22.05.2004

Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 22. maí 2004

Menningarkennsla

Ég ber hag þessa vinar míns fyrir brjósti og þar sem ég tilheyri hinum þróaða hvíta kynstofni ákvað ég að veita honum ráðleggingar.

Vinur minn er mjög undarlegur maður. Hann er nefnilega ekki hvítur, sem þýðir að hann breytir ekki um lit reglulega eins og við sem köllum okkur hvít. Hann býr í fjarlægu landi þar sem fólk kann enga mannasiði. Hann situr á gólfinu þegar hann borðar og notar jafnvel ekki hnífapör. Hann er leiðsögumaður í frumskógi. Hann vinnur ekki 14 tíma á dag þótt hann sé fullhraustur og hann telur ekki einu sinni tímana sem hann vinnur. Hann gengur í þau störf sem þarf að ganga í. Óvæntir hlutir raska aldrei ró hans. Hann pirrar sig t.d. ekki á því að þurfa að labba heim og ná í eitthvað sem hann gleymdi.

Hann stundar ekki auðsöfnun, já og gefur eða lánar jafnvel peningana sína. Ef hann á eitthvað matarkyns býður hann með sér. Ef hann er veikur rýkur hann ekki til læknis og heimtar pillur heldur fer til móður sinnar sem er sérfræðingur í náttúrulækningum. Hann er trúaður og heldur því jafnvel fram að það sé gott að biðja fimm sinnum á dag.

Ég ber hag þessa vinar míns fyrir brjósti og þar sem ég tilheyri hinum þróaða hvíta kynstofni ákvað ég að veita honum ráðleggingar. Svo að ég skrifaði honum bréf.

Elsku vinur minn,

Þar sem ég veit að þú þráir eðlilegt líf hef ég ákveðið að aðstoða þig eftir fremsta megni. Ég er nú einu sinni með kennarapróf og finnst gaman að miðla þekkingu minni. Það fyrsta sem þú ættir að læra eru almennir borðsiðir. Í fyrsta lagi þarftu að borða við borð. Svo ættirðu að læra að borða með hnífi og gaffli. Það er ekki sérlega flókið og án efa miklu snyrtilegra. Mér þykir einnig vert að benda þér á að hætta að smjatta og sötra því það er jú alvitað að það er hin mesta ókurteisi. Kláraðu alltaf af disknum þínum og ef þú getur ekki klárað hugsaðu þá um öll fátæku börnin í Afríku sem fá ekki neitt að borða. Þeim líður án efa betur ef þú borðar þig pakksaddan.

Af því að ég er góður vinur þá tala ég við þig af hreinskilni og ég geri ráð fyrir að þú kunnir að meta það. Til þess að halda heilsu er mikilvægt að þú skiljir að þessar grasalækningar eru hreinasta bull. Ég get sent þér pillur hvenær sem er. Þær eru þróaðar af miklum sérfræðingum og apótekarar þurfa háskólanám til þess að skilja þetta allt saman. Ekki rekur mig minni til að móðir þín sé með slíkt próf. Ég sendi með bréfinu pillur við eftirfarandi kvillum: Hausverk, beinverk, svefnleysi, depurð, risvanda og ógleði.

Varðandi fjármálin þín þá verður þú að hætta að lána hverjum sem er peninga. Þetta fólk er að misnota þig. Þú ættir heldur að safna og fjárfesta. Þegar þú ert búinn að eignast nóg af peningum geturðu farið að slappa af og njóta lífsins.

Elsku vinur, Allah er ekki til. Það er vísindalega sannað að heimurinn varð til með Miklahvelli og allt hitt er tilviljun. Eina sem múslimar gera er að skipuleggja hryðjuverk í nafni Allah. Þetta er snarruglað lið upp til hópa og allar rannsóknir sýna fram á að fólk treystir múslimum síður. Hugaðu ávallt um hvað er best fyrir viðskiptin og mundu að það skiptir öllu máli að hafa rétt fyrir sér. Ef þú ætlar að ná langt verðurðu að hætta að eyða öllum þessum tíma í bænir og læra að skipuleggja þig betur. Teldu tímana sem þú vinnur og farðu fram á launahækkun vegna ábyrgðar og aukinnar viðveru. Í hvert skipti sem þú talar við viðskiptavin skaltu skrifa það hjá þér. Tími er peningar og þú þarft peninga til að verða einn af þeim stóru.

Hugsaðu alltaf fram í tímann. Um morgundaginn, hinn daginn og daginn þar á eftir. Gerðu kostnaðaráætlun og rekstraráætlun og helst eins margar áætlanir og þú getur. Þú verður líka að hætta að bjóða fólki í mat. Það er ekki fjárhagslega hagkvæmt. Sérstaklega þar sem þetta fólk býður þér aldrei.

Þegar þú ferð með hópa fólks í gegnum frumskóginn verðurðu að passa þig. Ef eitthvað kemur upp á gæti fólkið kært þig. Um daginn fórum við í kvöldsiglingu að skoða dýrin í skóginum. Það er sérlega góð viðskiptahugmynd en þú verður að útfæra hana betur. Þið siglduð bara í myrkrinu með eitthvert vasaljós. Það er hreint út sagt vítavert gáleysi. Þú ættir að nota dýptarmæli, GPS-staðsetningartæki og últra-ljóskastara. Aðeins þannig geturðu komist öruggur á leiðarenda. Það þýðir ekkert að stóla alltaf á skynfærin enda eru þau ekki þróuð af sérfræðingum. Þótt þú haldir að trén og fjöllin segi þér hvar þú ert þá geta þau haft rangt fyrir sér.

Ég held, kæri vinur, að það sé nokkurra breytinga þörf í fjölskyldulífinu hjá þér. Það er undarlegt að fjölskyldan skuli alltaf sofa í flatsæng á gólfinu. Börnin þurfa að fá sérherbergi. Það er svo mikilvægt að virða rými einstaklingsins. Nú og ef þér fer að ganga illa með samskipti við börnin og makann og fleira er um að gera að fara til sálfræðings eða í einhver mannbætandi samtök. Þar geturðu lært að lifa einn dag í einu og bætt samskipti þín við fjölskylduna. Þá geturðu lagt áherslu á fjölskyldufundi og sameiginlegar samverustundir. Reyndu samt að hafa þetta allt saman eins skilvirkt og mögulegt er.

Ég gæti haldið lengi áfram en ég ætla að láta staðar numið hér. Ég hlakka til að heyra hvernig þetta gengur hjá þér.

Bestu kveðjur, Halla.

Vinur minn hefur enn ekki svarað mér. Ætli hann geri sér enga grein fyrir hvað hann gæti átt miklu betra líf?

14.05.2004

Grein frá Kambódíu
Birtist í Morgunblaðinu, 14. maí 2004

Uppbygging fyrirmyndarríkisins Angkar

HEIMSHORNA Á MILLI: Halla Gunnarsdóttir skrifar frá Kambódíu

Kambódía. Það er eitthvað við þetta land sem ég næ ekki alveg utan um. Þrisvar sinnum hef ég sest niður og byrjað að skrifa grein en aldrei finnst mér takast nógu vel til. Ég veit ekki hvernig er hægt að lýsa landi, sögu og þjóð.

Kambódía. Það er eitthvað við þetta land sem ég næ ekki alveg utan um. Þrisvar sinnum hef ég sest niður og byrjað að skrifa grein en aldrei finnst mér takast nógu vel til. Ég veit ekki hvernig er hægt að lýsa landi, sögu og þjóð. Það er alla vega erfitt að skilja þjóð án þess að vita nokkuð um sögu hennar. Og hver er ég svo sem? Tuttugu og þriggja ára gamall Íslendingur. Aldrei upplifað nokkuð sem minnir á stríð og skil varla hugtakið herþjónusta.

Um það leyti sem ég fæddist var borgarastyrjöld í Kambódíu. Víetnömum hafði tekist að stöðva aðgerðir Rauðu khmeranna sem miðuðu að uppbyggingu fyrirmyndaríkisins Angkar. Khmeri þýðir í raun Kambódíubúi en Rauðu khmerarnir voru kallaðir rauðir því þeir kenndu sig við kommúnisma.

Fyrirmyndarríkið Angkar

Markmið Rauðu khmeranna voru skýr. Fólk skyldi flytjast úr borgum og á samyrkjubú á landsbyggðinni. Kambódía átti að vera sjálfbært land án allra samskipta við umheiminn. Ung sem öldruð áttu að vinna saman og öll skyldu vera jöfn. Persónulegar eigur voru bannaðar og allir þegnar settir í eins föt. Khmerar sem á einn eða annan hátt gátu ógnað Angkar voru fangelsaðir, pyntaðir og drepnir. Innan þess hóps var allt menntafólk samfélagsins. Skólum var lokað og byggingarnar sums staðar notaðar sem fangelsi eða pyntingar- og útrýmingarbúðir. Heilsugæsla var engin. Í fjögurra ára valdatíð Rauðu khmeranna létu á milli ein og þrjár milljónir manna lífið, ýmist úr sjúkdómum og hungri eða í áðurnefndum pyntingar- og útrýmingarbúðum.

Þrátt fyrir að Víetnömum, í samstarfi við fyrrum Rauða khmera sem annaðhvort fengu bakþanka eða óttuðust um líf sitt, tækist að hrekja Rauðu khmerana frá völdum árið 1979 var friður ekki í sjónmáli. Rauðu khmerarnir fengu stuðning frá Bandaríkjunum og fleiri löndum sem töldu “kommúnistaógnina” í Víetnam hræðilegri en þá í Kambódíu. Við tók áralöng borgarastyrjöld með tilheyrandi hryðjuverkum.

Það var ekki fyrr en árið 1998 að formlegur friður komst á. Eina leiðin var að hafa Rauðu khmerana með í friðarferlinu og leyfa þeim að taka þátt í myndun ríkisstjórnar.

Spilling í vegi fyrir framförum

Ég veit hreinlega ekki hvernig er mögulegt að skilja þjóð sem hefur gengið í gegnum jafn miklar hörmungar og khmerarnir hafa gert. Þetta voru nefnilega ekki bara khmerar, Rauðir khmerar, hópar, menntafólk, hermenn o.s.frv. Þetta voru manneskjur eins og ég og þú. Manneskjur sem höfðu átt nokkuð eðlilegt líf áður en hörmungarnar dundu yfir.

Gistiheimiliseigandi með góðlátleg augu sagði mér t.d. að hann hefði barist fyrir Rauðu khmerana og síðar snúið sér að pólitík. Sama dag borðaði ég dýrindis kvöldverð matreiddan af þernu sem hafði horft á manninn sinn pyntaðan og drepinn. Hann var jú kennari. Sjálf endaði hún betlandi á götunni þar til kona nokkur bauð henni húshjálparstarf.

Ógurlegu atburðirnir í Kambódíu höfðu áhrif á allt fólk sem lifir þar í dag. Þjóðin er að byggja upp mennta- og heilbrigðiskerfi á nýjan leik. Hlutirnir ganga þó oft hægt fyrir sig þar sem spilling innan ríkisstjórnarinnar er gríðarleg. Fæstir skipta sér af stjórnmálum af hugsjón heldur einungis vegna eigin hagsmuna.

Hvort sem það er vegna sögunnar eða fleiri áhrifaþátta þá er kambódíska samfélagið það allra undarlegasta sem ég hef komist í tæri við. Heimilisofbeldi, mansal og vændi er daglegt brauð. Fátækt og neyð almennings auðveldar kynlífsþrælahöldurum að lokka stúlkur í vændisiðnaðinn með gylliboðum um starfsframa í borginni. Fátækar fjölskyldur selja jafnvel dætur sínar til slíkra manna og yfirmaður grunnskóladeildar menntamálaráðuneytisins í ákveðnu héraði er jafnframt vændismiðlari.

Fyrir tilstuðlan samtaka eins og Cambodian Women’s Crisis Center hefur lögreglan aukið eftirlit með misnotkun á börnum yngri en 15 ára. Að öðru leyti lætur hún flest annað afskiptalaust nema þá henni sé mútað til þess að aðhafast eitthvað. Sá eða sú sem er handtekin/-n getur keypt sig út úr vandanum ef aurarnir eru fyrir hendi. Ferðamenn, og þá helst karlar, virðast jafnframt styðja þennan vafasama bransa og hika ekki við að kaupa konur og jafnvel börn til að uppfylla eigin óra. Þeir tala oft opinskátt um reynslu sína og telja sig vera að styrkja fátæka og aðlagast menningu khmeranna.

Vændi og eiturlyf

Eiturlyfjatúrismi hefur jafnframt snaraukist og gömlum konum er jafnvel boðið gras til sölu ef þær aðeins eru hvítar. Þannig einkennist ferðamennska í Kambódíu af einhvers konar kaóisma þar sem venjulegasta fólk borðar “hamingju”pítsur (kryddaðar með maríjúana) og óheyrilegur fjöldi fólks styrkir vændisiðnaðinnn.
Þrátt fyrir allt og allt býr einhver ólýsanleg lífsgleði og þrautseigja hjá kambódísku þjóðinni. Ótal samtök eru starfrækt til að bæta ástandið og hjálpa þeim sem eru í mestri neyð. Þótt það sé eflaust langt í að Kambódía losni við spillingu virðist sem meðvitund sé að aukast. Fólk er smám saman að gera sér grein fyrir að meðan ríkir geta keypt sig inn og út úr öllu sem þeim hentar situr fátæka fólkið eftir á botninum. Þannig heldur spillingin fólki í fjötrum fátæktar og gerir það að verkum að aldrei er tekið á raunverulegum vandamálum.

En þótt ég, líkt og svo margir ferðamenn, sé heilluð af brosmildi þjóðarinnar er ekki laust við að ég velti fyrir mér hvort bros þeirra og hlátur séu í raun eina leiðin til að lifa af.

07.05.2004

Grein frá Singapúr

Birtist í Morgunblaðinu, 7. maí 2004

Menningarsjokk í neyslusamfélagi

HEIMSHORNA Á MILLI: Halla Gunnarsdóttir skrifar frá Singapúr

“We’re going to shop to the top,” söng karlmannsrödd í útvarpinu og ég óð áfram með tryllingsglampa í augum. Verð að kaupa eitthvað, verð að kaupa eitthvað, verð að kaupa eitthvað. Alveg sama hvað, bara eitthvað. Ótal búðir í sjö hæða verslunarkringlu sem eingöngu selja raftæki. Aha, ég kaupi eitthvað í tölvuna.

“Hello. I have a lap top and I would like to buy.”

Oó, hvað á ég að kaupa, bara eitthvað. Aukaminni svo ég komi fleiri myndum inn. “Memory, extra memory.”

Afgreiðslumaðurinn var greinilega vanur trylltu fólki eins og mér og spurði mig varfærnislega hvort ég hefði nafn tölvunnar.

“Oh, yes, Toshiba Santelite, Sanentile, something.”

Það voru víst ekki nægar upplýsingar. Ég ákvað að fara á Netið til þess að athuga málið. Netkaffi eru ekki á beinlínis á hverju horni í Singapúr enda þessi hátækniþjóð án efa sítengd hvar sem er og hefur því lítið við netkaffi að gera. Ég gekk rösklega um borgina. Skilvirkni er aðalatriðið, allt á að taka stuttan tíma svo ég geti keypt meira, hugsaði ég.

Þegar ég loksins komst á veraldarvefinn var ég búin að róast lítillega og fór að velta því fyrir mér hvaða brjálæði hefði gripið mig. Þá fyrst fór ég að muna að ég kann voðalega lítið tölvufagmál og hef því í raun ekki hugmynd um hvað aukaminni þýðir. Ákvað því að það væri við hæfi að reyna að komast að því áður en ég réðist í stórkaup. Jú, minni eykur vinnsluhraðann. Ég hef enga þörf fyrir meiri vinnsluhraða. Harður diskur myndi bjóða upp á meira pláss en auka harðir diskar í fartölvur eru víst ekki endilega æskilegir.

Bissnessfólk og himinháar byggingar

Það var vægast sagt skrýtið að koma úr rólegheitum og einföldu lífi í Kambódíu yfir í neysluæðið í Singapúr. Ég hélt að ég léti ekki glepjast af ótal auglýsingum en þar skjátlaðist mér svo sannarlega. Það má í raun segja að mitt stærsta menningarsjokk hafi verið í Singapúr.

Ég fékk strax hálsríg af að góna á himinháar byggingar. Alls staðar var bissnessfólk í þar til gerðum klæðnaði. Kalt loft úr búðum læddist út í hitann og rakann til að lokka til sín kaupendur.

Það eru eflaust ekki mörg lönd sem hafa þróast á eins miklum ógnarhraða og Singapúr. Þrítugur vinur minn ólst upp í strákofa en vinnur nú í einum skýjakljúfanna við að lagfæra tölvur fyrir viðskiptavini.

Samkeppni milli síamstvíbura

Á fyrri hluta 20. aldarinnar var Singapúr, undir stjórn Breta, mikil viðskiptamiðstöð. Í seinni heimsstyrjöldinni náðu Japanir yfirráðum fram til ársins 1963 að Singapúr sameinaðist Malasíu. Sú sambúð varði þó stutt en ráðamenn í Singapúr áttu erfitt með að sætta sig við þá stefnu að Malasía skyldi vera fyrir Malaya. Malayar eru múslimar og hinir upphaflegu Malasíubúar en bæði í Singapúr og Malasíu búa ótal Kínverjar og Indverjar í bland við Malaya.

Árið 1965 hlaut Singapúr sjálfstæði sitt og í framhaldi af því hófst uppbygging viðskipta- og neyslusamfélags. Það kemur kannski ekki á óvart að meðan Singapúr rauk áfram í átt að háþróuðu samfélagi reyndi Malasía að fylgja á eftir. Milli þessara þjóða ríkir því nokkurs konar Elska þig – hata þig-samband eða eins og einn viðmælenda minna orðaði það: “Singapúr og Malasía eru eins og síamstvíburar. Sama hversu illa þjóðunum er hvor við aðra þá hreinlega neyðast þær til að lifa hlið við hlið.”

Mannréttindi í opnu viðskiptaumhverfi

Komandi af moldarvegum Kambódíu þótti mér mikil breyting að sjá hreinu strætin í Singapúr. Ströng lög og háar fjársektir gera það að verkum að enginn dirfist að henda rusli á göturnar eða reykja á almenningsstöðum og tyggigúmmí er með öllu ólöglegt. Salernin sturta sjálfkrafa niður og alls staðar eru auglýsingaskilti með teiknifígúrum sem minna fólk á að ganga vel um.

Dauðarefsing liggur við eiturlyfjasmygli og það skiptir litlu hversu mikið magn viðkomandi ber á sér. Frelsi fjölmiðla er afskaplega takmarkað, allt er ritskoðað og svo virðist sem fólk sem gagnrýnir ríkisstjórnina opinberlega eigi það til að gufa upp.

Það kemur því á óvart að á meðan mannréttindabrot í löndum eins og Kúbu, þar sem frelsi fjölmiðla er takmarkað, eru nokkuð oft í fréttum Vesturlanda hef ég aldrei heyrt minnst á mannréttindabrot í Singapúr. Læðist óneitanlega að mér sá grunur að mannréttindi skipti minna máli þar sem markaðurinn er opinn erlendum sem innlendum fjárfestum.

Fjölmenningarlegt samfélag

Skemmtilegast við Singapúr er þó án efa hversu fjölbreytilegt samfélagið er. Stjórnvöldum er mikið í mun að ólík trúarbrögð geti lifað í sátt og samlyndi. Í fréttum er aldrei vísað til fólks eftir uppruna þess og í það minnsta lítur út fyrir að fólk með ólíkan bakgrunn hafi svipuð tækifæri. Mismunandi menningarheimar og trúarbrögð setja því svip sinn á borgina og gera hana jafnframt að helstu matarparadís Asíu.

Það var ekki fyrr en ég jafnaði mig af kaupæðinu og ákvað með sjálfri mér að sleppa allri verslun að ég gat sest niður og notið þess sem borgin hefur upp á að bjóða. Ég gæddi mér á framandi réttum, labbaði milli klaustra og naut þess að heyra bænaóminn frá moskunum sameinast umferðarniðinum.

Á kvöldin fylgdi ég straumi allra þeirra Singapúrbúa sem koma sér fyrir á matsölustöðum eða kaffihúsum og spjalla um daginn og veginn. Þar sem ég sat og sötraði kínverskt te og velti því fyrir mér hvað það er undarlegt að við iðnvæddu samfélögin skulum í raun kalla okkur þróuð, læddist sú hugsun að mér að á næsta áfangastað, Malasíu, skyldi ég njóta þess fram í fingurgóma að tyggja hinar ýmsustu tegundir tyggigúmmís án þess að óttast háar fjársektir.