24.02.2007

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 24. febrúar 2007

 

Kosningaskjálfti og samstaða gegn klámi

 

Aðeins þrjár vikur eru eftir af starfstíma þingsins og ekki er laust við að örlítill kosningaskjálfti sé farinn að grípa um sig meðal þingmanna, ráðherra, frambjóðenda og almennra flokksmanna. Blaðamönnum er reglulega sendur tónninn og stundum mætti ætla að menn haldi að hér í (reyklausa) bakherberginu sé rekin kosningaskrifstofa fyrir alla flokka. Við erum ýmist sögð hygla ráðherrum of mikið, éta upp rausið í stjórnarandstöðunni, þagga niður stórmerkilegar fréttir eða leika okkur að því að fleygja fram röngum fyrirsögnum. En á meðan samsæriskenningarnar koma úr öllum áttum er víst engin ástæða til að hafa áhyggjur af þeim.

Um þessar mundir er enginn maður með mönnum nema hann spái því hvernig kosningarnar fara í vor. Til að vera ekki eftirbátur annarra kverúlanta set ég fram þá varfærnislegu spá að stjórnarsamstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sé liðið undir lok. Það er jafnframt í tísku að segja annað hvort að það sé þreyta í stjórnarsamstarfinu eða halda því fram að samstarfið hafi verið farsælt og aldrei betra en nú. Auðvitað er klisjukennt að benda á að of margt skilji á milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks því það er alveg sama hvaða tveir flokkar eru bornir saman, það er alltaf eitthvað sem skilur í milli.

Þreytan kemur hins vegar fram í því að svör við spurningum eru venjulega mikil upptalning á því hvað hefur verið gert. Erfitt getur verið að fá stjórnarliða til að ræða hugmyndir eða framtíðarsýn því allt snýst um áætlanir sem er búið að semja, skóflustungur sem hafa verið teknar og lagabreytingar sem hafa gengið í gegn. Úr tjaldbúðum stjórnarandstöðunnar kemur hefðbundin gagnrýni á að loforðin sem nú eru gefin séu mörg hver þau sömu og fyrir fjórum árum, verkin hefðu getað verið unnin fyrr og mestu þjóðþrifamálin sitji á hakanum. Auðvitað er ekkert lofað, þótt vel sé gert.

En þingmenn stíga líka stundum upp úr skotgröfunum. Með stærri málum líðandi stundar eru umhverfismál og til að halda fyrirsjáanlegum spádómum áfram þá verða þau meðal kosningamála vorsins. Í umræðum um virkjanir í neðri hluta Þjórsár sl. fimmtudag var töluverður samhljómur í þingsal. Þingmenn voru vitanlega ósammála um hvort virkjanastefnu stjórnvalda væri lokið eða ekki og hver bæri ábyrgð á áframhaldandi stóriðju, en fulltrúar allra flokka útilokuðu að Landsvirkjun gæti beitt eignarnámi vegna umræddra virkjana. Þetta þýðir að Landsvirkjun verður að ná samningum við landeigendur og þá hlýtur að vakna sú spurning, sem Björgvin G. Sigurðsson benti á, hvort náttúruverndarsamtök geti ekki boðið í jarðirnar á móti Landsvirkjun.

Þingflokkar á Alþingi náðu einnig saman um yfirlýsingu vegna svonefndrar klámráðstefnu sem stóð til að halda í Reykjavík aðra helgi. Sögðu flokkarnir það yfirlýst markmið sitt að vinna gegn klámvæðingu og vændi og þess vegna væri það í óþökk þeirra að ráðstefnan væri haldin hér á landi. Þetta eru töluverð pólitísk tíðindi enda líkast til í fyrsta sinn sem allir þingflokkar ná samstöðu um nokkurt mál sem tengist klámi eða vændi. Þrátt fyrir að klám sé ólöglegt á Íslandi hefur lítið farið fyrir eftirfylgni þeirra laga. Nægir að hringja í myndbandaleigur (ekki allar auðvitað) og spyrja hvort þar sé hægt að fá klám og þá er svarið iðulega já. Og er það klám? Aftur er svarið, já. Þótt lögin setji ekki fram neina skilgreiningu á klámi þá virðast framleiðendur, dreifingaraðilar og neytendur vera sammála um að um klám sé að ræða.

Þess vegna verður spennandi að fylgjast með því hvort framundan sé harðari barátta gegn klámi á Íslandi í framhaldi af afdráttalausri, þverpólitískri samstöðu sem náðist bæði á Alþingi og í borgarstjórn.

 

10.02.2007

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 10. febrúar 2007

 

Frjálslyndir og Tyrkjaránið

 

FRJÁLSLYNDA flokkinum barst enn meiri liðsstyrkur í vikunni þegar Kristinn H. Gunnarsson tilkynnti að hann gengi til liðs við flokkinn. Þingmennirnir eru nú fimm talsins og mögulegar uppstillingar flokksins í næstu kosningum eru mikið ræddar á Alþingi. Áhugasamastir um málefni Frjálslynda flokksins eru án efa þingmenn Framsóknar, sem hafa margt við innflytjendapælingar þeirra fyrrnefndu að athuga, og hafa gengið hart fram í að fá úr því skorið hvort hinir stjórnarandstöðuflokkarnir, þ.e. VG og Samfylking, geti sætt sig við þær. Enn sem komið er fer lítið fyrir svörum en á göngunum hvísla menn að Frjálslyndi flokkurinn sé smám saman að mála sig út í horn.

Augljóst er af yfirlýsingum framsóknarþingmanna að litlar líkur eru á samstarfi F-flokkanna tveggja eftir kosningar. Þótt sjálfstæðismenn hafi haldið sig til hlés í þessari umræðu þá heyrast raddir úr þeirra herbúðum að samstarf við Frjálslynda myndi ekki ganga upp. Það er samt kannski eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn stígi varlega til jarðar í þessum efnum enda hefur ríkisstjórn hans staðið fyrir umdeildum lagabreytingum í málefnum útlendinga. Skemmst er að minnast breytinga á útlendingalögunum á vorþingi árið 2004 sem vöktu mikla umræðu í samfélaginu. Ungliðahreyfingar allra stjórnmálaflokka mótmæltu frumvarpinu og þá sérstaklega svonefndri 24 ára reglu, sem kveður á um að maki yngri en 24 ára fái ekki sjálfkrafa dvalarleyfi á landinu, sem og því ákvæði að heimila Útlendingastofnun að taka lífsýni úr fólki sem sækir um dvalarleyfi.

Í umræðu á Alþingi var Jónína Bjartmarz, sem þá var varaformaður allsherjarnefndar, eini framsóknarþingmaðurinn sem tók til máls og gerði m.a. grein við fyrirvara sínum við 24 ára regluna. Framsókn greiddi engu að síður atkvæði með frumvarpinu en stjórnarandstaðan stóð sameinuð gegn því. Fremstur í flokki Frjálslyndra fór Magnús Þór Hafsteinsson, sem er hvað mest orðaður við “rasismadaður” í dag. Magnús mótmælti 24 ára reglunni og lífsýnatökum og sagði þær “lykta af nokkurs konar nesjamennsku sem kannski má útskýra með einhverri landlægri hræðslu sem liggur í þjóðarsálinni sem sennilega var plantað þar inn þegar Tyrkjaránin stóðu sem hæst árið 1627 eða þar um bil”. Magnús sagði að gera ætti ákveðnar kröfur til útlendinga en þótti skjóta skökku við að byggja lagasetningu á einöngruðum tilvikum. “Ég get ekki séð að slík einöngruð tilvik sem eflaust má einmitt rekja til þess að við erum sem þjóðfélag að laga okkur að því að það eru breyttir tímar og flutningur fólks sem er af erlendu bergi brotið er smám saman að aukast hingað til Íslands. Þetta eru miklu frekar dæmi um það að við erum sjálf í aðlögun ekki síður en það fólk,” sagði Magnús og blés á rökstuðning um að 24 ára reglan gæti hugsanlega komið í veg fyrir ofbeldi á konum. “Það er líka framið ofbeldi gegn íslenskum konum af íslenskum karlmönnum. Ég get ekki séð að þessi lagabreyting muni breyta nokkru þar um,” sagði Magnús.

Nú má spyrja hvort tónninn í málflutningi Magnúsar hafi breyst eitthvað síðan 2004 og hvort kannski hafi hlutverkin snúist við, þ.e. Frjálslyndir kalli á harðari lagasetningu en Framsókn vilji fara öllu með gát. Aðför Framsóknarflokksins að Frjálslynda flokkinum er að sjálfsögðu skiljanleg, eða hvaða flokkur kæmi annars fyrst til greina til að vera dreginn með í mögulega “vinstri stjórn” ef Frjálslyndir detta út?

Það breytir þó ekki því að Samfylkingin og Vinstri græn geta ekki hundsað spurningu Framsóknar því þetta er einmitt sama spurning og fjöldi kjósenda þeirra spyr sig.

 

10.02.2007

Ræða flutt á þingi KSÍ

10. febrúar 2007

Kæru félagar,

Það er margt sem mig langar að segja en þar sem fundarstjóri stýrir af svo miklum skörungsskap þá hvarflar ekki að mér að reyna að tala of lengi. Svo það er líklega vissast að koma sér beint að efninu.

Eins og gefur að skilja hafa nánast allar samræður sem ég hef átt undanfarinn mánuð snúist um KSÍ og fótbolta almennt. Formannskjörið er fólki ofarlega í huga, enda langt síðan kosið var um formann síðast. Í einni af þessum skemmtilegu samræðum barst talið að fráfarandi formanni, Eggerti Magnússyni.

Helsta hlutverk allra stjórnenda er að draga vagninn, ef svo má að orði komast. Þegar fram líða stundir hættir sumum til að slaka á og setjast jafnvel upp í vagninn. Eggert, sagði viðmælandi minn, er einn af þessum mönnum sem leyfði sér það aldrei.

Þarna held ég að baráttujaxlinum sem nú víkur úr embætti sé vel lýst. Og það væri mér sannur heiður að taka við vagninum, og þeim dýrmæta farmi sem hann geymir.

Sumir virðast halda að verði ég kjörin formaður KSÍ, ætli ég mér að fleygja öllu lauslegu úr vagninum, eða hreinlega skipta um vagn.

Það er hins vegar ekki rétt, enda fásinna að svo mikið sem hugsa til þess að kasta áratuga starfi fyrir róða.

Þvert á móti, mun ég halda áfram að draga vagninn, leggja rækt við þann góða farm sem hann þegar geymir, og ég mun aldrei setjast upp í hann.

Góð verk hafa verið unnin innan KSÍ, en eðlilega bíða sambandsins líka mörg ný verkefni

Vagninn er kominn að krossgötum. Nýr formaður þarf að ákveða í hvaða átt hann ætlar að stefna, og hvaða verkefni eru næst á dagskrá.

Ég hef kynnt stefnumál mín undanfarið og ég vona því að kjósendur viti hverjar mínar helstu áherslur eru. Ég hef fyrst og fremst ástríðu fyrir leiknum sem fótbolti er, og hver einasti iðkandi í landinu skiptir mig máli, hvort sem það er barn á sparkvelli, karl í íþróttahúsi eða kona í landsliði.

Formaður KSÍ er talsmaður fótboltans, bæði hér heima, sem erlendis. Hann er andlit íslensku knattspyrnunnar og tekur alltaf upp hanskann fyrir hana, ef að henni er vegið. Í samráði við stjórn sambandsins leggur formaðurinn línurnar. Hann hlustar á rödd iðkenda um allt land og reynir eftir fremsta megni að koma til móts við þarfir þeirra og væntingar.

KSÍ er samband allra félaganna í landinu. Það er jafnt samband 4. flokks kvenna á Fáskúrðsfirði, sem meistaraflokks karla í KR. Og það er hlutverk KSÍ að gæta hags allra sinna félaga.

Fái ég ykkar umboð til að starfa fyrir knattspyrnuna á Íslandi, getið þið treyst því að ég mun gera það með sóma.

Þegar vindurinn er í fangið mun ég leggja harðar að mér, og þegar vindurinn er með kemst ég hraðar.

Að þessu sögðu óska ég eftir stuðningi ykkar í kosningunni hér á eftir og lofa, að nái ég kjöri sem formaður KSÍ, mun ég draga vagninn af krafti og alúð, knattspyrnunni til heilla.

03.02.2007

 Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 3. febrúar 2007

 

Logn og jákvæðir verkir

 

Þótt rólegt hafi verið yfir Alþingi undanfarna viku er ekki laust við að það læðist að manni sú tilfinning að nú sé lognið á undan storminum. Áætlað er að slíta fundum um miðjan mars en fjöldi mála bíður afgreiðslu, t.d. samgönguáætlunin, sem er þegar farin að valda usla án þess að hún sé komin fram. Hún velkist nú um hjá þingflokkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, sem hafa óskað eftir meiri tíma til að kynna sér efni þessa doðrants. Varla er til viðkvæmara efni til umræðu svo skömmu fyrir kosningar en samgöngumál, enda þurfa þingmenn þá að hugsa um kjördæmið sitt frekar en flokkinn. Þannig eru Suðurlandsþingmennirnir uggandi yfir lagningu Suðurlandsvegar, verður hann 2+1 eða 2+2? Björgvin G. Sigurðsson segir að skollaleiknum þurfi að linna, samgönguráðherra verði að upplýsa hvort standi til að hlunnfara Sunnlendinga með þykjustu-tvöföldun. Samgönguráðherra biður menn að bíða þar til áætlunin kemur og skilur ekki hvers vegna Björgvin reynir sífellt að gera hann tortryggilegan. Hringir samt sjálfur í Ríkissjónvarpið og segir frétt um að til standi að leggja 2+1 ranga, en er það þá 2+2? Ekkert svar.

Í bakherberginu situr blaðamaðurinn og veltir fyrir sér hvort leitin að sannleikanum sé tilgangslaus, hann er líklega ekki til.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gagnrýnir gífurlegan hagnað bankanna. Geir H. Haarde segir að hún sé seinheppin því bankarnir séu svo ægilega góðir. Hver er seinheppinn? Ingibjörg segir að það sé óstjórn í efnahagsmálum, Geir segir efnahagsmál aldrei hafa verið betri. Blússandi þensla – blómstrandi efnahagslíf.

Valgerður Sverrisdóttir segir upptöku evru vera ágæta hugmynd. Flokksbróðir hennar og formaður, Jón Sigurðsson, stendur í ræðustóli á Alþingi og dásamar hina íslensku krónu í sömu andrá og hið íslenska hagkerfi og hina frjálsu íslensku þjóð. Hann talar um mikilvægi þjóðhyggju. Venjulegt fólk skilur ekki orðið en Jón segir það vera þjóðlega félagshyggju – áhersla á sameiginlega hagsmuni í þjóðfélaginu og á þjóðleg sjónarmið.

En þegar Frjálslyndir segja þjóð þá kippast allir við. Formaðurinn er óhress með kvótakerfið, má ekki heyra minnst á kvennakvóta en vill endilega taka upp kvóta á innflytjendur. Þeir keppa við Íslendinga um störf, segir hann. En samt vantar fólk í störf. Betra að láta aldraða og öryrkja vinna, segir hann. Ég ætla að spyrja ömmu hvort hún sé til í að byggja Kárahnjúkavirkjun.

Og Frjálslyndir koma stjórnarandstöðunni í bobba. Samstarfið sem gekk svo vel er allt í einu komið út á brún. Eru Samfylkingin og Vinstri græn tilbúin að vinna með flokki sem daðrar við rasisma? spyrja stjórnarliðar. Það er fátt um svör. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hljóta að minnsta kosti að vera með það á hreinu að þau vilji ekki starfa með Frjálslyndum eftir kosningar. Núna má fara sænsku leiðina frekar en þá dönsku. Í Svíþjóð hafna stjórnmálaflokkar samstarfi við öfl sem ala á þjóðernishyggju. Í Danmörku er þeim tekið fagnandi.

Og svo er endalaust spekúlerað, hvað verður um þingmennina sem ekki hefur verið plantað á lista, eins og fátt sé auðveldara en að skipta um flokk. Valdimar L. Friðriksson talar um Sundabraut í ræðustóli, ætli hann sé á leið í Suðurkjördæmi? Margrét Sverrisdóttir er orðuð við næstum alla flokka, nema kannski VG. Kristinn H. Gunnarsson gengur enn með grænt bindi, ætli það sé vinstri grænt eða framsóknargrænt? Kannski breytir hann í blátt.

Og svo er hagvöxturinn víst neikvæður á Vestfjörðum. Hvað næst, jákvæðir vaxtarverkir?