26.09.2004

Grein um dvöl í tælensku búddahofi

Birtist í Morgunblaðinu, 26. september 2004

 

Blóðlausir fætur og andleg ró

Hof og hallir í Taílandi eru vanalega miklar byggingar og sjaldnast er sparað við gullið á þeim stöðum. Dvöl í búddahofi á Taílandi getur krafist ýmissa fórna fyrir þann sem vanur er að lifa í vellystingum. Halla Gunnarsdóttir eyddi helgi í búddahofi og kynntist lifnaðarháttum nunnanna sem þar búa.

Hafa verið einhver vandamál í lífinu þínu?” spurði vinkona mín. Ég varð skrýtin á svipinn og horfði ringluð á taílensku táknin á blaðinu fyrir framan mig. “Er spurning númer tíu hvort ég hafi átt við vandamál að stríða í lífinu?” spurði ég. Jú, það stóð heima. Ég hugsaði mig vel um en ákvað svo að láta það ógert að telja upp mín lítilfjörlegu vandamál. “Nei, engin alvarleg,” tautaði ég.

Við vorum staddar í búddahofi. Hér skyldum við eyða helginni og kalla okkur nunnur.

Við gengum frá umsóknunum og skiluðum þeim til yfirnunnunnar. Ég fékk í hendurnar hvítan klæðnað og belti. “Ertu ekki örugglega búin að borða?” spurði vinkona mín. Ég var stolt þegar ég svaraði játandi. Ég var jú farin að þekkja Taílendinga, þeir eru nefnilega síétandi svo ég passaði mig að fá mér bara léttan hádegisverð.

“Gott,” sagði vinkona mín. “Þú færð nefnilega engan kvöldmat í klaustrinu.”

Ég missti andlitið. Engan kvöldmat! Ekkert meira að borða? Auðvitað hefði ég svo sem átt að muna að munkar og nunnur borða aldrei eftir hádegi.

“Já, og eitt í viðbót,” sagði vinkona mín. “Við þurfum að vakna snemma í fyrramálið.” Aftur þóttist ég öllu vön. Á Kúbu þurfti ég alltaf að vakna klukkan 5:45 til að sinna landbúnaðarstörfum. Einu sinni vann ég í sundlaug sem var opnuð klukkan hálfsjö. Jújú, ég ætti að ráða við það að vakna snemma. Þótt það verði fyrr en það.

“Við þurfum að vakna klukkan þrjú.”

“Þrjú!” hrópaði ég. “Það er ekki fyrramál, það er nótt!”

Vinkona mín hló. Líkt og þetta væri eitthvað spaugilegt.

Lífsreglur Búdda

Við klæddum okkur í nunnufötin og svei mér þá ef ég tók mig ekki bara ágætlega út í hvítri blússu og pilsi. Að vísu tókst mér að missa slæðuna mína ofan í vatnstunnu þegar ég var að skipta um föt inni á klósetti en hún hlyti að þorna. “Hvers vegna erum við með svona slæðu yfir öxlina en sum ekki með þannig?” spurði ég og lagfærði blauta slæðuna.

“Þau sem eru ekki með slæðu eru venjulegt fólk.” Það er nefnilega það. Venjulegt fólk þarf einungis að fylgja fimm reglum búddismans. Í þeim felst að drepa ekki dýr, taka ekkert ófrjálsri hendi, halda sig utan við hvers kyns kynferðislegt misferli, s.s. ofbeldi eða framhjáhald, segja ávallt satt og láta vímuefni eiga sig.

Við vorum hins vegar nunnur og í okkar hofi þurftum við því að fylgja strangari reglum. Við máttum ekkert borða eftir hádegi, ekki nota farða, ilmvatn, skartgripi eða annað slíkt og einungis sofa á hörðu undirlagi.

Ég sá ekki fram á að eiga í nokkrum vanda með að halda reglurnar. Það var einungis þessi með matinn sem olli mér hugarangri.

Þegar við vorum komnar í nunnubúningana gengum við niður í samkomusalinn. Við vorum ekki þær einu sem voru í hofinu. Í kringum 500 manns í hvítum fötum voru að koma sér fyrir enda eitt af vinsælli hofum Taílands.

Við fengum okkur sæti á gólfinu. Tærnar skyldu snúa aftur því að tær mega ekki benda í átt að Búdda.

Ég reyndi að umla með í bænum á framandi tungu án þess að skilja orð. Ég gat þó ekki hætt að hugsa um sársaukann í fótunum. Það er svo sárt að sitja á hnjánum. Jafnvel þótt ég hafi stolist til að láta mig falla niður á hlið. Tærnar á konunni fyrir framan mig urðu bláar. Úti var 38 stiga hiti. Nokkrar viftur gerðu lítið gagn. Ég svitnaði og svitnaði.

Að tæma hugann

Við vottuðum nunnunni virðingu og síðar munkinum. Ég gerði mitt besta til að fylgja með. Ekki nóg með að ég væri sú eina þarna inni sem þekkti nánast ekkert til búddisma heldur var ég líka sú eina sem var ljóshærð og hvít á hörund.

Eftir því sem leið á kvöldið urðu fæturnir aumari og ég svengri.

Að loknum bænatímanum fékk ég mjólkurflösku. Það saddi sárasta hungrið. Vinkona mín stoppaði mig þegar ég ætlaði að fara í náttfötin. “Þú átt að sofa í búningnum.” Ég kom mér fyrir á bambusmottunni, með lítinn kodda og hárband fyrir augunum til að geta sofið þrátt fyrir að ljós logaði í herberginu. Ég svaf fast í flatsæng með 100 konum sem ég þekkti ekki neitt.

Ég rumskaði klukkan þrjú við að nunnurnar voru allar að vakna. Myndi ég halda daginn út?

Ég átti von á morgunmat en það var hin mesta bjartsýni. Fyrst voru bænir og hugleiðsluæfing.

Æfingin var strembin. Við æfðum hugleiðslu gangandi og sitjandi. Einu sinni hélt ég að hugleiðsla væri að íhuga eitthvað sérlega göfugt í langan tíma. Það hvarflaði aldrei að mér að það að tæma hugann gæti reynst svona erfitt. Alltaf fór hugurinn á flakk.

Næstu helgi verð ég heima á Íslandi. Hvað ætli mamma sé að gera núna? Systir mín er örugglega sofandi heima. Gott ef fjölskyldan er ekki búin að fá sér hund.

Ég reyndi að bægja öllum þessum hugsunum frá mér og einhvern veginn tókst mér að halda einbeitingunni við æfinguna og fá tímann til að líða.

Hrísgrjónasúpa hefur aldrei bragðast eins vel og hún gerði þennan morgun. Reyndar hefur mér aldrei þótt slík súpa bragðast vel.

Dagurinn leið áfram með hugleiðsluæfingum, bænum, sársauka í fótunum og mismiklum skammti af hungurverkjum. Reglulega fékk ég mikla óraunveruleikatilfinningu. Í stórum sal fullum af hvítklæddu fólki, tautandi taílensk orð, verður öll tenging við minn veruleika svo fjarri.

Sársaukalaust líf

Í hofinu kynntist ég hungrinu og sársaukanum. Það er þó ekki svo að ég hafi verið í hættu vegna næringarskorts eða sárkvalin. Ég skildi allt í einu hvað líf mitt hefur verið sársaukalaust og auðvelt. Ég er alin upp í veruleika þar sem allt er þægilegt. Ég hef alltaf nóg að borða. Ég þarf ekki að sitja í óþægilegum stellingum ef mér sýnist ekki svo og hef alltaf haft rúm til að sofa í. Ef ég upplifi sársauka þá er eitthvað að og ég geri eitthvað í því. Tek verkjatöflur eða leita til læknis. Við erum stöðugt í fyrirbyggjandi aðgerðum til þess að fólk þurfi ekki að upplifa sársauka.

En er það endilega rétta leiðin?

Sársauki, hvort sem hann er andlegur eða líkamlegur, hlýtur að vera hluti af því að vera manneskja. Að finna til og vera særð, já og særa aðra er nokkuð sem ég kemst ekki hjá, frekar en annað fólk.

Ég fór allt í einu að skilja örvæntingu svangs fólks. Það eina sem hélt í mér lífinu var tilhugsunin um allt sem ég gæti borðað að dvölinni lokinni. Hvernig ætli það sé að fá aldrei nóg að borða og drekka?

Það sem mér þótti dásamlegast við dvölina í hofinu var að sjá hvað taílenskt fólk er fúst til að virkja andann. Það virtist fátt vera eðlilegra en að koma saman, biðja og hugleiða og ég var sú eina sem sá einhverja ástæðu til að rjúka með viðburðinn í blöðin.

Ég get ekki fullyrt um heilu þjóðirnar en mér virðist sem Taílendingar skilji mikilvægi þess að hafa ró í hjartanu. Eða eins og Suchitra Onkom segir í bókinni Creating a Sustainable World Peace: “Stríðið sem lýkur öllum stríðum er í raun baráttan innra með okkur sjálfum.” (Onkom, 2003:135.)

24.09.2004

Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 24. september 2004

Patrekur

Í viðhorfspistli dagsins hef ég hug á að kynna lesendur fyrir Patreki enda er hann mér mjög kær. Hann varð til á St. Patreksdag hinn 17. mars sl. en Patrekur er þó ekki barn eins og margir kynnu að halda. Patrekur er maður litla mannsins. Hann berst fyrir jafnrétti og útbreiðslu alheimsfemínismans. Hann er svo meðvitaður um áhrif félags- og kynmótunar að hann er hvorki karl né kona. Hann er heldur ekki samkynhneigður eða gagnkynhneigður, fatlaður eða ófatlaður, svartur eða hvítur. Patrekur er fyrst og fremst manneskja.

Patrekur er vel menntaður, víðsýnn og víðförull. Hann hefur lokið kennaraprófi, heimspeki og mannfræði í háskólanum og leggur nú stund á lögfræði og skemmtanastjórnun. Hann hefur dvalið langdvölum í ýmsum Evrópulöndum og að sjálfsögðu vestanhafs líka auk þess að hafa ferðast um leynda afkima Asíu og Afríku. Hvert sem hann kemur leggur hann sig í líma við að kynna sér sögu og menningu heimamanna. Hann hefur dansað salsa á Kúbu, rætt um jarðsprengjur í Afganistan, sungið í karókí í Malasíu, dúllað sér með hryðjuverkamönnum í Katar og svo mætti lengi telja. Þegar Patrekur er á erlendri grund er hann fljótur að tileinka sér siði heimamanna. T.a.m. heilsaði hann virðulegum múslima í Malasíu með hinu hefðbundna handataki þorpsbúa svo að viðstaddir gátu alls ekki séð að Patti litli hafði ekki hugmynd um hvað hann var að gera. “God bless you” sagði hann svo uppfullur af virðingu þegar húsfreyjan hnerraði við matarborðið og spurði örskotsstundu síðar hvort það væri svínakjöt á boðstólum.

Patrekur er sprellari af guðs náð. Á góðum dögum grillar hann í liðinu og skeytir lítt um hvort fólki finnst hann sniðugur eða ekki. Hann veit sem er að hann er yfirmáta fyndinn og fólk sem ekki hlær með hlýtur að vera að misskilja grínið. Hann gerir sér vel grein fyrir eigin ágæti og blaðrar oft út í eitt um nýjustu greinina sína á Sellunni eða sérlega vel skrifaða forsíðufrétt Morgunblaðsins.

Patreki er ekkert óviðkomandi og hvort sem reynsla hans er góð eða slæm nýtir hann hana á jákvæðan hátt sér og öðrum til handa. Til að mynda rekur Patrekur mikinn áróður fyrir eldvörnum og athugar ástand reykskynjara hvar sem hann kemur um leið og hann brýnir fyrir íbúum að verða sér úti um eldvarnarteppi. Ekki nóg með það heldur er hann í mikilli herferð gegn kynferðislegu ofbeldi og hefur lagt gríðarlegan metnað í að rannsaka vinnuumhverfi barna á Íslandi.

Þrátt fyrir að Patrekur sé vanalega ljónheppinn þá fer hann samt varlega vitandi að óvarkárni er ekki til góðs. Áhugi hans á fyrirbyggjandi aðgerðum er svo mikill að hann sem fyrirbæri er eiginlega fyrirbyggjandi. Hann veit að með samstilltu átaki er hægt að auka hamingjuna í heiminum og útrýma fátækt og vesæld. Ef fólk aðeins hlustaði á Patrek gætu sjúkdómar og slys heyrt sögunni til.

Patrekur tekur ekki þátt í lífsgæðakapphlaupinu. Hann á til dæmis ekki sjónvarp og er alfarið mótfallinn allri poppmenningu. Patrekur á heldur ekki bíl og fer allra sinna ferða gangandi eða á hjóli, nema þegar hann lætur mömmu sína keyra sig. Hann tekur engan þátt í útlitsdýrkun samfélagsins og þess vegna segir hann engum frá því þegar hann fer í ljós. Þetta tengist að sjálfsögðu lífsspeki Patreks; að það sem sést ekki er ekki. Þess vegna passar Patrekur sig að hafa drasl heimilisins undir rúmi eða inni í skáp og ef hann á von á gestum er hann fljótur að fela fartölvurnar sínar og kennir sambýlisfólkinu um forláta leðursófasett og brjálæðislega steríósamstæðu.

Patrekur er vel meðvitaður um samtakamátt alþýðunnar og veit hve mikil áhrif grasrótarstarf getur haft á framgang mála í þjóðfélaginu. Þess vegna er Patrekur virkur og óvirkur meðlimur í ýmsum samtökum, bæði pólitískum og ópólitískum. Amnesty International, Rauði krossinn, Orator, Samtök herstöðvaandstæðinga, knattspyrnufélag Magnúsar Finnssonar, Femínistafélag Íslands, Ísland-Palestína og Háskólakórinn fá öll að njóta samvista við Patrek. Hann blaðrar um þjóðnýtingu við Vinstri græna, mikilvægi frelsis við frjálshyggjumenn og dásamar markaðsvædda einkavæðingu í félagsskap krata.

Patrekur er á móti gróðasjónarmiðum og vill helst alltaf versla við lítil fyrirtæki sem standa höllum fæti. Hann er meðvitaður neytandi og kaupir sér pefsí frekar en kók og talar hátt um hin hrikalegu, siðlausu stórfyrirtæki. Samt veit hann að til þess að geta ferðast um heiminn og útbreitt fagnaðarerindið verður hann að eiga peninga. Og til þess að græða peninga neyðist hann til að versla í Bónus.

Patrekur skilur mikilvægi þess að alþjóð fái innsýn í þær dásamlegu hugmyndir sem brjótast um í kolli hans. Hann heldur því úti virkum bloggsíðum, ritar greinar bæði í blöð og vefrit og nýtir sér ljósvakamiðlana við að koma skoðunum sínum á framfæri. Patrekur hikar heldur ekki við að halda ræður við hvert tækifæri, hvort sem það er pólitískt eða hátíðlegt.

Það sem er kannski merkilegast við Patrek er að vinsældir hans má fyrst og fremst rekja til þess að hve miklu leyti fólk sér sjálft sig í Patreki. Því Patrekur er maður fólksins og fólkið er Patreks. Patrekur – svo miklu, miklu meira!

 

23.09.2004

Grein um skipan hæstaréttardómara
Birtist á Múrnum 23. september 2004

Hvernig viljum við hafa Hæstarétt?

Mikil umræða hefur skapast um skipun hæstaréttardómara en Pétur Hafstein lætur af störfum í byrjun næsta mánaðar. Það verður að teljast jákvætt að Björn Bjarnason hafi ákveðið að setja málið í hendur Geirs H. Haarde enda hugsanlegt að Björn hafi brotið lög við síðustu skipun hæstaréttardómara.

Geir H. Haarde á hins vegar vandasamt verk fyrir höndum enda margir hæfir umsækjendur. Sé mögulegt að færa rök fyrir því að Hjördís Hákonardóttir sé hæfust eða jafnhæf þeim hæfustu er valið augljóst því ekki vill Geir brjóta lög þrátt fyrir að dómsmálaráðherra áskilji sér rétt til að brjóta lög sem honum ekki líka.

Þær umræður sem hafa skapast í kjölfar umsagna Hæstaréttar verða vonandi til þess að ferlið varðandi skipun hæstaréttardómara verður tekið til endurskoðunar. Það er hættulegt ef Hæstiréttur fer að gera tilkall til þess að hafa eitthvert úrslitavald þegar kemur að skipun dómara. Dómararnir gætu þá skipað sín eigin skoðanasystkin og það er engum vinnustað gott að hafa aðeins eitt sjónarmið ráðandi. Hæstaréttardómarar eru æviráðnir og það þarf engan stóran spekúlant til þess að sjá hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft ef þessi miklu völd tilheyra einsleitum hópi, hversu hæfir sem dómararnir eru.

Hins vegar er nú kjörið tækifæri til þess að skoða vel hvort það sé besta leiðin að ráðherra skipi hæstaréttardómara. Þrátt fyrir að ráðherra ætti að hafa aðhald lýðræðisins er hann aðeins einn einstaklingur og því meiri hætta á að skipun dómarans taki mið af öðru en lögum og reglum.
hg

18.09.2004

Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 18. september 2004

Í sátt við náttúruna

Taman Negara. Ég fyllist alltaf lotningu þegar ég segi þetta nafn.

Taman Negara er þjóðgarður í Malasíu. Ekki nóg með það heldur er um að ræða elsta regnskóg heims. Þjóðgarðurinn sjálfur er í kringum 4000 km², frumskógurinn er þéttur og um hann rennur kröftug á. Stígarnir í skóginum breytast reglulega eftir því hvaða leið dýrin ganga. Árið 1993 týndist bandarísk kona í skóginum og hefur enn ekki fundist.

Taman Negara er staður sem ég gleymi seint. Ekki nóg með að ég hafi þurft að horfast í augu við eigin fordóma gagnvart múslímum og hafi gert mér grein fyrir að skordýr eru ekki bara skordýr og leðurblökur leðurblökur heldur lærði ég líka um kraft náttúrunnar. Hver er ég andspænis elsta regnskógi heims?

Vinur okkar Basri Basir, eða Bas eins og hann var vanalega kallaður, leiðbeindi okkur um skóginn en sjálfur er hann fæddur og uppalinn í einu þorpanna í nágrenni þjóðgarðsins. Utan við skóginn vorum við Bas félagar. Við spjölluðum, spiluðum á gítar, hlógum og nutum þess að vera til. Inni í skóginum var víst að ég hefði ekki lifað af án þess að hafa Bas með í för.

Einn daginn í skóginum fékk ég mikinn magaverk og um leið fannst mér eins og steini hefði verið komið fyrir í þvagrásinni. Ég varð taugaveikluð mjög enda vön predikunum um hættulega sjúkdóma sem vanalega enda með dauða og svo ég tali nú ekki um ef sjúklingurinn er að þvælast í einhverjum frumskógi í fjarlægu landi þar sem hvítir læknar eru fjarri góðu gamni.

Það rifjaðist upp fyrir mér að fyrr um daginn hafði ég losað þvag í litla á og tilhugsunin um blóðsugu á óþægilegum stað eða eitthvað þaðan af verra fékk mig til að svitna. Ég var kvalin í svolítinn tíma og taugaveiklunin var síst til þess fallin að draga úr verkjunum. Þetta leið þó fljótt hjá og um kvöldið var ég búin að gleyma þessum skrýtna verk.

Við lágum í svefnpokum undir stjörnubjörtum himni og ég einbeitti mér að því að hugsa ekki um kakkalakkann sem var á dýnunni rétt áðan eða leðurblökurnar sem sveimuðu við hellisopið. Annars hugar bað ég Bas um að segja okkur einhverja góða sögu úr frumskóginum fyrir svefninn.

Sagan hans var eitthvað á þessa leið: “Þegar ég var nýbyrjaður að vera leiðsögumaður fór ég með hóp af Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum í frumskóginn. Það var dálítið langt síðan ég hafði komið í skóginn og svo fór að ég villtist og gekk með þau í marga hringi áður en ég fann næturstað okkar. Ég var orðinn mjög hræddur og stressaður. Þegar við loksins komum á staðinn var ég glorhungraður og borðaði alltof hratt og mikið. Um kvöldið fékk ég slæman magaverk og endaði með að fara niður í ána og gera þarfir mínar þar. Mér leið betur um stund en daginn eftir fékk ég rosalegan magakrampa. Ég var kengboginn á leiðinni til baka. Þegar ég kom heim lá ég fyrir í heila viku og var mjög kvalinn. Móðir mín, sem er náttúrulæknir, valdi jurtir úr skóginum, lagði yfir þær vatn úr ánni og las upp úr Kóraninum. Í vatninu sá hún spegilmynd mína þar sem ég var í ánni að gera þarfir mínar. Hún spurði mig út í það og varð reið þegar hún komst að því að ég hafði notast við ána án þess að biðja náttúruna um leyfi. “Ef þú ferð inn í hús hjá fólki þá biður þú um leyfi áður en þú notar kamarinn eða klósettið. Að sama skapi verður þú að biðja náttúruna um leyfi áður en þú nýtir hana á einhvern hátt,” sagði hún. Að því loknu gaf hún mér jurtir og bað fyrir mér og daginn eftir var ég stálsleginn.”

Bas kunni fullt af sögum af fólki sem náttúran hafði refsað fyrir vanvirðingu. Sögurnar voru þó ekki nóg til þess að fá mig til þess að breyta hegðun minni í náttúrunni. Það var miklu frekar tilfinningin inni í skóginum. Ég fann kraftinn sem bjó þarna og fylltist vanmætti yfir eigin smæð. Sama tilfinning og ég fæ þegar ég horfi á hafið.

Eftir þetta spurði ég náttúruna um leyfi fyrir öllu mögulegu og ómögulegu. Ég bað trén afsökunar ef ég braut grein og þakkaði þeim fyrir að skjóta rótum sínum í brekkur svo það auðveldaði mér að ganga upp þær. Það hvarflaði ekki að mér að henda rusli annars staðar en í ruslafötur og ekki dró ég orð Bas í efa þegar hann sagði okkur að allar jurtir í skóginum hefðu einhvern tilgang, annaðhvort væru þær eitraðar eða með lækningamátt. Ég sannfærðist endanlega þegar við hittum fyrir hóp veiðimanna og safnara. Hópurinn lifir í skóginum og notar eingöngu afurðir náttúrunnar. Þar eru engir læknar með hátíðleg háskólapróf og apótek eru víðs fjarri. Samt sem áður deyr fólk vanalega úr elli en ekki einhverjum hrikalegum sjúkdómum. Það er reyndar mjög heppilegt í ljósi þess að hópurinn þarf að flytja sig um set þegar einhver deyr.

Ég hef aldrei litið á mig sem eitthvert náttúrubarn en náttúran kenndi mér að bera virðingu fyrir sér. Ég finn ekki hjá mér þörf til þess að beisla náttúruna eða beygja hana á einhvern hátt undir minn vilja. Mig langar ekki að drepa þúsundir dýrategunda til þess að ég geti fengið hitt eða þetta. Ég er hins vegar tilbúin að lifa í sátt og samlyndi við náttúruna og nýta auðlindir hennar án þess að þurrausa allt sem ég kemst í.

Ég leitaði ef til vill langt yfir skammt með því að fara til Malasíu til þess að skilja það. Hvað segið þið? Kárahnjúkar?

En þetta er nú bara viðhorf…

17.09.2004

Grein um menntamál
Birtist á Múrnum 17. september 2004

Vítahringur kjarabaráttu kennara

Grunnskólakennarar eru að öllum líkindum á leið í verkfall. Það er ekki í fyrsta sinn en þó fjarri því að það sé alltaf að gerast eins og mörg vilja meina. Hins vegar er það rétt að oft hefur komið til tals innan kennarastéttarinnar að grípa þurfi til verkfalls til þess að fá kjör sín leiðrétt.

Því er stundum haldið fram að kennara langi agalega mikið í verkfall. Þar sjái þeir fram á enn eitt fríið til þess að slappa af og dunda sér. Það gleymist þó að þeir verða fyrir verulegu launatapi svo það verður að teljast ólíklegt að þeir hafi efni á dýrum utanlandsferðum eins og oft er haldið fram. Launin eru ekki það góð fyrir.

Í síðustu kjarasamningum sömdu grunnskólakennarar af sér. Vinnuskyldan var aukin svo um munar en það verður að teljast undarlegt að tala um launahækkun þegar bætt er við óteljandi tímum í vinnu.

Helstu launahækkanirnar voru fyrir ákveðinn aldurshóp sem Kennarasambandið leit á sem meðaljónuna. Í stað þess að hækka laun allra kennara var ákveðið að hækka laun eldri kennara en unga fólkið sat eftir. Lífaldur skiptir meiru máli í kennara- og leikskólakennarastétt en í nokkurri annarri stétt. Þannig hefur 23 ára gamall kennari 30-40 þúsund krónum lægri grunnlaun en kennari milli fertugs og fimmtugs burtséð frá allri reynslu.

Afleiðing þessara kjarasamninga var augljós. Ungir kennarar voru ósáttir við kjarasamingana og margir samnemendur mínir úr Kennaraháskólanum sneru sér að öðrum störfum. Hins vegar bönkuðu sums staðar upp á kennarar með 20-30 ára gömul kennarapróf og var þeim fagnandi tekið enda um réttindakennara að ræða. Ekki fer miklum sögum af endurmenntun og nýjar kennsluaðferðir lutu í lægra haldi þrátt fyrir góðan vilja þessara kennara.

Eru kennarar ekki að vinna vinnuna sína?

Í hvert skipti sem kennarar berjast fyrir bættum kjörum heyrist sama hljóð úr sama horni, að þeir séu ekki að vinna vinnuna sína. Horft er til viðveru í kennslustofunni með börnunum en síður er hugað að því að kennari þurfi að undirbúa kennsluna enda er starf kennarans ekki barnagæsla eins og ætla mætti af umræðunni. Sjaldnast veltir almenningur þó fyrir sér viðveru þingmanna í þingsal en salurinn er oftar en ekki tómur að undanskildum forseta og ræðumanni. Á sama tíma og atvinnulífið krefst aukins sveigjanleika er hávær krafa um að kennarar sitji í skólastofunni allan daginn og vinni sína vinnu þar. Hverju breytir það fyrir þjóðfélagið hvort kennarar undirbúa sig í skólastofunni milli tvö og fjögur eða heima hjá sér á sama tíma eða öðrum tíma? Það er kannski kominn tími á að við viðurkennum að kennarar þurfa tíma til undirbúnings…!

Nú og þar sem stöðugt dynur á þreyttum kennurum að þeir vinni ekki vinnuna sína, séu meira eða minna að dunda sér í sólbaði og hanga í Kringlunni þá neyðast þeir til þess að reyna að svara fyrir misskilninginn. Úr verður að kjarabarátta grunnskólakennara snýst um mínútur á meðan hið raunverulega vandamál er skortur á virðingu fyrir starfi kennara. Sá skortur er kannski um margt vegna þess að litið er á stéttina sem eina heild og hundrað góðir kennarar þurfa að gjalda fyrir einn slæman.

Hvernig við getum hafið starf grunnskólakennarans til virðingar á ný er erfið spurning en hún hlýtur að beinast að kennurunum sjálfum en einnig að foreldrum og öðrum í samfélaginu. Og hvernig kennarar geta farið fram á leiðréttingu launa sinna á annan hátt en með verkfalli er líka erfið spurning. Séu þeir sem amast við verkfallsrétti kennara með svar við henni er þess óskað hið fyrsta.

Þægilegir stólar eru ekki nóg

Kannski er kominn tími á að skólakerfið fái tækifæri til þess að vaxa og dafna í takt við breytta tíma. Kannski er vandi kennara ekki fólginn í of mörgum mínútum innan veggja skólans heldur einmitt í skipulagi skólakerfisins. Það er kominn tími á að hætta að múra allt skólastarf inni í stofu með þrjátíu borðum, þótt stólarnir séu þægilegir. Þrátt fyrir að forsvarsmenn menntamála dásami sveigjanleikann og láti sem skólakerfið sé uppfullt af honum þá steypum við alla nemendur í sama mót. Þetta mót kallast samræmd próf í ákveðnum fögum. Þá látum við öll börn á sama aldri vera í sama bekk með sama kennara, alltaf. Ekki er það mikill sveigjanleiki. Það gáfulegasta sem okkur dettur svo í hug er að skipta eftir getu til þess eins að búa til elítu og passa upp á að ellefu ára börn sem eiga erfitt með að reikna geri sér nú pottþétt grein fyrir því að þau séu ekki alveg jafn góð og hinir.

Niðurstaða: Hættum að byggja skóla utan um úrelt skólastarf. Fleygjum samræmdum prófum og leyfum hinum rómaða sveigjanleika líka að eiga heima innan veggja skólans.

04.09.2004

Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 4. september 2004

Meintur “gannislagur”

Átján ára karlmaður hefur lagt fram kæru á hendur 28 ára gömlum karlmanni fyrir líkamsárás. Meint árás á að hafa átt sér stað laugardagskvöldið 3. júlí síðastliðinn á heimili hins ákærða. Engin vitni voru að verknaðinum. Kærandi segir að þeir hafi setið að drykkju á heimli ákærða þegar sá síðarnefndi reiddist og fór að láta öllum illum látum. Kærandi segir hann hafi kýlt sig ítrekað í magann og ógnað sér með hnífi. Kærandi óttaðist um líf sitt og sá sér vænstan kost í stöðunni að taka við höggunum án þess að hreyfa miklum mótmælum. Þegar ákærði hafði lamið nægju sína mun hann hafa sest niður, fengið sér viskí og boðið kæranda að drekka með sér. Kærandi sagðist þurfa að bregða sér á salernið en þaðan stakk hann af út um gluggann og komst við illan leik á bráðadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss. Samkvæmt skýrslu vakthafandi læknis var kærandi í losti þegar hann kom á sjúkrahúsið en ekki var að sjá mikla áverka á honum. Hann var drukkinn og óstaðfastur í frásögn. Til að mynda sagði hann fyrst að ákærði hefði hafið barsmíðarnar í sófanum en síðar breytti hann framburði sínum og sagði að hann hefði dregið hann út á gólf og byrjað að láta höggin dynja á honum. 

Lögreglan í Reykjavík hefur farið með rannsókn málsins en talið er að um gannislag hafi verið að ræða og að kærandi hafi ákveðið að kæra til þess að ná sér niðri á ákærða. Ekki er þó vitað hver ástæða þess gæti verið. Þá ber að geta þess að kærandi var á þessum tíma snoðklipptur og gaf það til kynna að hann hefði gaman af að slást. Ákærði neitar að um ofbeldi hafi verið að ræða en hann gaf sig sjálfur fram við lögreglu til að láta vita af gannislagsmálunum og þykir hann staðfastur í frásögn.”

Nú býst ég fastlega við því að lesendur séu farnir að velta fyrir sér hvort viðhorfsdálkar séu nú notaðir undir fréttir fremur en skoðanir blaðamanna Morgunblaðsins. Eða er þetta ekki annars frétt? “Gannislagir” voru (og eru eflaust enn) sérlega vinsælt tómstundagaman og þá einkum drengja. Stundum gengu gannislagirnir of langt og enduðu með því að einhver meiddi sig. Gangavörður eða kennari tók að sér að hugga og kyssa á bágtið og sá sem sársaukanum hafði valdið hrópaði vanalega: “Þetta var bara gannislagur. Í alvöru, þetta var alveg óvart.” Sá slasaði samsinnti því milli ekkasoganna og allt varð gott að nýju. Með tímanum lærðu strákarnir betur á mörk hver annars og það kom sjaldnar fyrir að einhver slasaðist í gannislag.

Þrátt fyrir æfingar æskuáranna er ekki algengt að fullorðnir karlmenn leiki sér í gannislag nema þá kannski í þar til gerðum hringjum með mjúku undirlagi. Þess vegna heyrast aldrei fréttir líkt og þessi hér að ofan og þrátt fyrir að engin vitni séu að líkamsárásum er vanalega ekki talið að fórnarlambið sé að ljúga.

Það fer þó öðrum sögum ef fórnarlambið er kona og ofbeldið kynferðislegt (svipað á við um heimilisofbeldi en það er ekki umfjöllunarefni þessa pistils).

Það er nóg að skoða sýknudóma héraðsdóma og Hæstaréttar til þess að sjá hversu undarlegar málsmeðferðir í kynferðisofbeldismálum eru. Sem dæmi má nefna sýknudóm í nauðgunarmáli. Þar kemur glöggt fram hversu mikið áfengi konan sem kærði hafði innbyrt en vímuefnaneysla ákærða er ekki til umfjöllunar þrátt fyrir vísbendingar um að hún hafi verið þónokkur. Það þykir ýta undir trúverðugleika hans að hann hafði samband við lögreglu að fyrra bragði og var samstarfsfús málið í gegn (það virðist ekkert þykja undarlegt að ákærði hafi séð ástæðu til þess að hafa samband við lögreglu!). Þá þykir dómurum mikilvægt að taka fram að allar skýrslur bentu til að ákærða þætti hann ekki hafa brotið á konunni en væri þó nokkuð stoltur yfir að hafa tekist að beita hana fortölum til þess að fá hana til samræðis við sig. Hins vegar þótti það ýta undir ótrúverðugleika konunnar að hún sagðist ýmist hafa staðið utandyra eða inni í anddyri á ákveðnum tímapunkti í frásögninni. Alveg ótrúlegt að kona í losti geti ekki sagt skilmerkilega frá, eða hvað?

Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að innan við 2% af tilkynntum nauðgunum eigi ekki við rök að styðjast. Það er sama hlutfall og í öðrum afbrotum. Engu að síður virðist umræða um nauðganir alltaf fyrst og fremst snúast um ábyrgð fórnarlambsins á því sem fram fór og nauðganir eru kallaðar meintar á meðan aðrir ofbeldisglæpir fá ekki þetta fína viðskeyti. (Sjálf tengdi ég orðið meint alltaf við eitthvað agalega vont og hélt það þýddi að nauðgarinn hefði meint þetta…). Þrátt fyrir að fólk geti grætt á því að sviðsetja innbrot í eigið húsnæði er það ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar innbrot er tilkynnt. Hvers vegna það er öðruvísi með nauðganir og annað kynferðisofbeldi er erfitt að segja. Við viljum sjálfsagt ekki að svona vondir ofbeldisglæpir séu til og við reynum að deila ábyrgðinni jafnt á brotaþola sem á ofbeldismanninn. Kannski er auðveldara að sætta sig við að einhver ljúgi svona ljótum glæp upp á annan en að einhver fremji hann.

Þrátt fyrir að manneskja liggi dauðadrukkin og nakin, innandyra eða utandyra, þá gefur það engum rétt til þess að stinga einhverju í hana, hvort sem það er hnífur eða typpi. Með von um að meintum gannislögum fækki og að lögreglurannsókn byggist á réttlæti en ekki fyrirfram ákveðnum niðurstöðum.