25.07.2006

Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 25. júlí 2006

Kaupin á eyrinni

Þegar við vinkonurnar vorum yngri en í dag fannst okkur ógurlega gaman að spila. Við gátum setið heilu dagana og spilað. Við spiluðum rommý, veiðimann, ólsen ólsen, ólsen ólsen upp og niður, svindl-ólsen og skítikall. Fyrsta rifrildið okkar varð yfir “hæ gosa” enda stundum erfitt að átta sig á hver var á undan að heilsa að hermannasið þegar kóngurinn kom upp eða hrópa “hæ gosi” þegar sjálfur gosinn lá á gólfinu. En ósættið varði ekki lengi og við fórum bara að horfa á Fyrirmyndarföður í staðinn.

Stundum spiluðum við líka Scrabble eða Fimbulfamb, jafnvel Trvial Pursuit eða Matador. Mér fannst einna skemmtilegast í Matador og eiginlega mesta furða að ég hafi ekki lagt fyrir mig einhvers konar fjármálabrask miðað við ótrúlegan áhuga minn á fimmþúsundköllum.

Ef reglurnar í spilunum hentuðu okkur ekki þá breyttum við þeim og fórum eigin leiðir. Bólurani varð t.d. að gildu orði í Fimbulfambi, aðallega vegna þess að það var fyndið og þá gat leikurinn haldið áfram. Keppnisandinn var með, kannski óþarflega mikill hjá mér stundum, en mestu máli skipti að hafa sem mest gaman af spilinu. Okkar Matador-reglur leyfðu lán félaga í milli til að spilið væri ekki búið of snemma, þótt það hefði kannski þegar staðið í fjórar stundir.

Seinna lenti ég í mestu vandræðum með að spila Matador við Dani enda höfðu þeir allt aðrar hugmyndir en ég um framgang leiksins. Þeim fannst t.d. ekki eðlilegt að grípa teningana með hraði og kasta til að koma í veg fyrir sekt á Austurstræti eða Lækjargötu eða hrópa alltaf hátt “kaup’ana” (á íslensku auðvitað) til að koma í veg fyrir að andstæðingurinn næði að kasta áður en yfirlýsing væri komin um kaup.

Það er eiginlega frumskilyrði í spilamennsku að fólk sé sammála um reglurnar.

Ég veit ekki hvort George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, og Tony Blair, forsætisráðherra Breta, hafa einhvern tíma spilað hæ gosa. Þeir hafa þá alla vega klárað hæ gosa-ósættið sitt því þeir virtust hinir mestu mátar í kvöldverðarboði í Pétursborg á dögunum en þeir voru staddir þar vegna fundar leiðtoga valdamestu ríkja heims.
Blair trítlaði til Bush sem var með fullan munninn af brauði og sagði: “Jó Blair, hvernig hefurðu það? ”

Bush og Blair áttuðu sig ekki á að kveikt var á hljóðnema við borðið og samtalið náðist á band. (Reyndar finnst mér mjög skemmtileg sú kenning að Blair hafi vitað af hljóðnemanum en það er líklega bara vegna þess að ég er afskaplega hrifin af samsæriskenningum yfirleitt…).

Bush þakkaði Blair fyrir peysu sem hann hafði fengið að gjöf og þeir göntuðust með að Blair hefði keypt hana sjálfur, jafnvel prjónað hana. Svo ræddu þeir næsta leik í sínu spili þar sem spilaborðið er aðeins stærra en í gamla Matadorinu hennar ömmu.

“Hvað um Kofi? Hann virðist í lagi. Mér líst ekkert á þetta vopnahlésplan hans. Allt sem hann hefur að segja er vopnahlé og að allt leysist…” sagði Bush og vísaði til kröfu Kofis Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, um vopnahlé í Líbanon.

Blair stóð við borð Bush sem hætti auðvitað ekki að matast meðan þeir ræddu ástand heimsmálanna á líðandi stund. Bush sagði að “Condi”, Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, færi til Líbanon fljótlega (sem hún og gerði) en Blair virtist tilbúinn að fara þangað sjálfur ef því væri að skipta.

Blair: Það er bara, ég meina, þú veist. Ef hún hefur…, eða þyrfti á því að halda að jarðvegurinn yrði undirbúinn aðeins…Ef hún fer verður hún augljóslega að ná árangri. Ég gæti aftur á móti alveg farið þangað og talað bara.

Bush: Sjáðu til, það kaldhæðnislega er að allt sem þeir þurfa að gera er að fá Sýrland til að fá Hezbollah til að hætta þessu rugli og þá er þetta búið.

Bush orðaði þetta á sínu eigin tungumáli sem “stop doing this shit”. Ekki er vitað hverjir þessir “þeir” eru en uppi eru getgátur um að Bush hafi þarna verið að vísa til Rússa.

“Sjáðu til, hvað heldur hann? Hann heldur að ef allt gengur upp í Líbanon, ef lausn finnst á Ísrael-Palestínu, þá fari Írak á rétta braut,” sagði Blair um Kofi Annan. Þar sem upptakan er óskýr ber netmiðlum ekki saman um hvort Bush hafi í framhaldinu sagt Annan vera indælan (sweet) eða sagt hann vera að basla (struggling). Mér heyrist hið síðarnefnda þó hafa átt við sem og að Blair hafi ekki kallað Annan “elsku” (honey).

Einhverra hluta vegna minnir þessi undarlega sena mig á þegar við vinkonurnar spiluðum Matador og beygðum reglurnar eftir okkar vilja. Munurinn er kannski sá að við vorum að kaupa og selja helstu götur Reykjavíkur fyrir pappírspeninga en á meðan Bush talar með fullan munninn við Blair í Pétursborg er verið að bombardera fólk í Líbanon.

Og um hvað eru þeir að tala?

Mynd framan á The Australian, fimmtudag 20. júlí: Þrjár stelpur á að giska 12 ára með skriðdreka í baksýn. Ein er að skrifa á sprengju sem stendur til að varpa á svæði í suðurhluta Líbanon. “To Hezbollah, with love”. Önnur fylgist með og sú þriðja heldur á myndavél.

Mynd fyrir neðan: Lítill strákur á sjúkrahúsi, með sársaukagrettu á andlitinu, sáraumbúðir og allur í skrámum. Heldur utan um leikfangariffil sem hann hafði fengið í batagjöf. Hver þarf bangsa?

02.07.2006

Sunnudaginn 2. júlí, 2006 – Innlent – greinar

Hulinn heimur vændis

Vændi á Íslandi er hulinn heimur þeim sem ekki sækja í það en um leið umfangsmeira en flesta grunar. Halla Gunnarsdóttir gægðist undir yfirborðið og komst að því að eftirspurnin virðist helst vera frá giftum körlum milli fertugs og fimmtugs.

Vændi á Íslandi fer fram neðanjarðar í þeim skilningi að mál sem það snerta rata sjaldan inn á borð opinberra aðila eða félagasamtaka. Fólk sem er eða hefur verið í vændi er venjulega tregt til að ræða það. Leiti það sér hjálpar er það oft af öðrum ástæðum. Fólk sem kaupir vændi fer þó enn leyndara með það.

Dómsmálaráðuneytið lét gera skýrslu um vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess árið 2001. Þar er vændi skilgreint sem skipti á kynmökum fyrir greiða, peninga eða vímuefni og það sagt þrífast einkum í tengslum við nektardansstaði og í fíkniefnaheiminum. Greint er frá skipulögðu vændi meðal fullorðinna sem oft fer fram í gegnum Netið, símalínur eða með auglýsingum, tilviljanakenndu götuvændi, nauðarvændi unglinga í vímuefnaneyslu og barnavændi. Í skýrslunni Kynlífsmarkaður í mótun frá árinu 2003 er einnig fjallað um starfsemi erótískra nuddstofa og samkvæmt lögum virðist vera túlkunaratriði hvort starfsemi þeirra flokkast sem vændi.

Fyrir nokkrum árum hafði lögreglan í Reykjavík til rannsóknar starfsemi þriggja erótískra nuddstofa vegna gruns um að þar færi fram vændissala. Nuddstofurnar hafa allar hætt störfum í dag. Aðeins eitt málanna gaf tilefni til kæru en það er nú til meðferðar hjá Ríkissaksóknara sem ákveður hvort gefin verði út ákæra. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins geta sönnunarkröfur reynst býsna þungar. Í þessu tilviki fundust kreditkortareikningar nuddstofunnar og því var hægt að hafa samband við viðskiptavini. Eðli málsins samkvæmt getur þó reynst erfitt að fá þá til að tjá sig. Að öðru leyti hafa fá mál tengd vændi ratað inn á borð lögreglu í gegnum tíðina.

Mega ekki framkalla lögbrot

Á Íslandi eru reknir nektardansstaðir í Reykjavík, Kópavogi og í Keflavík. Áður var einnig dansstaður á Akureyri en hann er ekki starfræktur lengur. Lögreglan hefur eftirlit með þessum stöðum, aðallega með því að senda þangað einkennisklædda og óeinkennisklædda lögreglumenn. Þeir mega hins vegar ekki villa á sér heimildir séu þeir spurðir og ekki gera neitt í því skyni að framkalla lögbrot, eins og t.d. að óska eftir einkadansi eða vændi. Morgunblaðið hafði samband við Lögregluna í Reykjavík, Kópavogi, Egilsstöðum, Akureyri og Keflavík. Á Egilsstöðum og Akureyri sögðu yfirlögregluþjónar mál tengd vændi ekki rata inn á sitt borð nema í formi óstaðfestra sögusagna. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa m.a. gengið sögusagnir um vændi í tengslum við framkvæmdirnar á Kárahnjúkum. Sambærilegar sögur hafa ekki heyrst í tengslum við byggingu álversins á Reyðarfirði þótt þar sé einnig stór hópur aðflutts vinnuafls. Lögreglan í Reykjavík og í Keflavík starfa eftir lögreglusamþykktum sem banna einkadans. Lögreglusamþykktin í Kópavogi er öllu loðnari en samkvæmt upplýsingum þaðan er reglulega haft eftirlit með nektardansstaðnum Goldfinger en ekki meira eða minna en öðrum vínveitingastöðum í bænum. Í Keflavík er nektardansstaðurinn Strikið – Casínó. Lögreglan hefur eftirlit með honum hverja helgi og hefur ekki orðið vör við neitt misjafnt þótt sögusagnir um vændi spretti upp af og til. Um 10-30 viðskiptavinir eru oftast inni á staðnum um helgar en viðskiptavinum hefur farið fækkandi eftir að Strikið hætti að vera sá staður bæjarins sem hafði lengstan opnunartíma. Þá er talið að brotthvarf bandaríska hersins muni hafa töluverð áhrif á rekstur staðarins.

Lögreglan í Reykjavík þarf að fylgjast með öllu fleiri nektardansstöðum. Nektardans fer fram á Bóhem, Vegas og Óðali auk þess sem tveir kampavínsklúbbar eru reknir, annar í Lækjargötu og hinn í Hafnarstræti. Þeir hafa ekki leyfi fyrir nektardansi en gera mikið út á sölu á dýru kampavíni.

Jónas Hallsson, sem fer fyrir eftirliti með leyfaskyldri starfsemi fyrir Lögregluna í Reykjavík, segir að engar traustar vísbendingar séu um skipulagt vændi í tengslum við nektardansstaðina og kampavínsklúbbana. “Við erum reyndar oftast þeir síðustu sem heyrum um svona hluti. Orðrómurinn sprettur reglulega upp og það er líklega einhver ástæða fyrir því,” segir Jónas.

Viðmælandi Morgunblaðsins sem fór reglulega á Champagne Club í Hafnarstræti segir sér aldrei hafa verið boðið vændi eða orðið var við það á staðnum. Að hans sögn fara viðskiptin við staðinn þannig fram að konurnar koma og setjast hjá kúnnanum til að spjalla. Ætlast er til þess að kúnninn bjóði þeim í glas og þá aðeins kampavín sem kostar að lágmarki nokkur þúsund krónur. Viðmælandinn segir einkadans vera í boði á neðri hæð hússins og kosta þúsund krónur á mínútuna. “Ég var eiginlega orðinn hálf “hooked” á [háður] þessu. Síðan gerði ég mér grein fyrir að þetta er bara peningaplokk enda rándýrt að drekka þarna inni.”

Ekki náðist í eigendur Champagne Club en á vefsíðu þeirra segir að klúbburinn sé með sæti fyrir fjörutíu manns á jarðhæð og átta “einkaklefa” í kjallaranum. Þá standi til að koma upp veitingastað á annarri hæð með sérstökum einkaherbergjum fyrir “betri viðskiptavini”.

Lítið er vitað um starfsemi Strawberry Club í Lækjargötu en klúbburinn auglýsir gógó-stelpur og aðalmarkhópurinn er sagður vera útlendingar.

“Full þjónusta” á 30 þúsund

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru til dæmi um að menn fari inn á nektardansstaði og verði síðan varir við óvenjuháar kredit- og debetkortafærslur sem þeir telji sig ekki hafa veitt samþykki fyrir. Þó ber að geta þess að áfengi getur verið mjög dýrt á þessum stöðum og kampavínsflöskur eru seldar fyrir allt að tvö hundruð þúsund krónur. Dýrasta kampavínið á verðskrá Goldfingers kostar 192.000 kr. fyrir þrjá lítra. Ódýrasta glasið er á 4.500 kr. Ætlast er til þess að kúnnar kaupi áfengi bæði fyrir sjálfa sig og eina eða fleiri nektardansmeyjar og það er víst ekki vinsælt meðal starfsfólks að viðskiptavinir velji það ódýrasta. Goldfinger er eini staðurinn sem birtir verðskrá á Netinu. Fimm mínútna einkadans kostar sex þúsund krónur og ein klukkustund er á 60 þúsund krónur sem er sama verð og sagt er vera á Champagne Club.

Morgunblaðið hefur heimild fyrir því að maður hafi keypt það sem hann sjálfur kallaði “fulla þjónustu” fyrir 30 þúsund krónur á Goldfinger. Hins vegar eru ekki traustar heimildir fyrir því að staðurinn hafi milligöngu um vændissölu. Annar heimildarmaður Morgunblaðsins keypti einkadans á Goldfinger. Hann sagði hafa komið sér á óvart hversu langt dansinn gekk og hafi reglan um “engar hendur” einhvern tíma verið við lýði þá sé hún það ekki lengur. Konan tjáði honum jafnframt að þau gætu haft frekari viðskipti. Samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá Goldfinger starfa þar um sextíu nektardansmeyjar á ársgrundvelli. Sumar stoppa stutt en aðrar lengur. Meirihluti þeirra er útlendur en þó er nokkuð um að íslenskar konur ráðist til starfsins. Kúnnarnir eru að meirihluta útlendir. Vefsíður Bóhems og Óðals eru báðar á ensku. Á vefsíðu Bóhems segir að gestir geti notið sín í félagsskap ljúfra kvenna alls staðar að úr heiminum sem uppfylli allar þeirra óskir í vinsamlegu umhverfi þar sem þagmælsku er gætt. Boðið er upp á frían aðgang fyrir hótelgesti, þótt ekki komi fram hvaða hótel er átt við, sem og leigubíl frá hóteli að klúbbinum.

Samkvæmt vefsíðu Óðals fara dansararnir ekki úr nærbuxunum á sviðinu en á þriðju hæð hússins er víst boðið upp á “fully nude” dansa. Þar er jafnframt hægt að leigja herbergi til veisluhalda. Morgunblaðið hafði samband við Óðal en þar fengust ekki svör um fjölda starfsmanna eða viðskiptavina.

Viðmælendur Morgunblaðsins voru allir sammála um að vinsældir nektardansstaða hefðu dalað mjög. Um tíma fóru margir karlahópar á þessa staði og til voru fjölmörg dæmi um að herrakvöld á vegum fyrirtækja væru skipulögð með viðkomu á nektardansstað. Þetta er orðið óalgengara og svo virðist sem margir karlar hafi tekið ákvörðun um að heimsækja ekki þessa staði.

Fjárhagslegt sjálfstæði og $$

Vefirnir einkamal.is og private.is eru vinsælir hjá fólki í leit að félagsskap. Fólk getur auglýst eftir nánum kynnum eða skyndikynnum, með vináttu eða ástarsamband í huga. Langflestir sem auglýsa á þessum vefjum gera það í þeim tilgangi að komast í kynni við fólk og þó nokkur dæmi eru til um ástarsambönd sem þróast út frá slíkum kynnum. En vefirnir eru jafnframt notaðir til vændisauglýsinga þótt eigendur þeirra reyni að eigin sögn að koma í veg fyrir þær og fjarlægi reglulega auglýsingar. Á private.is er sérstakur hnappur sem notendur geta þrýst á til að tilkynna misnotkun á vefnum, t.a.m. vændisauglýsingar. Engu að síður er að finna á þessum vefjum auglýsingar sem gefa sterklega til kynna að um vændi sé að ræða.

22. maí sl. var þessi auglýsing sett inn á Einkamál: “Erum þrjár á mynarlegar konur á besta aldri ósaksum eftir skyndi kynnum við fjárhagslega sjálfstæða krlmenn helst 25,ára og eldri mega gjarnan vera giftir.veitum fjölbreytta þjónustu géfum kost á aðvera tværsaman,leitið nánari upplýsíga.” Klukkustund síðar hafði auglýsingin þegar verið skoðuð 85 sinnum en síðast þegar blaðamaður kannaði var hún horfin af vefnum. 27. júní setti “mjög myndarlegur og vel vaxinn” karlmaður inn auglýsingu þar sem hann auglýsti eftir fjárhagslega sjálfstæðum körlum og sagðist gæta 100% trúnaðar. Oft er auglýst eftir fjárhagslega sjálfstæðu fólki og ekki er óalgengt að auglýsendur setji dollaramerki með í skilaboðin. T.d. var þessi texti í auglýsingu sem var sett inn 23. júní og hafði nokkrum dögum síðar verið skoðuð 1.250 sinnum: ” … sértu fjárhagslega sjálfstæður og komin yfir 35 aldur, og ekki væri verra að þú værir giftur.sjálf er ég gift vantar spennu og $$,”.

Vitanlega er ekki hægt að fullyrða að þarna sé alvara á bak við auglýsingarnar eða að um vændi sé að ræða. Morgunblaðið hefur haft spurnir af því að karlar sem nota einkamálavefina í leit að kynnum við konur hafi lent í því að eftir spjall í gegnum Netið, t.d. með MSN-forritinu, hafi komið upp úr krafsinu að viðmælendur ætluðust til að fá greiðslu ef gengið væri lengra, s.s. að kveikja á vefmyndavélum eða hittast. Margir notendur, einkum konur, hafa einnig kvartað undan því að fá mörg ósæmileg svör við auglýsingum sínum, oft frá eldri körlum sem jafnvel bjóða peninga.

Erótískar nuddstofur auglýsa starfsemi sína á þessum vefjum sem og í dagblöðum gangi það eftir. Svo virðist sem nokkrar erótískar nuddstofur séu reknar á Íslandi. Þó getur verið erfitt að tala um nuddstofur þar sem stundum er bara um eina manneskju að ræða sem nuddar í heimahúsi. Nuddari er ekki lögverndað starfsheiti sem þýðir að hver sem er getur kallað sig nuddara. Erótískt nudd felur í sér að nuddarinn er fáklæddur eða nakinn og nuddar viðskiptavininn sem er nakinn. Gegnumgangandi regla í erótísku nuddi virðist vera að ekki sé boðið upp á samfarir eða munnmök. Morgunblaðið hefur hins vegar heimildir fyrir því að í nuddinu sé markmiðið að viðskiptavinurinn fái fullnægingu.

Vændi í laxveiðihúsum

Engar traustar vísbendingar eru um að annars konar “þjónustu” sé mögulegt að nálgast í gegnum nuddstofurnar og erfitt er að greina hvar línan liggur milli löglegrar og ólöglegrar starfsemi í þessum efnum.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur vændi átt sér stað í tengslum við laxveiðihús hér á landi. Til eru dæmi um að fyrirtæki hafi óskað eftir slíku fyrir erlenda viðskiptavini eða erlendir gestir komið á staðinn ásamt vændiskonum. Þá verða gestir sér stundum sjálfir úti um vændiskonur og fyrir nokkrum árum var reglulega sent eftir tveimur konum sem héldu til á gistiheimili í Borgarfirði. Þó er rétt að árétta að þeir sem vel þekkja til í laxveiðiheiminum eru á einu máli um að þetta heyri til undantekninga og sé að því er vitað sé óþekkt meðal Íslendinga sem stunda laxveiði fyrir alvöru. Morgunblaðið hefur einnig haft spurnir af því að ungur maður selji sig reglulega nokkrum konum í Reykjavík en ekki er vitað hvort eftirspurnin er mikil.

Hvað vændi meðal barna og unglinga varðar segist Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, vilja fara mjög varlega í að nota þetta hugtak í tengslum við börn. “Við þekkjum það að unglingar láti í té kynferðislega greiða fyrir aðgang að vímuefnum eða félagsskap sem þeim þykir spennandi. En vændi í þeim skilningi að börn og unglingar selji kynlífsþjónustu sér til framfærslu er held ég óþekkt hér á landi.” Bragi segir að unglingarnir líti ekki sjálfir á þetta sem vændi heldur sé þarna á ferðinni viðhorf sem endurspegli vissan siðferðisbrest. “Það má segja að unglingurinn eigi við alvarlegan vanda að stríða og þetta sé bara einn þáttur af mörgum.”

Í nýlegri könnun sem Barnaverndarstofa lét gera kom fram að 3,7% drengja og 1,7% stúlkna hafi veitt kynferðislegan greiða í skiptum fyrir inngöngu í partí eða eitthvað annað. Athygli vekur að drengir eru þar í meirihluta en að sögn Braga eru það sambærilegar niðurstöður og hafa fengist á Norðurlöndunum. “Ég tel að þetta sé oft þannig að það séu menn með annarlegar hvatir gagnvart unglingum sem eru tilbúnir að láta áfengi eða annað fái þeir t.d. að þukla á þeim,” segir Bragi en ítrekar að þetta virðist vera sjaldgæft.

Giftir karlar á miðjum aldri

Í vændisskýrslu dómsmálaráðuneytisins kemur fram að félagslegar aðstæður fólks sem selur sig séu oft bágbornar og að rannsóknir í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum gefi til kynna að á milli 50 og 90% þeirra hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Það eru helst Stígamót og meðferðarstofnanir sem fá til sín fólk sem hefur verið í vændi. Þau mál eru nánast undantekningalaust tengd fíkniefnum og/eða kynferðislegri misnotkun. Stundum leiðist fólk út í vændi vegna fíkniefnamisnotkunar en stundum er því öfugt farið. Svo virðist því sem önnur vændistilvik rati ekki inn á borð hjá samtökum eða stofnunum. Engu að síður er ljóst að vændi á sér stað með ólíkum hætti hér á landi og upp hlýtur að koma spurningin: Hverjir eru viðskiptavinirnir?

Miðað við orð Þóreyjar sem rætt er við í tengslum við þessa umfjöllun eru viðskiptavinirnir flestir giftir á miðjum aldri. Athygli vekur að það er einmitt sami þjóðfélagshópurinn og leitar í erótískt nudd til Önnu. Þórey og Anna segja mennina flesta vera í leit að tilbreytingu eða athöfnum sem þeir “fá ekki heima” eða myndu hreinlega aldrei biðja konurnar sínar um. Þetta er ekki ólíkt því sem Gísli Hrafn Atlason komst að í viðtölum við tuttugu danska vændiskaupendur. Viðtölin voru í tengslum við meistaraverkefni Gísla í mannfræði við Kaupmannahafnarháskóla þar sem hann rannsakar hvers vegna menn kaupa vændi. Viðmælendur Gísla voru flestir á aldrinum 40-50 ára og um helmingur giftur eða í sambúð. Mennina fann hann með auglýsingu svo það er ekki hægt að alhæfa út frá niðurstöðunum en engu að síður gefa þær vísbendingar um ákveðið hugarfar. Gísli segist geta skipt mönnunum í þrjá hópa. Í þeim fyrsta eru menn sem telja sig ekki “fá allt” í samböndum sínum eða skyndikynnum. Mjög er á reiki hvað þetta “allt” er. Annar hópurinn er yfirleitt aðeins eldri menn sem telja sig ekki fá “nógu mikið” og þar fer líka mörgum sögum af hvað telst “nógu mikið”. Í þriðja hópnum eru menn sem segjast ekki fá neitt kynlíf í samböndum sínum eða með skyndikynnum. Þetta segir Gísli þó að sé minnsti hópurinn. Að sögn Gísla samræmist þetta öðrum rannsóknum sem hafa verið gerðar á vændiskaupendum þótt þær séu ekki ýkja margar. Þannig sé það mýta að menn sem leiti til vændiskvenna séu í meirihluta menn sem af einhverjum ástæðum geta ekki “náð sér í konur” með öðrum hætti.

Gísli segir að það hafi komið sér á óvart hversu mikilvægt það var mönnunum að finna réttlætingu á því að þeir leituðu til vændiskvenna miðað við að vændi sé almennt ekki litið hornauga í Danmörku. “Þeir styðja mál sitt mjög með þeim hugmyndum að karlar þurfi mikið kynlíf og fái þeir ekki nóg fari allt í vitleysu. Vændi sé þá n.k. öryggisventill í samfélaginu. Þetta er ekkert ólíkt því sem vændiskonurnar halda oft fram sjálfar, að þær séu eiginlega stærsti hópur sálfræðinga landsins og vinni mikilvægt starf,” segir Gísli en bætir við að þegar vændi er keypt sé það venjulega mjög afmörkuð athöfn og lítill tími til spjalls eða annars.

Allir með réttlætingu á vændi

Að sögn Gísla höfðu mennirnir sem voru í sambandi oftast ekki rætt hugmyndir sínar um “allt” og “nóg” við maka sína. Allir voru þó með einhverjar réttlætingar á hvers vegna þeir þyrftu að kaupa vændi. “Fyrir utan einn mann var enginn sem sagðist hreinlega vera graður. Þeir skýrðu þetta allt og “normaliseruðu” þá hegðun sína og vændi um leið,” segir Gísli. Mennirnir höfðu flestir hugsað um hverjar aðstæður vændiskvennanna væru og þá sérstaklega með tilliti til mansals. “Þeir höfðu mikið velt fyrir sér hvort það væri þá slæmt að leita til útlenskra vændiskvenna en samt höfðu þeir allir prófað það og vissu auðvitað ekkert hverjar aðstæður þeirra voru. Þeir voru líka á því að götuvændi gæti verið hættulegt þar sem það væru mest fíkniefnaneytendur og þeir gætu smitast af sjúkdómum.”

Mennirnir álitu flestir mikilvægt að prófa bæði ólíka hluti og ólíkar konur, t.d. með tilliti til þjóðernis og útlits. “Þetta var eiginlega eins og vítahringur hjá þeim. Sumir voru svekktir annað hvort meðan á vændinu stóð eða eftir á og fengu kannski samviskubit. Þeir voru flestir á því að karlar þyrftu að losa sig við spennu því annars væri meira ofbeldi í samfélaginu og fleira í þeim dúr. En undir niðri virtust sumir vilja vera lausir við þetta. Þeir voru að leita að einhverju en sátu síðan uppi með sjálfa sig hvort eð er,” segir Gísli.

Á Íslandi eru engin sérstök meðferðarúrræði fyrir fólk sem hefur stundað vændi þótt almennt sé viðurkennt að félagslegar aðstæður þess séu frekar bágbornar. Á bak við hverja manneskju sem stundar vændi eru margir viðskiptavinir en um leið er ekki ólíklegt að hver viðskiptavinur leiti á fleiri en einn stað. Vændi er algengara en flesta grunar en fer einnig fram með mjög ólíkum hætti; allt frá símalínum og upp í mjög gróft ofbeldi. Eftirspurn eftir vændi er töluverð á Íslandi en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst Morgunblaðinu ekki að ná tali af vændiskúnna. Nokkrir sögðust þó hafa gert það í útlöndum og virtust margir síður telja það vafasamt en að kaupa vændi á Íslandi.

***

Þriðjudaginn 4. júlí, 2006 – Innlendar fréttir

Fréttaskýring | Lagaumhverfi vændis

Má kaupa en ekki selja

Ísland er eitt Norðurlanda þar sem vændi til framfærslu er refsivert

“Sænska leiðin” hefur vakið mikla umræðu.
Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is Einhugur í afstöðu til vændismiðlara Einhugur er um það hér á landi að það eigi að vera ólöglegt að hafa milligöngu um vændi, segir í greinargerð með frumvarpi að nýjum kynferðisbrotalögum.

Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is

Einhugur í afstöðu til vændismiðlara

Einhugur er um það hér á landi að það eigi að vera ólöglegt að hafa milligöngu um vændi, segir í greinargerð með frumvarpi að nýjum kynferðisbrotalögum. Þrjár leiðir hafa því einkum verið ræddar í tengslum við lagasetningu um vændi. Í fyrsta lagi að kaup og sala á vændi séu ólögleg, í öðru lagi að hvort tveggja sé leyfilegt og í þriðja lagi að kaup á vændi séu ólögleg en sú leið er venjulega kennd við Svíþjóð.

Ísland er eitt Norðurlanda þar sem refsivert er að stunda vændi sér til framfærslu. Þetta kemur fram í greinargerð með lagafrumvarpi sem dómsmálaráðherra lagði fyrir Alþingi fyrir skemmstu. Frumvarpið var ekki afgreitt á síðasta þingi en það kveður á um veigamiklar breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga, þar með talið hvað varðar vændi.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu sl. sunnudag er mikil eftirspurn eftir vændi á Íslandi og þá helst frá körlum milli fertugs og fimmtugs. Samkvæmt lögum er leyfilegt að kaupa vændi en bannað að selja það sér til framfærslu.

Í frumvarpinu er lagt til að vændi verði ekki lengur refsivert til framfærslu heldur aðeins að hafa milligöngu um það. Nú þegar er það síðarnefnda refsivert en þó er í lögum talað um að hafa atvinnu eða viðurværi af “lauslæti annarra” en ekki um vændi. Í frumvarpinu er hins vegar aðeins talað um vændi, m.a. með vísan til þess að orðið lauslæti sé gamaldags og hafi yfir sér neikvæðan blæ. Þar er jafnframt hert ákvæði um refsingu við að stuðla að því að manneskja flytjist milli landa til að stunda vændi með því að binda það ekki við að manneskjan sé undir 21 árs aldri eða að henni sé ókunnugt um tilgang fararinnar.

Hugmyndin um að aflétta sektinni af fólki sem stundar vændi sér til framfærslu er ekki ný af nálinni. Eins og bent er á í áðurnefndri greinargerð klofnaði allsherjarnefnd í afstöðu sinni til þessa við lagabreytingar á kynferðisbrotakaflanum árið 1992. Þingmennirnir sem vildu að sektinni yrði aflétt studdu mál sitt með því að einstaklingar sem stunduðu vændi gerðu það í mikilli neyð og að væru þeir sekir fyrir lögum væri ólíklegra að þeir leituðu sér hjálpar eða kærðu kynferðislegt ofbeldi.

Þetta eru sömu rök og hafa verið í umræðunni undanfarin ár; að manneskjur sem selji sig séu í flestum tilvikum illa settar andlega, líkamlega eða félagslega. Þær séu oftar en ekki þolendur sjálfar, t.d. vegna fátæktar, fíkniefnaneyslu eða kynferðislegrar misnotkunar. Skýrsla dómsmálaráðuneytisins frá árinu 2001 um vændi og félagslegt umhverfi þess hér á landi rennir enn frekari stoðum undir þessar hugmyndir en þar segir að fólk í vændi á Íslandi lýsi vonleysi, vanlíðan og hræðslu.

Verður vændi löglegt?

Samkvæmt lögum er refsivert að kaupa kynlífsþjónustu af barni sem er yngra en 18 ára. Hins vegar hefur mikið verið tekist á um hvort kaup á vændi fullorðinna eigi að vera refsiverð eða ekki. Meðmælendur þess vilja meina að kaupandinn hafi valið en ekki manneskjan sem selur sig eða er seld og vísa til bágborinna félagslegra aðstæðna fólks í vændi. Þeir sem eru á öndverðum meiði hafa sagt að sænska leiðin byggist á öðrum veruleika en er hér á landi og að ekki sé komin næg reynsla á löggjöfina. Ýmislegt bendi til þess að vændi hafi færst meira neðanjarðar og þótt sænsku lögin sporni gegn mansali geti það þýtt aukið mansal í öðru landi.

En verður vændi þá löglegt með lagabreytingunni?

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir svo ekki vera. “Því fer fjarri að verið sé að lögleiða vændi þótt lagðar séu til breytingar á hvaða háttsemi verði talin refsiverð,” segir Björn og bendir á hertari ákvæði gegn því að hafa atvinnu eða viðurværi sitt af vændi annarra og einnig á tillögur um breytt lög varðandi auglýsingar sem fela í sér að það yrði refsivert að bjóða fram, miðla eða óska eftir kynmökum við annan mann í opinberum auglýsingum. Það næði þá til auglýsinga í blöðum, tímaritum, útvarpi, sjónvarpi, á netmiðlum eða utanhúss, s.s. á auglýsingaskiltum.

Engin félagsleg úrræði

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að gera þurfi frekari rannsóknir á eðli og umfangi vændis á Íslandi. “Refsing hefur í sjálfu sér aldrei verið heppileg leið til að leysa félagslegan vanda og ef aðrar leiðir eru færar á frekar að velja þær. Það þarf að finna orsök vandans og reyna að koma í veg fyrir að fólk leiðist út í vændi,” segir þar.
Spurður um hvort frekari rannsóknir séu á döfinni eða vinna með félagsleg úrræði segir Björn að engar slíkar ákvarðanir hafi verið teknar en að væntanlega myndi slíkt heyra undir nokkur ráðuneyti.

Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður hefur gagnrýnt frumvarpið og segir að þarna gleymist meginatriðið í skýrslu nefndar sem dómsmálaráðuneytið fól að gera tillögur um úrbætur vegna kláms og vændis frá árinu 2002. “Það er verið að samþykkja vændi, þ.e. að hafa það ekki refsivert, en engin félagsleg úrræði koma á móti og heldur engar reglur um heilbrigðiseftirlit,” segir Atli.

Gjaldmiðillinn á götunni

Þórey er nýkomin úr vinnunni og gengur vasklega inn á barinn, einn af þessum börum í Reykjavík þar sem veruleikinn er annar fyrir innan en utan. Hún þekkir flesta gestina og barþjónana og er vel tekið. Þetta eru uppeldisfélagar hennar. Í þessum félagsskap breyttist unglingurinn í fullorðna manneskju.

Þórey er í dag um þrítugt og árin sem hún var á götunni eru helming ævi hennar. Hún hefur verið edrú í bráðum fjögur ár.

Klukkan er þrjú á sunnudegi. Á þessum bar skiptir svo sem ekki máli hvaða dagur er.

“Þessi tvö hafa verið par í fjöldamörg ár en það er eiginlega bara af því að þau ólust upp saman,” segir Þórey og bendir á konu og karl á barnum. Annar karlmaður kallar á konuna yfir barinn og hún verður hálftaugaveikluð og hleypur til hans. “Nú er Dóri [nafnabreyting blaðamanns] með fíkniefnin. Þá stjórnar hann og hún gerir eins og hann segir. Maðurinn hennar er skíthræddur við Dóra svo hann gerir ekkert,” segir Þórey og útskýrir að þetta sé ein tegund af vændi sem þrífist á götunni á Íslandi. Sá sem á fíkniefnin fer fram á það sem honum sýnist.

“Konurnar eru eiginlega gjaldmiðill. Þeim er ýtt á milli. Síðan er svo furðulegt að þær, já eða við því þetta var jú ég líka, tökum að okkur menn og pössum þá, eins og mæður með börn. Ég sá t.d. einum manni fyrir dópi í lengri tíma án þess að fá nokkuð í staðinn. Um tíma þurfti ég að selja mig 5-6 sinnum á dag til að eiga fyrir efnum fyrir okkur bæði.”

Brýtur konur markvisst niður

Á barnum heyrast reglulega reiðiöskur án þess að nokkur kippi sér upp við það. Þar er líka hlegið og þar falla stundum tár. Karlmaður sest við borðið og talar harkalega við Þóreyju. Kallar hana barn og hrópar á barþjóninn að fjarlægja barnið af staðnum. Þórey segir honum að steinhalda kjafti. “Þegar ég var þrettán og fjórtán ára sá hann mér fyrir efnum og misnotaði mig í staðinn. Hann seldi mig líka til annarra. Stundum vaknaði ég með menn ofan á mér. Þá hafði hann gefið mér dóp og síðan selt upp á mig,” útskýrir hún þegar hann er farinn.

Áður en Þórey var orðin fimmtán ára hafði Jói fundið hana. “Hann kom inn á barinn til að leita að stelpum eins og mér,” segir Þórey og lýsir því hvernig Jói nær tangarhaldi á ungum stelpum og gerir þær síðan út í vændi. Jói gerði Þóreyju að kærustunni sinni, gaf henni skartgripi og sá henni fyrir húsaskjóli. Smám saman fór hann að beita hana ofbeldi. Ofbeldið varð sífellt grófara og Jói seldi hana þeim sem kaupa vildu.

Þórey segir vændi vera mjög vítt hugtak. Á Íslandi séu nokkur hóruhús og síðan hafi vændi þrifist í kringum nektardansstaðina. Stundum selji konurnar sig sjálfar en stundum séu milliliðir. “Svo eru komnar fram stelpur sem selja sig og segjast hafa gaman af því. Þær velja þá kúnnana eftir því.”

“Ríkir og fínir menn”

Þórey útskýrir að í þessum tilvikum sé verið að selja það sem flestir myndu sjá fyrir sér þegar talað er um kynmök. Komi viðskiptavinirnir illa fram við stelpurnar geti þeir átt von á handrukkara sem segi þeim til syndanna. “Þær halda alltaf í eitthvað af virðingunni, geta kannski valið hverjum þær selja sig og hvað fer fram. Svona er það hins vegar ekki með konurnar á götunni. Þar er díllinn bara að kúnninn má gera hvað sem er við þær,” segir Þórey. “Ég lenti stundum á mönnum sem vildu bara konu til að berja sundur og saman. Og þeir gerðu það. Ég var svo brotin að virðingin var engin. Það eru til myndir frá þessum tíma og þá er ég alltaf með glóðarauga,” segir hún og hlær eins og fólk hlær að bernskubrekum sínum.

Þórey reynir að fá konurnar á barnum til að segja líka frá sinni reynslu. Þær tvær sem eru til viðtals eru í heldur annarlegu ástandi en treysta Þóreyju og reyna að segja frá. “Ég seldi mig í eitt ár en síðan hætti ég því,” segir önnur og fer svo að hlæja. “Það er sko nóg af mönnum sem vilja kaupa. Ég er líka svo sæt.” Hún hlær meira. Aðspurð hvernig menn þetta séu segir hún þá eiginlega alla vera gifta. “Þetta eru sko ekki mennirnir hérna inni. Onei, þetta eru fínir menn og ríkir. Þeir eiga nóg af peningum.”

Þessir menn koma stundum á barina í leit að konum til að kaupa og Þórey segir að allar konurnar selji sig sé þeim boðið það. “Það er ótrúlegt hvað fólk sem er háð fíkniefnum getur lagst lágt. Sjáðu t.d. Sísí [nafnabr. blm]. Það var karl sem keypti handa henni íbúð og gaf henni nóg af fíkniefnum en í staðinn gerði hann það sem honum sýndist,” segir Þórey og lýsir því hvernig hann kom einu sinni í viku og lét þvag og saur ganga yfir konuna. Sísi framdi sjálfsmorð. “Það er mjög merkilegt hvað mönnum dettur í hug að gera við þessar konur. Þeir berja þær, skera þær og troða alls konar hlutum inn í leggöngin á þeim. Ég held að þeir hafi þessar skrítnu hvatir en virði konurnar sínar of mikið til að gera þetta við þær. Þá er það auðvitað ágætur díll að borga 30 þúsund kall og fá að gera það sem þér sýnist.”

Þurfa á Konukoti að halda

Þórey segir að margar konur séu í þeirri stöðu að þurfa að selja sig fyrir húsaskjóli. “Þær líta kannski ekkert endilega á það sem vændi á þeim tímapunkti. En staðreyndin er að þær þurfa að gera það sem þeim er sagt til að geta haft þak yfir höfuð um nóttina,” segir Þórey og er mikið niðri fyrir þegar berst í tal að dagopnun Konukots, athvarfs fyrir heimilislausar konur, sé hætt. “Það er virkilega slæmt að þær skuli þurfa að fara út klukkan tíu á morgnana. Ef það er kalt úti og þær kannski veikar er alveg augljóst hvert þær þurfa að leita.” Hinar konurnar á barnum taka í sama streng. Þeim finnst út í hött að þjónusta Konukots sé skert, jafnvel þótt þær leiti ekki oft þangað sjálfar. “Það er þeim öryggi að vita af þessu. Þótt þær leiti ekki þangað núna þá gætu þær þurft á því að halda seinna, kannski í næstu viku,” segir Þórey og bætir við að svona starfsemi þurfi langan tíma til að sanna sig fyrir fólki í þessari stöðu.

Kúnnar úr öllum stéttum þjóðfélagsins

Það er kaldur vordagur þegar blaðamaður Morgunblaðsins sest niður með Önnu á einu af betri kaffihúsum bæjarins. Anna er vinsamleg ung kona með smitandi hlátur. Hún rekur erótíska nuddstofu í eigin íbúð í Reykjavík. Á nuddstofunni er nuddarinn, sem er alltaf kona, annaðhvort nakinn eða í nærbuxum og notar allan líkamann til að nudda viðskiptavininn, sem er alltaf karl, enda lítil eftirspurn frá konum. Anna segir að aldrei sé boðið upp á munnmök eða samfarir og snerting kynfæra sé ekki leyfð. “Ég ætti nú eiginlega ekki að tala við þig,” segir hún brosandi. “Í hvert skipti sem einhver umfjöllun birtist um erótískar nuddstofur hrynja viðskiptin niður í viku eða svo því kúnnarnir verða svo stressaðir.”

Anna hefur unnið í ólíkum störfum í gegnum tíðina, m.a. á sjúkrahúsi og sem þjónn. Um tíma vann hún fyrir sér sem nektardansmær. “Ég var dansari í hálft ár en mér fannst það alltaf frekar erfitt. Ég drekk ekki og reyki ekki og mér var illa við að vera alltaf að vinna langt fram á nótt. Á þessum stöðum gengur þetta mikið út á að fá karlana til að kaupa kampavín. Ég þurfti því að láta eins og mér þætti vínið gott en læddist oft inn á klósett og hellti því niður.” Klúbburinn sem Anna vann á fór á hausinn og hún fékk ekki greidd laun síðustu tvo mánuðina.

Nokkrum árum síðar fór hún að vinna á erótískri nuddstofu, að eigin sögn þar sem hana vantaði peninga. “Ég ákvað síðan að fara af stað með minn eigin rekstur enda finnst mér betra að vinna sjálfstætt og stjórna tíma mínum sjálf,” útskýrir Anna en fyrst um sinn var hún ein í rekstrinum. Nýverið ákvað hún að ráða stelpur í vinnu en segir að það sé erfitt að finna réttar manneskjur, m.a. vegna þess hve erfitt er að auglýsa. “En ég er með þrjár stelpur í vinnu núna, tvær útlendar og eina íslenska. Ég svara í símann, þríf og þvæ þvottinn og nudda líka stundum. Þær mæta bara á staðinn og nudda. Þetta eru stelpur sem hafa verið hér á landi í ólíkum störfum en vilja meiri peninga og ákváðu því að slá til. Ég legg mikla áherslu á að þær hvíli sig ef þær þurfa. Stundum lendir maður á leiðinlegum viðskiptavini og þá verður maður að taka sér frí,” segir Anna og bætir við að eina ástæðan fyrir því að hún vinni þessa vinnu sé peningar. “Þetta er ekki beint mjög gefandi starf en launin eru góð og mér finnst gaman að nudda. Hver veit nema ég læri það einhvern tíma síðar.”

“Hvernig er það á litinn?”

Önnu er mikilvægt að hafa reksturinn löglegan. Hún vill alls ekki hafa fólk í vinnu sem notar fíkniefni og leggur áherslu á að stelpurnar sem eru í vinnu hjá henni séu löglega á landinu og hafi ekki komið hingað gagngert til að starfa sem erótískir nuddarar.

Anna giskar á að hún fái að meðaltali tvo kúnna á dag. Suma daga er mikið að gera, aðra ekki neitt. Hins vegar stoppar síminn varla hjá henni meðan á viðtalinu stendur og hún svarar lágri röddu: “Erótískt nudd, góðan dag.” Hún þylur síðan upp verðið. Frá tíu þúsund krónum og upp í 35 þúsund eftir lengd nuddsins og hvort konan er í nærbuxum eða ekki. Anna er greinilega hörð í horn að taka ef menn eru með eitthvert vesen. “Hvernig er hvað á litinn? Ertu að tala um stelpurnar? Þú talar um þær eins og einhvern hlut. Þær eru hvítar,” segir hún harkalega í símann við einn kúnnann. Skellir síðan á og segir að hann hafi spurt: “Hvernig er það á litinn?”

Anna segir að flestir hringi til að forvitnast um verð. “Menn spyrja oft hvernig konurnar líti út. Vilja t.d. ljóshærða konu með stór brjóst, oft andstæðuna við eiginkonu sína. Þetta eru oftast menn sem hafa verið giftir lengi,” segir Anna og bætir við að eftirspurn eftir vændi sé mikil. “Á hverjum degi er spurt hvort ekki sé boðið upp á samfarir. Menn spyrja jafnvel aftur og aftur og bæta því við að þeir séu bæði ríkir og myndarlegir. Ég fæ mikið af skrýtnum spurningum og það getur verið þreytandi að fá nokkur svoleiðis símtöl á dag. Sumir virðast ekki skilja að þetta er staður til að láta dekra við sig en ekki til að láta allar sínar skrýtnu fantasíur rætast. Í venjulegri vinnu er lægra kaup en maður losnar allavega við að heyra svona rugl á hverjum degi. Þetta tekur á tilfinningalega,” segir Anna en bætir við að sem betur fer séu flestir sem hringja kurteisir. “Ég þarf stundum að setjast niður og minna mig á að þetta er bara starf og að það séu ekki allir menn eins og margir þeirra sem ég hitti í vinnunni. Ég lifi af þessu en stundum finnst mér eins og fólk sé bara hálfklikkað. Menn segjast jafnvel vera hrifnir af mér. En þeir vita auðvitað ekki neitt um mig, hvað mér finnst gott að borða eða hver uppáhaldsliturinn minn er. Hrósið sem maður fær sem erótískur nuddari snýst líka minnst um hver maður er heldur fyrir hvað maður stendur í þeirra huga.”

Anna ítrekar að það sé í færri tilvikum en fleiri að hún lendi í vandræðum með viðskiptavini. “Það gerist samt stundum að menn reiðast ef þeir fá ekki það sem þeir vilja eða segjast hafa fengið annars staðar, t.d. munnmök. Það er skrítið að sjá þessa rólegu fjölskyldumenn breytast á örskömmum tíma. Ég reyni þá bara að halda ró minni og segja þeim að reglurnar hjá okkur séu skýrar.”

Vinnugallar og jakkaföt

Anna segir viðskiptavinina vera úr öllum stéttum þjóðfélagsins og það eina sem þeir eigi sameiginlegt sé að vera flestir giftir og milli fertugs og fimmtugs. Af og til komi ungir menn en séu þeir of ungir fá þeir ekki nudd. “Ég sé það stundum á klæðaburðinum hvaðan mennirnir koma. Sumir eru í vinnugalla en aðrir í fínum jakkafötum. Ég held að hluti þeirra sé ekki endilega að leita bara eftir erótík heldur hreinlega snertingu og athygli,” segir Anna. “Einn kúnni kom einu sinni í viku til að tala! Merkilegt að borga 35 þúsund á tímann fyrir það í staðinn fyrir að fara til sálfræðings sem kostar fimm þúsund. Aðrir tala auðvitað ekki neitt. Ég skil það mjög vel enda nenni ég aldrei að spjalla ef ég er í klippingu eða eitthvað þvíumlíkt.”

Anna segir að fólki sé oft brugðið þegar það heyrir að hún vinni sem erótískur nuddari. “Það fer kannski ekkert vel við persónuleika minn,” segir hún og hlær. “Ég er bara ósköp venjuleg stelpa. Mér finnst gaman að föndra, fara á kaffihús og hitta vini mína. Og ég trúi á ástina, þrátt fyrir það sem ég sé, og tel mig vera rómantíska konu,” bætir hún við hugsandi og dreymin í senn. “Ég skil reyndar ekki af hverju fólk verður alltaf svona hneykslað. Á Íslandi er framhjáhald alveg hræðilega algengt. Ég skráði mig t.d. einu sinni á Netinu og sagðist vera að leita að vini. Ég fékk hundrað skilaboð á einum degi. Mestur hlutinn var giftir karlar sem voru eldri en foreldrar mínir og síðan pör sem jafnvel buðu borgun.”

Anna hefur ekki verið í ástarsambandi frá því hún byrjaði að vinna sem erótískur nuddari. “Mér finnst það ekki sanngjarnt því ég myndi ekki vilja að kærastinn minn væri nakinn fyrir framan aðrar konur. En ég er smám saman að reyna að nudda sjaldnar og sjá frekar um að svara í símann og svoleiðis. Svo er ég auðvitað orðin 25 ára og fólk í kringum mig er farið að eignast börn, kannski þyrfti ég að fara að huga að því,” segir Anna brosandi.