Grein um einstaklingsrými
Birtist á Múrnum 17. október 2004
Sunnudagshugleiðingar
Ég sat í flugvél ekki alls fyrir löngu. Flugið var langt og nokkur börn voru um borð. Þetta var dagflug svo þau gátu kannski ekki sofið jafn mikið og ellegar. Þegar líða tók á flugið fóru sum börnin á stjá enda erfitt að sitja kyrr svona lengi. Eitt barnanna, á að giska fimm ára gamalt, hafði greinilega mikla þörf fyrir að hreyfa sig og fór um með helst til miklum látum. Ég var nýsofnuð og það pirraði mig því óneitanlega að vakna við skarkalann. Þegar ég sá að þetta var barn hugsaði ég með mér að hreyfingin væri því örugglega mikilvægari en mér hvíldin.
Eftir nokkrar umferðir af fíflagangi greip karlmaður í barnið og hastaði á það sem gerði lítið gagn þar sem barnið talaði allt annað tungumál en maðurinn. Barnið losaði sig undan takinu og hélt áfram að leika sér. Karlinn greip aftur í það stuttu síðar en allt fór á sama veg. Sjá mátti á manninum að hann var orðinn ferlega pirraður.
Á sama tíma pirraðist maðurinn fyrir framan mig á lélegri þjónustu í flugvélinni, ég pirraðist á fólki sem greip alltaf í sætið mitt þegar það þurfti að standa upp og konan við hlið mér pirraðist yfir því að einhver skyldi alltaf reka hnén í bakið á henni.
Í framhaldi af því fór ég að velta því fyrir mér hvernig samvistum mínum við annað fólk er háttað. Það virðist nefnilega vera að ég, líkt og flest önnur, hafi lært að tilvera mín sé á einn eða annan hátt heilög og að allt utanaðkomandi sem truflar mig sé óþolandi. Ég hef nefnilega ekki lært að það sé eðlilegt að annað fólk sé í kringum mig. Að í hvert skipti sem ég finn fyrir tilvist annarra sé verið að trufla mig. Hvernig í ósköpunum skyldum við geta ætlast til þess að í fjögur hundruð manna flugvél líði okkur eins og einum heima í stofu?
Á Íslandi höfum við gríðarlegt rými fyrir okkur sjálf. Ekki nóg með að hver manneskja hafi um þriggja ferkílómetra landsvæði heldur búum við líka í stórum húsum og íbúðum. Ungir sem aldnir eiga aldrei að þurfa að deila herbergi nema þá að um par sé að ræða en þá er æskilegt að hvort um sig hafi vinnuherbergi til eigin afnota. Við viljum öll ferðast í einkabílum (og helst aka í þeim ein því annars gætum við lent í því að þurfa að bíða eftir einhverjum) en verðum óþolinmóð og frústreruð ef það er umferð á háannatíma. Við viljum m.ö.o. ekki þurfa að finna fyrir því að við búum í samfélagi við fólk.
Á sama tíma og samskipti okkar og samneyti við annað fólk hríðminnka eykst tíðni sjúkdóma eins og þunglyndis í samfélaginu. Skyldi vera eitthvert samhengi þarna á milli?