Grein um nauðganir
Birtist á Múrnum 27. júlí 2004
Helgi ofbeldisglæpa framundan?
Verslunarmannahelgin nálgast með öllu því sem henni heyrir til. Landinn skellir sér í regngallann og verslar ýmis konar varning fyrir þúsundir króna. Áfengi, súkkulaði, snakk, grillkjöt, grillsósur, einnota kolagrill, tjaldhælar og fleira rjúka út svo að heitar lummur mega sín einskis.
Þetta er allt saman gott og blessað. Fólk kemur saman í góðra vina hópi, nýtur samvista við náttúruna og leysir heimsvandann yfir glasi. Þannig er mín reynsla sú að á útihátíðum sé vanalega góð stemmning og fólk vinalegt og opnara en oft áður.
Ég hef svo sannarlega ekki orðið vör við meiri leiðindi á útihátíðum en annars staðar þar sem fólk kemur saman. Einhvern veginn finnst mér þetta miklu heilbrigðari skemmtun en nokkrun tíma miðbær Reykjavíkur um helgar. Miðbærinn einkennist nefnilega af reykmettuðum skemmtistöðum og það telst mikil heppni að komast með óskaddaðar tær út af vinsælustu stöðunum. Staðirnir eru svo, heill sé frelsinu, opnir langt fram undir morgun svo göngutúrar um þrjú leytið í fersku lofti eru úr sögunni.
En verslunarmannahelgum fylgir því miður ákveðinn fórnarkostnaður. T.a.m. eru umferðaróhöpp tíðari enda ekki á hverjum degi sem 100.000 manns rjúka út í nýja jeppanum með risatjaldvagn í eftirdragi. Það er þó von að öflugt eftirlit lögreglu og stöðugur áróður Umferðarstofu fái fólk til aka varlega um og virða umferðarreglurnar.
Dekksta hlið verslunarmannahelganna er þó án efa þau kynferðisbrot sem upp koma. Sem betur fer hefur verið mikil vitundarvakning í þjóðfélaginu hvað varðar nauðganir. Karlar hafa í auknum mæli tekið afstöðu gegn þessum glæp en betur má ef duga skal.
Á Íslandi er að minnsta kosti fimmtu hverri konu nauðgað. Það má því leiða líkur að því að fimmti hver karlmaður sé nauðgari. Þrátt fyrir að sumir karlar nauðgi kannski fleiri en einni konu þá er vert að benda á að hópnauðganir eiga sér líka stað. Með þessum tölum ekki ætlunin að reyna að ráðast að fólki með látum heldur einungis að benda á að augljóslega er um stórt samfélagslegt mein að ræða sem við þurfum öll að taka ábyrgð á og vinna gegn.
Um verslunarmannahelgar, líkt og aðrar helgar, eiga alltof margar nauðganir sér stað. Til þess að vinna gegn nauðgunum þarf fyrst og fremst að setja skömmina þar sem hún á heima; hjá ofbeldismanninum.
Svona ljótan ofbelsiglæp á ekki að líða. Nauðganir verða aðeins stöðvaðar ef við vinnum að því.
Með von um nauðgunarfría helgi, nú sem síðar.
18.07.2004Birtist á Múrnum 18. júlí 2004
Matadorkynslóðin
„Tvenna! Ég má gera aftur!”
„Nei, þetta var fjórða tvennan þín. Þú ferð í fangelsi.”
Reglur eru reglur. Þó að fólk kunni þær ekki endilega.
„Aha! Borga mér! Ég á Skólavörðustíg. Látum okkur sjá, með einu húsi…”
„Nei, þú mátt ekki rukka mig meðan þú ert í fangelsi.”
Refsing skal vera refsing.
„Hei! þú varst á götunni minni, þú átt að borga mér.”
„Nei, því ég er búinn að kasta teningunum. Ég var bara nógu snöggur.”
Ef þú fylgist ekki með ertu bara búin/-n að tapa.
Ef þú nærð að kaupa Bankastræti og Austurstræti, lendir aldrei á byrjunarreit og færð Forseti gefur þér upp sakir spjald á lukkureitunum en ekki Þú ferð beina leið í steininn – þá getur þú sigrað. Reyndu að nota alltaf peningana þína í tæka tíð til þess að vera tilbúin þegar sveitastyrksspjaldið kemur. Ekki spyrja hvað þú getur gert fyrir kerfið heldur hvað kerfið getur gert fyrir þig.
Við spilum saman en vitum að aðeins eitt okkar getur unnið. Hin verða að tapa. Einhver lenda svona mitt á milli og una sæmilega við sitt. Þau vita samt að þau gætu haft það svo miklu, miklu betra.
Stelpan í botnsætinu vill byrja upp á nýtt. Deila peningunum jafnt út.
„Nei, það er ekki búið fyrr en einn okkar hefur eignast allt,” segir hetjan á toppnum.
Einhver reyna að styðja stelpuna en gefast upp fyrir ákefð hetjunnar. Það er jú rétt, eitt okkar verður að vinna. Þú vinnur með því að eignast allt og gera öll hin gjaldþrota.
Hetjan verður æstari og finnst skemmtilegra og skemmtilegra að rukka hin. Austurstræti og Bankastræti, Laugavegur, Hafnarstræti og Aðalstræti.
„Verst að geta ekki eignast fangelsið líka. Það væri nú fyndið, ef þið þyrftuð að borga mér fyrir að sitja inni.”
Við kaupum, við seljum, við veðsetjum, við græðum, við töpum. Við erum Matadorkynslóðin. Millistéttin lítur upp til sigurvegarans en niður á taparann. Sigurvegarinn er þar fyrir eigin kænsku en taparinn af því að hann nennir ekki að leggja meira á sig. Hetjan ræður hvenær spilið er búið.
„Þetta er ekkert heppni. Þetta snýst allt um taktík. Við lögðum allir af stað með það sama. Ég gæti náð svona langt með hvaða köst sem er. Þið verðið bara að læra að berjast og koma þér áfram.”
Einhver bendir á takmarkað skemmtanagildi spilsins.
„Þetta er ekkert gaman svona. Við erum öll að berjast en þú ert búinn að eignast allt.”
„Svona er þetta. Ég skal lána ykkur öllum fimm þúsund kall. Þið hljótið að geta náð ykkur á strik.”
Og eftir allt erum við bara að kasta teningum og fara í hring. Við vitum að það kemur að leikslokum og þá róast hetjan, taparinn sleikir sár sín og millistéttin tekur peningana saman; og gefur upp á nýtt.
14.07.2004Viðhorfspistill
Birtist í Morgunblaðinu, 14. júlí 2004
Í dag er ég kona
Þetta byrjaði eflaust allt á fæðingardeildinni þegar ég var færð í bleik föt. Þarna var kominn nýr þjóðfélagsþegn og þessi þjóðfélagsþegn skyldi verða kona. Það var eflaust augljóst en samt er eitthvað svo miklu meira fólgið í því að vera kona en að vera með píku. Eftir á að hyggja byrjuðu vandræðin ekki fyrr en ég varð tveggja ára. Kannski var mamma með eitthvert mikilmennskubrjálæði eftir að hafa farið ólétt að kjósa Vigdísi Finnbogadóttur til forseta. Ákvörðun hennar var alla vega afdrifarík. Hún gaf mér nefnilega bíl í afmælisgjöf. Þessi plastvörubíll varð fljótt eftirlætis leikfangið mitt (að undanskildum bangsanum Óla en þessi pistill er síst ritaður til að móðga hann).
Mamma hefði eflaust betur hlustað á fólkið sem sagði henni að bíll væri ekki hentugt leikfang fyrir litlar stelpur því vandinn óx með árunum. Ég þróaði með mér óþrjótandi áhuga á hímendúkkum og leikfangagröfum. Ég var treg til að ganga í kjól eða pilsi en undi mér vel við að spila fótbolta og klifra. Ekki nóg með það heldur var ég hávær og talaði óhóflega mikið. Allt varð þetta til þess að ég neyddist til að horfast í augu við blákalda staðreynd: Ég var ekki kvenleg. Ég veit ekki hvað ég var gömul þegar það rann upp fyrir mér að stelpur yrðu konur en strákar karlar. Það var alla vega dagurinn sem baráttan hófst. Ég skyldi verða kona. Ég þurfti að sjálfsögðu fyrst að komast að því hvað konur gera. Ég ákvað fljótt að verða hjúkrunarkona enda gerði titillinn mig sjálfkrafa að konu. Fyrsta skrefið var að klæða mig upp sem slík á grímuballi. Það fór ekki eins vel og ég óskaði. Mig klæjaði undan sokkabuxunum og þótti óþægilegt að vera ekki í buxum. En ég dó ekki ráðalaus. Ég fann út að konum þætti gaman að versla. Eftir nokkrar þrætur við móður mína fékk ég leyfi til að fara með vinkonu minni með strætó í bæinn. Ég gekk kotroskin inn í Kringluna en hafði vitanlega enga eirð í mér til þess að hanga inni í mannmergðinni í þessari verslunarmiðstöð sem var eitt merkasta menningarskref Íslendinga. Stærsti lærdómurinn sem ég dró af ferðinni var að þegar taka skal strætó til baka er heillavænlegra að stilla sér ekki upp sömu megin við götuna og stigið var út úr honum. Ég var hins vegar engu meiri kona fyrir vikið.
Tólf ára gömul byrjaði ég á túr. Þá varð ekki aftur snúið. Ég yrði kona, hvort sem mér líkaði betur eða verr. Þessu “ástandi” fylgdi að sjálfsögðu mikil skömm enda ekki úr vegi að skammast sín, a.m.k. einu sinni í mánuði, fyrir að vera kona. Þrátt fyrir forréttindin að losna við skólasund var ég mjög ósátt þegar ég á unglingsárunum fór að hafa blæðingar tvisvar í mánuði. Mamma fór með mig til læknis og hann setti mig, þrettán ára gamla, á pilluna.
Dag einn tók ég svo eftir að ég var komin með hár undir hendurnar. Engin kona má hafa slík hár. Nema hún sé sveittur túristi, helst franskur eða þýskur. Eftir að hafa falið handarkrikana vel í sundferðum spurði ég mömmu hikandi hvernig ég gæti fjarlægt þessi hár.
Seinna uppgötvaði ég að augabrúnir eru mikið lýti á konum. Þ.e.a.s. ef þær eru venjulegar. Hikandi gekk ég inn á snyrtistofu og bað um litun og plokkun. Mig langaði að öskra af sársauka en ég vissi að það gera konur ekki svo ég brosti bara og sagði spekingslega: “Beauty is pain.” Og mikið agalega var ég falleg með rakaða handarkrika og eldrauð undir augabrúnunum. Sextán ára gömul var ég alltof feit, að því er mér fannst. Það hafði ég verið alveg frá því að ég hætti að passa í Levi’s-buxurnar sem ég átti þegar ég var tólf ára. Auðvitað fáránlegt að passa ekki alla ævi í þær. Vesen að vera með mjaðmir. Eftir enn meira tíðahringsrugl var ákveðið að ég skyldi skipta um pillu. Ég skrapp saman í andlitinu. Það kom í ljós að í þrjú ár hafði ég japlað á hormónum, samkvæmt læknisráði, sem komu út í miklum bjúg. Ég komst samt aldrei aftur í Levi’s-buxurnar.
Dag einn fann ég lausn á stærsta vandanum. Ég yrði bara kennari. Kennarar mega vera af báðum kynjum en samt best ef þeir eru konur. Ég þekkti líka kennara sem voru dálítið töff og gat vel hugsað mér að vera þannig kona. Á menntaskólaárunum fékk ég enn betri hugmynd. Ég ákvað að verða ekki kona. Einföld rökhugsun færði mér þann sannleika að stelpur mega gera allt sem er skemmtilegt á meðan konur þurfa að hamast við að vera konur. Ef ég yrði alltaf stelpa mætti ég vel vera með læti, sprella, spila fótbolta og þyrfti ekki endilega að hugsa stöðugt um barneignir og brúðkaup.
Tuttugu og einu ári eftir að mamma gaf mér bílinn er þessari baráttu minni lokið og ég neyðist til að spyrja: Hver er ég í dag? Jú, ég er tuttugu og þriggja ára með svarta brodda á löppunum, misvel snyrtar augabrúnir og rakaða handarkrika. Ég hætti á pillunni í fyrra eftir að hafa verið á henni í níu ár án þess að hafa hugmynd um hvað hún gerir við líkama minn. Ég kann ekki ennþá á tíðahringinn og verð alltaf jafnhissa þegar ég byrja á túr. Ég er kennari að mennt og spila fótbolta í hádeginu. Mér þykja vörubílar ekki skemmtilegir lengur en ef ég kæmist í gröfu myndi ég ábyggilega skemmta mér konunglega. Ég tala hátt og mikið, sprella og geri grín og mér hrútleiðist að ganga í pilsi nema á hátíðisdögum. Ég hef engan áhuga á barneignum eða brúðkaupum og þykja verslunarmiðstöðvar vondir staðir. Ég kann samt að taka strætó bæði fram og til baka.
Í dag er ég kona.
01.07.2004Viðhorfspistill
Birtist í Morgunblaðinu, 1. júlí 2004
Hlutlaust fréttamat?
Finnst ykkur þetta ekkert merkilegt?” spurði ég gáttuð á viðbrögðum vina minna við þeim annars merkilegu tíðindum sem ég þóttist vera að flytja þeim. “Ha? Jú, kannski,” svaraði vinkona mín en hljómaði dálítið eins og hún væri að róa mig. Hin létu sér fátt um finnast. “Þetta kemur eiginlega ekkert á óvart,” tautaði vinur minn og breytti svo um umræðuefni. Ég prófaði að endurtaka tíðindin en allt kom fyrir ekki. Þeim þótti þetta bara ekkert merkilegt.
Seinna sat ég í öðrum hópi og ákvað að endurtaka tilraun mína til að vekja hrifningu fólks. Í þetta skiptið tókst það. Nokkur supu hveljur en önnur notuðu óformlegri leiðir til að láta geðshræringu sína í ljós. Ég fór því hróðug heim og sannfærð um að það væri bara einhver galli í hinum vinahópnum að hafa ekki þótt þetta merkilegt.
Seinna fór ég að velta því fyrir mér hvers vegna fólki finnast mismunandi hlutir merkilegir. Af hverju þykir mér til dæmis hin mestu tíðindi að til sé skordýr sem tekur sér fimmtán ár í að verða til en lifir svo bara í eina viku á meðan öðrum þykir mun merkilegra að gengisvísitala krónunnar hækki um 0,15 stig?
Það er nefnilega svo að alla daga leggjum við mat á allt í kringum okkur. Við tölum um matinn í mötuneytinu, fótboltatíma dagsins, helstu fréttir í þjóðlífinu og nýjasta þáttinn á Skjá einum. Sumt þykir okkur þess virði að tala um, annað ekki.
Þetta er kannski það skemmtilegasta við lýðræðið. Við megum öll hafa okkar skoðun á hlutunum og í mínum útópíska þankagangi erum við öll meðvituð um réttinn til að tjá skoðanir okkar en um leið skylduna til að færa rök fyrir máli okkar og hafa aðgát í nærveru sálar.
Í flestum samfélögum er fyrirbæri sem kallast fjölmiðlun þótt formið sé án efa mismunandi. Fjölmiðlun gengur út á að koma skilaboðum til fjöldans og hverju sinni fara skilaboðin í eina átt. Á Íslandi geta hlutaðeigandi aðilar yfirleitt komið sínum skilaboðum á framfæri næsta dag sé álits þeirra ekki leitað jafnóðum og við erum jafnframt svo heppin að orð almúgans fá sitt pláss í dagblöðum landsins.
Fjölmiðlar sjá því um að meta hvað er merkilegt hverju sinni og hversu merkilegt það er. Stórtíðindi verða fyrstu fréttir útvarps og sjónvarps og rata á forsíður blaða sem hafa þann tilgang að flytja fréttir. Stundum kemst einn fjölmiðill á snoðir um eitthvað en segir engum öðrum frá því allir vilja jú vera fyrstir með fréttirnar. Alveg eins og ég þegar ég luma á skemmtilegum eða spennandi tíðindum.
Fjölmiðill er ekki eitthvert ósýnilegt afl. Á fjölmiðlum starfar nefnilega fólk sem ákveður hverju sinni hvað er merkilegt og hvað ekki. Ef fjölmiðill er ríkisrekinn getur skapast sú hætta að ekki séu fluttar fréttir sem koma sér illa fyrir ríkið. Ef fjölmiðill er í eigu einstaklinga er hið sama upp á teningnum. Það er alltaf einhver sem hefur hagsmuna að gæta.
Fyrirsögn Morgunblaðsins sl. laugardag hefur verið mikið til umræðu. Þar þótti hin mesta frétt að auð atkvæði skyldu birt sérstaklega í fyrsta sinn. Þetta kom mér ekkert á óvart frekar en stórtíðindin komu vinum mínum á óvart um daginn. Ég var handviss um að þær “merkisraddir” sem töluðu hátt um að skila auðu í forsetakosningunum væru miklu merkilegri en raddir anarkistanna og annarra sem skila auðu í hverjum kosningum.
Það breytir því ekki að öðrum þótti þetta merkileg frétt og því fjarri lagi að hætta við að birta hana af því að ég þóttist hafa séð þetta fyrir. Það má svo aftur deila um hvort það hafi yfirbragð áróðurs að leggja forsíðuna undir fréttina með tilheyrandi stríðsletri þótt það hafi tæpast haft úrslitavald um fjölda auðra seðla í forsetakosningunum.
Vald fjölmiðla í skoðanamótun almennings má aldrei vanmeta. Í leiðara Morgunblaðsins í gær var bent á að blaðamennska Morgunblaðsins snúist, líkt og á kaldastríðsárunum, um að leiða fram réttar upplýsingar. Sjálf legg ég mig í líma við það að vinna hverja frétt af alúð og birta ólíkar skoðanir fólks ef um deilumál er að ræða. Það breytir því ekki að ég er manneskja og sem fyrr segir upplifa manneskjur hlutina á mismunandi hátt.
Það að ætla að leiða fram réttar upplýsingar er mikið vandaverk. Í raun byggist sú fullyrðing á því að það sé til einn sannleikur en ekki margir eins og ég þykist viss um eða enginn eins og maður mér vitrari hélt eitt sinn fram. Við höfum öll heyrt tvær mismunandi manneskjur segja sömu söguna. Stundum er eins og um tvær ólíkar sögur sé að ræða. Það sama má segja um fréttir. Það sem einn kýs að kalla friðargæslulið vill annar kalla her. Á mótmælum geta verið rúmlega fjögur hundruð manns eða hátt í fimm hundruð.
Það sem mér þykir stórtíðindi og vil helst birta með rauðum stöfum á forsíðu þykir samstarfsmönnum mínum og yfirmönnum ekki endilega merkileg tíðindi. Því er svo að sjálfsögðu öfugt farið og fréttir um ágæti Bandaríkjastjórnar rata frekar á forsíðu en upplýsingar úr ársskýrslu Amnesty International um pyntingar á saklausu fólki.
Það væri hvaða fjölmiðli sem er til framdráttar að hætta að þykjast vera hlutlaus. Þrátt fyrir að flestir fjölmiðlar landsins standi sig vel í að leita að “réttum upplýsingum” geta mismunandi skoðanir eða upplifun aldrei fengið nákvæmlega sama vægi, sömu orð og sömu staðsetningu.