25.03.2005

Óbirt grein

Hangsað með kameldýrum í eyðimörkinni

„Kúr, khúr, khor, kor,” tautaði ég í lágum hljóðum meðan ég nálgaðist rútustöðina. Þetta persneska kokhljóð ætlaði að reynast mér erfitt. Leigubílstjórinn gerði á bjagaðri ensku tilraun til að bjóða mér út að borða í hádeginu en ég afþakkaði pent, sagðist þurfa að drífa mig að finna miða til Khur. Ég velti fyrir mér hvað bjó að baki hjá þessum miðaldra fjölskylduföður en í hans menningarheimi eiga karlar ekki að hafa nokkuð saman að sælda við ókunnugar konur, eða ætli það sé bara þannig að konur eigi ekki að hafa nokkuð að gera með ókunnuga karla?

Mér tókst að finna miða til Khur og ekki nóg um það heldur fann ég líka kjötlausa samloku en það getur reynst erfitt í eins miklu kjötlandi og Íran er. Með hjálp svartklæddrar konu fann ég rútuna mína sem smám saman fylltist af kátum Írönum. Ég hrósaði happi yfir að hafa fengið miða enda eru nánast allir Íranar á faraldsfæti í kringum írönsku áramótin. Konan sem sat við hliðina á mér spjallaði heilmikið á persnesku og ég ýmist þóttist skilja eða yppti öxlum. „Garmeh,” sagði ég hikandi þegar ég þóttist viss um að hún væri að spyrja hvert ég væri að fara. „Island,” sagði ég svo eftir að hún taldi upp alls konar þjóðerni. Hún gaf mér köku og í eina stoppinu í þessari sjö klukkutíma rútuferð passaði hún að enginn vippaði frá lakinu sem var í kamardyrunum.

Ég þakkaði henni fallega fyrir og minnti mig á það í huganum að vera alltaf dugleg að hjálpa útlendingum heima á Íslandi. Svona til að gefa til baka agnarögn af því sem hefur verið gert fyrir mig.

Ég sofnaði í borg og vaknaði í eyðimörk.

Í Khur beið mín leigubílstjóri sem galaði „Maziar” um leið og hann sá mig. Það var víst ekki flókið að finna út að það væri ég sem hann átti að sækja enda eina hvíta manneskjan í rútunni. Hann kynnti sig sem vin Maziars og talaði út í eitt, en auðvitað á persnesku. Í bílferðinni fékk hann leið á því að blaðra við mig sem starði á hann skilningssljóum augum og söng þá bara í staðinn. Ég rýndi út í myrkrið. Landslagið minnti um margt á Ísland. Auðn og í fjarska spruttu upp fjöll. Fjöllin eru samt öðruvísi í laginu í Íran.

Sandeyðimörk eins og í Tinnabókunum

Eftir hálftíma bíltúr vorum við komin í litla eyðimerkurþorpið Garmeh. Bílstjórinn svaraði geltandi hundi fullum hálsi og benti mér svo á afslappað kameldýr í girðingu.

„I am Maziar’s father and this is my wife,” sagði maðurinn sem tók á móti mér. Maziar sjálfur skrapp til höfuðborgarinnar, Tehran, ásamt eiginkonu sinni en hún starfar þar sem frönskukennari. Ég fékk aldrei að vita nöfn nokkurs annars en Maziars. Allir voru skilgreindir út frá honum.

Ég varð ekki fyrir vonbrigðum með húsið enda leit það út alveg eins og ég hafði ímyndað mér hús í eyðimörkinni. Loftið byggt úr hampi, stráum, sandi og ef ég skyldi rétt einhvers konar leðju og hafði þennan skemmtilega eyðimerkursandlit. Það þarf víst að bera nýtt lag á þakið á þriggja ára fresti til að koma í veg fyrri að það hrynji eftir rigningar. Við hlið hússins eru rústir af kastala en enginn virtist vita hvenær hann var byggður eða notaður. Í bakgarðinum eru pálmatré og lítið stöðuvatn sem var kannski það sem ég átti síst von á í miðri eyðimörkinni.Húsið hefur verið í eigu fjölskyldu Maziars í a.m.k. 400 ár. Um tíma stóð það autt en Maziar ákvað að gera það upp og opna ferðaþjónustu. Í þrjú ár hafa ferðamenn komið í eyðimörkina og notið kyrrðarinnar í Garmeh en ár frá ári fjölgar þeim sem leggja leið sína þangað.

Ferskt loftið og þögnin voru svo sannarlega tilbreyting frá ys og þys borganna sem flestir Íranar búa í. Ég skoðaði saltvinnslu í eyðimörkinni, gekk á fjöll og hlustaði á bænasöng múslima. Skemmtilegast fannst mér þó að keyra út fyrir Garmeh og sjá alvöru sandeyðimörk. Hún samræmdist hugmyndum mínum um eyðimörk sem ég hafði úr Tinnabókunum sem ég las þegar ég var barn. Þegar við keyrðum um eyðimörkina var oft sem við værum að nálgast stöðuvatn. Því nær sem við komumst vatninu því fjær færðist það. Ég velti fyrir mér hvað það væri hræðilegt að sjá þetta endurvarp sólarinnar eftir að hafa ekki fengið vatn að drekka í lengri tíma.

Í eyðimörkinni eru hundruð kameldýra. Þau rölta um í rólegheitum og japla á þeim litla gróðri sem vex í eyðimörk. Hafa ekki einu sinni fyrir því að hætta að éta rétt á meðan þau kúka. Ekkert raskar ró þeirra og ef ég nálgaðist þau horfðu þau undarlega á mig og röltu svo í burtu. Þau hreyfast á svipuðum hraða og tíminn í eyðimörkinni.

Langar rútuferðir voru svo sannarlega þess virði. Eftir nokkurra daga dvöl kastaði ég kveðju á kameldýrin, ræddi málin við geltandi hundinn á kjarnyrti íslensku og tók undir með syngjandi leigubílstjóranum sem fylgdi mér alla leið inn í rútuna til næsta áfangarstaðar, háskólabæjarins Yasd.

20.03.2005

 Grein um dvöld í Rúmeníu

Birtist í Morgunblaðinu, 20. mars 2005

Uppbygging fótboltavallar í litlu þorpi í Rúmeníu

Í ágústmánuði fóru þrír Íslendingar til Rúmeníu og tóku þátt í fjölþjóðlegu verkefni sem m.a. hafði það að markmiði að bæta samskipti sígauna og Rúmena. Halla Gunnarsdóttir tók þátt í því ásamt Þresti Sigurðssyni og Unni Gísladóttur og komst að því að stærsta ósk unglingsstráka í litlu þorpi þar í landi er að hafa aðgang að fótboltavelli.

Hvergi í Evrópu búa jafnmargir sígaunar og í Rúmeníu. Fjöldi þeirra hefur þó ekki verið skráður en talið er að hann sé á bilinu 500 þúsund til tvær milljónir en í heildina búa rúmlega 22 milljónir manna í Rúmeníu. Sígaunarnir búa bæði í þorpum og borgum en taka mismikinn þátt í samfélaginu. Miklir fordómar eru í garð þeirra meðal almennings og þá sérstaklega í þá átt að þeir nenni ekki að vinna heldur betli frekar þrátt fyrir að eiga stærðarinnar hallir á víð og dreif um landið.

Verkefnið Romanimation var með eitt af meginmarkmiðum að vinna gegn fordómum, koma á óformlegri menntun og bæta samskiptin milli sígaunanna og Rúmena. Orðið romanimation samanstendur af roma sem stendur fyrir sígaunar, romani fyrir Rúmeníu og animation sem gæti kallast sýnikennsla en það var aðferðin sem var notuð til að ná til fólks og vinna að markmiðunum.

Þátttakendur í verkefninu komu frá fimm Evrópulöndum auk þátttakenda frá Rúmeníu en Evrópusambandið og Evrópuráðið styrkja ótal verkefni af þessu tagi á hverju ári.

Engin óformleg menntun

Unnið var í tveimur þorpum í vesturhluta landsins, Dudestii Noi og Satchinez. Veruleikinn er harður og bilið milli vel stæðra og fátækra skuggalega breitt. Menntun er af skornum skammti og þrátt fyrir að langflest rúmensk börn gangi í skóla þá vantar mikið upp á að öll sígaunabörnin komist til mennta. Engin óformleg menntun er í þorpunum. Hvergi er boðið upp á skipulagða dagskrá eða íþróttaæfingar fyrir börn. Af þessum sökum er agi takmarkaður og einfaldir hlutir eins og að fara í röð geta vafist mjög fyrir börnum.

Kynþáttafordómar eru miklir og í öðru þorpinu ríkti hálfgerð aðskilnaðarstefna. Rúmensku börnin léku alls ekki við sígaunabörnin og beittu þau jafnvel ofbeldi. Sígaunarnir bjuggu við miklu verri kost, mörg barnanna voru illa til fara og oft með flær og lýs.

Hefðbundinn dagur hófst með undirbúningi fyrir athafnir dagsins. Sérstaklega var gætt að því að bjóða upp á vinnustofur fyrir ungt fólk í þeirri von að það komi til með að fylgja starfinu eftir. Börnin lærðu að búa til hljóðfæri, spila á spil, hoppa í snú snú, leika ýmsa götuleiki og inn í þetta allt saman var fléttaður boðskapur jafnréttis og samvinnu.

Fótboltavöllur stærsta óskin

Í fyrra þorpinu, Dudestii Noi, lét árangurinn ekki á sér standa. Þátttakendum fjölgaði dag frá degi, byggður var lítill leikvöllur úr timbri með dyggri aðstoð ungs fólks í þorpinu og eftir dvöl fjölþjóðlega teymisins liggur fyrir stofnun tveggja samtaka, önnur fyrir sígauna í þorpinu en hin fyrir ungt fólk.

Starfið var öllu strembnara í Satchinez. Fátæktin var meiri og henni fylgir vonleysið auk þess sem bæjaryfirvöld voru áhugalaus um verkefnið. Það sem kom einna mest á óvart var hversu léleg samskipti þorpsbúa voru. Allt fram á okkar síðasta dag kom fólk undrandi og spurði hvað við værum að gera og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir okkar náðum við litlum sem engum tengslum við stærstan hluta þorpsbúa. Að undanskildum stöku gæsahópum voru göturnar auðar og fólk virtist aðeins koma saman á barnum en þar var því miður minnst af okkar markhópi.

Fyrsta daginn kom mikið af börnum, bæði Rúmenar og sígaunar. Þeim fækkaði þó dag frá degi og að lokum voru eingöngu rúmensk börn eftir en sagan segir að foreldrar hafi bannað börnunum sínum að koma á staðinn þar sem þau ættu ekki að leika við börn af öðrum kynþáttum. Þá var lítið annað að gera en að setja upp vinnustofu í sígaunahverfinu og reyna þannig að ná til barnanna.

Ein af leiðunum til þess að ná til ungs fólks var að spila fótboltaleik við unglinga. Skemmst er frá því að segja að hið fjölþjóðlega lið var gersigrað þrátt fyrir að hafa verið með knattspyrnusnilling frá Ítalíu, íslenska og sænska víkinga og fótfráa Belga. Markmið leiksins náðist þó og að honum loknum féllust unglingarnir á að starfa með okkur að því að bæta bæjarfélagið. Ósk þeirra var einföld og skýr. Allt tal um sundlaugar og skemmtigarða vék fyrir þeirra mikilvægasta markmiði: Að byggja upp fótboltavöll til þess að geta verið með skipulegar æfingar.

Í þorpinu er fótboltavöllur en hann er eign olíufyrirtækis og starfsmenn þess fá forgang á völlinn. Rétt hjá vellinum er hús og íbúarnir reka alltaf börn í burtu ef þau eru nógu dökk til að kallast sígaunar en láta rúmensk börn óafskipt.

Innantóm loforð yfirvalda

Unglingarnir voru tregir til samvinnu við bæjaryfirvöld þar sem þeir sögðu bæjarstjórann gefa út loforð í sífellu sem aldrei yrðu efnd. “Við höfum áður byrjað að vinna við völlinn. Við erum með ákveðið svæði í huga, bæjarstjórinn samþykkti það og við byrjuðum að hreinsa svæðið. Hann hafði lofað að sjá til þess að grasið yrði slegið en nú eru komin nokkur ár síðan og ekkert hefur gerst,” sagði 19 ára gamall leiðtogi unglinganna.

Hópurinn undirbjó ósk sína vel. Útbúið var sérstakt skjal með ósk unglinganna, ástæðum og yfirlýsingu um fullan vilja til þess að sjá um alla vinnuna í kringum uppbygginguna sjálfir, ef þeir aðeins fengju leyfi, stuðning og nauðsynleg tæki og tól.

Á fundum með bæjarstjóranum og varabæjarstjóranum féllu stór loforð og mikill skilningur var á stöðu sígauna. Að loknum fundinum spurðu vongóðu og kannski um margt barnslega einlægu útlendingarnir hvernig þetta legðist í okkar menn. Þeir hristu hausinn. Vonin var engin. Þetta er það sama og þeir segja alltaf. Engu að síður er nú hafin vinna við hreinsun svæðisins sem hefur verið notað sem ruslahaugur undanfarin ár. Þá er bara spurning hvort bæjarstjórarnir standi við sín loforð. Til stendur að fara á næsta ári til Satchinez og bjóða upp á þjálfun fyrir ungmenni sem geta tekið að sér hlutverk leiðtoga og sérstaklega verður hugað að menntun fyrir tilvonandi knattspyrnuþjálfara.

Þróunarhjálp á villigötum?

Í báðum þorpunum rákum við okkur á arfleifð þeirrar stefnu í þróunarhjálp að gefa peninga án þess að fylgjast með því í hvað þeir eru nýttir. Í öllum þorpum hafa verið reistar menningarmiðstöðvar sem standa oftar en ekki auðar þar sem enginn veit hvað á að gera við þær. Samheldni er lítil og fólk bíður eftir að eitthvað breytist á meðan lítil viðleitni er til að stuðla að breytingum. Það er augljóst að öll þróunarhjálp þarf að eiga sér stað í samráði við almenning því peningar klárast en hugmyndir, sköpun og uppbygging lifa. Hungrað fólk mun aldrei hafa kraft eða hvata til að skapa eitthvað nýtt.