Þingbréf
Birtist í Morgunblaðinu, 19. mars 2007
Samningar, samsæri og kveðjustundir
“Fundi er slitið” er líklega sú setning sem fékk þingmenn til að varpa öndinni léttar á aðfaranótt sunnudags enda hefur Alþingi fundað stíft undanfarið og þennan daginn eina fjórtán tíma samfleytt. Þingmenn féllust í faðma og hatrömmustu andstæðingar breyttust í vini og vinnufélaga til fjögurra, átta, tólf, sextán, tuttugu ára.
Alþingi er stundum eins og venjulegur vinnustaður, en ekki á dögum sem þessum. Alþingismenn ráða nefnilega ekki örlögum sínum, heldur kjósendur og eftir tilvikum flokksfélagar. Þrettán þingmenn af 63 hafa þegar tilkynnt brotthvarf sitt úr stjórnmálum og hugtakið “öruggt þingsæti” á sannarlega ekki við í öllum tilvikum. Vinnufélagarnir sem gengu út í kosningavorið á laugardag munu ekki allir snúa til baka að loknum kosningum.
Einu sinni las ég bók í samningatækni sem heitir Getting to Yes: negotiating agreement without giving in (á íslensku: Já! Listin að semja án þess að gefa eftir). Þessi lesning kom oftar og oftar upp í huga mér á síðustu dögum þingsins. Deilur og plott undanfarinna mánaða runnu allar saman í eitt. Komið var að uppgjörinu. Frumvörp og þingsályktunartillögur hurfu. Sumt var svæft í nefnd, annað komst ekki á dagskrá. Til að taka málin upp aftur þarf að leggja þau fram að nýju á næsta þingi, flytja ræðurnar aftur og há sömu bardagana. Og fjölmiðlafólkið í bakherberginu segir fréttirnar aftur.
Stjórnarandstaðan er líklega aldrei eins valdamikil og á síðustu dögum þingsins. Meirihlutinn vill ljúka þingstörfum en líki stjórnarandstöðunni ekki við málalok getur hún rætt málin fram og aftur, og svo aftur og fram, ef svo ber við. Stjórnarflokkarnir eru því tilneyddir til að ganga til samninga; láta einhver mál liggja milli hluta og hleypa stjórnarandstöðumálum að. Flokkarnir hafa sín markmið en það hafa líka einstaka þingmenn sem og ráðherrar.
Í samningaviðræðunum völdu stjórnarandstöðuflokkarnir sér mál sem þeir höfnuðu að yrðu tekin fyrir og lofuðu kannski að tala ekki lengi um önnur mál í staðinn. Frjálslyndi flokkurinn lagðist t.a.m. gegn stofnfrumufrumvarpinu og Vinstri græn vildu ekki sjá vegalögin í óbreyttri mynd. Samfylkingin fékk á dagskrá þingsályktunartillögu um störf án staðsetningar á vegum ríkisins og fyrningarfrestur á alvarlegum kynferðisbrotum gegn börnum var afnuminn á lokasprettinum.
Stóra stjórnarskrárdramað setti sinn svip á síðustu daga þingsins. Úr varð að engar breytingar verða gerðar á stjórnarskrá þrátt fyrir það samkomulag sem þó náðist í stjórnarskrárnefnd um að stjórnarskrárbreytingar færu eftirleiðis í þjóðaratkvæðagreiðslu, að gefnum ákveðnum skilyrðum. Forsætisráðherra var ósáttur við ákvæðið eins og það kom frá stjórnarskrárnefnd og málið strandaði á rökræðum um orðalag.
Ekki fór heldur svo að auðlindaákvæðið rataði í stjórnarskrá. Formenn stjórnarflokkanna sögðu stjórnarandstöðunni um að kenna en hún vísaði öllu til baka. Eftir stóðu fjölmiðlamenn, og líklega meirihluti þjóðarinnar, og veltu fyrir sér hvað í ósköpunum átti sér stað. Hvers vegna fór þetta mál af stað, hver var tilgangurinn og hvað nú? Allir hafa sínar tilgátur, jafnvel samsæriskenningar. Og blaðamennirnir reyna samviskusamlega að “skrifa söguna”, sem síðar verður öll dæmd ýmist sönn eða ósönn.
Meðan samningaviðræður standa yfir í þinghúsinu veit eiginlega enginn neitt. Fólk bara heldur. Þingmenn halda, blaðamenn halda, ráðherrar halda. Átök eru milli flokka, innan flokka, milli einstaklinga, milli ráðherra, milli kjördæma, milli framkvæmdavalds og þings og svo framvegis. Það eina sem er alveg traust, og engin átök um, er mötuneytið sem hlýtur að vera með þeim betri á landsvísu.
“Getting to yes without giving in”, hugsaði ég þegar ég horfði á þreytulega þingflokksformennina ganga til enn eins fundarins og ímyndaði mér hvernig þeir næðu já-inu. “Allt í lagi, við gleymum þessu með léttvín í búðir og þið talið ekki lengi um sameiningu HÍ og KHÍ,” og “tjah, ef þið viljið koma þessum vegalögum í gegn óbreyttum, þá skuluð þið muna að við höfum mjög mikið að segja um þau, og það getur tekið langan tíma.”
En einhvern veginn náðu þau já-inu. Samkomulag var í höfn, fundi slitið, þingmenn féllust í faðma og héldu svo út í kosningavorið.
10.03.2007
Þingbréf
Birtist í Morgunblaðinu, 10. mars 2007
Heppnað útspil
Eftir yfirlýsingar forystumanna Framsóknarflokksins á Alþingi í sl. viku um auðlindaákvæði í stjórnarskrá upphófst mikið fjör. Stjórnarandstaðan lifnaði við, boðaði til blaðamannafundar og bauð Framsókn upp í dans. Hjálpumst að við að breyta stjórnarskránni, sagði auðmjúk andstaðan.
Sjálfstæðismönnum leist ekki á blikuna og sögðust sumir jafnvel tilbúnir í stjórnarslit frekar en að fallast á kröfur Framsóknar, enda víst að hugtök á borð við “sameign” og “þjóðareign” hugnast varla hægrimönnum, og hvað þá ef hriktir í stoðum fiskveiðistjórnunarkerfisins.
Geir H. Haarde forsætisráðherra átti tvo kosti og báða vonda. Annars vegar gat hann farið alfarið að kröfum framsóknarmanna en hefði þá líklega sætt harðri gagnrýni frá eigin flokksmönnum, ekki síst þeim sem skilgreina sig lengst til hægri í flokknum, en hann hefur ekki verið laus við gagnrýni þaðan hingað til. Hins vegar gat hann rofið þing og það hefði sannarlega verið umdeilt.
Þingrof fer venjulega fram samkvæmt lögum, t.a.m. ef breytingar á stjórnarskrá eru samþykktar, og það þýðir aðeins að þing er rofið áður en hefðbundnu kjörtímabili lýkur. Þingrofsheimildinni hefur aðeins verið beitt tíu sinnum án þess að skylda kveði á um, síðast árið 1979. Tvisvar hefur verið deilt mjög um hvort þingrof stæðist lög. Í fyrra tilvikinu, árið 1931, höfðu fjárlög ekki verið samþykkt og í því síðara rauf Ólafur Jóhannesson þing 1974 vitandi að vantrauststillaga væri í bígerð.
Geir var því ekki í öfundsverðri stöðu. En hann dó ekki ráðalaus heldur lagðist í að koma saman frumvarpi sem myndi róa Framsókn án þess þó að stressa eigin flokksmenn um of. Í samræmi við landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins, og reyndar flokksþingsályktun Framsóknar, er í frumvarpinu talað um náttúruauðlindir almennt, fremur en auðlindir sjávar, og lögð var mikil áhersla á að þetta myndi ekki vega að fiskveiðistjórnunarkerfinu eða hrófla við eignarréttinum.
Geir og Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, boðuðu síðan fund með formönnum hinna flokkanna og óskuðu eftir að afbrigði yrði samþykkt svo að málið gæti farið á dagskrá þegar á föstudag og helgina mætti nýta til nefndarstarfs. Stjórnarandstaðan hafnaði því, sagðist engan tíma hafa haft til að kynna sér frumvarpið og sakaði stjórnarflokkana um að brjóta allar vinnureglur varaðandi stjórnarskrárbreytingar. Þær ætti að setja fram í fullri sátt allra flokkanna. “Bíddu, var það sátt af ykkar hálfu að bjóða aðeins Framsókn í dans en vilja ekki hafa Sjálfstæðisflokkinn með?” gat Geir þá spurt. (Tekið skal fram að þetta er orðalag höfundar, ekki Geirs.)
Stjórnarandstaðan lét alveg ógert að hrópa húrra fyrir tillögunni og héldu sumir því fram að Framsókn hefði látið plata sig með frumvarpi sem nær ekki því fram sem flokkurinn sjálfur vildi.
Stjórnarandstæðingar hafa áhyggjur af því að í besta falli sé ákvæðið merkingarlaust en í versta falli festi það fiskveiðistjórnunarkerfið enn frekar í sess og munu því líklega leggjast harkalega gegn frumvarpinu nema veigamiklar breytingar verði gerðar á því, breytingar sem sjálfstæðismenn myndu aldrei samþykkja. Eða eins og einn stjórnarandstæðingur orðaði það: Ætla menn að vera hér til áramóta?
Því má ekki gleyma að tvö þing þarf til að samþykkja stjórnarskrárbreytingar og fáir telja líklegt að núverandi ríkisstjórn haldi völdum eftir næstu kosningar. Ef stjórnarandstaðan er öll á móti frumvarpinu, Sjálfstæðisflokknum eiginlega alveg saman, í hvaða meirihlutasamstarfi gæti Framsókn tryggt að frumvarpið komist í gegn?
Hugsanlega tók Geir áhættu en jafnframt má halda því fram að niðurstaðan hafi verið ljós fyrirfram.
Eftir stendur hann með pálmann í höndunum, búinn að róa Framsókn og æsa stjórnarandstöðuna. Framsókn þarf hins vegar að taka við skítkastinu, nú sem endranær. Og enginn stígur dans.
03.03.2007
Þingbréf
Birtist í Morgunblaðinu, 3. mars 2007
Líf og fjör í Framsókn
ÞAÐ ER ekki laust við að Framsókn hafi hleypt lífi í þingheim í vikunni og reyndar svo miklu að stjórnarandstæðingar tókust á loft seinni part fimmtudags. “Þetta gæti leitt til stjórnarslita,” pískruðu menn spenntir sín í milli.
Fjörið hófst á miðvikudag þegar félagsmálaráðherra tilkynnti hækkun á íbúðalánum úr 80% í 90% og um leið að hámarkslánsfjárhæð yrði 18 milljónir króna í stað 17. Þetta var eitt af helstu kosningaloforðum Framsóknarflokksins og ekki seinna vænna að efna það. “Þú verður að spyrja félagsmálaráðherra um það. Þetta er hans mál,” sagði Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, inntur eftir viðbrögðum í morgunútvarpi Rásar 1 sl. fimmtudag.
Þingmenn Sjálfstæðisflokks eru mishrifnir af þessu föndri framsóknarmanna og halda að það geti komið illa niður á efnahagsástandinu.
Kurrið í sjálfstæðismönnum minnkaði ekki þegar leiðtogar Framsóknarflokksins og ráðherrar, Jón Sigurðsson og Guðni Ágústsson, lýstu því skýrt yfir að Framsókn myndi ganga fast fram í að fá Sjálfstæðisflokk til að standa við stjórnarsáttmálann og setja inn ákvæði í stjórnarskrá þess efnis að auðlindir sjávar væru sameign þjóðarinnar. En stjórnarandstæðingar sperrtu eyrun. Samfylkingin hefur lagt mikla áherslu á að fá þetta ákvæði inn í stjórnarskrá en ekki náðist samkomulag um það í stjórnarskrárnefnd sem skilaði af sér nýverið. Sjálfstæðisflokkurinn var á móti.
Áður hafði verið samið um að stjórnarskrárnefnd myndi engu skila af sér nema í fullu samráði og leiddi það til þess að samstaða náðist aðeins um eina breytingu. Sjálfstæðismenn eru í sjálfu sér ekki á móti sameignarákvæðinu en eru hræddir við orðalag greinarinnar enda ljóst að a.m.k. hluti stjórnarandstöðunnar vill með þessu ákvæði ná í gegn breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þó verður að teljast ólíklegt að Halldór Ásgrímsson hafi haft það í huga þegar hann og Davíð Oddsson gengu frá stjórnarsáttmálanum á sínum tíma og Framsókn leggur raunar áherslu á að styrkja enn frekar löggjafarvald Alþingis í þessum efnum.
Framsókn þurfti líka að fara upp á afturfæturna í umræðum um Íraksstríðið sl. fimmtudag en stjórnarandstaðan þreytist ekki á að kalla eftir afsökunarbeiðni af hálfu leiðtoga flokksins. Stuðningur við Íraksstríðið var ekki að frumkvæði Framsóknar á sínum tíma en flokkurinn hefur engu að síður þurft að taka ábyrgð á því að leiðtoginn skuli hafa látið hafa sig út í það. Athygli vakti að sjálfstæðismenn voru víðs fjarri í þessum umræðum sem og þeim fyrrnefndu.
Það er gömul saga og ný að Framsókn reyni að skilja sig frá Sjálfstæðisflokknum rétt fyrir kosningar og Jón Sigurðsson áréttaði það enn frekar í stefnuræðu sinni á flokksþingi Framsóknar sem hófst í gær og heldur áfram í dag. Sjálfstæðismenn halda þó ró sinni enn sem komið er en þó er ólíklegt að allir þingmenn flokksins sýni jafn mikla þolinmæði og fyrir fjórum árum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur enda þegar komið sínum stærstu málum í gegnum þingið og hörð afstaða Framsóknarflokksins hefur orðið til þess að sumir spá því að ríkisstjórnarsamstarfi gæti verið slitið nú á lokasprettinum.
Framsóknarflokkurinn hefur allt að vinna enda hefur hann komið illa út úr skoðanakönnunum undanfarið. Þar sem undirrituð er stundum dálítið “svag” fyrir pólitískum tískubylgjum hefur hún áður gerst sek um að spá Framsóknarflokknum dauða. Sá fjöldi fólks sem sækir flokksþing Framsóknar nú um helgina sýnir þó að flokkurinn er sannarlega ekki dauður úr öllum æðum og ætlar sér stóra hluti í vor. Markmiðið er fylgið á miðjunni og til þess er teflt fram bæði unnum og óunnum verkum.
Á næstu dögum mun ráðast hversu hátt kurrið verður í sjálfstæðismönnum fyrir sólóleikjum Framsóknar undanfarna viku og á meðan höldum við sem fyrir utan stöndum áfram að skella fram spám og samsæriskenningum um það sem verður.