Viðhorfspistill
Birtist í Morgunblaðinu, 14. desember 2006
Hvert stefna Þjóðmál ?
Ég er ein af öllum þeim sem ná aldrei að lesa allt sem mig langar. Eitt af því sem hefur færst neðarlega í staflann er tímaritið Þjóðmál. Ég hef gluggað í nokkur heftanna en gaf mér í fyrsta sinn á dögunum tíma til að kynna mér almennilega efni eins tímarits, 3. heftis þessa árs.
Þjóðmál eru að mörgu leyti vandað tímarit. Það lítur vel út, fer vel í hendi og er ekki stútfullt af glansandi auglýsingum. Þá er þægilegt að hafa skoðanir, fræðiumræðu og pælingar manna sem eru á svipaðri pólitískri línu samankomna á einum stað. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, veltir t.a.m. fyrir sér stjórnmálum líðandi stundar en hann ætti að vera fyrirmynd annarra stjórnmálamanna þegar kemur að því að tjá sig í riti, hvort sem er í blöðum og tímaritum eða á vefsíðu sinni.
Sumar greinar í Þjóðmálum skýra vel afstöðu og rök hægri manna og er það vel. Aðrar halda á lofti undarlegum, jafnvel afturhaldslegum, hugmyndum sem eru tímaritinu ekki til sóma.
Af fjórtán greinum í áðurnefndu hefti er aðeins ein eftir konu, Sigríði Andersen. Greinin heitir “Því þéna karlmenn meira?” og er dómur um bók sem Sigríður segir vera sjálfshjálparbók fyrir fólk sem vill hærri laun. Miðað við dóminn virðist bókin þó ganga að nokkru leyti út á að réttlæta kynbundinn launamun, t.d. með því að benda á aðrar orsakabreytur en kyn, og halda því á lofti að karlar hafi verið með hærri laun því þeir hafi tekið meiri áhættu, verið í leiðinlegri störfum eða bara hreinlega verið svo duglegir.
Hræðsluáróður Hjartar J. Guðmundssonar í grein um “deyjandi Evrópuþjóðir” er dapurlegt innlegg í umræðu um innflytjendur hér á landi. Þar segir hann að ekki eigi að taka á móti fleira fólki hér á landi en “hægt er að aðlaga [svo] með góðu móti að íslenzku þjóðfélagi”. Hjörtur er nánast hysterískur í kvörtunum sínum yfir að “félagslegur rétttrúnaður” takmarki málfrelsi. Hann hlýtur að vita að málfrelsi snýst einmitt um að fólk megi tjá sig og þ.m.t. andmæla skoðunum þeirra sem halda á lofti kreddum um innflytjendur eða aðra þjóðfélagshópa.
Hjörtur lætur í veðri vaka að átök á Balkanskaganum séu eingöngu vegna þess að þar búi ólíkar þjóðir og þjóðabrot en minnist ekkert á hrun kommúnismans og hvernig Júgóslavía liðaðist í sundur. Sem sagnfræðinemi ætti hann að þekkja hversu margar breytur búa oftast að baki átökum.
Hræðsluáróðurinn nær hámarki með þeirri fullyrðingu að verði ekkert að gert vakni Íslendingar upp einn daginn “við þá staðreynd að fólkið sem byggir landið á ekki lengur neina samleið og þar með segir það sig sjálft að hér verður ekki lengur eitt þjóðfélag heldur mörg ólík sem hugsanlega munu eiga í innbyrðis deilum líkt og á Balkanskaganum.” Hvað er maðurinn að fara? Hvítir menn vopnist?
Eitt er víst að ég á miklu meiri samleið með íranskri vinkonu minni, búsettri hér á landi, en með Hirti. Erum ég og Hjörtur þá ólík þjóðfélög?
Ritstjóri Þjóðmála, Jakob F. Ásgeirsson, fer einnig mikinn um íslenska tungu og íslenskt þjóðerni í ritstjóraspjalli og kallar útvarp á pólsku og öðrum tungumálum “stórkostlegt skemmdarverk”.
Staðhæfing hans um að Bretland og Ísland hafi fylgt svipaðri stefnu í innflytjendamálum þar sem engar hömlur eru á er beinlínis röng enda hafa hömlur á innflutningi fólks hér á landi verið margfalt meiri en í Bretlandi.
Jakob hefur einnig áhyggjur af fóstureyðingum og staðhæfir að kristið fólk hljóti óhjákvæmilega að líta svo á að líf kvikni við getnað. “Er þögnin um fóstureyðingar til vitnis um að kristin viðhorf risti ekki ýkja djúpt með Íslendingum?” spyr hann. Aftur: Hvað er maðurinn að fara? Kristið fólk er ekki á einni skoðun í þessum efnum og það verður erfitt fyrir Jakob að gagnrýna bókstafstrú í framtíðinni.
Stefán Einar Stefánsson virðist á því að sniðug leið til að berjast gegn fóstureyðingum sé að persónugera fóstur og vísa í Biblíuna en grein hans ber heitið: “Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni” (úr 139. Davíðssálmi). Stefán fullyrðir, líkt og Jakob, að líf kvikni við getnað. Ef svo er þá þarf að fara að halda allt aðrar skrár yfir fjölda og dánartíðni Íslendinga.
Eins og Eyjólfur Þorkelsson og Karl Erlingur Oddason, læknanemar, bentu á í grein í Morgunblaðinu fyrir nokkrum mánuðum er eðlilegra að tala um meðgöngurof en um fóstureyðingu. Þar kemur einnig fram að langflest meðgöngurof fari fram fyrir tíundu viku meðgöngu og þá er um fósturvísi að ræða en ekki fóstur, en Stefán tönnlast á því síðarnefnda í greininni. Þá er talið að 60-70% fósturvísa, sem ekki er hreyft við, verði aldrei að barni.
Umræða um meðgöngurof þarf að byggjast á staðreyndum og vera með hag kvenna og kvenfrelsi að leiðarljósi en ekki “kristin gildi” íhaldssamra karla. Gaman væri t.d. að sjá Stefán Einar velta fyrir sér ábyrgð karla á getnaði frekar en að leggja til að innlendar frumættleiðingar verði efldar til að “verja lífsrétt fóstursins”.
Það veldur áhyggjum ef efni Þjóðmála ber vitni um þá átt sem hægrimenn (eða hluti hægrimanna) stefna í á Íslandi enda held ég þeir hafi margt skynsamlegra fram að færa en eigið kristna siðferði þegar kemur að fóstureyðingum og hræðsluáróður þegar kemur að alþjóðavæðingu. Fræði- og stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig alvarlega ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir skrifa í Þjóðmál með óbreyttu sniði.
06.12.2006Viðhorfspistill
Birtist í Morgunblaðinu, 6. desember 2006
Femínískar syndir
Við sátum nokkrir femínistar á öldurhúsi nýverið og ræddum femínískar syndir okkar í fortíð og nútíð. Ég viðurkenndi lúpuleg að hafa eitt sinn spurt félagsfræðikennarann minn af hverju karlar væru betri bílstjórar en konur. Ég man hvernig hún horfði þreytuleg á mig og ég áttaði mig á að kannski væri ég aðeins að ruglast. Samt stóð ég fast á mínu enda fátt hallærislegra á menntaskólaárunum en að breyta um skoðun á tveimur mínútum. Ég hafði ekki leitt hugann að því að karlar í kringum mig keyrðu einfaldlega oftar en konur sem og að karlar yllu almennt miklu fleiri umferðarslysum. Og ekki hvarflaði að mér að hörð karlmennskuímynd gæti e.t.v. ýtt undir glæfraakstur karla.
“Ég gifti mig ung og leit alveg svakalega upp til eiginmannsins,” sagði ein okkar og útskýrði hvernig karlinn varð hennar guð. “Ég var einu sinni að spá í að kaupa vændi vegna þess að ég var í Amsterdam og það virtist vera það sem maður átti að gera,” sagði annar og ein bætti við: “Já, ég sagðist alltaf vera jafnréttissinni.” Við hlógum dátt enda höfðum við öll á einhverjum tímapunkti haldið því fram að við værum jafnréttissinnar en myndum aldrei kalla okkur annað en femínista í dag. En hver er munurinn?
Forval Vinstri grænna fór fram sl. helgi og í anda kvenfrelsisstefnu sinnar hefur flokkurinn sett sér reglur um að jafnræði skuli vera við uppröðun á framboðslista, þ.e. að karlar og konur skipi jafnt efstu sæti. Konur hlutu mjög góða kosningu í forvalinu og lentu í fjórum af sex efstu sætum sem og sjö af tólf sem kosið var um. Sé reglum flokksins fylgt gætu tvær konur þurft að víkja fyrir körlum á framboðslistum í þremur kjördæmum suðvesturhornsins.
Nú er vandamálið ekki að það vanti fleiri karla á Alþingi. Þeir eru nú þegar 67% og þeim fjölgaði í reynd í síðustu kosningum. Samþykkt VG, sem á að vera í anda kvenfrelsis, gengur því gegn sínu upprunalega markmiði sem var auðvitað að tryggja hlut kvenna.
Hausatalningar eru bara einn hluti af jafnréttisbaráttunni og jafnréttisbaráttan er bara einn liður í kvenfrelsisbaráttunni.
Nýverið hélt ég nemendafyrirlestur við háskóla í Sydney í Ástralíu um samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Samningurinn er frá árinu 1979 og 185 ríki hafa skrifað undir hann, þar með talið Ísland. Ég byrjaði fyrirlesturinn á að spyrja hversu mörgum samnemenda minna þætti samningurinn skipta máli í dag. Tæpur helmingur rétti hikandi upp hönd. Hvorki kyn né þjóðerni virtist ákvarða afstöðu fólks en þess má geta að nemendur voru af mörgu þjóðerni og á öllum aldri. Kvennasamningurinn er afrakstur þrjátíu ára vinnu kvenna og félagasamtaka sem höfðu áttað sig á því að mennska kvenna nægði ekki til að tryggja þeim mannréttindi. Samningurinn snýst ekki um jafnrétti og kynjahlutleysi heldur einmitt um að afnema alla mismunun gagnvart konum. Kynhlutlaus lög eru því ekki nóg heldur getur þurft að grípa til sértækra aðgerða á borð við kvennakvóta. Með undirskrift hafa íslensk stjórnvöld viðurkennt að mismunun gegn konum sé til og skuldbundið sig til að gera eitthvað í því. Þetta þýðir að íslenska ríkið er femínisti samkvæmt skilgreiningu Femínistafélags Íslands sem segir að femínisti viti að jafnrétti kynjanna hafi ekki verið náð og vilji gera eitthvað í því.
Í áðurnefndri kennslustund spunnust miklar umræður um fæðingarorlof en Ástralía gerðist aðili að kvennasamningnum með fyrirvara um að ríkið gæti ekki tryggt konum launað fæðingarorlof. Tveir miðaldra karlar, báðir feður, voru afskaplega hrifnir “íslensku leiðinni” og annar þeirra sagði mér síðar að hann hefði aðeins fengið einn launalausan frídag þegar dóttir hans fæddist. Að sama skapi voru tvær ungar konur alfarið á móti þessari hugmynd og hlupu í alla staði í vörn fyrir ferðaveldið, ýmist með eðlishyggjuhugmyndum eða með því að hlýða þeirri undarlegu köllun sem blundar í svo mörgum okkar – að reyna að koma í veg fyrir breytingar á kerfinu. Ég varð fyrst dálítið pirruð út í þessar stallsystur mínar en áttaði mig síðan á að það er ekkert sjálfsagt að þær geri sér grein fyrir um hvað kvenfrelsi snýst, ekki frekar en ég þegar ég gerði félagsfræðikennarann gráhærðan um árið.
Ég leyfi mér að fullyrða að hefði ég verið að fjalla um samning um afnám allrar mismununar gagnvart blökkumönnum hefði allur bekkurinn talið hann mikilvægan, umhugsunarlaust. Ef helmingur Íslendinga væri blökkumenn og í kringum fimm hundruð þeirra leituðu sér aðstoðar árlega vegna ofbeldis af hálfu hvítra, þætti ekki öllum sjálfsagt að umfangsmiklum rannsóknum yrði ýtt úr vör og í framhaldinu aðgerðaáætlunum, menntun og fræðslu, eftirlitsmyndavélum og hverju einu sem er talið virka í baráttu gegn ofbeldi? (Árlega leita um 500 konur til Stígamóta og Kvennaathvarfs í fyrsta sinn).
Með femínískum fortíðarsyndum okkar félaganna á barnum höfðum við reynt að sverja af okkur femínisma og þar af leiðandi kvenfrelsi. Það er ekkert í femínisma sem kemur í veg fyrir að leiðrétta misrétti sem karlar verða fyrir. En það að afneita kvenfrelsi og horfa aðeins á kynhlutleysi er áframhald viðvarandi dýrkunar á eina “meirihlutahópi” heimsins; hvítum, gagnkynhneigðum, heilsuhraustum körlum. Hættum því!