Ræða flutt við borgaralega fermingu í Háskólabíói
29. apríl 2007
Kæru fermingarbörn, foreldrar, ættingjar og vinir,
Til hamingju með ferminguna.
Ég var tilbúin með alveg svakalega merkilega ræðu til að flytja hérna í dag. Hún var uppfull af gáfulegum ráðleggingum til ykkar, fermingarbarnanna, um hvernig þið ættuð alltaf að standa með sjálfum ykkur og umfram allt, vera þið sjálf.
Já, leikið aldrei neinn annan, verið þið sjálf.
En ég fór að hugsa til baka. Ég heimsótti unglinginn mig.
Vertu þú sjálf.
Auðvitað, hugsaði ég, 13 ára gamalt fermingarbarnið. En hver er eiginlega þessi ég sjálf?
Ég var nýhætt í kór og áttaði mig á að mér hafði eiginlega alltaf þótt leiðinlegt í kórnum. Ég var ekki viss hvort ég vildi halda áfram í lúðrasveitinni og hafði meira að segja tekið pásu frá fótboltanum. Ég var smám saman að verða feimnari við að fara út í leiki með krökkunum í hverfinu, nema það væri a.m.k. einn sem væri eldri en ég í hópnum.
Árið sem ég fermdist fékk ég þrjú hár undir hendurnar og rakaði þau samstundis í burtu. Ég vissi ekki af hverju, ég bara gerði það. Ég blótaði bólunum á enninu og fannst ég vera of feit, bara af því að ég passaði ekki í Levi´s buxurnar sem ég hafði átt í 12 ára bekk. Ég var að verða kynþroska. Því fylgdu mjaðmir, rass og læri, sem ég lét fara endalaust í taugarnar á mér. Var útlitið mitt ekki ég sjálf?
Ég áttaði mig á því að í gaggó væri smart að hlusta á tónlist. Svo ég keypti mér geisladiska. En ég átti erfitt með að muna hvað hljómsveitirnar hétu, hvað þá lögin, svo að sama hvað ég reyndi þá var ég nánast ófær um að tala um tónlist við félaga mína. 12 ára vildi ég fá að fara á tónleika með Rage against the Machine. Mamma þverneitaði eftir að hún áttaði sig á að ég vissi ekki hvað hljómsveitin hét.
Ég vissi ekki hvað mér þótti smart, ég vissi ekki hvað mér þótti skemmtilegt, ég vissi ekki hvernig fólk ég vildi umgangast og ég var ekki viss hvort ég væri almennt skotin í stelpum eða strákum.
Unglingsárin fóru í að leita og prófa.
Eftir að ég áttaði mig á þessu nú um daginn henti ég gáfulegu ræðunni með ráðleggingunum til ykkar um að vera þið sjálf.
En ég spurði vini mína og félaga hvernig unglingsárin þeirra voru og hvað þau hefðu viljað vita við fermingu.
Svörin voru ólík. Allt frá því að vita hvernig væri best að láta strákinn sem þá stundina átti hugann allan taka eftir sér og upp í meiriháttar tilvistarspurningar.
„Að stéttskipting unglingsáranna væri ekki endanleg,” sagði vinkona mín og vísaði til vinsældakeppninnar sem við flest tókum þátt í, og var, eftir á að hyggja, ekki einu sinni vísbending um framhaldið.
Þegar ég var unglingur hélt ég að þessi veruleiki væri endanlegur. Ég var kominn með bás. Ég var sannarlega ekki mesti töffarinn í skólanum, ég komst ekki inn í vinsælustu klíkuna, eignaðist ekki kærasta og var ekki boðið í aðalpartýin.
Til að reyna að klifra upp vinsældastigann reyndi ég stundum að klifra upp á aðra krakka í skólanum, t.d með því að segja brandara á kostnað annarra og standa ekki með þeim sem minnst máttu sín. Ég gerði þetta af því að ég hélt að ég yrði að gera það til að komast af, komast hærra.
Síðan þá hef ég verið í mörgum skólum, mörgum vinnustöðum, mörgum löndum. Hvergi hefur stéttaskiptingin verið eins harkaleg og hún var í Gaggó. Og hvernig er það í dag? Ég nenni ekki að umgangast fólk sem er ekki það sjálft eða er með stæla á kostnað annarra. Og ég þekki engan sem nennir því.
Hvað hefðirðu viljað vita þegar þú varst unglingur?
„Ég hefði viljað hafa muninn á kynlífi og kynferðislegu ofbeldi á hreinu,” sagði vinur minn og ég kinkaði kolli. Ég mundi allt í einu eftir öllum spurningunum sem ég hafði á unglingsárunum um kynlíf, kynþroska og samskipti við þá sem maður laðast að.
Seinna áttaði ég mig á því að kynlíf er eitthvert viðkvæmasta og fallegasta tjáningarform sem er til. Viðkvæmt því það dynja á okkur endalaus skilaboð daglega sem reyna að eyðileggja það.
„Þú verður að prófa það, þú verður að prófa allt, þig langar það þótt þig langi ekki.”
Eins og það sé til formúla fyrir kynlífi og markmiðið sé bara eitt, alltaf, hjá öllum.
Fallegt tjáningarform af því að í kynlífi erum við náin þeim sem við elskum, við erum berskjölduð og treystum.
Nú þarf ég að biðjast afsökunar á að tala í beinu framhaldi um kynferðislegt ofbeldi enda er það alfarið ótengt kynlífi. Kynferðislegt ofbeldi er grófasta og ljótasta birtingarmynd ofbeldis, algjör andstæða við kynlíf. En samt er oft látið eins og það sé einhvern veginn tengt kynlífi, sé jafnvel hluti af því eða kynlíf sem gengur of langt.
Kynlíf og ofbeldi eru jafnótengd og gamnislagur og líkamsárás. Í gamnislag veit ég að ég má alltaf stoppa og ef ég meiði mig læt ég vita og leikurinn hættir. Ég stoppa líka ef mér finnst eins og félaga mínum líði illa. Ef ég stoppa ekki er ég beita hann ofbeldi. Við erum saman í þessu og berum ábyrgðina saman.
Í kynlífi mega báðir aðilar alltaf stoppa og þurfa aldrei að gera neitt sem þeir vilja ekki.
Það er ekkert grátt svæði.
Hvað hefðir þú viljað vita þegar þú varst unglingur?
„Ég hefði viljað vita allt sem snýr að geðorðunum tíu. td. geðorð nr. 9 finndu og ræktaðu hæfileika þína. Ég hefði viljað halda áfram að stunda mín áhugamál en ekki fara á gelgjubömmer og hætta,” sagði vinkona mín.
Þegar ég var barn átti ég mjög erfitt með að gera eitthvað sem ég var ekki góð í. Ef mér tókst ekki vel í fyrstu tilraun varð ég pirruð, fór jafnvel í fýlu, og skammaðist yfir hvað þetta væri heimskulegt sport.
Ég gerði bara það sem ég var góð í, og fyrir vikið missti ég af því að læra eitthvað nýtt. Í dag finnst mér skemmtilegast að æfa mig í því sem ég er ekki góð í. Það hefur aldrei verið mikil músík í mér en fyrir örfáum árum tók ég upp á því að glamra á gítar. Útkoman er misgóð, en mér finnst hún stórskemmtileg.
Að finna og rækta hæfileika sína snýst ekki bara um að gera bara það sem maður veit að maður er góður í, heldur einmitt hitt að prófa eitthvað nýtt og koma sjálfum eða sjálfri sér á óvart.
***
Stundum þegar ég hugsa til baka til unglingsáranna þá finnst mér eins og þau hafi verið hræðilega erfið og velti því fyrir mér hvort ekkert hefði verið hægt að gera til að einfalda þau. En þá rifjast líka upp fyrir mér góðu dagarnir. Þegar systir mín fæddist, allar skákirnar okkar afa, Pæjumótsmeistaratitillinn, félagslíf unglingsáranna, fyrsti kossinn. Og það rifjast upp fyrir mér að gleði unglingsáranna var allt að því stjórnlaus, af því að ég trúði því að mér ætti alltaf eftir að líða vel. Að sama skapi gat vanlíðan orðið svo dramatísk því þá fannst mér eins og mér ætti aldrei aftur eftir að líða vel. Daginn eftir var ég síðan kannski í banastuði.
Í þessari miklu leit að sjálfri mér mátaði ég mig í alls konar hlutverk. Ég reyndi að vera „tónlistartýpan”. Ég las unglingabók um strák sem var alltaf skotinn í „dularfullum” stelpum. Ég reyndi að vera dularfull. Ég prófaði einu sinni að þegja í heilan dag og ég prófaði að hanga með krökkum sem voru í alls konar vitleysu.
En það er svo fyndið, að þetta mistókst allt. Þegar ég reyndi að vera þögul og dularfull gleymdi ég mér oftast og var fyrr en varði farin að blaðra stjórnlaust og segja lélega brandara. Þegar ég hlustaði á tónlist tók ég aldrei eftir því að geisladiskurinn væri búinn. Í félagsskap vandræðaunglinganna fann ég að þau voru miklu örvæntingarfyllri í leit sinni en ég.
Og einhvern veginn læddist ég alltaf aftur út í leiki, jafnvel í byssó með litlu krökkunum í hverfinu.
arna kom ég sjálf í gegn. Unglingur sem reyndi að vera töff eftir skrítnum mælikvörðum en fannst í alvörunni bara skemmtilegast að spila krossgátuspilið eða leika sér í einakrónu og fótbolta.
Smám saman kom ástríða mín fyrir að skrifa í ljós, síðan lagleysið sem gerði kórinn svo leiðinlegan, taktleysið sem stóð mér fyrir þrifum í lúðrasveitinni, óþrjótandi áhugi á fótbolta, sem hefur allar götur síðan rifið mig út á völl.
Og hér er ég, ég sjálf.
Ég er nýorðin fullorðin. Það gerðist ekki þegar ég varð tvítug eða gerist þegar ég verð þrítug. Það gerðist þegar ég ákvað að taka ábyrgð á lífi mínu. Og hvernig gerir maður það?
Ég veit ekki hvað er algilt, en ég geri það með því að standa með sjálfri mér, elta mína eigin drauma, sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt og breyta því sem ég get breytt.
Ég get uppgötvað einn daginn að skilyrðin sem ég hafði til að rækta hæfileika mína voru ekki eins góð og þau hefðu átt að vera. Kannski var ég með lélegan saumakennara sem drap niður hjá mér áhuga á handavinnu og kannski lögðu foreldrar mínir og ættingjar áherslu á aðra hluti en ég og studdu mig ekki akkúrat í því sem ég þurfti stuðning í.
Ég get eytt ævinni í að vera bitur yfir því. Ég get grátið mig í svefn á hverju kvöldi yfir glötuðum tækifærum.
En ég hef val.
Ég hef val um að takast á við allt sem átti sér stað í fortíðinni og nýta það sem reynslu og styrk inn í framtíðina. Ég hef val um að líta á björtu hliðarnar og ég get alltaf óskað eftir hjálp, hvort sem það er við að læra á gítar eða hreinlega að fullorðnast.
Leiðirnar að markmiðunum geta verið ólíkar. Það er ekki til ein rétt leið í námi eða ein rétt leið í gegnum lífið. Ekki ein leið að draumunum, og alls ekki einn draumur.
Ég get látið drauma mína rætast. Ég get gert það sem ég vil, þið getið það líka.
Kæru fermingarbörn.
Að einhverju leyti vildi ég að ég gæti dregið utan um ykkur töfrahring þannig að þið þyrftuð aldrei að upplifa neitt slæmt. Ég vildi að ég gæti frætt ykkur um allt sem áðurnefndir vinir mínir vildu hafa vitað þegar þeir voru unglingar. Ausið úr viskubrunni þannig að þið þyrftuð ekki að gera mistökin sem ég gerði. En gallinn er sá að minn litli viskubrunnur er einmitt tilkominn vegna mistakanna sem ég gerði.
Ég hvet ykkur til að reka ykkur á veggi, gera ykkar mistök og læra af þeim. Umfram allt hvet ég ykkur til að muna að þið eruð ávallt við stjórnvölina í ykkar eigin lífi.
Ég óska ykkur alls hins besta í öllum skrefum sem þið stígið í átt að fullorðinsárunum.
Til hamingju með ferminguna.
27.04.2007Viðhorfspistill
Birtist í Morgunblaðinu, 27. apríl 2007
Barn til sölu og leg til leigu
Sagan endurtekur sig, er stundum sagt, og það er ekki laust við að það eigi við þegar kemur að umræðunni um staðgöngumæður. Ekki vegna þess að sú umræða hafi farið hátt hér á landi, heldur vegna þess að enn á ný setjast karlar á rökstóla til að velta því fyrir sér hvort aðgerðir sem fela í sér svakalegt inngrip í líkama konu eigi rétt á sér, út frá læknisfræðilegu jafnt sem siðferðislegu sjónarmiði.
Karlkyns læknarnir sem tjáðu sig í Kastljósi voru mishrifnir af því að leyfa staðgöngumæðrun hér á landi en kölluðu eftir því að tal um “hið hugsanlega hugsanlega” kæmi ekki í veg fyrir umræðu um málið. Ég ætla svo sannarlega að reyna að virða þessa ósk þeirra og tek þess vegna þátt í umræðunni, en það breytir þó ekki því að “hið hugsanlega hugsanlega” skiptir töluverðu máli í þessu samhengi enda er ekki aðeins um heilsu konunnar sem gengur með barnið að ræða heldur einnig líf barns. Dæmi frá öðrum löndum sýna líka að ótal vandamál geta komið upp þegar líkami manneskju er fenginn að láni eða leigu með þessum hætti.
Eins og breska fræðikonan Germaine Greer bendir á í bók sinni The Whole Woman þá virðist oft sem gengið sé út frá því að það séu sjálfsögð réttindi, jafnvel mannréttindi, að eignast börn. Litið er svo á að öll gagnkynhneigð pör séu fær um að geta barn og gangi það ekki upp sé eitthvað að. Staðreyndin er hins vegar sú að það er ekkert óeðlilegt við það að sumt fólk geti af einhverjum sökum ekki átt börn. Ófrjósemi getur hrjáð bæði karla og konur og stundum eru konur ekki með leg, annaðhvort vegna þess að þær hafa misst það af einhverjum ástæðum eða hreinlega fæðst án þess. Annars er umhugsunarefni út af fyrir sig af hverju þetta merkilega líffæri, leg, er yfirleitt fjarverandi í umræðu um barneignir. T.a.m. er talað um að konur séu með barn í maganum en hið rétta er auðvitað að barnið er í leginu (sbr. Germaine Greer).
Ég var í fermingu um daginn þar sem presturinn minnti á að við eigum ekki börnin okkar heldur er okkur trúað fyrir þeim á þessu viðkvæma æviskeiði sem barnsárin eru, og hitti þar að mínu mati naglann á höfuðið. Ef litið er á það sem mannréttindi að eiga börn er um leið verið að ýta undir þá hugmynd að við getum átt börn eins og við eigum bíla, hús eða föt.
Nú vil ég alls ekki gera lítið úr þrá fólks til að ala upp barn eða því áfalli sem sumir verða fyrir við að geta ekki getið börn. Hluta af áfallinu má þó rekja til þess að við göngum alltaf ranglega út frá því að allir geti eignast börn.
Á Íslandi er fólki heimilt að ættleiða börn sem annars hafa ekki foreldra til að alast upp hjá. Full ástæða er til að hvetja til þess að ættleiðingarferlið sé bæði einfaldað og niðurgreitt og undarlegum reglum sem þar gilda breytt.
En þá heyrast þær raddir að það sé bara allt annað að eignast sitt eigið barn og jafnvel heyrast skrítin eðlishyggjurök um að fólk vilji viðhalda genunum sínum. Þótt fólk vilji eignast krúttlegan erfingja, sem hugsanlega ber svip foreldra sinna, hljóta að vakna spurningar um hversu langt megi ganga til að láta þann draum rætast.
Þegar fóstri eða fósturvísi er komið fyrir inni í líkama konu og ætlast til að hún láti barnið af hendi við fæðingu er verið að gera mjög lítið úr því ferli sem meðganga er, eins og leg konu sé einhvers konar tómarúm – rými sem hún er hvort eð er ekki að nota. Meðgangan er skyndilega orðin að verki sem maður tekur að sér, legið er verkfærið.
Í umræðum um staðgöngumæðrun er gerður greinarmunur á því að t.d. náin vinkona eða systir sé fengin til þess að ganga með barnið og að konu sé borgað fyrir að “sjá um starfið”. Ef við viljum heimila það síðarnefnda er um barnasölu að ræða enda aðeins stigsmunur á því að selja barn með öðrum genum og hreinlega að sjá viðskiptatækifæri í því að fæða börn og selja þau.
Með því að borga konu fyrir að ganga með barn er því verið að búa til undarlega samsuðu af vændi og barnasölu. Vændi í þeim skilningi að verið er að kaupa afnot af líkama annarrar manneskju og barnasölu því barnið er jú selt. Ójafnvægið milli þeirra sem borga fyrir að fá eigið barn og konunnar sem fær greitt er augljóst. Og hvað ef varan er ekki eins góð og ætlast var til? Hafa genagjafarnir rétt á að hlutast til um hegðun móðurinnar meðan á meðgöngu stendur?
Sjónarmiðin að baki því að vinkona eða systir gangi með barn annarra eru einnig of veik til að það sé réttlætanlegt. Ekki er aðeins um ógn við andlega og líkamlega heilsu konunnar sem gengur með barnið að ræða heldur einnig líf barns. Spyrja má hvort barnið eigi þá ekki í raun þrjú líffræðileg foreldri. Hefur það þá umgengnisrétt við þau öll?
Barnið fær að öllum líkindum ekki að vera á brjósti enda myndu þá skapast “óeðlileg tengsl” milli barnsins og líffræðilegu móðurinnar sem er genetískt ekki líffræðileg móðir.
Börn hafa rétt til að alast upp hjá foreldrum sínum ef það er mögulegt og til að eiga öruggt heimili. Það hafa ekki nærri öll börn í heiminum í dag. Fullorðið fólk hefur hins vegar ekki óskoraðan rétt til að eiga börn, þótt það langi.
14.04.2007Viðhorfspistill
Birtist í Morgunblaðinu, 14. apríl 2007
Úlfur úlfur! Kommúnisti!
Hvers vegna er orðið kommúnisti alltaf notað sem skammaryrði?” spurði vinkona mín um daginn. “Mér finnst svo skrítið að láta eins og allir sem vildu koma þessu þjóðfélagsskipulagi á hafi verið vont fólk og viljað heiminum allt illt,” bætti hún við.
Ég velti þessu fyrir mér og greip til almenna svarsins um að sigurvegarinn skrifaði söguna. Kapítalisminn hefði “unnið” og þess vegna væru allir kapítalistar góðir en kommúnistar vondir. Vinkona mín samsinnti og við ræddum fram og aftur tengsl núverandi stjórnmálamanna við kommúnisma og kapítalisma kalda stríðsins. Ber fólk sem vill að gosdrykkir séu dýrari en ávaxtasafi á Íslandi í dag á einhvern hátt ábyrgð á voðaverkum Stalíns í Sovétríkjunum á sínum tíma?
Nú hugsa eflaust einhverjir að þarna hafi verið tveir litlir kommúnistar að spjalla um stórhættulega framtíðarsýn sína. Að sama skapi hefðu gamlir vinstri menn (hvort sem þeir kölluðu sig kommúnista eða ekki) sem hefðu hlýtt á áframhald umræðna okkar eflaust andvarpað þungt yfir því hvernig kapítalisminn hefur náð föstum tökum á hinni ungu kynslóð.
Í framhaldi af þessari samræðu rifjaðist upp fyrir mér félagsfræðatími í Kvennó, sem við vinkonurnar sátum einmitt báðar, þar sem við fengum í hendurnar kubba í mismunandi litum og ólíkir hópar áttu að reyna að kubba einlit eða marglit hagkerfi eftir því hvort þeim var úthlutað hinni kommúnísku hugsjón, kapítalisma eða ósk um blandað hagkerfi. Ég var kapítalisti og lenti m.a. í deilu við kommúnista sem vildi endilega græða sem mest á kubbaskiptum við mig. Ég sagði henni að lesa kennslubókina. Hún væri kommúnisti núna og ætti ekki að reyna að græða á mér, saklausum kapítalistanum.
Þetta var sá árgangur Kvennaskólans sem útskrifaðist árið 2000. Við vorum 8, 9 og 10 ára þegar Berlínarmúrinn féll. Ég man eftir að hafa horft á fréttir í sjónvarpi heima hjá hálfþýskum vini mínum þar sem vel var fylgst með gangi mála. Sjálf var ég meira að spá í hvort þau ætluðu ekki að fara að fá sér litasjónvarp, það væri algjört rugl að horfa á teiknimyndir í svarthvítu.
Í umræddum félagsfræðatíma þekktu sum okkar muninn á kapítalisma og kommúnisma. Í hugum annarra voru þessi hugtök merkingarlaus, kannski vegna áhugaleysis á pólitík, kannski vegna áhugaleysis á því að vera dregin í dilka sem aðrir bjuggu til.
Það var líka sérstakt fyrir okkur sem ekki ólumst upp á þrælpólitískum heimilum að velta stefnunum fyrir okkur í félagsfræðatíma ári eða tveimur áður en við fræddumst um sögu kalda stríðsins og spennuna sem var á milli “liðanna tveggja”.
Frá því að ég talaði máli kapítalismans í Kvennó fyrir tíu árum hafa verið gerðar margar tilraunir til að skipa mér í annað liðið. Ég hef verið kölluð kommúnisti og marxisti, já og jafnvel bláeygur kommúnisti en þess má geta að ég er með grænbrún augu, (sem hefði þó varla sést í svart-hvíta sjónvarpinu sem ég hafði áhyggjur af þegar Berlínarmúrinn féll).
“Það er eins og aldrei sé reynt að komast að kjarnanum í neinum málum. Fólk skiptir sér frekar í flokka og vill svo gera allt til að klekkja hvert á öðru,” sagði vinkonan sem ég nefndi í upphafi. “Ég er sannfærð um að það getur verið meiri samvinna innan stjórnmálanna. Af hverju er svona miklum tíma eytt í að reisa múra og nálgast hlutina á neikvæðan hátt?” spurði hún og þvertók fyrir að hægt væri að skipta Íslandi í rautt og blátt, eða í tvo hópa yfirleitt.
Þegar upphrópanir ráða ríkjum í pólitík er um leið verið að gera lítið úr pólitískri umræðu. Hinn almenni kjósandi verður smám saman stressaður yfir að átta sig ekki á hvað er allra mikilvægast fyrir land og þjóð og leyfir málefnum nærumhverfisins að víkja fyrir óljósum hugmyndum um þenslu og samdrátt, hagstjórn og óstjórn. Skipulagsmál verða þá að stórpólitískum málaflokki þar sem 2+1 eða 2+2 er allt í einu ekki lengur fyrsta bekkjar reikningur heldur tilefni til að skipta öllum í tvo hópa, úthrópa stjórnvöld fyrir svik og pretti og saka stjórnarandstöðuna um upphlaup. En er 2+1 eða 2+2 pólitík? Eða öllu heldur praktískt skipulagsatriði?
Í málaflokkum á borð við menntamál, velferðarmál og jafnréttismál eru miklu meiri pólitísk átök sem skipta allt fólk í landinu gríðarlega miklu máli. Á að leyfa upptöku skólagjalda? Hvernig á að búa að öldruðum? Gjaldfrjáls leikskóli? Sænska leiðin?
Úlfur úlfur! gala pólitíkusar. Er nema von að almenningur missi traust á stjórnmálamönnum og áhuga á stjórnmálum? Það er nefnilega þannig að það getur vel verið að það sé úlfur á leiðinni, en það getur líka verið að allir úlfar séu víðs fjarri. Og hverju á fólk að trúa?
Ekki bætir úr skák þegar stjórnmálamenn missa tímaskynið og vara fólk með látum við fjarlægri ógn liðinna tíma, eins og að ætla að hræða göngugarpa um hálendi Íslands við mikilli og síaukinni umferð kyrkislangna um svæðið. Og þrátt fyrir alla skynsemi og vitneskju um að kyrkislöngur eigi almennt ekki leið um hálendi Íslands sitjum við eftir með örlítinn ótta við dramatískan dauðdaga með slöngu um hálsinn. Og innan við helmingur þjóðarinnar ber traust til Alþingis.
11.04.2007
Birtist í tímariti UNIFEM
2007
Andstæðurnar á svæðinu við Kaspíahafið í norðurhluta Írans eru miklar. Öðrum megin við þjóðveginn eru sumarhúsahverfi með stórum, loftkældum húsum þar sem Teheran búar ala manninn í fríum og á flótta frá menguninni í stórborginni. Hinum megin við þjóðveginn eru lítil þorp þar sem lífsbaráttan er öllu harðari. Í einu þessara þorpa býr Maryam.
Maryam er aðeins nokkrum árum eldri en ég, 31s árs. Hún er með stór og falleg augu sem einhvern veginn geisla af æðruleysi. Maryam hefur getið sér gott orð sem spákona og sífellt fleiri leita til hennar til að forvitnast um möguleg örlög sín. Þar á meðal vel stæðar konur frá Teheran. Ein af hástéttarvinkonum mínum úr höfuðborginni, sem annars myndi aldrei fara ótilneydd inn á lágstéttarheimili, leitar reglulega til hennar og í þetta skipti fengu tveir forvitnir Íslendingar að fylgja með.
Við vorum varla komnar inn úr dyrunum þegar Maryam spurði hvort ég væri að fara til Indlands. Ég hikaði því ég hafði einmitt verið að hugsa til indverskrar vinkonu minnar og hvort ég kæmist nú ekki til hennar fljótlega.
Ég hef aldrei viljað fara til spákonu, miðils, eða annarra sem segja manni hvað eigi að gerast í framtíðinni. Og ég hugsa ég fari aldrei aftur. En eftir að hafa fylgst með öruggum hreyfingum Maryam og hlustað á sefandi rödd hennar lesa úr spilunum á farsí fyrir vinkonu mína stóðst ég ekki mátið að fá að prófa að hlýða á minn eigin spádóm, með milligöngu vinkonu minnar enda talar Maryam ekki ensku.
Spádómurinn var líklega nokkuð klassískur. Ég mun giftast fljótlega og óskir mínar munu rætast. Hún sá að það var eitthvað að angra mig en lofaði að það yrði farsællega leyst innan níu vikna eða níu mánaða. Talan níu kom oft upp.
Eftir að Maryam hafði lagt út spil og lesið úr bolla í klukkustund var komið að mér að spyrja hana út í hennar líf, enda var ég í Íran í þeim tilgangi að taka viðtöl við konur. Hún svaraði mér í einlægni og lá stundum svo mikið á hjarta að varla gafst tími fyrir vinkonu mína að þýða.
Giftist 14 ára
Foreldrar Maryam eignuðust þrjár dætur í röð en óskuðu þess allan tímann að eignast son. Tvær þeirra fengu hlaupabólu sem dró aðra þeirra til dauða en hin lamaðist. „Þetta er vegna þess að foreldrar mínir voru ekki þakklátir guði fyrir að hafa eignast dætur, þetta var refsing,“ útskýrir Maryam og bætir við að þau hafi loks eignast son og studdu síðar kom Maryam sjálf í heiminn.
Þegar Maryam var fjórtán ára höfðu foreldrar hennar fundið handa henni mann og þau giftust. Hann var þá 21s árs. Maryam flutti heim til eiginmanns síns og fjölskyldu hans og bjó þar í þrjú ár áður en þau fluttu í eigið húsnæði. Tengdafjölskyldan var stjórnsöm og eiginmaðurinn hefur ekki reynst Maryam vel. Hann er háður eiturlyfjum, heldur framhjá og stundar fjárhættuspil og hefur fyrir vikið aldrei staðið við sínar skuldbindingar í hjónabandinu.
Maryam byrjaði sjálf að vinna sem hárgreiðslukona og snyrtifræðingur. „ Þegar ég fór að vinna varð maðurinn minn mjög afbrýðisamur því hann hélt ég yrði kannski frægur snyrtifræðingur. Svo að hann bannaði mér að vinna. Hann hélt mér fanginni á heimilinu en sjálfur átti hann í ástarsamböndum eins og honum sýndist. Ég kvartaði til dómstóla yfir brotum hans og í hvert skipti sem ég kvartaði lamdi hann mig illa. Kerfið stóð aldrei með mér,“ segir Maryam en í Íran byggja dómstólar á íslömskum lögum þótt deilt sé um hversu mikið í takti við íslam lögin sem dæmt er eftir séu. Klerkarnir í dómarasætunum hlustuðu lítið á Maryam. „Lögin eru ekki fyrir konur. Þau vinna ekki með þeim. Alltaf þegar kona leita réttar síns er henni sagt að hún sé kona og þurfi að sætta sig við þetta. Þeir minnast aldrei á það við karl að hann eigi að breyta hegðun sinni á nokkurn hátt. Fólk eins og ég, ég fann mína leið til að gera mig hamingjusama. En ég þekki konur sem hafa framið sjálfsmorð því þær hafa ekki fundið neina aðra leið.“
Fráskildar konur litnar hornauga
Maryam vildi fá skilnað áður en þau eignuðust barn en foreldar hennar stóðu ekki með henni. Eftir að foreldrarnir féllu frá ákvað hún að láta á það reyna að fá skilnað. Hún hafði erft svolitla peninga og kom sér upp íbúð í borg í nágrenninu. Þar bjó hún í eitt og hálft ár en það hvorki gekk né rak að glíma við kerfið. „Maðurinn minn bannaði mér að sjá börnin mín í sex mánuði en ég sagði við sjálfa mig að það mikilvægasta í mínu lífi væri mitt eigið frelsi sem kona og sem manneskja,“ segir Maryam og lýsir því hvernig hún sló öll vopn úr höndunum á honum. Hún þarfnaðist hans ekki fjárhagslega eða tilfinningalega og sagði að hann mætti þá bara hafa syni þeirra tvo ef hann endilega vildi. „Þá fór hann að grátbiðja mig um að koma aftur, og hann varð einhvern veginn mýkri.“
Maryam segist hafa áttað sig á því að hún væri að sóa lífi sínu enda gæti það tekið 5-9 ár fyrir hana að fá skilnað. Svo að hún ákvað að flytja aftur heim. „Fráskildar konur eru litnar miklu hornauga og mér fannst samfélagið svo slæmt að ég vildi frekar lifa hér á heimilinu í friði,“ segir Maryam og lýsir því þegar dómarar við trúardómstólana buðust til að aðstoða hana við að fá skilnað ef hún veitti þeim kynferðislega greiða á móti. Og gerðirðu það, spyr ég. „Nei, þess vegna fékk ég ekki skilnað.“
Eftir að Maryam flutti aftur heim var maðurinn hennar ekki eins ofbeldisfullur og lagði meira upp úr því að halda friðinn. Hann fylgist engu að síður vel með henni og hún segist ekki geta farið í göngutúr án þess að þurfa að svara mörgum spurningum um hvar hún hafi verið og með hverjum. „ Ég vil bara frelsi,“ útskýrir Maryam. „Ég vil geta farið út þegar ég vil fara út. Í starfi mínu má ég ekki hitta karla, hvers vegna ekki? Af hverju er ég spurð endalausra spurninga og svo svarar maðurinn minn engu þegar hann kemur heim kl. 2 á næturnar?“ spyr Maryam og er líka ósátt við takmarkað kynfrelsi kvenna. „Ég nýt ekki kynlífsins og mér finnst alltaf eins og verið sé að misnota mig eða nauðga þegar við sofum saman. Ég tala mikið við konur í starfinu mínu og ég veit að í langflestum samböndum er þetta svona. Flestar konur sætta sig við þetta.“
Maryam er mjög trúuð og þakkar guði fyrir hæfileikann til að spá enda hafi það gefið henni fjárhagslegt sjálfstæði. Hún gefur hins vegar ekki mikið fyrir túlkun stjórnvalda á íslam. „Guð dró ekki línu milli karla og kvenna. Hann sagðist hafa skapað manneskjur, og það er það sem við erum. Ég trúi á guð. Ég hef mína eigin trú,“ segir Maryam en segist ekki skilja hugmyndina á bak við hejab, þ.e. klæðaburðarreglurnar í Íran sem fela í sér að kona þarf að hylja hár sitt og líkamsvöxt. „Af hverju ættum við að hylja okkur? Ef manneskja er góð, þá veit guð það. Ég get ekki falið minn innri mann. Hugmyndirnar að baki þessu kerfi koma frá karlrembum sem hafa túlkað lögin í sína þágu. Þetta er ekki það sem guð vill, og ekki það sem konur vilja. Ég vona að einn daginn verði litið á konur sem manneskjur, sem eru jafnar körlum,“ segir Maryam.
Hún bað um hjálp
Eftir að við kvöddum Maryam var ég mjög hugsi og hafði satt best að segja takmarkaða þolinmæði í að hlusta á hástéttarvinkonu mína furða sig á því að kona af lágstétt gæti haft svona „réttar skoðanir“ á stjórnvöldum Maryam hafði heillað mig með afdráttarlausum viðhorfum skoðunum sínum og lífsvilja og einhvern veginn brýnt mig til dáða, án þess kannski að hafa ætlað að gera það. Hún bað líka um hjálp.
Staða allra íranskra kvenna er ekki endilega eins og staða Maryam. Ég talaði við konur sem sögðust aldrei hafa heyrt minnst á ofbeldi gegn konum og töldu að það hefði kannski verið í gamla daga en ekki núna. Ég talaði við konur sem giftust af ást og konur sem giftust mönnum sem þær höfðu aldrei séð. Sumar voru hamingjusamar, aðrar ekki. Sumar voru trúaðar, aðrar ekki. En þær sem á annað borð töluðu um kynlíf höfðu svipaða sögu og Maryam að segja. Þeim fannst þær misnotaðar og alls ekki fullnægðar.
Ofbeldi gegn konum er ekki bundið við lítil þorp í Íran. Alls staðar í heiminum eru konur beittar ofbeldi og í mörgum tilvikum af körlum sem þær ættu að geta treyst. Íranskar konur glíma hins vegar við tvöfalt misrétti því að lög og reglur vinna líka gegn þeim. Á Íslandi búum við enn við þann veruleika að fjöldi kvenna verður fyrir ofbeldi og fæstar þeirra treysta sér til að leita réttar síns.
Það er kominn tími til að við veitum Maryam hjálp. Ekki bara hinni írönsku Maryam heldur öllum Maryömunum í heiminum sem þurfa að búa við ógnina af ofbeldi.