31.08.2004

Grein um jafnréttismál
Birtist á Múrnum 31. ágúst 2004

Hver misskilur jafnréttishugtakið?

Mikið fjör hefur verið í kringum Framsóknarflokkinn á undanförnum mánuðum. Það skemmtilegasta við flokkinn er án efa það að deilur innan hans rata oft í fjölmiðla svo þjóðin fær að fylgjast með. Engin skal halda því fram að Framsóknarflokkurinn sé eini flokkurinn þar sem fólk deilir.

Hér er ekki ætlunin að taka afstöðu til þeirrar ákvörðunar forystu flokksins að setja Siv Friðleifsdóttur af. Hins vegar hefur umræðan í kjölfarið verið nokkuð áhugaverð.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir ritar pistil á Tíkina þar sem hún segir konur innan Framsóknarflokksins misskilja jafnréttishugtakið. Um leið hvetur hún aðra þrýstihópa til að grípa til sömu aðgerða og Framsóknarkonur enda eigi ytri einkenni manna ekki að hafa nokkuð að gera með skipanir í nefndir, ráð eða ríkisstjórn. Sérstaklega hvetur hún svarta, sköllótta, fatlaða og einhleypa til að láta til sín taka. (Ekki veit ég raunar hvernig einhleypir rata inn í þennan hóp sem hún kennir við ytri einkenni.)

En hvernig á fólk að veljast í ríkisstjórn? Hver eru hin eftirsóknarverðu „innri” einkenni?

Ef það er alltaf hæfasti einstaklingurinn sem er valinn í ábyrgðarstöður, hvort sem það er á vegum ríkisins eða innan einkageirans, hvernig stendur þá á því að þessir hæfu einstaklingar eru langoftast hvítir karlar (stundum sköllóttir og stundum einhleypir, stundum ekki)? Nú eru konur t.d. um helmingur þjóðarinnar og það er meira að segja sýnt og sannað að konur geta verið ágætis stjórnendur og leiðtogar (þótt það sé erfitt að trúa því!)

Að halda því fram að á Íslandi sé lítið af hæfum konum er fjarstæða. Að líkja réttindabaráttu kvenna við réttindabaráttu sköllóttra og einhleypra er enn meiri fjarstæða enda hefur lítið farið fyrir því að sköllóttum mönnum eða einhleypum sé sérstaklega haldið frá völdum í samfélaginu. Hins vegar verð ég að taka undir það að fatlaðir og „svartir” (geng ég um leið út frá því að hér sé átt við Íslendinga sem ekki skipta um lit í andlitinu við minnstu veður- eða heilsubreytingar) geri tilkall til valda í samfélaginu. Það er nefnilega svo að fólk með mismunandi bakgrunn setur mismunandi baráttumál á oddinn. Án fjölbreyttrar ríkisstjórnar munu öll þau mál sem snerta landsmenn aldrei fá umfjöllun. Ég ætla ekki að byrja að telja upp öll þau mál sem konur hafa komið í gegn og hefðu eflaust aldrei orðið að veruleika hefðu þær ekki látið til sín taka. Ef allir þjóðfélagsþegnar eiga jafnan rétt er nokkuð ljóst að ríkisstjórnin væri nokkurs konar þverskurður af þjóðinni. Á Íslandi væri því tæplega ríkisstjórn með helmingi fatlaðra enda fatlaðir langt frá því að vera helmingur þjóðarinnar.

Heiðrún Lind talar jafnframt um jákvæða mismunun í pistli sínum. Þar gætir enn og aftur þess misskilnings að jákvæð mismunun sé lögbundin á Íslandi. Jákvæð mismunun þýðir að ef allir umsækjendur uppfylla lágmarksskilyrði skal aðili að því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfstétt ganga fyrir. Slík lög gilda ekki hér á landi.

Hins vegar eru hér á landi lög um jafnan rétt sem fela í sér að séu tveir einstaklingar jafnhæfir skal aðili að því kyni sem er í minnihluta fá stöðuna. Þess má geta að þetta á jafnt við um karla sem konur. T.a.m. ganga karlar fyrir í kennarastöður og leikskólakennarastöður. Lög þessi urðu ekki til fyrir hreina tilviljun. Það er nefnilega svo að í öllum valda- og áhrifastöðum eru hvítir karlar ráðandi. Það getur ómögulega verið vegna þess að þeir eru alltaf hæfastir og það þarf ekki mikinn sérfræðing til þess að sjá að kyn greiðir leið, ekki kvenna heldur karla.

Það er þó réttmæt ábending að skoða þarf vel hvort lagasetning sé heppilegasta leiðin til þess að vinna gegn misréttinu. Þætti mér því gaman að fá að heyra frá Heiðrúnu Lind eða öðrum Tíkum hvaða leiðir gætu verið raunhæfar.

Það vinnst alla vega fátt með því að réttlæta forréttindastöðu karla í heimi fjármála og valda.

28.08.2004

Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 28. ágúst 2004

Myndir þú eyða mér?

Og karlinn prumpar svona,” söng pattaralegur, sköllóttur karl og fékk æsku landsins til að engjast um af hlátri. Fullorðna fólkið hló með svona til þess að vera ekki með forpokahátt á tímum æskudýrkunar og ef lagið var í útvarpinu mátti bóka að í marga klukkutíma á eftir ómaði það í höfðum hlustenda. Það er eitthvað svo fyndið við prump.

Sigmund Freud talaði um skiptingu persónuleikans í frumsjálf, yfirsjálf og sjálf. Frumsjálfið stýrist af frumhvötunum, þ.e. þörfinni fyrir að hafa hægðir, pissa, stunda kynlíf o.s.frv., og vill að þeim sé fullnægt á stundinni. Yfirsjálfið er hins vegar nokkurs konar siðgæðisvörður og vill alls ekki að þessum þörfum sé fullnægt. Sjálfið er svo í hlutverki sáttasemjarans.

Þegar frumsjálfið hrópar kúka hafnar yfirsjálfið því alfarið en sjálfið kemur með málamiðlunartillögu sem gæti verið að kúka í klósettið.

Á sumum tímum, í sumum samfélögum hefur allt sem tengist frumsjálfinu verið algjört tabú. Þannig hefur kynlíf verið ósiðlegt og allt sem tengist þvag- eða saurláti mikið feimnismál.

Á sjöunda og áttunda áratugnum var kynlíf mikið í umræðunni á Norðurlöndum. Svo mikið að stundum er talað um kynlífsbyltinguna. Smokkurinn og pillan komu fram á sjónarsviðið og kynlíf hætti að vera rosalegt tabú og fór jafnvel yfir í að vera töff enda frjálsar ástir hluti af friðarstefnu.

Á níunda og tíunda áratugnum og væntanlega á þeim fyrsta nýrrar aldar var því rætt miklu opinskár um kynlíf og kynfræðsla fór að verða annað og meira en ein blaðsíða sem hoppað var yfir í líffræðibókinni. (Reyndar hefur það jafnvel gengið svo langt að kennslan á meira skylt við aðferðafræði en við fræðslu um heilbrigða kynímynd.) Breytingin frá tímunum þegar kynlíf var ósiðlegt og þjóðfélagsumræðan höfðaði einkum til yfirsjálfsins yfir í tíma kynslóðarinnar sem lærir um kynlíf frá boðberum frjálsra ásta er því mikil.

Nú er svo komið að öllum á að þykja kynlíf æðislegt og helst vilja alltaf vera að. Pör eiga að vera nýjungagjörn og prófa allt sem hugmyndaflugið leyfir og helst meira en það. Ef kynlíf er bara “venjulegt”, þ.e. inni í svefnherbergi án tóla og tækja og kannski bara í einni til tveimur stellingum, eru engar líkur á að sambandið endist. Í raun er það orðið svo að kynlíf er orðið kvöð frekar en hitt og þau sem kjósa að stunda ekki kynlíf eru stórskrýtin.

Á sama tíma hefur húmor Íslendinga breyst svo um munar. Tilkoma Fóstbræðra í sjónvarpi varð til þess að þjóðfélagslegt grín Spaugstofunnar hætti að vera eina tegund gríns og það þótti sniðugt að gera grín að samfélaginu og kenndum fólks. Í dag er svo komið að grín sem tengist frumsjálfinu er það allra besta. Rass, typpi, píka og brjóst þykja ekki einungis fyndin fyrirbæri á leikskóla heldur ratar þetta inn í sjónvarspsþætti sem eru með ótrúlega mikið áhorf. Landsþekktir menn drekka ógeðsdrykki í beinni útsendingu, forsetaframbjóðandi sem vill endurvekja virðingu forsetaembættsins lætur flengja sig og “ofurhugar” hlaupa naktir um við mikinn fögnuð fólks.

Með öðrum orðum; veröld frumsjálfsins blómstrar.

Ekkert má vera óþægilegt eða fara úrskeiðis. Allur matur á að bragðast ofsalega vel og hollustan víkur að sjálfsögðu þar fyrir. Sæti eiga að vera þægileg, einkabílar eru mannréttindi, götur eiga að vera vel ruddar og umferð má helst ekki vera til, jafnvel þótt stærstur hluti Íslendinga yfir 17 ára aldri fari leiða sinna keyrandi.

Í vinnunni þurfa sætin að vera sniðin að líkamanum, tölvuskjáir í réttri hæð og kaffivélar í seilingarfjarlægð. Á heimilinu þurfum við örbylgjuofn, splunkunýjan sófa og fullkomið rúm. Allt okkar umhverfi á að vera hannað þannig að við getum hreyft okkur sem minnst án þess að þurfa að glíma við fylgikvilla hreyfingarleysis eins og vöðvabólgu og aðra líkamsverki.

Við höfum náð ansi langt í að losa okkur við líkamleg óþægindi. Hins vegar er sársauki manneskjunnar ekki eingöngu bundinn líkamanum heldur glímum við líka við tilfinningar og sársauka sem tengist þeim. Það er öllu erfiðara að halda andlegum og tilfinningalegum sársauka í skefjum. Engu að síður hafa okkar færustu sérfræðingar fundið út að með því að deyfa líkamann nógu mikið deyfist sálin sjálfkrafa með enda erfitt að vera með sjálfseyðandi hegðun þegar orkuleysið er algjört.

Kvikmyndin Eternal Sunshine of the Spotless Mind fjallar m.a. um þjónustu sem miðast að því að þurrka út óþægilegar minningar. Misheppnuð ástarsambönd, dauðsföll ættingja eða skammarleg hegðun; þú getur gleymt öllu með aðstoð sérfræðinga. Þarna er komin fullkomin lausn fyrir okkar frumsjálfmiðaða samfélag. Ef þetta getur orðið að veruleika þurfum við ekki neinar erfiðar tilfinningar.

Og að lokum getum við skapað hið fullkomna þægilega samfélag. Ofbeldi breytir litlu því fórnarlömbin geta bara gleymt því. Við borðum súkkulaði og sjúgum svo fituna af. Við finnum aldrei tilfinninguna að hafa klárað erfiðan íþróttatíma. Við munum ekki finna hvað það er notalegt að losna við nefstíflu því stíflan er aldrei til staðar.

Við getum lifað og dáið í hægindastól og ef einhverjum þótti vænt um okkur og sárt að við skyldum deyja mun minning okkar glatast að eilífu.

23.08.2004

Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 3. ágúst 2004

Söguskoðun

Ég hlakka svo mikið til að verða amma. Ég veit nefnilega að ömmur segja barnabörnunum sínum sögur og mér þykir ferlega gaman að segja frá. Ég mun að sjálfsögðu passa mig á að vera hvorki kommúnisti né marxisti enda hef ég það fyrir satt að þeim farnist illa að segja sögur. Ég ætla að segja barnabörnunum söguna um Ísland:

Fyrir ofsalega mörgum árum komu víkingar til Íslands. Hér bjuggu engir írskir munkar svo víkingarnir tóku land sem enginn átti og ákváðu að eiga það. Víkingarnir byrjuðu á að berjast um hver ætti hvað og þeir voru að sjálfsögðu hver öðrum stoltari og hefnigjarnari. Þetta voru náttúrlega mest karlar. Sumir merkilegir og aðrir ómerkilegir og ýmist ljósar eða dökkar hetjur. Konur voru náttúrlega ekki hetjur af því að þær voru lítið fyrir að skora hver aðra á hólm.

Einn dag ákváðu víkingarnir að hætta að trúa á alls konar skrýtin goð og fóru að trúa á einn guð. Þarna reyndi mikið á sáttahæfileika víkinganna. Þeir stóðu sig svo agalega vel að það var ekki fyrr en árið 2004 að önnur eins snilldarákvörðun var tekin á Íslandi.

Íslendingar urðu fljótt sannfærðir um yfirburði sína. Þó þeir þyrftu af og til að vera undir einhverjum öðrum konungum þá logaði sjálfstæðiseldurinn alltaf í brjóstum þeirra. (Svo færi það eftir því hvað ég hefði langan tíma hversu mikið ég myndi segja frá sjálfstæðisbaráttunni og slagsmálum Valdasjúkra karla.)

Tuttugasta öldin var bráðskemmtileg. Þá ruku Íslendingar úr torfkofum og byggðu sér glæsileg einbýlishús. Á sama tíma fóru konur að krefjast einhverra réttinda en ég ætla nú ekkert að vera að tala of mikið um merkilegar konur því það gæti varpað skugga á það ljómabað sem körlunum sæmir. (Svo nafngreini ég að sjálfsögðu hundrað kalla í einni bunu og læt góðan skammt af ártölum fylgja með).

Íslendingar vissu sem var að þeir voru einstakir. Fallegustu konurnar og sterkustu karlarnir byggðu þetta land og enginn hefði efast um að það væru eftirsóknarverðir eiginleikar. Íslendingar pössuðu vel upp á sjálfstæðið eftir að þeir loks fengu það. Það var vitað að sjálfstæðið yrði best varið með herveldi og vopnaburði. Þess vegna gekk Íslands til liðs við NATO og fékk fínan bandarískan her til landsins.

Íslendingar voru svolítið lengi að gera sér grein fyrir með hverjum þeir ættu að standa í stríði. Í stríði var nefnilega sigurvegari og Íslandi sómir sérlega vel að sigra. Það var jú vitað að þjóð sem ekki fer í stríð getur ekki unnið stríð. Stríð voru háð af því að góði kallinn vildi kenna þeim vonda að vera góður líka. Í stríðum sannaðist að menn sem voru á móti hernaðarátökum og vildu ekki taka þátt höfðu rangt fyrir sér og töpuðu. Friðsælu fólki skyldi aldrei treyst fyrir utanríkismálum Íslendinga því það væri ávísun á tap. Allt sem ekki er sigur er tap.

Íslendingar vissu alltaf hvert markmiðið var; að verða rosalega ríkir. Landið var fallegt og til þess að byggja upp ferðaþjónustu voru lagðir fínir vegir og fyrst þeir voru þarna á annað borð var allt eins hægt að setja upp stærðarinnar virkjanir. Helsta verkefni Íslendinga var að sanna yfirburði sína og einn liður í því var að beisla náttúruna. Án virkjana hefði þjóðin dáið út.

Íslendingar vissu líka ósköp vel að þeir voru miklu merkilegri en flestir aðrir og þeir þreyttust ekki á að sannfæra hver annan um það. Það var því alveg hrikalegt áfall þegar útlendingar fóru að stunda það að gera Íslendinga ástfangna af sér.

Fyrst voru það útlenskir hermenn sem heilluðu íslenskar konur. Það vandamál var fljótt kallað ástandið og allt kapp var lagt á að leysa vandann. Konurnar voru útskúfaðar úr samfélaginu, börn þeirra kölluð illum nöfnum og ungum stúlkum fylgt eftir og ógnað með meyjarhaftsprófi. Sem betur fór voru svartir hermenn bannaðir á Íslandi því annars hefði óæskileg kynþáttablöndun getað átt sér stað.

Hið seinna ástand var svo þegar útlenskar konur fór að sækja í víkingana. Ekki nóg með að þær væru útlenskar heldur voru þær líka öðruvísi á litinn. Versti parturinn var þó sá að konur þessar vildu bara fá að búa á Íslandi en þetta hafði ekkert með ást að gera. Aldrei hefði hvarflað að Íslendingum að giftast af annarri ástæðu en ást.

Svo þegar konurnar fluttu til Íslands drógu þær alla ættina með. Þetta var hið alvarlegasta mál enda hafði hver Íslendingur aðeins þrjá til fjóra ferkílómetra fyrir sig og það sér það hver heilvita maður að það er ekki nóg pláss. Inn í spilaði líka að við áttum landið og þá mátti að sjálfsögðu ekki hver sem var ryðjast inn í það. En Íslendingar brugðust við þessum vanda.

Með snilldarlegum lagasetningum, alþjóðlegum sem heimatilbúnum, lokuðu þeir landinu fyrir útlendingum sem voru skrýtnir á litinn. Hættulegastir voru útlendingar undir 24 ára aldri svo það voru sett sérstök lög til þess að halda þeim í burtu. Þeir fáu sem sluppu í gegn voru svo hakkaðir í spað með orðróminum einum saman enda voru Íslendingar svo frjálsir að þeir máttu segja og gera hvað sem var. Karlarnir voru sagðir hafa keypt konurnar og þær sagðar dragbítar á hinu margrómaða velferðarkerfi. Þau börn sem sluppu í gegnum viðamiklar DNA-rannsóknir fengu þó að ganga í skóla á Íslandi.

Nú væri eflaust kominn háttatími fyrir börnin svo amma litla myndi breiða ofan á þau, kyssa þau á ennið og bjóða góða nótt.