrja með o.s.frv. Og við sem fylgjumst með af hliðarlínunni spyrjum: Hvernig getur þetta gerst?

Samkvæmt nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga er forsenda fyrir sekt að ofbeldi eða hótun um ofbeldi hafi verið beitt. Þetta á bæði við um nýlega samþykkt lög og þau eldri sem dæmt var eftir í þessu tilviki.

Dómstóllinn kaus engu að síður, eins og Ragnheiður Bragadóttir lagaprófessor og Sif Konráðsdóttir hæstaréttarlögmaður hafa bent á, að styðjast við þrönga skilgreiningu á ofbeldi og leit alfarið framhjá nútímaskilningi sem m.a. hefur komið fram hjá Mannréttindadómstól Evrópu.

Ljósi punkturinn er þó að dómurinn tekur mark á sálfræðirannsókn sem þykir renna stoðum undir framburð stúlkunnar. Og sálfræðingurinn sem kemur fyrir dóm minnir á að það séu þekkt viðbrögð þeirra sem verða fyrir árás að frjósa og veita ekki mótspyrnu. Stígamót hafa bent á þetta sama í áraraðir; að það eina sem komist að hjá þeim sem verða fyrir svona ofbeldi sé að komast lifandi frá því.

Lögmaður ákærða, Sveinn Andri Sveinsson, hefur að sjálfsögðu mótmælt því að nokkuð sé athugavert við dóminn, enda er það hans starf. Hitt er þó undarlegra og það er að halda því fram, eins og hann gerði í Kastljósi sl. mánudag, að fræðimenn og aðrir eigi ekki að gagnrýna dóminn ef þeir hlustuðu ekki á sönnunarfærsluna fyrir dómi.

Þetta er gamalt og lélegt bellibragð til að þagga niður í fólki. Þegar svona brögðum er blandað við lagatæknilegt tungumál, sem torvelt er að skilja, er verið að reyna að koma í veg fyrir almenna gagnrýni á dómstóla landsins, nema frá þeim sem hafa gráðu í lögfræði, og þ.a.l. allan orðaforðann, og eru viðstaddir réttarhöld, sem aftur eru lokuð í kynferðisbrotamálum!

Einn af hornsteinum réttarríkisins er að allir menn eiga rétt á málsvörn séu þeir bornir sökum. Það á jafnt við um kynferðisofbeldismenn sem aðra og hér á landi hafa margir hæfir lögmenn tekið slík mál að sér. Mér hefur þó alltaf þótt skrýtin tilhneiging sumra lögmanna til að verja ekki bara skjólstæðing sinn í hvert skipti heldur standa líka upp og tala gegn réttarbótum fyrir fórnarlömb ofbeldis.

Með því að leggjast gegn gæsluvarðhaldi yfir mönnum, sem eru grunaðir um að hafa beitt svo grófu ofbeldi sem nauðgun er, er verið að vinna gegn vernd þeirra sem verða fyrir ofbeldinu.

Hitt er svo annað, og þar get ég tekið undir með Sveini Andra, að fjórir mánuðir í gæsluvarðhaldi eins og í þessu tilviki eru langur tími og svona löng bið ætti ekki að vera eftir niðurstöðu dómstóla.

Sveinn Andri segir að Ragnheiður Bragadóttir eigi frekar að hafa áhyggjur af gæsluvarðhaldinu í þessu máli en því að dómstólinn hafi skilgreint ofbeldi of þröngt og hefur vakið athygli á því að skjólstæðingur sinn hafi íhugað sjálfsmorð í varðhaldinu. Á sambærilegan hátt hvet ég Svein Andra til að hafa opinberlega áhyggjur af líðan fólks, sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi og þarf að bíða í allt að tvö ár eftir því að fá að vita svo mikið sem hvort ákæra verður gefin út í málinu, jafnt sem alls þess fjölda fólks sem býr við það að mál þess rata aldrei inn til dómstóla. Þá finnur hann enn fleiri dæmi um sjálfsvígshugleiðingar til að hafa áhyggjur af.

Það er gott að Sveinn Andri og aðrir tala máli þeirra sem eru sakaðir um alvarleg brot. Það er líka gott að Sif Konráðsdóttir og Ragnheiður Bragadóttir og fleira hæft fólk vinnur að réttarbótum fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Það eru nefnilega hagsmunir okkar allra að lög og reglur nái yfir þá sem fremja ofbeldi og að þolendur sjái sér fært að leggja fram kæru. Að sama skapi er það líka grundvallaratriði að saklaust fólk sé ekki fundið sekt. Þess vegna eiga löggjafarvaldið, dómstólar og allir landsins lögfræðingar að vinna að því í sameiningu að kerfið virki sem best. Almenningur á ekki að þurfa að horfa upp á fleiri “lagatæknilega” skrípaleiki.