27.01.2007

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 27. janúar 2007

 

Spennufall og samkennd karla

SPENNUFALL er orðið sem fyrst kemur upp í hugann þegar litið er yfir liðna viku á Alþingi. Stjórnarandstaðan tilkynnti á mánudag að umræðum um Ríkisútvarpið ohf. væri lokið af hennar hálfu og gaf út sameiginlega yfirlýsingu um framtíð RÚV. Við blaðamennirnir höfðum sett okkur í stellingar fyrir langa þingfundi og sama má segja um þingmenn meirihlutans. Þessar snöggu málalyktir komu því dálítið á óvart og það var eins og það tæki fólk smátíma að átta sig á að þingfundir yrðu með hefðbundnara sniði. Allt datt í dúnalogn í Alþingishúsinu þegar þingflokkarnir funduðu hver í sínu horni á mánudag. Í framhaldinu fór dagskrá rólega af stað og þingfundum hefur lokið á tiltölulega fjölskylduvænum tíma alla vikuna.

Flest dagskrármálin hafa verið stjórnarfrumvörp í fyrstu umræðu. Þingmenn hafa þá lagt það til málanna sem þeim þykir nauðsynlegt að viðkomandi nefnd skoði en ekki hefur verið hrein andstaða við neitt þessara frumvarpa, heldur aðeins um smærri efniságreining að ræða.

Þingið tók þó smám saman við sér eftir því sem leið á vikuna og á fimmtudag voru umræður í upphafi þingfundar heldur fjörlegar þar sem ráðherrar voru m.a. sakaðir um að hafa breytt ráðuneytum sínum í kosningaskrifstofur. Ögmundur Jónasson setti spurningarmerki við það að ráðherrar gætu lofað öllu fögru rétt fyrir kosningar og þá oft fjárútlátum fyrir næstu ríkisstjórn. Þó þótti meirihlutaþingmönnum ómaklegt að vekja máls á þessu í tengslum við nýja stefnu í málefnum innflytjenda.

Frjálslynda flokknum barst liðstyrkur í byrjun vikunnar þegar Valdimar Leó Friðriksson tilkynnti að hann hygðist ganga til liðs við flokkinn. Þetta kom kannski ekkert svakalega á óvart enda hefur Valdimar verið orðaður við Frjálslynda í nokkurn tíma og athygli vakti þegar hann sat til borðs með þingflokknum í matsalnum nýverið.

Frjálslyndir eru þá orðnir jafnmargir og áður en Gunnar Örlygsson sagði sig úr flokknum á vordögum 2005. Vistaskipti virðast þó hafa mismikil áhrif á menn. Valdimar fílefldist eftir að hafa sagt sig úr Samfylkingunni og fór margfalt oftar upp í ræðustól. Lítið hefur hins vegar farið fyrir Gunnari á þessu þingi og hann hefur aðeins tekið sex sinnum til máls í allan vetur.

Kristinn H. Gunnarsson hefur einnig verið orðaður við Frjálslynda flokkinn, þótt hann hafi sjálfur engar yfirlýsingar gefið út þess efnis. Færi svo að Kristinn gengi einnig til liðs við Frjálslynda má ætla að flokknum gæti reynst erfitt að koma öllum þessum “þungavigtarmönnum” fyrir í kjördæmunum án þess að það vekti ákveðna úlfúð hjá “fólkinu á gólfinu”.

Líklegt er að einhverjar sviptingar verði hjá flokknum nú um helgina og ber þá hæst varaformannskjörið. Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, hefur tvisvar gefið út yfirlýsingu um stuðning sinn við Magnús Þór Hafsteinsson en mótframbjóðandi hans er sú kona sem hefur verið hvað mest áberandi í störfum flokksins, Margrét Sverrisdóttir.

Flokksforystan hefur fengið á sig gagnrýni fyrir harkalega aðför að Margréti og að karlarnir standi saman. Kvenlægar áhyggjur, kallaði Guðjón Arnar það í viðtali við RÚV.

Ósjálfrátt rifjast upp orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um samkennd kvenna á þingi. Eitthvað virðist þó fara meira fyrir samkennd karla í þessum efnum, ef marka má stórkarlalegan hlátur þegar formaðurinn sagðist ekki endilega þurfa að lýsa opinberlega yfir stuðningi við manninn sem stóð honum við hlið, en gerði það samt, tvisvar.

 

20.01.2007

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 20. janúar 2007

 

Langir þingfundir: Gísling eða málþóf?

 

Ég kom fyrst inn á Alþingi fyrir tíu árum, þá á fyrsta ári í menntaskóla. Sögukennarinn hafði sett okkur fyrir að heimsækja þingpallana og skrifa stutta ritgerð um eitthvert eitt málefni. Við vorum að læra um þrískiptingu ríkisvaldsins. Ég man ekki hvaða málefni ég valdi mér en ég man að það kom mér svolítið á óvart hvað það voru fáir í salnum. Nokkrum misserum áður hafði ég heyrt kennara gagnrýnda fyrir takmarkaða viðveru í skólastofunni og það misbauð réttlætiskennd minni gróflega að aldrei væri minnst á viðveru þingmanna í þingsal.

Á þessum tíma hefði mig líklega aldrei grunað að ég ætti síðar eftir að koma mér fyrir í einu bakherbergjanna og skrifa daglegar “ritgerðir” um það sem fram fer á Alþingi.

Undanfarin vika hefur verið heldur furðuleg fyrir nýliðann í bakherberginu enda fá mál verið rædd jafnmikið og eina málið á dagskrá – frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. Stjórnarandstaðan segir meirihlutann halda þinginu í gíslingu en meirihlutinn segir stjórnarandstöðuna koma í veg fyrir eðlileg þingstörf með endalausu málþófi. Báðir aðilar hafa líklega eitthvað til síns máls. Hefðbundnir dagskrárliðir hafa verið látnir víkja og fundað er frá hálfellefu á morgnana og fram til miðnættis, jafnvel lengur. Lengstu ræður vara í marga klukkutíma og ætla má að væru þingfundir ekki svona langir gæti tekið margar vikur að afgreiða RÚV-frumvarpið.

Stjórnarandstaðan hefur lagt sig fram um að fá meirihlutann til að samþykkja frestun á gildistöku laganna um RÚV fram yfir kosningar svo að þjóðin geti kosið um málið. Í þessu skyni hefur stjórnarandstaðan bæði formlega og óformlega þjarmað að Framsókn. Ástæðan er einkum sú að RÚV-frumvarpið má kenna við Sjálfstæðisflokkinn og allur sá tími sem fer í að ræða það gerir það að verkum að Framsókn kemst ekki að með þau mál sem eru flokknum líklegri til vinsælda, t.a.m. frumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð.

Framsóknarmenn virðast hins vegar ætla að standa með samstarfsflokki sínum og klára afgreiðslu RÚV-frumvarpsins enda er Sjálfstæðisflokkurinn ekki til viðræðu um breytingu á gildistökutíma laganna.

Þar sem stjórnarandstaðan er mjög ósátt við að brugðið hafi verið út af hefðbundinni dagskrá hefur hver þingfundur hafist með miklu karpi um störf þingsins og fundarstjórn forseta. Forseti hefur oft þurft að áminna fólk um að halda sig við það efni sem til umræðu er. Þingmönnum hættir nefnilega til að nota umræðutímann í aðrar bollaleggingar.

Ætla má að umræðan um RÚV-frumvarpið muni standa í a.m.k. eina viku enn enda mælendaskrá löng og ræðumenn margir ekki stuttorðir.