Viðhorfspistill
Birtist í Morgunblaðinu, 30. nóvember 2004
Jafnrétti um jólin II
Kæra Grýla.
Ég skrifa þér þetta bréf af því að ég veit að þú ert mamma jólasveinanna. Um daginn skrifaði ég nefnilega bréf til Giljagaurs þar sem ég óskaði eftir jafnrétti í jólagjöf.
Ástæðan fyrir því að ég valdi Giljagaur er sú að síðast þegar ég bar upp ósk við hann um að eignast snúsnúband rættist hún. Mér hefur ekki borist svar frá Giljagaur en hins vegar svaraði mér maður í gær, mánudag. Hann hélt því fram að jólasveinar væru ekki til. Ekki veit ég hvaðan hann hefur þá vitneskju en kannski veit hann meira en við hin um jólasveina, álfa, geimverur og jafnvel guð. Það skrýtnasta er að hann vildi samt fá að þykjast vera Giljagaur. Þessi maður virðist hafa áhyggjur af geðheilsu minni. Það er kannski skiljanlegt miðað við allt sem ég benti á í bréfinu til Giljagaurs. Þar sagði ég meðal annars frá því að oftar en einu sinni hef ég lent í því að hitta eða sjá menn sem ég veit að hafa nauðgað. Ástæðan fyrir því að ég veit það er sú að ég þekki fórnarlömbin. Ég hef horft á þau gráta. Í framhaldinu lýsti ég líkamlegum afleiðingum þessarar óstjórnlegu reiði sem grípur mig við að sjá þessa menn. Einhverra hluta vegna hélt “Giljagaur” að mér liði svona illa af ótta við að mennirnir myndu nauðga mér en það kemur hvergi fram í mínu bréfi. Hann heldur því líka fram að ég lifi í stöðugum ótta við að verða nauðgað. Ég þykist nú reyndar ekki kannast við að ótti stjórni mínu lífi á einn eða annan hátt en ég skal alveg viðurkenna að ég verð stundum fjári reið.
Ég var nefnilega ekkert að grínast í bréfinu mínu til Giljagaurs þegar ég sagði að u.þ.b. önnur hver kona í kringum mig hefði verið misnotuð kynferðislega. (Nú get ég einungis fullyrt um þær konur sem ég hef svo gott samband við að við ræðum þessi mál.) Ég vonaðist að sjálfsögðu til að þetta væri undantekning þangað til um daginn að kunningi minn tjáði mér að hlutfallið væri það sama í kringum hann. Það er ansi hátt hlutfall og ætti að svara spurningu “Giljagaurs” um líkurnar á því að mér eða annarri konu verði eða hafi verið nauðgað.
“Giljagaur” segist líka þreyttur á flestu sem byrjar á kvenna og endar t.d. á -guð, -hlaup og -framboð og kallar málflutning kvenna kvennaáróður. Ég held, Grýla, að hann geri sér ekki grein fyrir að forskeytið “karla” er aldrei notað fyrir framan allt sem tilheyrir körlum. Ég sit nefnilega undir stöðugum áróðri en einhvers staðar í ferlinu gleymdist að skeyta “karla” fyrir framan hann. Ég segi það sama við þig og ég sagði í bréfinu mínu til hins sanna Giljagaurs að ég er orðin leið á að vera frávik frá norminu.
Kæra Grýla. Um daginn var maður fundinn sekur um að hafa beitt konuna sína ofbeldi. Reyndar er það skuggalega algengt hér á Íslandi sem og annars staðar að eiginmenn beiti konurnar sínar ofbeldi en það fer sjaldnast fyrir dóm. Í þessu tilviki ákvað dómarinn að hafa dóminn skilorðsbundinn með vísun í það að konan hefði skapraunað manninum. Ég held að það sé þetta mál sem “Giljagaur” skrifar um og hneykslast á því að fólk hafi mótmælt dóminum. Ég verð samt að vera sammála “Giljagaur” í því að það er erfitt að mynda sér marktæka skoðun ef maður þekkir ekki málavöxtu. En ég held það sé ekkert erfitt að mynda sér skoðun á dómi. Það var nefnilega dómurinn sem gerði fólk reitt enda hefði enginn vitað af ofbeldinu ef ekki væri fyrir dóminn.
Í bréfinu vísar “Giljagaur” í ritgerð um ástæður nauðgana. Hann segir að höfundur hafi stundað nám við heimspekideild Háskóla Íslands og segir í framhaldinu að BA-ritgerðir séu sjaldan merkileg plögg. Ég þykist nokkuð viss um að hann sé að vísa til meistararitgerðar Guðrúnar Guðmundsdóttur um af hverju karlar nauðga. Ritgerðin er reyndar úr félagsvísindadeild, nánar tiltekið mannfræði. Ég kemst ekki hjá því að velta fyrir mér hversu marktæk skoðun “Giljagaurs” er á “BA-ritgerðum” til meistaraprófs ef hann þekkir ekki málavöxtu betur en þetta.
“Giljagaur” talar um að ég eigi að hugsa jákvætt. Ég held ég sé reyndar yfirleitt frekar jákvæð en ég get ómögulega séð að það sé eitthvað jákvætt við kynjamisrétti og nauðganir.
En veistu, Grýla, að það sem ég held að raunverulega valdi þessum óróa hjá “Giljagaur” er að ég bendi á að langflestir ofbeldismenn eru karlar og þessi tilhneiging mín til að tala um ofbeldi karla gegn konum sem já, ofbeldi karla gegn konum. Einu sinni þegar ég var yngri, um svipað leyti og ég eignaðist snúsnúbandið, þá lærði ég að þótt allir þorskar séu fiskar er ekki þar með sagt að allir fiskar séu þorskar. Ég held að þetta eigi mjög vel við í þessari umræðu.
Eflaust á ég heima í þeim hópi sem “Giljagaur” kallar svekktar konur. Og kæra Grýla, ég verð að játa að ég er svekkt. Ég er svekkt yfir öllu því misrétti sem ég og kynsystur mínar stöndum frammi fyrir daglega. Og ég er svekkt yfir því að þegar ég bendi á það rís einhver karl upp og reynir að gera mig ómerka orða minna með yfirlýsingum um geðheilsu mína. Ég er svekkt yfir að þessi sami karl geri lítið úr málflutningi allra kvenna og að hann líki reiði minni yfir því hversu algengar nauðganir eru við meintan ótta Bandaríkjamanna við allt sem er óþekkt.
Kæra Grýla, ég býst ekkert endilega við svari frá þér en þú getur kannski hnippt í hinn sanna Giljagaur og bent honum á þessa umræðu sem á sér stað hér í mannheimum.
Þín einlæg, Halla.
24.11.2004Viðhorfspistill
Birtist í Morgunblaðinu, 24. nóvember 2004
Jafnrétti um jólin
Elsku Giljagaur.
Þú hefur verið uppáhaldsjólasveinninn minn frá því að ég var níu ára. Þá skrifaði ég þér bréf og spurði hvort þú gætir gefið mér snúsnú-band í skóinn. Þú svaraðir mér ósköp fallega og sagðir mér að bíða um sinn því þú værir ekki með neitt snúsnú-band með þér. Stuttu síðar eignaðist ég snúsnú-band og mig grunar að þú hafir komið eitthvað að málum. Vegna þessarar góðu reynslu ákvað ég að skrifa þér þetta bréf. Fyrst var ég að hugsa um að biðja til guðs en var svo hrædd um að guð myndi beita fyrir sig þessu ákvæði að við mannfólkið höfum frjálsan vilja.
Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Ég er svo andlaus og þreytt. Þetta byrjaði allt fyrir nokkrum árum. Þá fór ég að taka eftir alls konar undarlegum hlutum. Í menntaskóla tók ég svo sem ekki eftir neinu, nema kannski eftir á að hyggja. Ég man samt að einu sinni bauð ég mig fram í einhverja nefnd. Við vorum þrjár stelpur en mótframboðið var þrír strákar. Þeir unnu og engin okkar komst inn. Samt fannst mér við miklu hæfari en kannski fannst þeim það sama. Þá læddist að mér þessi grunur að kannski væri það af því að við vorum stelpur en ekki þeir. Ég sagði það samt aldrei upphátt því þá hefði einhver getað haldið að ég væri að reyna að vera eitthvað. Stelpur eiga ekki að vilja vera eitthvað.
Með tímanum óx þessi tilfinning að sumt væri eins og það var af því að ég er stelpa. Og núna er ég orðin þreytt á öllu þessu rugli. Ég er orðin þreytt á því að þegar ég geri mistök í starfi eða tómstundum þá klúðri ég málum fyrir kvenþjóðina eins og hún leggur sig. Er þetta kannski eins hjá þér? Ef þú klúðrar einhverju heldur fólk þá að jólasveinar séu gersamlega vanhæfir? Kannski lendir þú líka í því að einhver fjölmiðill vill fá þig til að tjá þig um eitthvað sem þú veist lítið um og ef þú vilt það ekki er sagt að það sé alltaf sama sagan með jólasveina, þeir vilji ekki tala í fjölmiðlum. Ég er orðin svo þreytt á að vera alltaf skilgreind sem hópur.
Nú er kannski kominn tími á að ég beri upp ósk mína. Elsku Giljagaur, það eina sem mig langar í um jólin er jafnrétti. Ég er orðin leið á að búa í samfélagi sem er mótað í kringum lítinn en ótrúlega valdamikinn hóp karla. Ég er orðin leið á að vera frávik frá norminu.
Undanfarin ár hef ég trúað því að ég geti breytt einhverju um málið. Ég hef beitt ótal aðferðum. Ég hef talað, skrifað, mótmælt, kvartað, rifist og reynt að gerast fullgildur meðlimur í kapítalísku samfélagi með því að skipta ekki við fyrirtæki sem ýta undir fyrirlitningu gagnvart konum. Ég er kannski óþolinmóð en mér finnst einhvern veginn ekkert breytast. Kannski finn ég ekki réttu leiðina en mér finnst ég hafa reynt allt.
Um daginn hitti ég vin minn á bar. Við vorum að spjalla um femínisma þegar hann spurði mig hvort ég vissi af hverju konur eru í þessari stöðu sem þær eru. Ég var sein til svars og þá sagði hann: “Að minnsta kosti helmingur þeirra kvenna sem ég hef kynnst hefur verið misnotaður kynferðislega.” Hann sagði það hreint út sem ég hef svo lengi vitað en óttast að horfast í augu við. Í kringum mig er hlutfallið svipað og hann talar um. Á markvissan hátt er konum haldið niðri. Oftar en einu sinni hef ég lent í því að hitta eða sjá menn sem ég veit að hafa nauðgað. Þeir eru að drekka bjór á barnum eða kaupa sér ís í Kringlunni. Ég er orðin leið á að finna hnén lamast, æðarnar þrútna og hjartað fara á fullt.
Kæri Giljagaur. Ég er orðin þreytt á að konur þurfi stöðugt að búa við þann ótta að verða nauðgað. Ég gerði þessa baráttu að minni með það fyrir augum að aukin fræðsla hjálpi fórnarlömbum að leita sér hjálpar og beini um leið sjónum að ofbeldismönnunum sem eru svo óhugnanlega margir. Samt má aldrei minnast á þessa ofbeldismenn því um leið og það er gert verður fólk öskureitt. Það er hægt að samþykkja að skuggalega mörgum konum sé nauðgað og börn beitt ofbeldi en að ofbeldismennirnir séu líka rosalega margir, það má ekki tala um. Samfélagið er nokkurn veginn sammála um að kynferðislegt ofbeldi eigi ekki að líðast og ég hélt því að baráttan yrði auðveld. En ég er að berjast við ósýnileg öfl. Öfl sem sannfæra okkur um að í nauðgunarmálum skipti máli hvort konan hafi drukkið, stundað kynlíf með einhverjum sama kvöld (eins og kynlíf og nauðgun sé nokkurn veginn það sama), farið heim með nauðgaranum eða bara yfirleitt þekkt hann. Þessi atriði skipta líka máli fyrir hinu meinta réttarkerfi. Ég segi þér það satt Giljagaur að mér finnst minn réttur aldrei skipta máli fyrir rétti.
Á örfáum mánuðum hafa tvær konur verið drepnar hér á Íslandi. Önnur af maka en hin af fyrrverandi maka. Ísland er ekki stórt land. Mér finnst svo skrýtið að það séu meiri líkur á að ég verði beitt ofbeldi af maka en að ég lendi í umferðarslysi. Ég get haldið endalaust áfram. En elsku Giljagaur. Það sem sjokkerar mig mest er að það er sama hvað ég tala og skrifa það virðist ekkert breytast. Ég er orðin þreytt á að tala alltaf við sama fólkið. Fólkið sem veit þetta allt saman. Ég er orðin þreytt á að sækja fundi um jafnrétti kynjanna þar sem mikill meirihluti fundargesta er konur.
Elsku Giljagaur. Ég veit ekki hvað ég á til bragðs að taka. Þess vegna leita ég til þín. Ég er tilbúin að skila snúsnú-bandinu, ef ég bara fæ jafnrétti.
Þín einlæg, Halla.
19.11.2004Grein um kynferðislegt ofbeldi
Birtist á Múrnum 19. nóvember 2004
Hvað þýðir nei?
Ríkissaksóknara bárust 204 kynferðisbrotamál á síðasta ári. Þar af voru tæp 55% felld niður. Þetta eru fleiri mál en bárust í fyrra en þá fór engu að síður hærra hlutfall fyrir dóm. Kærur eru felldar niður ef talið er ólíklegt að málinu ljúki með sakfellingu. Múrinn tók saman tilvitnanir í nokkra dóma í kynferðisbrotamálum. Hér er ekki fjallað um brot gegn börnum. Rétt er að geta þess að hér er ekki tekin afstaða til þess hver er sekur og hver er saklaus heldur einungis bent á atriði í dómunum sem sýna hvernig sönnunarbyrðinni er háttað.
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi þann 16. júní 2003 í máli nr. S-346/2003. Ákærði var sýknaður af tveimur nauðgunum. Dómarar voru Þorgeir Ingi Njálsson og Jónas Jóhannsson og dómstjóri Ólöf Pétursdóttir. Hér eru brot úr dómnum um fyrri nauðgunina.
„Ákærði lýsti samförum þeirra nánar á þann veg að þau hefðu byrjað að kyssast og hann kelað við Y og þuklað á henni utan klæða. Hún hefði í fyrstu ýtt hendi hans frá, en hann ekki gefið sig og haldið áfram að káfa á henni. Hann hefði meðal annars reynt að setja aðra höndina ofan í buxur hennar og hún þá sagt “ekki”. Hann hefði þá dregið höndina til baka, en engu að síður haldið áfram að gæla við hana og þrábeðið hana um að afklæðast og hafa við hann samfarir. Á endanum hefði hún gefið eftir og þau haft “venjulegar” samfarir í rúminu, þar sem Y hefði legið á bakinu og hann ofan á henni. [...]
Guðmundur Baldursson rannsóknarlögreglumaður staðfesti fyrir dómi að ákærði hefði haft samband við lögreglu á hádegi og verið yfirheyrður um málsatvik sama dag. [...] kvaðst Guðmundur hafa haft á tilfinningunni að ákærði hefði ekki séð neitt athugavert við fram-komu sína gagnvart konunni og verið sáttur við það að hafa fengið hana til lags við sig.
[...]
Ákærði hefði því næst kveikt sér í hasspípu, en Y sagt að hann skyldi ekki reykja hass í návist hennar.
[...]
Við skýrslugjöf sína hjá lögreglu greindi Y meðal annars frá því að hún hefði beðið fyrir utan umrætt fjöleignarhús á meðan ákærði hefði vikið sér frá og þóst hringja í félaga sinn. Y tjáði sig síðast um málsatvik í skýrslu sinni fyrir dómi og kvaðst þá hafa beðið í anddyri fjöleignarhússins á meðan ákærði hefði farið eitthvert upp og þóst hringja í félaga sinn.
[...]
Í gögnunum kemur fram að Y hafi verið með einkenni áfallastreitu (kreppuviðbrögð), svo sem skjálfta, hraða öndun, hjartslátt og ógleði. Þá hafi hún verið óttaslegin, grátið samfellt, hniprað sig saman og virst endurlifa atburði næturinnar.
[...]
Á hinn bóginn er á það að líta að Y fór sjálfviljug heim til ákærða þrátt fyrir að vera stödd við hlið lögreglustöðvarinnar, en þar hafði hún áður mætt velvilja lögreglumanna, sem hefðu ekið henni heim eftir gleðskap að næturlagi í Keflavík. Y var að eigin sögn verulega ölvuð umrædda nótt. Einhverra hluta vegna hefur hún, eins og að framan er rakið, verið margsaga um ýmis atriði er varða ætlaða háttsemi ákærða, bæði um aðdraganda að því að þau fóru saman inn í herbergi hans í kjallara umrædds fjöleignarhúss og einnig um nánari atvik að því hvernig ákærði á að hafa veist að henni inni í herberginu og þröngvað henni til samræðis. Dregur þetta óhjákvæmilega úr trúverðugleika frásagnar hennar.”
Með öðrum orðum: Kona í losti á að geta sagt hvort hún beið úti eða inni. Konur fá áfallastreitu eftir kynlíf. Það kallast „venjulegar samfarir” að þrábiðja e-n um að afklæðast og hafa við sig samfarir. Kona sem er mjög drukkin á frekar að fara á lögreglustöðina en heim með félaga sínum. Ef hún fer sjálfviljug heim með einhverjum hefur hann meiri rétt á að nauðga henni. Það er mjög eðlilegt af ákærða að gefa sig fram við lögreglu daginn eftir kynmök. Athyglisvert er að í dóminum fáum við að vita allt um áfengisneyslu kæranda en afskaplega takmarkað um ákærða. Ekki þykir heldur ástæða til að spyrja hann út í hassreykingar. Ætli áfengi og fíkniefni hafi meiri áhrif á ótrúverðugleika konunnar en karlsins?
Lítum næst á dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. S-103/2004. X var ákærður fyrir kynferðisbrot, með því að haft samfarir við [A], meðan þannig var ástatt um hana að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. X var sýknaður. Í dómnum segir m.a.:
„Í málinu er ekki ágreiningur um að ákærði hafði samfarir við vitnið A. Þau greinir hins vegar á um tildrög þeirra samfara en engin vitni voru að samskiptum þeirra í rúminu. Eins og að framan er rakið telur ákærði að samfarirnar hafi verið með fullum vilja og þátttöku vitnisins A, en vitnið A telur að þær hafi átt sér stað eftir að hún sofnaði eða lognaðist út af sökum ölvunar, en hún hafi áður neitað að þýðast hann. Af framburði vitna verður ráðið að A hafi verið mjög miður sín er hún lét vita af sér og hún var sótt eftir atburðinn. Hún skýrði vitnum strax frá því að ákærði hefði haft samfarir við sig sofandi og það væri ástæða ástands hennar. Ákærði og félagi hans yfirgáfu íbúðina fljótlega eftir að A var farin. Þykir framangreint styrkja framburð A. Á hitt er að líta að A bað ákærða, að fyrra bragði, um að fá að sofa hjá honum í rúminu. Verður að leggja til grundvallar að hún hafi skömmu áður farið úr hjónarúmi þar sem B svaf og hraut. Þrátt fyrir að ákærði sýndi strax áhuga á samförum brást A hvorki við með því að yfirgefa rúmið né óska eftir að ákærði gerði það. A kveður ákærða hvorki hafa beitt sig valdi né haft uppi hótanir um það. Þykir framburður ákærða fá nokkurn stuðning í framangreindu.”
Með öðrum orðum: Ef karl vill sofa hjá konu en hún ekki hjá honum á hún alls ekki að liggja í sama rúmi og hann.
Loks er það dómur Hæstaréttar í máli nr. 281/1998 . Í því máli var læknir [X] ákærður fyrir að hafa gefið konu [Y] sem hann hafði til meðferðar róandi lyf í miklu magni og síðan nauðgað henni. Í dómi Hæstaréttar, sem staðfesti sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur, segir: „Í málinu liggja fyrir gögn, sem gefa til kynna að kærandi hafi, fyrir og eftir afskipti ákærða af henni, neytt ýmissa annarra lyfja en sannað er að ákærði gaf henni. Er þetta nánar rakið í héraðsdómi. Það var niðurstaða dómsins að við mat á framburði kæranda yrði að líta til þessa. Ríki um það óvissa hvaða lyfja hún hafði neytt, í hvaða magni og hver áhrif þau hefðu haft á meðvitund hennar á þeim tíma, sem ákærði hafði kynmök við hana eftir hádegi 13. janúar 1998.”
Í sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir m.a.:
„Um misræmi í framburði sínum við rannsókn og meðferð málsins sagði ákærði að framburður hans hjá lögreglu hafi ekki verið nákvæmur um ýmis atriði, meðal annars vegna þess að honum hafi verið mjög brugðið vegna rangrar kæru og alvarlegs andlegs ástands síns.
[...]
Y hefur borið að hún muni lítið sem ekkert eftir sér þessa nótt. Hún gat ekki um það borið hversu oft né hvenær ákærði kom, taldi að hann hefði komið í tvígang og gerði sér ekki grein fyrir hvenær hann hafði við hana samfarir.
[...]
Af niðurstöðu lyfjaleitar í blóðsýni og þvagsýni, sem tekin voru úr Y á neyðarmóttöku eftir komu hennar þangað um kl. 22.50 umrætt kvöld, er ljóst að hún var þá í mjög slævðu ástandi.
[...]
Y hefur ekki borið á móti því að hún hafi leyft ákærða að leggjast upp í rúm hjá sér, rámar í að hann hafi beðið sig um þetta, en síðan vaknað við að hann var að hafa við hana samfarir. Símtöl sem hún átti, meðal annars við læknavakt og nafngreindan kunningja sinn norður í landi og hún mundi síðar ekki eftir, þykja benda til þess að lyfjaneyslan hafi fremur valdið minnisleysi en rænuskerðingu. Ekki eru bornar brigður á að Y hafi verið í “black-out” ástandi, eða minnisleysi, en hegðun og framkoma fólks undir slíkum kringumstæðum þarf ekki að benda til þess að um óeðlilegt ástand sé að ræða.”
Með öðrum orðum: Það er ekkert athugavert við að „sofa hjá” konu í mjög slævðu ástandi. Enn betra er að hafa gefið henni smá lyfjaskammt sjálfur. Ákærði skýrir misræmi í framburði með alvarlegu andlegu ástandi. Uppdópuð konan á hins vegar að muna allt. Einnig má bera þetta saman við dóminn sem er vísað í hér að framan þar sem það þótti ótrúlegt að misræmis skyldi gæta í framburði konu sem var í losti.