16.01.2005

Sunnudaginn 16. janúar, 2005 – Innlent – greinar

Kynferðisbrotamenn gjalda sjaldnast fyrir brot sín

Umræða um kynferðisofbeldi blossar reglulega upp í samfélaginu og þá oft í tengslum við dóma sem falla og þykja heldur vægir. Halla Gunnarsdóttir kynnti sér hversu hátt hlutfall kynferðisbrotamála ratar upp á yfirborðið og leitaði álits hjá sérfræðingum um hvort breytinga sé þörf.

Varlega má áætla að um 400-500 manns, fullorðnir og börn, hafi greint frá kynferðislegu ofbeldi á árinu 2003 hvort sem það eru brot sem áttu sér stað á því ári eða áður. Þá er annars vegar átt við þau brot sem í daglegu tali eru kölluð nauðgun og hins vegar kynferðisofbeldi gagnvart börnum. Ofbeldistilvikin sem þetta fólk greindi frá eru þó öllu fleiri þar sem ein manneskja segir oft frá fleiri en einu broti. Að hámarki tuttugu mál af þeim 125 sem bárust ríkissaksóknara á þessu sama ári leiddu til dóms yfir sakborningi. Það er því augljóst að fæstir kynferðisofbeldismenn þurfa að gjalda fyrir brot sín.

Þegar lögð er fram kæra í kynferðisbrotamáli er það gert hjá lögreglu. Lögreglan rannsakar málið og vísar því áfram til embættis ríkissaksóknara. Þar er málið skoðað og tekin ákvörðun um hvort ákært skuli í málinu en ríkissaksóknari fer með málið fyrir rétti.

Sigríður Jósefsdóttir, saksóknari hjá Ríkissaksóknara, bendir á að það sé bundið í lög að mál skuli fellt niður ef það þykir ekki nægilega líklegt til sakfellingar. Hún segir að vanalega hafi einn aðili umsjón með málinu en leiti álits hjá öðrum ef það er vafi um hvort eigi að ákæra. “Það eru undantekningartilvik að aðeins einn fari yfir mál sem er fellt niður,” segir Sigríður og bætir við að ýmsar ástæður geti verið fyrir niðurfellingu. Sönnunarbyrðin sé oft erfið í þessum málum. Oft standi aðeins orð gegn orði og jafnvel engin vitni eða gögn sem styðji framburð kærandans.

6,2% leiddu til sakfellingar

Í ársskýrslu Ríkissaksóknara kemur fram að þangað bárust 125 mál varðandi nauðganir¹ eða kynferðisofbeldi gegn börnum árið 2003. Það er minna en fjórðungur þeirra mála sem ætla má að hafi komið upp. 66% þessara mála voru felld niður og fóru því aldrei fyrir dóm. Hlutfall mála sem leiddi til sakfellingar var að hámarki 16% en Hæstiréttur átti eftir að dæma í fjórum þegar skýrslan kom út.

65 mál sem bárust ríkissaksóknara vörðuðu brot sem í daglegu tali kallast nauðganir. Af þeim voru 49 felld niður en ákært í sextán málum. Aðeins fjórum þeirra lauk með sakfellingu en það þýðir að aðeins 6,2% kæra í “nauðgunar”málum leiddu til dóms yfir sakborningi.

Meira en helmingur 60 mála varðandi kynferðisofbeldi gegn börnum var felldur niður. Tólf málum lauk með sakfellingu en þegar ársskýrslan kom út var enn ódæmt í fjórum málum. Hlutfall mála sem leiddu til dóms vegna brota á börnum var því ívið hærra eða að hámarki 27%.

Stígamótum bárust 338 ný kynferðisofbeldismál frá 251 einstaklingi á árinu 2003. Til Stígamóta leitar bæði fólk sem hefur verið nauðgað og fólk sem var beitt kynferðislegu ofbeldi sem börn.

Níu af hverjum tíu þessara mála rötuðu aldrei til opinberra aðila og aðeins var sakfellt fyrir tæplega 1% brota. Í Ársskýrslu Stígamóta segir að ástæðurnar geti m.a. verið þær að málin voru fyrnd, að fólk treysti sér ekki í gegnum yfirheyrslur eða að það hafi ekki trú á réttarkerfinu.

Neyðarmóttaka vegna nauðgunar tók á móti 118 konum og einum karlmanni árið 2003. Tæpur helmingur þeirra lagði fram kæru en fólk kemur venjulega á Neyðarmóttökuna stuttu eftir að brotið átti sér stað. Í 39 af þessum 119 málum var fórnarlambið verulega ölvað og því um misneytingu að ræða (196. gr).
Barnahús hafði afskipti af 233 nýjum málum árið 2003. Í sjötíu þeirra var óskað eftir opinberri rannsókn. Eva Björk Valdimarsdóttir hjá Barnahúsi segir líkur á að um ofbeldi hafi verið að ræða í fleiri en sjötíu tilfellum. Í mörgum málum sé ekki lögð fram kæra. Stundum var gerandi óþekktur eða ekki sakhæfur vegna ungs aldur en í öðrum tilfellum var aðeins um óljósan grun um ofbeldi að ræða. Í 32 tilvikum greindu börn frá þátttöku sinni í kynferðislegum leikjum og í framhaldinu þótti ástæða til að athuga hvaðan þau fengu hugmyndir að slíkum leikjum.

Málin fleiri en manneskjurnar

Sjö þeirra sem leituðu til Stígamóta höfðu leitað áður til Neyðarmóttöku og jafnmargir til Barnahúss. Hjá Neyðarmóttöku fengust þær upplýsingar að mjög fáir þeirra sem þangað leituðu hefðu farið í Stígamót áður eða innan við fimm manns. Það er því ekki mikil skörun milli þessara þrennra samtaka og stofnana sem taka á móti fórnarlömbum kynferðisofbeldis. Skörunin hjá Stígamótum og Neyðarmóttöku ætti ekki að vera meiri en 12 mál, sjö sem Stígamót vita um og að hámarki fimm sem Neyðarmóttakan veit um. Skörunin hjá Barnahúsi og Stígamótum er sjö mál þótt ekki sé öruggt að þau eigi við árið 2003.

Talið er að 1½-2% tilkynntra nauðgana eigi ekki við rök að styðjast. Það er svipað hlutfall og í öðrum afbrotum. Eyrún Jónsdóttir hjá Neyðarmóttöku segir að starfsfólk Neyðarmóttökunnar sé vel meðvitað um þetta. Hún segist þó ekki telja að um sé að ræða fólk sem vill hefna sín á einhverjum og ásaki því viðkomandi um nauðgun heldur sé þetta fólk í vanda sem hefur hugsanlega verið beitt kynferðislegu ofbeldi áður og á eftir að vinna úr miklu. Þá segir Eyrún að einstaka sinnum geti verið um fólk að ræða sem á við geðræn vandamál að stríða og hefur ekki raunveruleikatengsl. Þeirra upplifun er þó oft sú að það hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi.

Séu 2% dregin frá þeim 119 málum sem komu inn á Neyðarmóttöku standa 117 mál eftir. Það er ekki ólíklegt að um ofbeldi hafi verið að ræða í a.m.k. hundrað tilvikum af þeim 233 sem komu inn til Barnahúss á árinu 2003. Líkurnar á því að einhver komi til Stígamóta sem ekki hefur verið beitt/-ur kynferðislegu ofbeldi eru hverfandi þar sem samtökin eru fyrst og fremst fyrir fólk sem vill vinna úr afleiðingum ofbeldisins. Því má ætla að þessi 251 manneskja sem þangað leitaði hafi verið beitt ofbeldi.
Séu ofangreindar tölur lagðar saman má varlega áætla að á milli 400 og 500 manns hafi greint frá kynferðisofbeldi á árinu 2003 hvort sem ofbeldið átti sér stað þá eða áður. Kynferðisbrotamálin eru þó fleiri, m.a. vegna þess að fólk sem leitar til Stígamóta greinir oft frá fleirum en einu máli. Í þessu er að sjálfsögðu ótalinn sá hópur sem ekki segir frá ofbeldinu og sá hópur sem aðeins lagði fram kæru hjá lögreglu en leitaði ekki til Barnahúss, Neyðarmóttöku eða Stígamóta.

Málin 125 á borði ríkissaksóknara eru því aðeins toppurinn á ísjakanum. Það að sakfellingar hafi verið að hámarki tuttugu hlýtur að vekja spurningar um hvernig sé hægt að fá fleiri þessara mála upp á yfirborðið og hvort réttarkerfið nái nægilega vel utan um þessi alvarlegu brot.

¹ Hér er vísað til mála sem fela í sér brot á 194.-198. grein almennra hegningarlaga. Aðeins fimm mál sem komu til ríkissaksóknara 2003 flokkast undir greinar 197 og 198 en það er eflaust álitamál hvort brot á þeim kallist í daglegu tali nauðgun.
***

Sunnudaginn 16. janúar, 2005 – Innlent – greinar

Lagakaflinn ekki í samræmi við þekkinguna

m7 m8

Gjörbylting hefur orðið á þekkingu á eðli og afleiðingum kynferðislegs ofbeldis síðustu tvo áratugi.

Gjörbylting hefur orðið á þekkingu á eðli og afleiðingum kynferðislegs ofbeldis síðustu tvo áratugi. Hins vegar hefur engin heildarendurskoðun á lagaákvæðum varðandi þessi brot farið fram síðan 1992 eftir að nauðgunarmálanefnd skilaði niðurstöðum sínum en hún starfaði frá 1984-1988. Á svipuðum tíma varð mikil vitundarvakning í samfélaginu. T.a.m. var vinnuhópi gegn sifjaspelli komið á laggirnar, Stígamót tóku til starfa árið 1990 og í samræmi við tillögur nauðgunarmálanefndar opnaði Neyðarmóttaka vegna nauðgunar árið 1993.

Það er auðvelt að benda á að víða sé pottur brotinn í meðferð kynferðisofbeldismála en erfiðara að gera sér grein fyrir hverju er hægt að breyta.
Viðmælendur sem Morgunblaðið leitaði til voru flestir sammála um að þyngri refsingar væru ekki endilega til þess fallnar að draga úr kynferðisofbeldi. Refsihámark í lögum um kynferðisbrot er ekki talið of lágt en hins vegar eru menn afar sjaldan dæmdir í langt fangelsi í þessum brotaflokki.
Hugmyndin um öfuga sönnunarbyrði kemur upp af og til. Það þýðir að sé maður ákærður fyrir nauðgun þarf hann að sanna sakleysi sitt í stað þess að sýna þurfi fram á að nauðgunin hafi átt sér stað. Viðmælendur Morgunblaðsins voru einnig sammála um að þessi nálgun sé ekki möguleg í réttarríki enda er það grundvallaratriði að manneskja teljist saklaus uns sekt hennar er sönnuð.

Á að hækka samræðisaldur?

Kynferðisbrotakafla norsku hegningarlaganna var breytt árið 2000 eftir veigamikla endurskoðun. Sif Konráðsdóttir, hrl., segir að slík heildarendurskoðun sé bráðnauðsynleg hér á landi. Norsku lögin taki nú mið af þeim breytingum sem hafa orðið þar í landi og eru að mörgu leyti þær sömu og hér.

Sif bendir á að tilkynntum misneytingarmálum (196. gr.) hafi fjölgaði gríðarlega. Í norsku lögunum sé ekki gerður greinarmunur á misneytingu og nauðgun eins og í íslenskum lögum heldur teljist hvort tveggja nauðgun. “Íslensku lögin taka í raun ekki mið af því sem er verið að vernda, þ.e. kynfrelsi. Miðað við þá skjólstæðinga sem ég hef haft þá eru afleiðingarnar af misneytingu ekkert minni en af nauðgun. Lögin eru í raun að endurspegla allt annan raunveruleika. Þessi mynd af óþekkta glæpamanninum sem ræðst á saklausa konu í húsasundi er ekki raunveruleg.”

Sif segir að hverfa þurfi frá þeirri ofuráherslu sem er á verknaðaraðferðina í íslenskum lögum, þ.e. hvernig ofbeldið er framið, bæði hvað varðar ákvæði um nauðganir og um kynferðisbrot gagnvart börnum. Hún bendir á að í 202. grein hegningarlaga sé annars vegar talað um samræði og kynferðismök við barn yngra en 14 ára en hins vegar um kynferðislega áreitni en við henni er mun lægri refsing. “Þarna er einhver ofuráhersla á að skilgreina hvernig eitthvað gerðist nákvæmlega sem augljóslega er kynferðisbrot. Það eru alltof mörg dæmi um alvarleg brot sem er ekki nógu skýrt að falli undir þetta alvarlegra ákvæði,” segir Sif og tekur sem dæmi að í einu máli hafi snerting kynfæra ungrar stúlku flokkast sem kynferðisleg áreitni þar sem barnið hafi ekki getað fullyrt að farið hafi verið inn í leggöngin en að það sé þó ekki skilyrði samkvæmt lagaákvæðum.

Árið 1998 var gerð lagabreyting sem fól í sér að fyrningarfrestur tekur ekki gildi fyrr en barn er orðið 14 ára gamalt. Brot sem áttu sér stað fyrir 1998 byrjuðu þó að fyrnast um leið og þau voru framin. Sif bendir á að mörg alvarleg brot séu fyrnd vegna þess að þau flokkist sem kynferðisleg áreitni en hámarksrefsing við henni er 4 ár. Ef þyngsta refsing við broti er fjögur ár fyrnist málið á fimm árum en á tíu árum ef þyngsta refsing er tíu ár.

Í norsku lögunum er samræðisaldur sextán ár og allt kynferðislegt atferli með börnum undir þeim aldri því refsivert. Hér á landi er samræðisaldur hins vegar 14 ár en Sif bendir á að hann sé hvergi svo lágur í þeim löndum sem við berum okkur saman við. “Eftirlitsnefnd með Barnasáttmálanum, umboðsmaður barna og allir sem þekkja til mannréttinda barna hafa bent á að hækka beri samræðisaldurinn hér á landi. Einu rökin sem ég hef heyrt á móti því er að við ætlum ekki að refsa jafnöldrum en við hljótum að komast hjá því með því að fara svipaða leið og Norðmenn,” segir Sif og vísar til þess að samkvæmt norskum lögum eigi ekki að ákæra ef um jafnaldra er að ræða eða einstaklinga með svipaðan þroska. Sif fullyrðir jafnframt að það sé ekki algengt sjónarmið að 14 ára börn hafi andlegan þroska til að stunda kynlíf eða til þess að standa andspænis fullorðnum karlmanni og taka slíka ákvörðun.

Nauðgun af gáleysi

Athyglisvert ákvæði er að finna í norsku lögunum þar sem kveðið er á um nauðgun af gáleysi. M.ö.o. þá þarf ásetningur til þess að nauðga ekki að vera til staðar, t.d. þegar maður hefur mök við áfengisdauða manneskju. Sif segir að fram til 1992 hafi verið refsað fyrir gáleysi í misneytingarákvæðinu hér á landi en að það hafi farið út úr lögunum án skýringa. Sif segir þó að ákvæði um nauðgun af gáleysi sé umdeilanlegt og þurfi skoðunar við.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir að sér þyki hugtakið nauðgun af gáleysi nokkuð sérstakt en að það sé sjálfsagt að skoða hvernig aðrar þjóðir hafa farið að. “Ef um gáleysi er að ræða, það er að segja að ekki er um ásetning að ræða, þá virðist verknaðurinn vera annar þótt það tryggi ekki að afleiðingarnar verði fórnarlambinu mildari.” Björn segir að hafa megi skilning á því að sérstaklega er kveðið á um misneytingu í lögum og þar með að það sé alvarlegra að beita ofbeldi við nauðgun. “Fórnarlambið þarf þá að auki að þola ofbeldið og upplifa verknaðinn meðan á honum stendur auk þess sem brotavilji þess sem brýtur mótspyrnu á bak aftur, eða lamar hana með hótunum, virðist sterkari en þess sem nýtir sér varnarleysi svo sem vegna ölvunar eða annars líkamlegs eða andlegs ástands.”

Björn segir að engin allsherjarendurskoðun sé í gangi á lögum um kynferðisbrot. Nýverið hafi dómsmálaráðuneytið falið refsiréttarnefnd að skoða hvort ástæða væri til þess að breyta lögum um samræðisaldur en það var einróma álit nefndarinnar að ekki væru fullnægjandi rök fyrir því. Hjá ráðuneytinu fengust þær upplýsingar að í rökstuðningi nefndarinnar kom m.a. fram að með því að hækka kynferðislegan lögaldur væri verið að gera stóran hóp unglinga að afbrotamönnum. Þá var bent á að löggjöfin gerði nú þegar ráð fyrir refsingu við því ef eldri einstaklingur misnotaði sér vanþroska og trúgirni ungmenna í kynferðislegum tilgangi.

Jón Þór Ólason, stundakennari í refsirétti, segir ekkert óeðlilegt við það að þjóðfélagið bregðist harkalega við og vilji þungar refsingar við þessum brotum og þá ekki hvað síst þegar þau beinast gegn börnum. Hann ítrekar þó mikilvægi þess að dómstólar gæti hlutleysis, bæði hvað varðar brotaþola og sakborning. Almenningur sé hins vegar ekki í þeirri stöðu en dómstólar megi aldrei láta stjórnast af því. Jón Þór vill ekki meina að þungar refsingar séu helsta vopnið í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. “Þungar refsingar geta hugsanlega dregið úr kærutíðni. Refsingar eru beggja handa járn sem geta komið þeim í koll sem síst skyldi. Í Bandaríkjunum eru miklu þyngri refsingar en þrátt fyrir það er afbrotatíðnin hærri og ítrekunartíðnin líka.”

Dómstóll sé fjölskipaður

Jón Þór segir að sönnunarstaðan í kynferðisbrotamálum geti verið mjög erfið en að hún hafi batnað, t.d. með tilkomu Neyðarmóttöku og Barnahúss. “Miklar breytingar hafa orðið á meðferð opinberra mála en það er margt sem mætti skoða betur. T.d. ætti alltaf að vera fjölskipaður dómstóll þegar fjallað er um kynferðisbrot. Bæði vegna brotaþola og sakbornings. Svo má deila um það hvort Hæstiréttur eigi í auknum mæli að leiða vitni fyrir dóm en nú er þannig að ef héraðsdómur metur framburð ekki trúverðugan endurmetur Hæstiréttur ekki þá niðurstöðu. Það er óvenjulegt að láta mat á skýrslu ráðast af mati eins dómara.”
Jón Þór segir mikilvægt að hvetja brotaþola til þess að kæra sem fyrst þótt það sé kannski ekki svo einfalt. Hins vegar séu minni líkur á sakfellingu ef langur tími líður frá því að brotið var framið.

Að mati Jóns Þórs er óeðlilegur munur á refsiákvæðum fyrir nauðgun og misneytingu þar sem þetta eru náskyldar brotategundir. “Hegningarlögum er ætlað að vernda kynfrelsi einstaklinga og það er ekki síður alvarlegt að hafa samfarir við einhvern sem er sofandi en að nauðga með ofbeldi,” segir Jón Þór.

***

Sunnudaginn 16. janúar, 2005 – Innlent – greinar

Karllægt réttarkerfi sem nýtist illa

Guðrún Jónsdóttir

[ Smelltu til að sjá stærri mynd ]
Réttarkerfið nýtist mjög illa í þessum málaflokki og lagabókstafurinn nær ekki raunveruleikanum. Það er hins vegar flóknara að segja til um hvernig það gæti orðið skilvirkara. Þetta segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.

Réttarkerfið nýtist mjög illa í þessum málaflokki og lagabókstafurinn nær ekki raunveruleikanum. Það er hins vegar flóknara að segja til um hvernig það gæti orðið skilvirkara. Þetta segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta. Guðrún segist ekki sjá mikla lausn í því að dæma kynferðisbrotamenn til langrar fangavistar. “Það er ekkert sem gerist í fangelsinu og ég hef ekki trú á hefnd sem slíkri. En ef þú býrð í samfélagi sem byggist á því að mönnum sé refsað með fangelsisvist ef þeir brjóta reglurnar hlýtur það sama að eiga að gilda í þessum brotaflokki sem öðrum.” Guðrún segir að henni þyki mun alvarlegra hve fá mál enda með dómi en hversu stuttir dómarnir eru. Á sama tíma og Stígamót hafa fengið mál sem varða tæplega 5.500 ofbeldismenn, þótt sumir þeirra gætu verið tví- eða margtaldir, hafa 202 verið dæmdir í fangelsi. “Enn sjáum við of oft í dómum réttlætingu á ofbeldinu. Brotin eru afsökuð og skýrð með einhverjum öðrum og alvarlegri vandamálum. Það skelfir mig þvílíkt vald dómarar hafa þegar þeir afhjúpa svo litla þekkingu og raun ber vitni. Það kemur svo oft fram samúð með kynferðisbrotamönnum sem mér þykir úr takti við það sem þeir hafa brotið af sér.” Guðrún segir að ekki nægi að lappa upp á lagakaflann um kynferðisbrot heldur þurfi að endurskoða hann í heild. “Hinn gamli áróður Stígamóta um að nei þýði nei er mikilvægur en nær ekki öllu því sem getur gerst. Ekkert nema samþykki er ásættanlegt fyrir samfarir eða kynlíf,” segir Guðrún.

Nauðgun var eignaspjöll

Guðrún M. Guðmundsdóttir, mannfræðingur sem skrifaði meistaraprófsritgerð um af hverju karlar nauðga, segir að lagakerfið sé almennt mjög karllægt. “Það byggist upprunalega á hagsmunum ríkjandi hóps sem voru karlar í há- og miðstétt. Þegar borgarastéttin tók við af lénsveldinu voru uppi allar þessar hugmyndir um frelsi einstaklingsins en einstaklingurinn var karl. Þarna myndast skekkjan frá upphafi.”

Guðrún telur sennilegt að 16 ára refsirammi fyrir nauðgun sé arfleifð eldri hugmynda um alvarleika nauðgana og að þess vegna sé hann svo lítið nýttur sem raun ber vitni. “Í gamla daga var nauðgun eignaspjöll. Það var verið að rýra eign karlsins sem var faðir eða eiginmaður.”

Guðrún bendir á að fram til 1940 hafi verið minni refsing við því að nauðga konu sem hafði á sér óorð. Hún vill meina að refsiminnkunin hafi í raun haldist inni þegar lagakaflanum um kynferðisofbeldi var skipt niður í mörg mismunandi ákvæði þar sem brotamönnum eru gefnir sjensar. T.d. ef þeir nauðga fatlaðri konu sem ekki þorir eða getur sagt nei eða ef þeir eru yfirmenn og lokka stúlku til samræðis við sig í skjóli valds en það er brot á 198 gr. hegningarlaga þar sem m.a. segir að sá sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við manneskju utan hjónabands eða óvígðrar sambúðar með því að misnota aðstöðu sína að hún er háð honum í atvinnu sinni skuli sæta fangelsi allt að þremur árum. “Brotið getur ekki talist nauðgun samkvæmt lögum nema um ásetning hafi verið að ræða. Þess vegna verður það oft þannig að konan þarf að sanna að hún hafi ekki viljað árásina,” segir Guðrún og bætir við að lögin taki mið af kynferðislegum markmiðum gerandans en ekki af þeirri árás sem fórnarlambið upplifir inn í líkama sinn. Guðrún segir að lögin væru réttlát ef jafnrétti kynjanna væri veruleiki en að svo sé ekki. “Lögin eru því alveg kynblind. Til þess að hægt sé að gera löggjöfina í kynferðisbrotum réttlátari gagnvart konum þarf að taka mið af ójöfnuði kynjanna við endurskoðun þeirra. Eða m.ö.o. skoða þau með gleraugum femínista. Eftir allt saman er konum mun oftar nauðgað en körlum og eru nauðgarar langoftast karlar.”

04.01.2005

Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 4. janúar 2005

Jól í Konukoti

Hún sagðist heita Ólafía og fór að gráta þegar ég talaði hlýlega við hana. Ég sá hana fyrst við Hlemm. Það var aðfangadagur og frekar kalt úti. Búðirnar lokaðar og örfáir á ferli. Hún staulaðist framhjá mér með tóm, fljótandi augu. Eins og vanalega ætlaði ég aðhorfa í aðra átt og drífa mig heim. En ég staldraði við og minnti mig á eigin orð um hvað heimurinn gæti verið góður ef við hjálpuðum hvert öðru. 

Ég fylgdist með henni fara upp í strætisvagn og horfði á bílstjórann ýta henni út. Ég spurði hana hvert hún vildi fara. Hún var töff. Blótaði bílstjóranum fyrir að hafa fleygt sér út og sagðist ætla niður á Austurvöll. Ég sagði henni frá Konukoti. Þar væri hlýtt, hrein rúm og nóg af öllu. Neðri vörin á henni byrjaði að titra.

Bíllinn var aðeins steinsnar frá Hlemmi en það tók okkur langan tíma að staulast þangað. Hún var máttfarin og ískyggilega grönn. Litlar vindhviður voru sem stormur.

Ég hafði aldrei komið í Konukot. Vissi bara að það ætti að vera opið allan sólarhringinn yfir hátíðirnar. Konukot var stofnað fyrir tæpum mánuði. Reykjavíkurborg útvegaði húsnæði en Rauði krossinn sér um reksturinn.

Talið er að um hundrað manns séu heimilislausir hér á landi, þar af um fjórðungur konur. Þarna er átt við fólk sem er algjörlega “á götunni”, þ.e. á sér ekki fastan samastað. Að undanskildu Konukoti er aðeins eitt gistiskýli fyrir heimilislausa í Reykjavík. Þar eru fimmtán pláss en þau eru sjaldnast fullnýtt enda segja þeir sem til þekkja að skilyrði fyrir gistiplássi sé að vera allsgáður. Með opnun Konukots var í fyrsta skipti komið til móts við heimilislausar konur.

Þegar við nálguðumst Konukot varð ég óneitanlega stressuð. Hvað ef það mætti ekki koma drukkin þangað inn? Hvert gæti ég þá snúið mér?

Ótti minn var ástæðulaus. Móttökurnar í Konukoti hefðu vart getað verið hlýlegri. Þar var sjálfboðaliði á vakt sem þekkti lífið á götunni af eigin raun. Ég komst ekki hjá því að hugsa til þess að Kennaraháskólaprófið mitt, reynsla af leiðtogastörfum og ritun pistla sem þessa voru einskis virði þarna inni. Ég var gersamlega vanmáttug gagnvart aðstæðum þessarar konu en sjálfboðaliðinn sem skildi hvernig henni leið sýndi mér að umhyggja er stundum allt sem þarf.

Ég komst að því að Ólafía var ekki hennar rétta nafn. Hún var ýmist hlæjandi eða grátandi, í hlutverki lítils barns, feiminnar unglingsstelpu eða reiðrar konu. Ég kunni ekki annað ráð en að eyða tali um dauðann og reyna að líta á spaugilegu hliðarnar á lífinu sem leikur okkur svo misgrátt. Hún skalf og titraði af reiði þegar hún í sundurlausu máli sagði okkur frá aðfaranótt aðfangadags í fangageymslu lögreglunnar. “Það kom enginn þegar ég hringdi bjöllunni. Ég þurfti að pissa á gólfið,” sagði hún og grét og blótaði konunni sem var á vakt.

Ég velti því fyrir mér hvernig það er að vera lokuð inni. Niðurlægingunni að fá ekki að fara á klósettið og þessu undarlega stolti sem kom upp þegar hún hafnaði því að fara í Konukot.

Ég taldi mér trú um að tímaskyn hennar hefði ábyggilega verið brenglað og að eilífðin sem hún upplifði áður en bjöllunni var svarað hefði í raun verið tíu mínútur. En tvær aðrar konur höfðu sömu sögu að segja, báðar edrú. Ég mundi allt í einu eftir ættingja mínum sem hafði gist í fangageymslu og pissað í buxurnar því hann komst ekki á klósettið. Ég hélt alltaf að það væri lygi.

Þær sögðu mér frá lyftunni á Hverfisgötunni sem fólki hefði verið misþyrmt í. Nauðgun og brotnum hnéskeljum. Mér fannst eiginlega verst að ég hafði heyrt um þessa lyftu áður. Lögreglumaður átti að hafa sagt hreykinn frá því þegar róni meig í sig af hræðslu inni í lyftunni.

Konurnar sögðu mér samt að þetta væru aðeins svörtu sauðirnir innan lögreglunnar. Þeir stoppuðu vanalega stutt við. “Þetta eru þessir rambóar sem finnst þeir vera valdamiklir en alls ekki gamla góða lögreglan. Hún reynist okkur yfirleitt vel.”

Eftir því sem leið á aðfangadag fór ég að skilja betur aðstæður þessara kvenna. Ótti þeirra við mitt líf er jafnmikill og ótti minn við þeirra líf. Sumir kalla heimilisleysingja aumingja en ég sannfærðist um að það þarf jaxla til þess að lifa af á götunni. Staða kvenna er sérlega slæm. “Við erum bara gjaldmiðill. “Ef ég fæ 30 grömm af spítti hjá þér mátt þú hafa þessa konu í eina viku. Gefðu henni bara bjór og þá er hún ánægð,”" sagði ein. Það þarf enginn að segja mér hvernig þessar konur verða sér úti um næturstað.
Sem stendur er Konukot aðeins opið yfir nóttina. Það er merkilegt að velferðarþjóðfélagið skuli ekki geta gert betur en það. Engan sérfræðing þarf til að átta sig á hvert konurnar fara að morgni. Barinn er a.m.k. húsaskjól.

Starfsemi Konukots á eflaust eftir að breytast á næstu mánuðum og árum. Fólk þarf tíma til þess að læra að treysta nýrri starfsemi. Það er mikill fengur í að hafa til staðar fólk sem þekkir þennan heim af eigin raun en hefur komið undir sig fótunum.

Virðing fyrir manneskjunni skiptir sköpum sem og skilningur á eðli heimilisleysis, geðsjúkdóma, fíknar, ofbeldis, vændis og kynferðisofbeldis.

Við hin getum svo tekið okkur sjálf í gegn og spurt hver viðhorf okkar eru til þeirra sem minnst mega sín.