Viðhorfspistill
Birtist í Morgunblaðinu, 24. júní 2005
Látinn píanóleikari heldur tónleika
Mánudagur. Það eru vöfflur í kaffinu og þú ert bara nokkuð sátt við lífið og tilveruna. Spennt yfir að ætla til Eyja á fimmtudeginum að fylgjast með Pæjumótinu.
(Hvörf).
Fyrir tilviljun kemstu að því að það eru laus pláss á námskeiðum Bandalags íslenskra leikfélaga í Svarfaðardal en slíkt námskeið hefur verið lengi á “þetta ætla ég að gera” listanum. Þriðjudeginum eyðirðu í að sannfæra yfirmenn þína um að þetta sé þinn eini möguleiki til að verða fræg leikkona. Á miðvikudeginum pakkarðu niður í flýti.
Í Eyjum er allt eins og það á að vera. Fótboltastelpur eru svo skemmtilegar. “Byrja aftur að þjálfa fótbolta” færist ofar á áðurnefndum lista. Þú ert orðin hás af að garga: “Áfram Afturelding!” C-lið litlu systur verður Pæjumótsmeistari innanhúss. Þú hverfur ellefu ár aftur tímann og þér finnst bikarinn vera þinn á ný. Á kvöldin drekkurðu te með hunangi og reynir að lesa yfir leikritið sem verður unnið með á námskeiðinu.
Á laugardeginum prísarðu þig sæla yfir að flogið sé til Reykjavíkur. Skiptir um töskur og föt og ferð svo með næstu vél til Akureyrar. Mætir of seint á námskeiðið og rétt nærð að hugsa hvern fjárann þú ætlar með því að mæta á námskeið þar sem þú þekkir engan. Andar djúpt áður en þú stígur út úr bílnum og virðir fyrir þér staðinn þar sem þú ætlar að eyða næstu átta dögum. Þú gengur hikandi í átt að fólkinu. Hatar alltaf jafn mikið þetta gamalkunna óöryggi sem þú ert samt svo góð í að fela. Konan sem kenndi þér leiklist þegar þú varst níu ára sprettur upp og faðmar þig. Hún er skólastjóri. Þú andar léttar.
Gerir alla sem þú kannast örlítið við að þínum bestu vinum. Bregður í brún þegar herbergisfélagarnir tala um að morgunleikfimin byggist upp á jóga. Sérð fyrir þér hræðilegar teygjur. Jóga er ekki nógu töff fyrir þig. Þú ert töff. Ekki gleyma því.
Þér líkar nokkuð vel í fyrsta tímanum. Kennarinn góður og hópurinn vinalegur. Hneykslast á busavígslunni og passar að enginn sjái að þér fannst hún nokkuð flott og jafnvel skemmtileg. Veist að busavígslur ganga þvert á pólitíska rétthugsun.
Þú nemur leiklist frá níu á morgnana til sex á kvöldin. Með hæfilegri hádegispásu sem rúmar líka smá blund. Þér finnst alltaf skemmtilegra og skemmtilegra en það hvarflaði ekki að þér að það væri hægt að fá allar þessar harðsperrur. Þú lærir að nota röddina og losa um mjaðmirnar. Bíður með að hlæja yfir furðulegum æfingum þar til á kvöldin.
Á mánudegi tekurðu þátt í Bandaleikunum og skemmtir þér konunglega við að leika lúðrasveit allt kvöldið. Fagnar sigrinum brjálæðislega. Blái trompetinn sem nágrannarnir hata kemur sterkur inn.
Þú færð orku frá fjöllunum og þarft ekki að sofa eins mikið og venjulega. Þú hlýtur titilinn Túttumeistari 2005. Segir mömmu stolt frá því í símann og gleymir næstum að láta fylgja með að það var fyrir að kasta gúmmítúttum allra lengst úr rólu. Smám saman verðurðu hluti af heild. Þú sofnar dauðþreytt á kvöldin en hlakkar til að vakna á morgnana.
Á föstudegi tekurðu þátt í uppfærslu á völdum atriðum úr Kirsuberjagarðinum. Áhorfendur eru þakklátir. Stemmningin góð. Fagnar frumsýningu með gufubaði og sprikli í blautri náttúrunni.
Á laugardegi kynnistu því sem hinir hóparnir unnu með. Hlærð þig máttlausa yfir blaðamannskarakternum sem hugsaði allt í fyrirsögnum. Veltir fyrir þér hvernig þú getir komið fyrirsögninni: “Látinn píanósnillingur heldur tónleika” inn í Morgunblaðið. Kannski litlar líkur á því.
Þú leikur í örleikriti undir öruggri leikstjórn pilts sem var á leikstjórnarnámskeiði. Nýtur sköpunarkraftsins sem einkennir allt og alla á staðnum. Lokahófið er sorglegt og stórskemmtilegt í senn. Þú sem hatar að dansa rýkur út á dansgólfið og heldur þig þar fram eftir nóttu.
Á sunnudegi bölvarðu yfir því að ekki sé boðið upp á morgunleikfimi þennan daginn. Telur á þér marblettina sem ná frá öxlum og niður á tær. Áður en þú sest inn í bílinn faðmarðu alla nemendur skólans, líka þá sem þú talaðir bara tvisvar við. Heldur aftur af tárunum enda ekki endanlega búin að glata “kúlinu”. Hefur sængina og koddann uppi við á leiðinni heim til að geta unnið upp einhvern svefn. En það er bara svo miklu skemmtilegra að spjalla. Þú talar um vald, anarkisma, afbrýðisemi, útlönd, ást, ofbeldi og fíkn. Brjálæðislegar hugmyndir fæðast. Þú ert enn of ung til að skilja að þær verða ekki endilega allar að veruleika á morgun. “Þetta ætla ég að gera” listinn er orðinn enn lengri en hann var áður en þú fórst norður.
Mætir til vinnu á mánudegi, dauðþreytt enda kraftur fjallanna alltof langt í burtu. Skilur ekki tilganginn í að vinna. Það er svo margt miklu merkilegra í lífinu. Samnemendur þínir kalla þetta fráhvarfseinkenni. Skrifar síðan Viðhorf um þetta allt saman og hefur það af einhverjum orsökum í annarri persónu. Yfirskriftin er samt engin tilviljun. Það er svo gaman að láta drauma sína rætast.
19.06.2005Grein um kynbundið ofbeldi
Birtist í 19. júní, 19. júní 2005
Um löggjöfina og kynbundið ofbeldi
Krafan um að kynbundið ofbeldi eigi að vera sérstaklega skilgreint í lögum verður sífellt háværari. Dómsmálaráðherra hefur óskað eftir áliti refsiréttarnefndar á því hvort þörf sé á sérstakri löggjöf um heimilisofbeldi eða hvort núverandi lagaákvæði um ofbeldi nái nægilega utan um það. Auk þess hefur ráðherra falið Ragnheiði Bragadóttur, lagaprófessor við Háskóla Íslands, að koma með tillögu að lagafrumvarpi til breytinga á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga.
En hverjar eru kröfurnar og hvers vegna koma þær fram núna?
Miklu meiri þekking
Á áttunda áratugnum varð vitundarvakning um kynferðis- og heimilisofbeldi. Kvennaathvarf tók til starfa árið 1982, Stígamót voru stofnuð 1990 og í samræmi við tillögur nauðgunarmálanefndar sem starfaði frá 1984-1988 opnaði Neyðarmóttaka vegna nauðgunar árið 1993. Upphaflega átti nauðgunarmálanefnd ekki að koma með hugmyndir að lagabreytingum en árið 1992 voru samþykktar breytingar á kynferðisbrotakaflanum. Fyrir þann tíma var t.a.m. ekki ólöglegt að nauðga körlum þar sem kynferðisbrotaákvæðin náðu aðeins yfir ofbeldi gegn konum. Heimilisofbeldi er hins vegar ekki skilgreint sérstaklega í lögum heldur fellur það undir almenn ákvæði um ofbeldi.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá árinu 1992. Reynsla er komin á starf Stígamóta, Kvennaathvarfsins og Neyðarmóttökunnar. Sífellt fleiri þolendur leita sér aðstoðar og segja sögu sína upphátt. Í dag er því margfalt meiri þekking á eðli og afleiðingum kynferðis- og heimilisofbeldis en var árið 1992 þegar kynferðisbrotakaflinn var endurskoðaður.
Kynfrelsi ekki verndað í lögum
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir komst að þeirri niðurstöðu í ritgerð sinni til embættisprófs í lögfræði, sem hún varði fyrr á árinu, að kynfrelsi sé ekki verndað í íslenskum lögum. Bendir hún m.a. á að ofuráhersla sé á aðferðina sem er notuð við að fremja brotið. Samkvæmt 194. gr. alm. hegningarlaga er aðeins um nauðgun að ræða ef gerandi beitir ofbeldi eða hótar ofbeldi. Í 196. gr. er aftur á móti skilgreining á misneytingu en það er þegar maður notfærir sér geðveiki, aðra andlega annmarka eða að þannig sé ástatt að þolandinn getur ekki spornað við verknaðinum og hefur við hann samræði.
Það þýðir að ef haft er samræði við áfengisdauða manneskju eða manneskju sem ekki hefur andlega burði í að neita kallast það ekki nauðgun í lagalegri merkingu. Refsing fyrir misneytingu getur verið allt að sex árum á meðan refsing fyrir nauðgun er allt að sextán árum. Þar af leiðandi fyrnast misneytingarmál á tíu árum en nauðgunarmál á fimmtán árum.
Í kynferðisbrotakaflanum er einnig að finna ákvæði (195. gr.) um ólögmæta kynferðisnauðung en það er þegar gerandinn beitir ekki ofbeldi eða hótun um ofbeldi heldur annars konar nauðung. Fáir dómar hafa reynt á þetta ákvæði en refsimörkin eru þau sömu og fyrir misneytingu eða sex ár.
Þorbjörg bendir á að áherslan sé á aðferðina sem ofbeldismaðurinn notar en ekki á árásina sem slíka. Rétturinn til að hafna kynlífi við allar aðstæður er því ekki virtur samkvæmt hegningarlögunum og að mati Þorbjargar endurspegla mismunandi refsingar og fyrningarreglur þessa afstöðu löggjafans.
Stór hluti nauðgunarmála sem berast Neyðarmóttöku varða misneytingarákvæðið.
Spurningin er hvort það eigi að vera meiri glæpur að brjóta á manneskju sem er vakandi en manneskju sem er sofandi.
Má nauðga konu með óorð?
Guðrún M. Guðmundsdóttir, mannfræðingur, hefur einnig gagnrýnt löggjöfina sem að hennar mati er enn lituð af hugmyndum um skírlífi frá 19. öld. Þá hafi litlu skipt hvort samræði fór fram með eða án vilja beggja aðila heldur var allt kynlíf utan hjónabands refsivert. Lækka mátti refsingu eða fella niður ef konan sem var nauðgað hafði á sér óorð. Guðrún hefur bent á að þessi óorðshugmynd lifi enn þar sem það er minni refsing að nauðga konu sem er drukkin en að nauðga allsgáðri konu sem hefur kannski möguleika á að berjast á móti.
Þetta kemur einnig fram í goðsögnum um nauðganir þar sem því er til dæmis haldið fram að fórnarlömb geti sjálfum sér um kennt ef þau voru of drukkin.
Í Noregi var gerð veigamikil lagabreyting árið 2000 þar sem mismunandi ákvæði voru sett undir einn hatt og talað um nauðgun. Misneyting er því ekki lengur til í norskum lögum. Sambærilegar breytingar voru gerðar í Svíþjóð fyrr á þessu ári. Það er því kannski engin tilviljun að nú sé kynferðisbrotakaflinn í endurskoðun hér á landi.
Deilt um fyrningarfrest
Löggjöf sem varðar kynferðisbrot gegn börnum hefur breyst nokkuð á undanförnum árum. T.a.m. var leitt í lög árið 1998 að kynferðisbrot gegn börnum byrji ekki að fyrnast fyrr en barnið er 14 ára en það gildir þá aðeins um brot sem áttu sér stað eftir lagabreytinguna. Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður, vill ganga lengra og lagði fram frumvarp á síðasta þingi þess efnis að kynferðisbrot gegn börnum fyrnist aldrei. Það þýðir að þolandi gæti hvenær sem er kært brot sem hann varð fyrir sem barn. Frumvarpið fór í allsherjarnefnd en var ekki afgreitt út úr henni. Margir vildu ekki ganga jafn langt og Ágúst Ólafur og lögðu þess í stað til að brotin myndu byrja að fyrnast við átján ára aldur í stað fjórtán ára. Það þýðir að alvarlegustu brotin, sem fyrnast á fimmtán árum, væru því fyrnd þegar þolandinn hefur náð 33 ára aldri í stað 29 ára aldurs í dag.
Í rökstuðningi með frumvarpi Ágústs er m.a. bent á að miðað við reynslu Stígamóta leiti þolendur sér oft ekki hjálpar fyrr en eftir þennan tíma og brotin séu því fyrnd þegar þar að kemur. Ýmsir hafa þó bent á að hugsanlega breytist þetta með aukinni umræðu og fleiri úrræðum.
Alvarlegustu brotin eru aðeins þau sem fela í sér samræði eða önnur kynferðismök við barn undir fjórtán ára aldri. Önnur brot, t.d. kynferðisleg áreitni, geta fyrnst á mun skemmri tíma. Þarna er einnig áhersla á hvernig eitthvað gerist frekar en að um brot sé að ræða.
Sif Konráðsdóttir, hrl., hefur bent á mál þar sem snerting við kynfæri stúlku flokkaðist sem kynferðisleg áreitni þar sem ekki þótti sannað að farið hefði verið inn í leggöngin. Þar sem refsimörk við kynferðislegri áreitni eru mun lægri, eða aðeins fjögur ár, var brotið fyrnt fimm árum eftir að það var framið.
Kynferðislegur lögaldur
Sif hefur einnig gagnrýnt samræðisaldur en samkvæmt lögum er hann fjórtán ár. Það þýðir að 14 ára gamalt barn er talið hafa þroska til að standa andspænis fullorðinni manneskju og gefa samþykki sitt fyrir kynlífi eða hafna því. Sif bendir á að í nágrannalöndunum sé samræðisaldur 15-16 ár og því hvergi eins lágur og hér á landi.
Dómsmálaráðherra fól refsiréttarnefnd að skoða hvort tilefni væri til að hækka samræðisaldurinn en nefndin skilaði einróma áliti um að svo væri ekki. Var m.a. bent á að með því að hækka kynferðislegan lögaldur væri stór hópur unglinga gerður að afbrotamönnum því að lögin þýða í raun að barn undir 14 ára aldri má ekki stunda kynlíf. Sif bendir á að þetta megi vel koma í veg fyrir eins og gert er í norsku löggjöfinni; með því að láta lögin ekki ná til samræðis jafnaldra eða jafningja.
Meiri- eða minniháttar árás?
Heimilisofbeldi er ekki skilgreint í lögum heldur falla slík brot undir almenn ákvæði um líkamsárásir. Auk þess getur þurft að ákæra fyrir nauðung, kúgun, kynferðisofbeldi eða annað. Brynhildur Flóvenz, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, hefur bent á að ríkissaksóknari þurfi að safna saman ákvæðum um alla hegningarlöggjöfina til að ákæra fyrir heimilisofbeldi.
Áverkar skipta mestu máli þegar metið er hvort árásin flokkist sem minniháttar (217. gr.) eða meiriháttar (218. gr.). Að margra mati ná líkamsárásarákvæðin aðeins utan um það ofbeldi sem karlar verða fyrir á götum úti. Þau miði fyrst og fremst við jafnvíga einstaklinga sem lendir saman eða þegar annar ræðst á hinn. Heimilisofbeldi á sér aftur á móti stað innan veggja heimilisins og í langflestum tilvikum er ofbeldismaðurinn karl og þolandinn kona. Það gerir málin síðan enn erfiðari viðfangs að karlinn og konan eru tengd.
Sjaldnast tekst að sanna mikla áverka í einu í heimilisofbeldismálum og þess vegna er vanalega ákært fyrir brot á 217. gr. í þeim fáu málum sem rata inn til dómstólanna. Þeir sem vilja óbreytta löggjöf hafa bent á að dómsvaldið taki alltaf inn hvar ofbeldið átti sér stað og hvort mikill styrkleikamunur var á ofbeldismanninum og þolanda. Að mati Brynhildar er það ekki nóg heldur þurfi að marka heimilisofbeldi sem sérstakt afbrot. Þannig verði viðurkennt að þessi brotaflokkur sé til og að hann sé í eðli sínu frábrugðinn öðrum. Sambærilegir eru margir flokkar auðgunarbrota. Það er ekki einungis ólöglegt að stela peningum heldur ná mismunandi ákvæði yfir skjalafals og vasaþjófnað.
Rammar:
Hvað er kynbundið ofbeldi?
Í yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna er kynbundið ofbeldi skilgreint sem „ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga kvenna, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.”
Nauðgun af gáleysi?
Í norskri löggjöf er að finna ákvæði um nauðgun af gáleysi sem sett var inn með lagabreytingum árið 2000. Hugtakið hljómar kannski furðulega en Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir hefur bent á að þarna sé verið að skoða mörkin milli ásetnings og gáleysis. Ef kona liggi t.d. lömuð af hræðslu og jafnvel grátandi geti ofbeldismaðurinn ekki haldið því fram að hún hafi bara verið feimin. Þorbjörg hefur máli sínu til stuðnings bent á sýknudóm sem féll í nauðgunarmáli í Bretlandi. Nokkrir félagar voru úti að fá sér í glas með það að markmiði að næla sér í konur. Það gekk ekki sem skyldi og þá bauð einn þeirra hinum heim til sín til að hafa samræði við eiginkonu sína. Hann varaði þá við að hún berðist stundum á móti en að það væri vegna þess að hún væri „kinkí”. Mennirnir báru því við fyrir dómi að þeir hefðu ekki vitað betur og það dugði til sýknu að þeir sögðust hafa haldið að konan væri samþykk. Þetta myndi aftur á móti sennilega flokkast sem vítavert gáleysi samkvæmt norsku lögunum. Þeir hefðu átt að gera sér grein fyrir því að konan var ekki samþykk.
Að sögn Þorbjargar hefur þessu ákvæði verið beitt í Noregi og svo virðist því sem það geti reynst vel. T.a.m. var maður dæmdur í fyrir að hafa nauðgað sambýliskonu sinni ítrekað á fimm ára tímabili. Hann beitti hana miklu ofbeldi en fór síðan fram á „sáttakynlíf”. Sambýliskonan veitti ekki mótspyrnu en dómurinn taldi það eiga eðlilegar skýringar enda maðurinn nýbúinn að beita hana ofbeldi.
„Austurríska leiðin”
Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur nokkrum sinnum lagt fram frumvarp á Alþingi um svonefnda „austurríska leið” í heimilisofbeldismálum. Frumvarpið felur í sér aukna heimild lögreglu til að fjarlægja menn af heimilum sínum ef þeir hafa beitt fjölskyldumeðlimi ofbeldi og setja á þá nálgunarbann í skemmri tíma, burt séð frá því hvort þolandinn vill það eða ekki.Í dag getur þolandi eða lögregla sótt um nálgunarbann á einstaklinga en það hefur verið gagnrýnt fyrir að vera þungt í vöfum. Dómstólar geri miklar kröfur um sönnun á að bannsins sé þörf.
Í rökstuðningi með frumvarpi Kolbrúnar kemur fram að þetta hafi reynst mjög vel í Austurríki en lögin tóku gildi þar árið 1997. Menn yfirgefi yfirleitt heimili sín mótþróalaust og þakki lögregluni jafnvel fyrir. Bent hefur verið á að meginforsenda fyrir góðri reynslu löggjafarinnar í Austurríki sé hversu vel er hlúð að bæði gerendum og þolendum. Boðið er upp á meðferð, þjónustu sálfræðings og lögfræðings og ofbeldismennirnir fá þak yfir höfuðið meðan á ferlinu stendur.
Ákvæði úr almennum hegningarlögum
Um nauðganir og misneytingu:
194. gr. Hver sem með ofbeldi eða hótun um ofbeldi þröngvar manni til holdlegs samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.
195. gr. Hver sem með annars konar ólögmætri nauðung þröngvar manni til samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
196. gr. Hver sem notfærir sér geðveiki eða aðra andlega annmarka manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
Um kynferðisbrot gegn börnum
200. gr. Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða annan niðja skal sæta fangelsi allt að 8 árum og allt að 12 ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára.
Önnur kynferðisleg áreitni manns gagnvart barni sínu eða öðrum niðja en sú er greinir í 1. mgr. varðar allt að 2 ára fangelsi og allt að 4 ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára.
Samræði eða önnur kynferðismök milli systkina varða fangelsi allt að 4 árum. Hafi annað systkina eða bæði ekki náð 18 ára aldri þegar verknaður átti sér stað má ákveða að refsing falli niður að því er þau varðar.
201. gr. Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn eða ungmenni, yngra en 18 ára, sem er kjörbarn hans, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða ungmenni, sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis, skal sæta fangelsi allt að 8 árum og allt að 12 ára fangelsi sé barn yngra en 16 ára.
Önnur kynferðisleg áreitni en sú sem greinir í 1. mgr. varðar fangelsi allt að 2 árum og allt að 4 ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára.
202. gr. Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 14 ára, skal sæta fangelsi allt að 12 árum.
Önnur kynferðisleg áreitni en sú sem greinir í 1. mgr. varðar fangelsi allt að 4 árum.
Hver sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælir ungmenni yngra en 18 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi allt að 4 árum.
Hver sem greiðir barni eða ungmenni yngra en 18 ára endurgjald gegn því að hafa við það samræði eða önnur kynferðismök skal sæta fangelsi allt að 2 árum.
Ákvæði um líkamsárásir sem heimilisofbeldi fellur undir:
217. gr. Hver, sem gerist sekur um líkamsárás, enda sé hún ekki svo mikil sem í 218. gr. segir, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum en fangelsi allt að 1 ári, ef háttsemin er sérstaklega vítaverð.
Málssókn er opinber út af broti samkvæmt 1. mgr., og skal mál eigi höfðað nema almenningshagsmunir krefjist þess.
218. gr. Hafi maður með vísvitandi líkamsárás valdið öðrum manni tjóni á líkama eða heilbrigði, og þessar afleiðingar árásarinnar verða taldar honum til sakar vegna ásetnings eða gáleysis, þá varðar það fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef sérstakar málsbætur eru.
Nú hlýst stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ. á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.