19.02.2006

 

Grein frá Malí í vesturhluta Afríku
Birtist í Morgunblaðinu, 19. febrúar 2006

Leiðin til Timbúktú

Þrátt fyrir að margir þekki ekki höfuðborgina í Malí þá virðast flestir Íslendingar einhvern tíma hafa heyrt minnst á Timbúktú. Halla Gunnarsdóttir segir hér frá ferð sinni til þessarar eyðimerkurborgar sem oft er kölluð endapunktur veraldar.

Flugvöllurinn í Bamako, höfuðborg Malí í V-Afríku, ber það ekki með sér að vera alþjóðlegur flugvöllur. Það er mið nótt þegar ég stíg hikandi út úr vélinni og dreg andann djúpt. “Ætli þetta sé þessi lykt af Afríku sem fólk talar um?” hugsa ég en minni mig um leið á hvað Afríka er stór og að lyktin af flugvélabensíni eigi sennilega ekkert skylt við eyðimörk eða frumskóga.

Myrkrið gerir ókunnugleikann enn meira framandi en ég finn fyrir létti þegar alvarlegur maður stimplar vegabréfið mitt. Ég er stöðvuð við útganginn og beðin um kvittunina fyrir farangrinum. Ég leita og leita en finn hana hvergi. Flugvöllurinn er nánast orðinn mannlaus en ég stend eins og þvara með bakpokann minn og horfi bænaraugum á konuna í einkennisbúningnum sem talar enga ensku og franskan mín nær ekki lengra en að panta kaffi með mjólk.

Frönskumælandi Ástrali, búsettur í Marokkó, kemur mér til hjálpar og honum er vísað yfir til karlmanns sem fer kurteisislega fram á mútur fyrir að hleypa mér af flugvellinum með farangurinn. Að öðrum kosti hefur hann fundið upp mikla pappírsvinnu. Mér er það þvert um geð en rétti karlinum 2000 CFA franka sem nemur um það bil 200 íslenskum krónum. Hann brosir og býður mig velkomna til Malí.

Lýðræðisríki frá 1992

Malí er eitt af tíu fátækustu ríkjum heims og er mjög háð aðstoð frá erlendum ríkjum. Tveir þriðju hlutar íbúanna lifa undir fátæktarmörkum og ungbarnadauði er svo algengur að talið er að um tólf af hverjum hundrað ungbörnum deyi.

Malí var frönsk nýlenda frá 1880-1960 en þá tók við þrjátíu ára tímabil þar sem landinu var stýrt af misgáfulegum einræðisherrum. Mikil mótmæli áttu sér stað í upphafi tíunda áratugarins sem skiluðu landsmönnum nýrri stjórnarskrá og lýðræði sem margir álíta til fyrirmyndar fyrir önnur ríki V-Afríku.

Stjórnarskráin gerir ráð fyrir fjölflokkakerfi að því undanskildu að ekki er leyfilegt að stofna stjórnmálaflokk á grundvelli ákveðins menningarhóps, trúarbragða, svæðis eða kynferðis. M.ö.o. mætti kristilegur eða íslamskur flokkur ekki starfa í Malí og ekki gæti kvennalisti boðið fram til þings. Þjóðin kýs sér forseta á fimm ára fresti sem þó má ekki sitja lengur en tvö kjörtímabil. Forsetinn heitir Amadou Toumani Touré og var einn hershöfðingjanna sem leiddi uppreisnina árið 1991. Fjölmiðlar eru frjálsir í Malí og lagaumhverfi hvað varðar mannréttindi er talið gott.

Flestir íbúar Malí eru múslimar eða um 90%. Aðrir eru kristnir eða andatrúar. Franska er opinbert tungumál en það er annað eða þriðja tungumál flestra. Stærstur hluti talar bambara.

Malí er ríflega 1.200 ferkílómetrar sem gerir það tólf sinnum stærra en Ísland. Norðurhluti landsins er þó mestmegnis eyðimörk svo stærstur hluti þeirra 12 milljóna sem búa í landinu býr í syðri hlutanum. Bómull er helsta útflutningsvaran og efnahagurinn því mjög viðkvæmur fyrir heimsverði á bómull og viðskiptasamningum þar að lútandi.

Flestir landsmenn eru bændur eða veiðimenn en um 10% eru hirðingjar. Yfirvöld Malí stefna á frekari útflutning á gulli og nú þegar eru nokkur erlend fyrirtæki búin að hasla sér völl í gullnámum landsins.

Sætt eins og ástin

Bamako, höfuðborg Malí, fer sístækkandi enda færast flutningar úr sveit í borg sífellt í aukana. Í landbúnaðarhéruðunum eru næg verkefni hluta úr ári en ungt fólk ferðast oft til borganna í leit að nýjum tækifærum. Á hverju götuhorni eru sölumenn. Þótt betlarar séu margir á íslenskan mælikvarða geta þeir vart talist margir miðað við fátæktina í landinu. Áin Níger, önnur tveggja lífæða Malí, rennur í gegnum Bamako. Þar þvo konur þvotta og karlar sigla út til fiskveiða. Víðs vegar má sjá unga menn með saumavélar á öxlunum á leið til vinnu.

Ég spyrst fyrir um rútu til litla þorpsins Sibi suðvestur af Bamako. Fyrr en varir sit ég í litlum sendiferðabíl sem er með bekkjum meðfram veggjunum. Gólfflöturinn er á að giska sex fermetrar. Ég kem mér vel fyrir en smám saman fjölgar farþegum og ég er orðin klesst milli konu og karls sem bæði sitja með börn í fanginu. Ég hugsa með mér að nú komist varla fleiri inn enda erum við orðin sextán fullorðin í þessu litla rými. Ég er greinilega of bjartsýn því enn bætast sex manns í hópinn.
Meirihluti landsmanna býr í litlum þorpum með 500-2.000 íbúum. Sibi er eitt þessara þorpa. Ég kem út úr bílnum jafnvel ringlaðri en ég var þegar ég fór inn í hann og spyrst fyrir um Kamara fólkið sem býður víst upp á gistingu. Vegna takmarkaðrar frönskukunnáttu minnar horfa þorpsbúar bara undrandi á mig. Loks finn ég þó veg minn til hr. Seagu Kamara sem ræsir út eina af eiginkonunum sínum til að elda ofan í mig kvöldmat. Ég kem mér fyrir í litlum kofa með stráþaki og naga mig í handarbökin yfir að hafa gleymt vasaljósi. Hr. Kamara á þrjár eiginkonur en hann er ekki alveg viss um hvað hann á mörg börn. Hann er snjall maður og hefur í gegnum tíðina tekist að lokka til sín þó nokkra ferðamenn sem njóta kyrrðarinnar í þessu litla þorpi.

Mohamadu og Ben halda mér félagsskap á kvöldin en sá síðarnefndi talar örlitla ensku. Þeir hita te eftir kúnstarinnar reglum en venjan er að drekka þrjú glös. Það fyrsta er sterkt eins og lífið, næsta er sætt eins og ástin og það þriðja biturt eins og dauðinn. Mohamadu og Ben segja mér frá lífinu í Malí og ég segi þeim frá lífinu á Íslandi. Baráttan við hversdagsleikann sameinar okkur en ólíkir hversdagsleikar skilja okkur að.

Fyrstu nóttina í Sibi á ég mjög erfitt með að festa svefn. Kakkalakkarnir á kamrinum virðast hafa tekið sér bólfestu í huga mér. Hænunum þykir einstaklega skemmtilegt að vappa um á þakinu og ég á erfitt með að gera mér grein fyrir hvaðan öll þessi hljóð koma. Falski asninn og geitin sem búa fyrir utan hjá mér hjálpa ekki til.

Vegurinn til Bamako

Hr. Kamara færir mér dísætt te og brauð í morgunmat og sýnir mér litla fjallið sem þorpið státar af. Í Sibi snýst allt um veginn sem er verið að leggja frá Gíneu-Bissá til Bamako. Alþjóðabankinn leggur út fyrir framkvæmdunum en að öðru leyti er verkið í höndum fyrirtækis frá Túnis. Fjöldi fólks, þar á meðal félagi minn Ben, starfar við að leggja veginn sem átti að vera tilbúinn í fyrra en framkvæmdirnar munu líklega taka eitt ár enn. Ben segist vera orðinn þreyttur á þessari miklu vinnu og á fjarveru frá fjölskyldu sinni í Bamako. “Við vinnum myrkranna á milli en uppskerum frekar lítið,” segir hann alvarlegur.

Vegur í gegnum þetta litla þorp þykir ekki skerða lífsgæði íbúanna heldur einmitt auka þau til muna þar sem fólkið getur nú komið vörum sínum á markað með auðveldari hætti. Þessi vegur er líka ástæðan fyrir því að það tekur mig ekki nema einn og hálfan tíma að komast aftur til Bamako.

Ég skipti um rútustöð og undirbý mig andlega fyrir tólf tíma rútuferð til hafnarborgarinnar Mopti. Rútan er nokkuð þægileg, a.m.k. fyrir mig, en ég get ímyndað mér að það fari ekki eins vel um fólkið sem situr á gólfinu eða geiturnar sem er búið að koma fyrir uppi á þaki og í farangursrýminu. Fyrir aftan mig situr kona með hænu og ég minnist þess að hafa lesið á einhverri vefsíðunni að í Malí séu 22 milljónir kjúklinga.

Sagðist vera múslimi

Lífið við Níger setur mikinn svip á Mopti sem er miðstöð verslunar og þjónustu. Alls staðar eru sölumenn sem reyna að sannfæra ferðafólk um nauðsyn þess að eiga hina og þessa minjagripi eða um að kaupa teppi til að verða ekki of kalt á næturnar á leiðinni til Timbúktú.

Ég velti því lengi fyrir mér hvort það sé í alvörunni þess virði að fara til Timbúktú. Ferðin er löng og flestir ferðalangar segja að þar sé ekkert að sjá. Á móti kemur að á meðan fólk veit varla hvar Malí er þá kannast allir við Timbúktú.

Fyrr á öldum var Timbúktú tenging milli norður- og vesturhluta Afríku. Verslun var mikil og talið er að á 14. öld hafi verið þar virk bókaútgáfa.

Í hugum Evrópubúa hefur Timbúktú verið sveipuð ákveðinni dulúð. Árið 1824 hétu frönsk samtök peningaverðlaunum fyrstu manneskjunni sem ekki væri múslimi en kæmist til Timbúktú og til baka með upplýsingar um borgina. Tveimur árum síðar komst einn maður þangað en var drepinn af heimamönnum sem óttuðust evrópska íhlutun. Frakkinn René Caillé komst hins vegar bæði fram og til baka enda sagðist hann vera múslimi í hvert sinn sem hann var spurður.

Nú um mundir fer fjöldi ferðamanna til Timbúktú þótt það sé auðvelt að komast þangað en mun erfðara og dýrara að komast burt.

Siglingin til Timbúktú tekur a.m.k. fimm daga með almenningsbátum en sökum tímaskorts ákveð ég að ferðast með smærri báti ásamt öðrum ferðamönnum. Við gistum í tjöldum eða undir berum himni á bökkum Nígerárinnar. Dagurinn er tekinn snemma til að komast alla leið á þremur dögum.

Brauð með sandi

Timbúktú er svo sannarlega eyðimerkurborg. Jeppar spóla um eftir sandgötunum og húsin eru í sama lit og göturnar. Til allrar hamingju er klæðnaður fólksins í öllum regnbogans litum.

Mikil óöld geisaði í Timbúktú á tíunda áratugnum þegar eyðimerkurfólk af Tuareg-ættum gerði uppreisn í Malí og Níger í von um að stofna eigið ríki. Sættir náðust árið 1996 og af því tilefni voru vopn sem notuð höfðu verið í bardögum brennd. Tuaregar fá nú fjárhagsaðstoð og aðskilnaðarhreyfingar hafa misst mátt sinn.
Tuaregar setja mikinn svip á Timbúktú en þeir skipuleggja m.a. eyðimerkurferðir fyrir ferðamenn. Þeir eru flestir bláklæddir og harðir sölumenn en samt alltaf kurteisir og lágróma.

Í Timbúktú er sandur alls staðar. Ég er með sand í augunum, nefinu, eyrunum, hárinu, ofan í öllum vösum og meira að segja ofan í svefnpokanum. Smám saman venst ég því að hafa sand milli tannanna og á erfitt með að muna hvernig það var að borða sandlaust brauð.

Timbúktú er ekki beint miðstöð skemmtanalífsins. Klukkan tíu eru nánast öll ljós slökkt og erfitt að komast leiðar sinnar án vasaljóss. Á diskóteki bæjarins er einn táningur að dansa við amerískt hipphopp. Bjórinn kláraðist í gær og flöskurnar á barnum hafa staðið tómar vikum saman.

Þar sem ég stend í myrkrinu á diskótekinu, drekk vatn og horfi á amerískan vin minn dansa ásamt malíska táningnum geri ég mér grein fyrir að ég er ósammála þeim ferðamönnum sem sækja Timbúktú heim og snúa til baka ósáttir með hversu fátt er við að vera í eyðimerkurborginni. Þessi borg sem oft er kölluð endapunktur heimsins opnar líka dyr inn í Sahara-eyðimörkina. Hún er því upphaf og endir í sömu andrá.

Ég sakna þess að borða brauð með sandi.

Tónlistarhátíð í Sahara

ÉG sit aftan á opnum pallbíl. Lappirnar á mér eru blóðlausar enda fjögur pör af löppum ofan á þeim. Það eru sextán manns á pallinum og við erum löngu hætt að spá í hver á hvaða fætur.

Við erum á leið til Essakane, 65 km frá Timbúktú. Essakane er í Sahara en þar heldur hópur eyðimerkurfólks af Tuareg-ættum til. Árlega bjóða Tuaregarnir fjölda ferðamanna velkominn á tónlistarhátíð sem gengur einfaldlega undir nafninu Festival au Desert. Tónlistarfólk víðs vegar að úr Afríku treður upp og undanfarin ár hafa fleiri nöfn evrópskra listamanna bæst á þétta dagskrána.

Pallbíllinn ekur óþarflega hratt í gegnum eyðimörkina með þeim afleiðingum að “farmurinn” emjar þegar veltingurinn verður of mikill.

Að aka inn á hátíðarsvæðið er eins og að aka inn í aðra veröld.

Sandurinn er hvítur og silkimjúkur. Hvít, lágreist tjöld hýsa gestina en sumir kjósa að sofa utandyra í eyðimörkinni. Úlfaldar rölta letilega um, alls óstressaðir yfir úlfaldakappreiðinni sem er víst einn af hápunktum hátíðarinnar.

Á kvöldin tekur bjartur máninn við af sólinni og með endurvarpi frá sandinum og nokkrum einmana ljósastaurum lýsist svæðið nægilega mikið upp til að það sé auðvelt að komast leiðar sinnar.

Stemningin á tónlistarhátíðinni er góð enda kemur fólk alls staðar að úr heiminum til að taka þátt í viðburðinum. Hefði ég eitthvert vit á afrískri tónlist myndi ég eflaust njóta dvalarinnar enn betur enda skilst mér að þarna komi fram fjöldi þekktra afrískra tónlistarmanna.

Þrátt fyrir að rafmagnið fari reglulega af með þeim afleiðingum að lítið heyrist í tónlistinni og sandstormur setji örlítið strik í reikninginn virðist fólk almennt skemmta sér mjög vel á hátíðinni. “Ég kem aftur seinna,” segir ég og brosi kumpánlega til úlfaldans utan við tjaldið mitt. Ég er ekki frá því að hann hafi blikkað mig þegar ég klifraði upp á pallinn, tilbúin í blóðlausa fætur og alltof mikinn velting.

 

Helstu heimildir:

http://www.bbc.co.uk

http://www.cia.gov/

http://www.malifolkecenter.org/

http://www.ohchr.org/

http://www.worldbank.org/

12.02.2006

Sunnudaginn 12. febrúar, 2006 – Innlent – greinar

Þrjátíu ár í flóttamannabúðum

Aðskilnaðarmúr Marokkómanna í Vestur-Sahara er 2.500 km langur og var byggður í sex áföngum.

Í suðvesturhluta Alsír eru flóttamannabúðir Saharawi-fólksins frá Vestur-Sahara. Halla Gunnarsdóttir hitti nokkra liðsmenn Polisario-hreyfingarinnar þegar þeir sóttu World Social Forum í Malí og fræddist um þessa síðustu nýlendu Afríku.

Við erum friðsöm þjóð. Við viljum fá landið okkar til baka til að geta skapað framtíð fyrir börnin okkar,” sagði ræðumaður á fundi um Vestur-Sahara sem haldinn var á heimssamkomu félagshreyfinga, World Social Forum, í Bamako í Malí 22. janúar sl. V-Sahara er réttnefnt síðasta nýlendan í Afríku en þegar Spánverjar yfirgáfu landið um miðjan áttunda áratuginn tóku Marokkóbúar við stjórnartaumunum að íbúum landsins forspurðum. Framsögumenn á fundinum komu allir úr flóttamannabúðum í Alsír en þar hefur hluti Saharawi-þjóðarinnar, sem áður bjó í V-Sahara, haldið til í þrjátíu ár.

Fundurinn var haldinn í lítilli skólastofu og fór mestmegnis fram á frönsku og spænsku. Ég sat á gömlum skólabekk fyrir miðri stofu og reyndi eftir fremsta megni að hlýða á enska þýðingu en til þess hafði ég lítil heyrnartól sem voru tengd í hljóðnema túlksins.

Marokkó var áður frönsk nýlenda en losnaði undan yfirráðum Frakka um miðjan sjötta áratuginn. Yfirvöld Marokkó sátu ekki aðgerðalaus og gerðu tilkall til V-Sahara strax árið 1957 á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Nágrannalandið Máritanía ásældist einnig eyðimerkurlandsvæðið en því tilheyra auðug fiskimið og miklar fosfatnámur auk þess sem olía hefur fundist við strendurnar.

Það var hins vegar ekki fyrr en árið 1975 að Spánverjar sýndu á sér fararsnið en þá höfðu liðsmenn Polisario, frelsishreyfingar V-Sahara, þegar hafið baráttu fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð landsins stóðu Spánverjar aðgerðarlausir þegar 350 þúsund Marokkóbúar fóru fótgangandi til V-Sahara og tóku sér fasta búsetu. Aðgerðin var nefnd Græna gangan og var liður í viðamikilli áætlun Hassans, þáverandi konungs Marokkó, um að leggja landið undir sig. Svo fór að Marokkó og Máritanía gerðu samkomulag sín í milli sem fól í sér að Marokkó fengi tvo þriðju hluta landsins en Máritanía þriðjung. Árið 1976 lýstu Saharawi-hirðingjarnir yfir sjálfstæði hins Arabíska alþýðulýðveldis í Sahara og við tóku mikil átök.

2.500 km aðskilnaðarmúr

Eftir fjögurra ára stríð við Polisario létu stjórnvöld Máritaníu undan og sömdu um frið við Saharawi-fólkið. Marokkómenn voru þó hvergi nærri á förum og í upphafi níunda áratugarins hófu marokkósk yfirvöld byggingu múrs til að afmarka landsvæði sitt. Aðskilnaðarmúrinn var byggður í sex áföngum, sá síðasti árið 1987, og er alls um 2.500 kílómetra langur. Til samanburðar má geta þess að hringvegurinn um Ísland er um 1.400 km. Múrinn er byggður úr sandi og grjóti og er um þriggja metra hár, skreyttur með gaddavír. Fjöldi hermanna gætir hans en auk þess er búið að planta jarðsprengjum meðfram öllum veggnum. Polisario ræður yfir litlum hluta landsins í austri en á því svæði eru lífsbjargir mjög takmarkaðar og aðeins hægt að búa þar nokkra mánuði á ári.

Ekki er vitað með vissu hversu fjölmenn Saharawi-þjóðin er en talið er að talan liggi einhvers staðar á milli fimm og sjö hundruð þúsund. 165 þúsund manns dvelja í flóttamannabúðunum í Tindouf í suðvesturhluta Alsírs þar sem alþjóðastofnanir sjá þeim fyrir mat og öðrum nauðsynjavörum.

Fólkið hefur raunar byggt upp sitt eigið samfélag í flóttamannabúðunum síðastliðin þrjátíu ár og gat lengst af engin samskipti haft við ættingja sína í V-Sahara. Lítill hluti þess dvelur nokkra mánuði á ári með hjarðir sínar á því landsvæði V-Sahara sem Polisario ræður yfir. Þá dvelur hluti Saharawi-fólksins í Marokkó og Máritaníu.

Stríðið milli Marokkó og Polisario stóð í tæp þrettán ár og var oft kallað “stríðið sem gleymdist” sökum áhugaleysis fjölmiðla á átökunum. Stríðsreksturinn kostaði Marokkó gríðarlegar fjárhæðir og talið er að um tíma hafi allt að 40% af fjárlögum runnið til hans. Líbýa og Alsír veittu V-Sahara fjárhagslegan stuðning sem meðal annars fór til vopnakaupa en þegar Líbýumenn náðu sáttum við Marokkó hættu þeir stuðningi sínum. Alsír dró einnig verulega úr sínum stuðningi en Marokkómenn gátu aftur á móti alltaf reitt sig á Frakka auk þess sem Bandaríkjamenn studdu þá endrum og sinnum.

Árið 1991 var samið um vopnahlé fyrir tilstilli Sameinuðu þjóðanna og gert var ráð fyrir því að íbúar V-Sahara gengju til atkvæða um hver skyldi stjórna landinu. Íbúarnir bíða hins vegar enn eftir atkvæðagreiðslunni en einkum er deilt um hverjir eigi að hafa rétt til að kjósa. Stjórnvöld í Marokkó vilja að allir marokkóskir landnemar í V-Sahara greiði atkvæði. Þetta geta liðsmenn Polisario engan veginn fellt sig við enda þýðir það að Marokkóbúar hafi miklu meiri áhrif á úrslit kosninganna en Saharawi-fólkið. Polisario keppist við að vekja athygli heimsins á stöðu sinni og fundurinn á World Social Forum var liður í því.

Átakamikill fundur

Ég reyndi eftir fremsta megni að fylgjast með erindunum en heyrði illa í þýðingunni. Ung kona sagði frá stöðu kvenna í flóttamannabúðunum sem er ólíkt betri en í mörgum nágrannaríkjum. Raunar hafa konurnar að miklu leyti byggt upp samfélagið í flóttamannabúðunum enda eru 80% íbúanna konur og börn. Stúlkur ganga í skóla til jafns við drengi og konur taka virkan þátt í stjórnmálum. Eitt helsta baráttumál kvennahreyfingarinnar er að réttindi kvenna verði tryggð eftir að þjóðin öðlast sjálfstæði.

Þegar konan lauk máli sínu reis karlmaður úr sæti sínu fyrir aftan mig og fór fram á að síðasta erindinu yrði sleppt þar sem annars gæfist ekki nægur tími til umræðna. Fundarstýran, frönsk kona, bað manninn að bíða rólegan og minnti um leið síðasta framsögumann á að hafa erindi sitt í styttra lagi. Þá fyrst horfði ég í kringum mig og tók eftir spennunni sem ríkti á fundinum. Flestir fundargestir voru með merkispjöld World Social Forum um hálsinn þar sem á var ritað nafn viðkomandi og þjóðerni. Ég rýndi í stafina á spjöldunum og gerði mér grein fyrir að aftan við mig sátu nánast einvörðungu Marokkóbúar og ungir piltar frá Malí. Í fremri helmingi stofunnar sátu hins vegar nokkrir Evrópubúar umkringdir Saharawi-fólki.

Síðasta erindinu lauk með vitundarvakningu um jarðsprengjur. Klappað var fyrir formanni Samtaka fórnarlamba jarðsprengna í V-Sahara en hann missti sjálfur báða fæturna og aðra höndina þegar hann hugaði að einum úlfaldanna sinna sem lá á jörðinni. “Ég get lofað ykkur því að jarðsprengjur spyrja ekki hvaðan þú kemur áður en þær springa,” benti hann á og ítrekaði að baráttan gegn jarðsprengjum þyrfti að vera alþjóðleg.

Fyrsti maður á mælendaskrá talaði svo hátt í hljóðnemann að ég heyrði ekkert í þýðingunni. Þegar hann lauk máli sínu klöppuðu allir sem sátu fyrir aftan mig. Eftir þetta heyrði ég ekkert í þýðingunni þar sem mönnum lá mjög hátt rómur. Fundarstýran þurfti reglulega að slökkva á hljóðnemanum til að menn lykju máli sínu þar sem þeim bar að takmarka sig við fimm mínútur. Hver Marokkóbúinn á fætur öðrum steig í pontu og jós úr skálum reiði sinnar. Eitt skipti fauk í konuna sem áður hélt framsögu og hún rauk á fætur en félagi hennar greip í hana svo hún settist aftur niður.

Þegar talsmenn Polisario gerðu sig líklega til að svara stóð einn Marokkóbúanna sem hæst höfðu upp og stormaði út með alla malísku drengina í eftirdragi. Polisario-fólkið bað hann að bíða svo það gæti útskýrt sitt mál en hann glotti bara og lét sig hverfa. Aðrir Marokkóbúar yfirgáfu einnig skólastofuna en Saharawi-fólkið lauk fundinum.

Með hár eins og bómull

Með þessa upplifun í farteskinu ákvað ég að taka þátt í auglýstri Saharawi-menningarveislu. Þar tók á móti mér nýr félagi minn, Mohamed, sem lagði sig allan fram um að láta veisluna ganga upp. Hann dró fólk út á dansgólfið en þvertók fyrir að dansa sjálfur enda þætti sér, líkt og íslenska blaðamanninum, miklu skemmtilegra að tala en dansa. Tónlistin var taktföst og rapp á arabísku lætur hreint ekkert svo illa í eyrum.

Inn á milli spurði ég Mohamed út í allt sem ég ekki skildi á fundi dagsins. Þegar ég talaði um rafmagnaðan fund sagðist hann vera ánægður á meðan átökin væru ekki vopnuð. “En þetta er erfitt. Yfirvöld í Marokkó senda oft fólk á svona fundi til að valda sem mestri truflun. Í dag kom líka marokkóskur trúarleiðtogi sem býr hér í Bamako með alla nemendurna sína,” útskýrði Mohamed og ég gerði mér grein fyrir að allir ungu malísku drengirnir vissu litlu meira en ég hvað var um að vera á fundinum. Þeir fylgdu bara leiðtoganum sínum.

Að hátíðinni lokinni bauð Mohammed mér að borða kvöldmat með Saharawi-fólkinu. Þótt ég sé ekki vön að borða kvöldmat undir miðnætti sló ég til en matarboðið var í nærliggjandi húsi.

Réttur dagsins var lambakjöt og hrísgrjón og að sjálfsögðu snætt með guðsgöfflunum. Hörundsdökkur karlmaður með fíngerðar krullur rétti mér reglulega kjötbita á meðan hann sagði sögur af heimsókn sinni til Íslands á níunda áratugnum. Mikið þótti honum koma til Kvennalistans og mér þótti leitt að tilkynna að sá merkilegi stjórnmálaflokkur væri ekki starfandi lengur. Sögurnar endurtók hann í hvert sinn sem einhver nýr kom að matargólfinu. “Ég man svo vel eftir því þegar ég heimsótti vinkonu mína sem bjó úti á landi. Ég átti erfitt með að festa svefn en vaknaði við að stúlka stóð við rúmið mitt og snerti á mér hárið. Ég spurði hvað hún væri að gera og hún sagði: “Þetta er eins og bómull.” Hún hafði víst aldrei áður séð svartan mann!” sagði hann og tók andköf. Hann hitti bæði Hermannsson og Hannibalsson og bar þeim báðum vel söguna. Fallegust orð féllu þó um forseta landsins, Vigdísi Finnbogadóttur. “Ég var búinn að óska eftir viðtali við hana en fékk það ekki af einhverjum ástæðum. Svo dag einn sá ég hana ganga út af hóteli og vatt mér að henni. Hún talaði reiprennandi frönsku,” sagði hann dreyminn á svip og bætti við að Finnbogadóttir hefði hlustað á mál sitt með athygli.

Eitt mesta stolt Saharawi-fólksins er hversu vel hefur tekist til við að mennta þjóðina þrátt fyrir að hún búi í flóttamannabúðum. Ólæsi, sem var 90% fyrir nokkrum áratugum, er nú innan við 10% og fjöldi fólks sækir nám til annarra landa, t.d. Spánar og Kúbu. Fólkið sem talar fyrir hönd Polisario er ákveðið en lágróma og gerir sitt allra besta til að vekja athygli heimsins á aðstæðum sínum. Hreyfingin hefu lýst því yfir að vel sé hægt að ganga til samningaviðræðna við bæði Máritaníu og Marokkó um þær náttúruauðlindir sem V-Sahara búi yfir enda sé Saharawi-þjóðin ekki sérlega fjölmenn. Frelsi undan yfirráðum Marokkós er þeim mikilvægast og vonin um að þurfa ekki að ala börnin sín upp við stríðsástand.

Helstu heimildir:

http://www.arso.org

http://www.mbl.is

http://www.wikipedia.org

08.02.2006

Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 8. febrúar 2006

“Ég hata homma”

Ég hata homma. Mér finnst þeir ógeðslegir og ef ég sé þá úti á götu þá slæ ég þá,” segir Bob og slær út í loftið. Við sitjum í litlum hópi utandyra undir stjörnubjörtum himni í litla þorpinu Ende í Malí í Vestur-Afríku og drekkum te. Ungur strákur hellir upp á en teið er hitað í litlum katli á kolum. Í hópnum eru aðeins tveir menn sem tala ensku, umræddur Bob og svo leiðsögumaðurinn okkar, Amadu. Aðrir tala móðurmálið sitt, dogon, og hið opinbera tungumál Malí, frönsku. Bob og Amadu vinna báðir sem leiðsögumenn. Þeir kunna hvorki að lesa né skrifa en lærðu ensku af ferðamönnum. 

Ende er á Dogon-svæðinu en það er raunar samansafn lítilla þorpa sem að margra mati eru einn áhugaverðasti viðkomustaður V-Afríku. Bob og Amadu eru báðir uppaldir í Ende en hafa flust til hafnarborgarinnar Mopti og gerst leiðsögumenn. Þeir gengu ekki í skóla og kunna því hvorki að lesa né skrifa en hafa lært ensku af ferðamönnum auk þess að tala frönsku reiprennandi. 

Við spjöllum um ólíka menningarheima, væntingar og þrár, það sem skilur okkur að og það sem sameinar okkur. Amadu og Bob hafa betri þekkingu á vestrænni menningu en ég hef á malískri menningu og geta útskýrt ýmislegt fyrir mér. 

Þeir syngja malískt ástarlag og ég nota allan minn bassa í að syngja um krumma sem svaf í klettagjá. Amadu segir mér frá stjörnunum sem geta boðað góða uppskeru eða minnt á að regntíminn sé að nálgast. 

Dogon er landbúnaðarsamfélag og hugarheimur fólksins tekur mið af því. Áður fyrr voru flestir Dogon-búar andatrúar en kristni og íslam hafa náð útbreiðslu þar eins og annars staðar. 

Amadu og Bob segja okkur frá hefðbundnum samfélögum Dogon-þorpanna sem er ólíkt því sem gerist í borgum og bæjum Malí. Þeir segja frá göldrum og fórnum sem eru enn þann dag í dag færðar guðunum þótt slíkt hafi minnkað talsvert með breyttum trúarbrögðum. Amadu segir að stundum sé fólki fórnað þótt yfirleitt sé látið nægja að slátra geit eða kú. Dogon-grímurnar spila mikið hlutverk en sá sem ber slíka grímu er nafnlaus og nefni einhver nafn hans er sá hinn sami umsvifalaust tekinn af lífi. 

Í Dogon er feðraveldissamfélag. Karlinn er höfuð fjölskyldunnar og við kvöldverðarborðið talar hann einn og aðrir þegja. Allar stúlkur eru umskornar í æsku og fjölkvæni er reglan fremur en undantekningin. Umskurnin er fyrst og fremst stjórnunartæki og sögð koma í veg fyrir að konur sofi hjá hverjum sem er. 

Amadu og Bob eru gagnrýnir á þetta umhverfi sem þeir ólust upp í enda lifa þeir í allt öðrum veruleika í hafnarborginni Mopti. Þeim þykir sú regla að foreldrar velji fyrstu brúði sona sinna úr sér gengin og vilja fá að ráða sínum örlögum sjálfir. 

Allt í einu og nánast upp úr þurru byrjar Bob að tala um samkynhneigð. Hann lýsir yfir áhyggjum af því að Elton John sé nú giftur karlmanni og á eftir fylgir löng ræða um hvað hommar séu ógeðslegir og saga um vondan, vestrænan karl sem reyndi að fá malískan dreng til við sig með því að bjóða honum peninga. Ég hika en ákveð samt að hreyfa mótbárum. Ég segist þekkja fullt af hommum og lessum sem séu ljómandi fínt fólk. Bob horfir undrandi á mig og segir að fólk eigi þá að minnsta kosti að halda sig á Vesturlöndum en ekki láta svona hér í Afríku. “Þetta er ekki okkar menning. Guð vill að karl og kona séu saman. Af hverju ætti karl að kyssa karl? Til hvers? Ég bara skil þetta ekki,” segir Bob og Amadu tekur undir: “Samkynhneigð er ekki hluti af okkar menningu.” 

Ferðafélagi minn grípur inn í og segir rólega að það sé kannski rétt að virða eigi menningu annarra þjóða en að það eigi líka að virða rétt fólks til að lifa því lífi sem það vill svo fremi sem það skaði ekki aðra. Við reynum að leiða í ljós samhengið milli þessarar umræðu og gagnrýni þeirra sjálfra á þvinguð hjónabönd en Bob situr við sinn keip og heldur áfram að blóta hommum (lessur koma vart til tals). Ég bendi honum kurteislega á að guð vilji örugglega ekki að hann noti orkuna sína í að hata fólk og segi spekingslega: “Spámaðurinn Jesús sagði: Dæmið ekki, svo að þér verðið ekki dæmdir.” En Bob er löngu hættur að hlusta og af hans hálfu er samræðan búin. Ég sný mér að Amadu og segi lágt: “Sama hvað þér finnst, ekki segja við Evrópubúa að þú hatir homma, það getur sært þá virkilega mikið.” Ég finn að hann tekur mark á orðum mínum og vona að mér hafi í það minnsta tekist að sá litlu fræi. 

Í vélinni á leiðinni heim rifja ég upp þessar samræður. Ég finn til samúðar með samkynhneigðu fólki í Dogon um leið og ég reyni að skilja að viðhorf Bobs og Amadu eru lituð af veruleikanum sem þeir eru aldir upp í. Ég hugsa fallega til landsins míns litla í Atlantshafinu þar sem fordómar gegn samkynhneigðum eru á undanhaldi og samfélagið víðsýnna. 

Yfir hafragrautnum les ég gamla og nýja Mogga til að ná aftur fótfestu. “Við erum sannfærð um að það eru færar aðrar og betri leiðir til þess að tryggja samkynhneigðum sambærilega stöðu og hjónum en sú að sprengja upp sjálft hjónabandshugtakið,” stendur í blaðagrein og biskupinn sagði víst í nýárspredikun sinni að hjónabandið ætti það inni að við köstuðum því ekki á sorphaugana. Mikið er gott að vera komin heim í fordómaleysið á Íslandi.