24.04.2004

Grein um fyrstu kynni af írönskum konum

Birtist í Morgunblaðinu, 24. apríl 2005

Sterkar konur í feðraveldi

Miklar stjórnarfarsbreytingar urðu í Íran á 20. öldinni. Breytingarnar höfðu að sjálfsögðu umtalsverð áhrif á daglegt líf fólks og þá kannski sérstaklega kvenna enda eru konur oft notaðar sem ímynd heilu þjóðanna. Halla Gunnarsdóttir fjallar hér í máli og myndum um íranskar konur og segir frá kynnum sínum af þeim.

Þær minna á ofurhetjur sem sveipa sig svörtum skikkjum og líða áfram út í buskann. Ég ímynda mér þær takast á flug til að bjarga fólki í nauð. Þær kallast þó kannski frekar hversdagshetjur og ég veit lítið um björgunaraðgerðir þeirra. Þær eru íranskar konur.

Áður en ég fór til Írans var ég nokkrum sinnum spurð hvort ég þyrfti að vera með blæju fyrir andlitinu eins og konurnar í Íran. Eftir mánaðar ferðalag um landið hef ég aðeins séð þrjár konur bera blæju, þar af voru tvær giftar múllum sem eru klerkar og yfirvald um leið. Ég þarf hins vegar að bera slæðu eins og lög kveða á um en slæðulaus írönsk kona á yfir höfði sér tugi svipuhögga. Útlenskar konur eru þó líklega aðeins sendar úr landi fyrir sama brot.

Íranskar konur eru langt frá því að vera einsleitur hópur. Sumum líkar vel við slæðuna, öðrum ekki. Sumar biðja þrisvar sinnum á dag að hætti shíta múslima, aðrar biðja aldrei. Sumar ganga eingöngu í svörtum fötum, aðrar minna helst á regnboga, slík er litagleðin.

Klárar pæjur

Zahöru og vinkonum hennar í helgustu borg shíta múslima í Íran, Mashad, var lýst fyrir mér sem dæmigerðum írönskum stelpum. Ótilneyddar myndu þær aldrei ganga í sjador sem er einhvers konar svart lak sem konur sveipa sig og halda saman með höndunum eða tönnunum.

Zahara og vinkonur hennar neyðast þó til að fylgja landslögum og ganga í buxum eða pilsi og jakka sem nær vel niður fyrir rass (“hejab”). Þær eru vel stæðar og klæða sig eftir því. Fötin eru þröng, slæðan fest listilega vel þannig að hún hylji sem minnst hár og það er greinilegt að þær eyða miklum tíma í andlitsfarða á hverjum degi. Varaliturinn þeirra er ekki merki um undirgefni við útlitsdýrkun, hann er yfirlýsing. “Steitment” um að yfirvöld ráði ekki yfir þeim og muni aldrei ráða yfir þeim þrátt fyrir að alla ævi hafi þær búið við linnulausan áróður um að farði hæfi ekki siðprúðum, ógiftum stúlkum.

Þessar ungu konur hreyfa sig nánast aldrei og annars fjögurra tíma fjallganga tók sjö tíma enda gátu þær hvorki gengið upp né niður án þess að skrækja heil ósköp. Þær minntu á nýfædda kálfa sem geta ekki fótað sig en kálfarnir eru kannski ekki eins hræddir við að reyna og þær voru. Það hvarflaði ekki að þeim að bera bakpoka eða nokkurn hlut, ekki á meðan karlmaður var nálægt sem gat séð um það.

Um leið og þær koma inn í hús taka þær slæðuna niður. Þær heilsa körlum með handabandi en írönsk kona á ekki að snerta neinn nema ættingja sína og eiginmann. Þær dansa í partíum, daðra og drekka áfengi ef þær komast í það. Þær taka ekki til sín áróðurinn sem hefur dunið á írönskum konum síðustu 26 árin um hvernig siðprúðar stúlkur eiga að haga sér.

Þessar konur eru klárar. Þær eru vel menntaðar, tala ensku og helmingur þeirra vill komast burtu frá Íran. Einni hefur tekist það. Þeirra helsti möguleiki er að giftast Írana sem er búsettur í Evrópu. Að sjálfsögðu aðeins með samþykki fjölskyldunnar þó. Þegar þær horfa á karlmenn spá þær fyrst í hvort þeir eru ríkir og sterkir. Það er erfitt að áfellast þær vitandi að þær eiga allt undir tilvonandi eiginmönnum sínum komið. Skilnaðir eru fátíðir og langt frá því að vera félagslega samþykktir.

Og refsaði faðir þinn þér?

Ég hitti Nazi fyrst á markaði í Shiraz en þá borg heimsækja flestir Íranir einhvern tíma á lífsleiðinni til að skoða grafhýsi ástsælasta skálds þjóðarinnar, Hafez, og til að gera sér ferð að hinum sögufræga stað Persepolis. Ég var á markaðnum í þeim tilgangi að kaupa mér siðsamlega flík, þ.e. síðan jakka, enda var ég orðin þreytt á að vefja slæðu um mig miðja til að brjóta ekki landslög með því að vera “bara” í buxum.

Enginn talaði ensku en Nazi kom allt í einu út úr þvögunni og bauð fram aðstoð þrátt fyrir að hún kynni aðeins tölurnar og stöku orð. Með hennar hjálp keypti ég flík og við áttum mjög takmarkaðar samræður. Hún spurði mig á hvaða hóteli ég væri en þar sem ég mundi það ekki sagði ég bara götuheitið.

Daginn eftir hringdi síminn á herberginu og ung stúlka sagðist vera niðri í afgreiðslu til að hitta mig. Undrandi sveipaði ég slæðunni um höfuðið og rölti niður. Þar stóð Nazi ásamt dóttur sinni Zaidu. Zaida sagðist lengi hafa þráð að tala við útlending og að hún væri sérlega hamingjusöm að hitta mig.

Þær vildu koma með mér upp á herbergi en ég sagði að eiginmaður minn lægi þar veikur og bauð þeim á kaffihús hótelsins í staðinn. Ég var orðin vön því að segjast vera gift ferðafélaga mínum enda gæti okkur annars verið meinað að deila herbergi.

Zaida talaði ágæta ensku og þýddi allt samviskusamlega fyrir móður sína. Þær höfðu mikinn áhuga á Evrópu og stöðu evrópskra kvenna. Þær spurðu ótal spurninga um meint brúðkaup mitt og sennilega laug ég meira í þessu tveggja tíma spjalli okkar en ég hef gert í nokkur ár. Ég sagði þeim að við hefðum orðið ástfangin og ákveðið að gifta okkur. Þeim var gersamlega fyrirmunað að skilja að faðir minn hefði ekki komið neitt að þeirri ákvörðun og ég ákvað að láta það ógert að útskýra fyrir þeim að faðir minn hefði ekki alið mig upp og að systur mínar fjórar væru hálfsystur mínar. Þær spurðu mig hvort ég hefði plokkað augabrúnirnar fyrir giftingu og hvort ég hefði gengið með farða. Þær spurðu hvort eiginmaður minn hefði áður verið kærasti minn og hvernig hann hefði borið bónorðið upp við foreldra mína. Svör mín gengu öll út á að útskýra að ég réði mér nokkurn veginn sjálf, hvort sem ég væri gift eða ekki, og Zaida endurtók sömu spurninguna: “And did your father punish you?”

Ég útskýrði fyrir þeim að á Íslandi væri ólöglegt að lemja börnin sín eða maka sinn og að líkamlegar refsingar væru heldur ekki lögbundnar eins og í Íran. En hvernig gat ég útskýrt að þrátt fyrir það væri heimilisofbeldi eins algengt og raun ber vitni hér á landi? Í Íran er bilið milli óskráðra reglna samfélagsins og lagabókstafs, milli menningarlegs siðgæðis og lagalegs siðgæðis, ekki nærri eins breitt og hér.

Zaida hefur átt nokkra kærasta með vitneskju móður sinnar en hún myndi aldrei segja föður sínum frá því. Þá yrði henni refsað. Hann bannar henni að nota farða og Zaida hlakkar til að gifta sig því þá má hún loksins plokka á sér augabrúnirnar, með leyfi eiginmannsins að sjálfsögðu.

Ég útskýrði fyrir þeim sjálfstæði mitt. Að ég væri í minni vinnu og “eiginmaðurinn” í sinni vinnu. Ég ætti mína peninga og hann sína. Þær sögðu að þannig myndi það aldrei virka í Shiraz ef kona ynni úti. Karlinn tæki laun konunnar og sæi um að ráðstafa peningunum. Þeim fannst það eðlilegt því að hjón væru í raun ein manneskja.

Ég spurði varfærnislega út í stjórnmál landsins. Þær sögðu ástandið mjög slæmt og að yfirvöld hugsuðu ekki um fólkið í landinu. Þess vegna væri mikil fátækt. Þeim var líka illa við að þurfa að bera slæðu. Nazi litar á sér hárið og lætur sjást í mikla hárrönd. Zaida má ekki lita á sér hárið. Ekki fyrr en hún giftir sig.

“En hvað viljið þið í staðinn fyrir ajatollah?” spurði ég en ajatollah er æðsti trúarleiðtogi shítamúslima og þar af leiðandi hæstráðandi í Íran. Zaida svaraði strax: “Ég veit það ekki. Kannski George Bush.” Þegar hún tók eftir undrunarsvipnum á andliti mínu spurði hún hvort ég vildi ekki fá Bush sem forseta míns lands. Ég svaraði neitandi og hún varð jafnvel meira undrandi en ég. “Af hverju ekki? Er hann ekki góður forseti? Mér finnst eins og hann hugsi um fólkið í landinu sínu, þótt honum sé kannski ekki mikið gefið um önnur lönd,” sagði Zaida hugsandi og hélt áfram: “Ég sé ameríska fólkið í sjónvarpinu. Það er hamingjusamt, það grínast, það hlær. Mig langar að vera eins og það og hafa allt sem það hefur.” Hvernig gat ég útskýrt að sjónvarpið gæfi kannski ekki alveg rétta mynd af Bandaríkjunum eins og þau leggja sig? Ekki frekar en sjónvarpið hefur fram til þessa gefið mér rétta mynd af Íran.

Þegar samtalið var farið að þynnast út sagðist ég þurfa að fara vegna veikinda eiginmanns míns. “Er hann reiður af því að þú ert að tala við okkur?” spurðu þær skilningsríkar. Það kom á mig og þá sögðu þær skilningsríkar og klöppuðu mér á axlirnar: “Þetta er allt í lagi. Við skiljum.”

Daginn eftir hringdi Zaida í mig og kvaddi mig með mjög háfleygum dramatískum orðum. Þá var “eiginmaðurinn” minn farinn og hún spurði hvort ég saknaði hans. Ég svaraði játandi og þá sagði hún með barnslegri einlægni, þeirri sömu og þegar hún skildi ekki að ég vildi ekki Bush sem forseta Íslands: “Why?”

Ósáttar við sjadorinn

Þegar ég hitti Maríu og Goliu í Kashan, einni af íhaldssamari en um leið einni fallegustu borg Írans var ég nokkurn veginn búin að móta mér skoðun á stöðu kvenna í Íran. Allir, bæði konur og karlar, sem ég hafði talað við voru sammála um að staða kvenna væri slæm þótt svörin væru misvel rökstudd. Oftast nefndi fólk slæðuna eða þá staðreynd að konur geta ekki auðveldlega stundað íþróttir en ég fékk lítið af svörum þegar ég spurði um ofbeldi gegn konum, kynbundinn launamun, barnagiftingar eða skilnaði.

María bjó í Englandi í sex ár en flutti til baka þegar hún var fimmtán ára eftir að faðir hennar hafði lokið námi. Hún og Golia eru báðar í enskunámi við háskólann í Kashan. Þær klæddust báðar sjador en sögðust hata flíkina. “Það er enginn sem segir að við verðum að vera í þessu en Kashan er lítil borg þar sem allir fylgjast með öllum. Ef ég gengi ekki í sjador myndi fólk gaspra um það að ég væri ekki sérlega góð stúlka,” sagði María en faðir hennar er háttsettur maður svo það er vissara fyrir hana að haga sér vel.

Þær eiga báðar gsm-síma en sögðu að það væri ekkert rosalega algengt í háskólanum. Þær eiga líka góðan karlkyns vin úr háskólanum sem þær eyða miklum tíma með. Þær komu fyrir sem sjálfstæðar, ungar konur sem hafa lagt mikið á sig til að komast í háskóla og stefndu ótrauðar til Teheran til að mennta sig meira. En inntökuprófin í háskólana eru erfið. María sagði opinberu háskólana vera mjög góða. “Einkaskólarnir eru dýrir og síðan eru til svona skólar sem eru að hluta til einkaskólar en að hluta til opinberir. Það fer enginn í einkaskóla nema hann komist ekki inn í opinberu skólana.”

Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar. Nú fengi ég sterka gagnrýni á stöðu íranskra kvenna. Þær töluðu jú góða ensku og voru með ákveðnar skoðanir. Golia var málglaðari og sagði mér frá því þegar hún stal málningardóti móður sinnar og puntaði föður sinn lítillega þar sem hann lá í fastasvefni. Á sama tíma og hann vaknaði var bankað á dyrnar. Málningin fór ekki af hversu mikið sem hann skrúbbaði. “Mamma átti náttúrlega bara alvöru málningarvörur sem haldast á andlitinu í lengri tíma,” sagði hún og hló.

“Konur eru tilfinningaverur”

Ég var því nokkuð örugg þegar ég spurði þær um stöðu kvenna í Íran.

Þær vildu vita hvað mér fannst en ég beitti öllum mínum sjarma til að fá þær til að tjá sig enda hitti ég ekki oft konur sem tala reiprennandi ensku. Svarið kom mér á óvart. “Konur og karlar eru jöfn í Íran. Það eina sem aðskilur okkur er þetta,” svaraði Golia og benti á fötin sín. Þær sögðust vera sáttar við slæðuna þótt þeim væri illa við sjadorinn og sögðu hana vernda sig. Ég vildi nánari útskýringar og þá sagði María: “Ef þú ert að vinna á vinnustað með körlum þá gerist eitthvað. Þú veist það alveg sjálf, það gerist eitthvað. Slæðan verndar okkur fyrir því.” Ég átti erfitt með að skilja svarið og fannst eins og þær gerðu engan greinarmun á því hvort það sem “gerðist” væri með eða án þeirra vilja. Öll snerting við karlmann fyrir giftingu er af hinu illa.

Ég spurði hikandi út í álit þeirra á blóðpeningum en ef manneskja er myrt skal fjölskylda morðingjans greiða fjölskyldu fórnarlambsins ákveðna upphæð. Upphæðin er helmingi lægri ef fórnarlambið er kona. Golia sneri út úr með því að tala um arf og þá staðreynd að dætur erfa aðeins helming á við syni nema kveðið sé á um annað í erfðaskrá. “Fyrst þegar ég heyrði þetta fannst mér mikil ósanngirni í þessu. En ef þú hugsar þetta lengra þá er það þannig hér í Íran að þegar konur giftast þarf karlinn að borga þeim mikla peninga sem þær síðan eiga og mega ráðstafa að vild. Ef konur erfðu jafnmikið og karlar væru þær komnar með miklu meiri peninga,” sagði Golia ákveðin og María kinkaði kolli til samþykkis. Þær voru komnar í vörn. Ég velti fyrir mér hvers vegna þjóðernið virtist skipta miklu meira máli en kyn í samræðum okkar. Ég var fyrst og fremst Vesturlandabúi en þær Íranir. Ég lét því eins og hún hefði verið að birta mér mikil sannindi með þessum orðum, til þess að fá hana til að tala meira. “En hvað finnst ykkur um það að vitnisburður konu sé aðeins helmingur á við vitnisburð karls fyrir rétti?” spurði ég og minntist þess að hafa heyrt að til þess að sanna samkynhneigð (sem er að sjálfsögðu refsivert athæfi!) þurfa tveir karlar eða fjórar konur að bera vitni. Alltaf byrjuðu svörin eins. “Já, mér fannst þetta líka skrítið fyrst þegar ég heyrði það en ef þú spáir í það þá eru konur miklu meiri tilfinningaverur en karlar. Þeir hugsa rökréttar, ekki satt?” Ég sagðist vera ósammála en bað hana að halda áfram. “Konur gráta t.d. oftar,” sagði hún til útskýringar. Ég minntist á tilfinningar eins og reiði, afbrýðisemi og hatur. Spurði um morð, rán og nauðganir. Golia var komin í of mikla vörn til að halda áfram. Hún breytti um umræðuefni.

22.04.2004

Óbirt grein

Draugakastalinn í fjöllunum

„Hvað sem þú gerir, ekki hugsa um Jack Nicholsson hrópa: Where is Johnny!” sagði ég lágum rómi við ferðafélaga mína og sá hvernig þeir fölnuðu. Við vorum stödd í yfirgefinni byggingu í Bokor Hill Station í Kambódíu. Drungalegt yfirbragð byggingarinnar verður enn óhugnalegra þegar saga hennar er höfð í huga. Þegar enn var byggð í þessum fallega fjallgarði gegndi byggingin hlutverki spilavítis og gengur enn undir því nafni. Síðar yfirtóku Rauðu Khmerarnir staðinn og notuðu spilavítið til að fangelsa, pynta og myrða fólk. Í framhaldinu voru miklir bardagar háðir í fjöllunum í kring og hversu kaldhæðnislegt sem það kann að hljóma þá ber sundurskotin kirkja enn merki þess.

Gamla spilavítið minnir óheyrilega á bygginguna úr hryllingsmyndinni The Shining og í raun ekki að undra að á sama tíma og við vorum á staðnum var verið að filma þar kóreska hryllingsmynd.

Sumir ferðamenn hefðu eflaust látið nægja að skoða þennan óhugnalega stað í dagsbirtu en þar sem við eyddum nóttinni í fjallagarðinum gátum við ekki staðist mátið að líta þar við eftir sólsetur. Við hefðum eflaust aldrei lagt í það ef ekki hefði verið fyrir kvikmyndatökulið með alla þá ljóskastara sem slíkum teymum fylgja. Okkur var boðið að fylgjast með tökum og óraunveruleikatilfinningin sem oft vill fylgja ferðalögum á framandi stöðum jókst til muna.

Ævintýraþráin

Ævintýraþráin var þó sterk og ferðafélagi minn frá landinu í vestri lokkaði mig með sér í rannsóknarleiðangur um myrkvaða bygginguna. Við vorum ekki lengi að sannfærast um að sögur um reimleika staðarins eigi við rök að styðjast. Það er skemmst frá því að segja að það tók okkur fjórar tilraunir að komast upp á þak byggingarinnar. Í þessari merkilegu byggingu er að finna allar vondar tilfinningar sem hægt er að gera sér í hugarlund. Græðgi, öfund, angist, sorg, kvíði, heift og svo framvegis.

Við höfðum næturstað í klaustri. Aldrei hef ég fundið eins mikið fyrir skilunum milli góðs og ills eins og þegar ég kom í klaustrið. Fyrir háttinn þurfti ég að sparka af mér gamla nunnu sem var hress að kitla liðið og ég vaknaði við að lítill api reyndi að plata mig til að gefa sér eitthvað að borða. Ég hafði ekkert handa honum svo hann lagði sig bara hjá okkur. Bokor Hill Station er án efa minn eftirlætis staður í Kambódíu og kæmi mér ekki á óvart ef fleiri og fleiri ferðamenn færu að leggja leið sína þangað.

16.04.2004

Grein frá Víetnam

Birtist í Morgunblaðinu, 16. apríl 2004

 

Stríðsglæpir og diskóljós

HEIMSHORNA Á MILLI: Halla Gunnarsdóttir skrifar frá Víetnam

Ég ligg í hörðu rúmi í litlu herbergi sem minnir helst á vistarverur hermanna, í það minnsta eins og þær koma fyrir sjónir í bíómyndum. Hvítir veggir, grár skápur, tvö rúm sem minna helst á barnarúm. Lítil eðla hefur hreiðrað um sig inni á baði. Vonandi er hún dugleg að éta moskítóflugur. Lágt suð í loftræstingunni blandast vinalegum svefnhljóðum herbergisfélaga míns. Eftir alla einveruna finnst mér notalegt að deila herbergi með einhverjum. Þetta er síðasta kvöldið í Víetnam.

Þar sem ég ligg þarna og á í erfiðleikum með að festa svefn fer hugurinn á flakk og ég endurupplifi ferðalagið um þetta fallega land sem á svo flókna og blóðuga sögu. Það rifjast upp fyrir mér þegar ég stóð á mörkum norðurs og suðurs og velti fyrir mér veruleika stríðs, veruleika sem alltaf hefur verið svo fjarri minni vernduðu veröld.

Hoi An var fyrsti viðkomustaðurinn í suðurhluta Víetnam – mekka verslunarinnar. Yfir 200 klæðskerar eru í bænum og meira að segja hægt að láta sauma á sig skó án þess að buddan grennist um of. Bakpokaferðalangnum þótti þó of vænt um bakið til að láta freistast.

Frá Hoi An til Nha Trang. Orkan sem ég fylltist við að sjá loksins hafið. Sigling um eyjarnar í kring. Ofvirki leiðsögumaðurinn setti upp fyrir okkur fljótandi bar og píndi ofan í okkur það alversta rauðvín sem ég hef á ævinni bragðað. Það ætti í raun að vera ólöglegt að kalla þetta rauðvín! Í Nha Trang kom augnablikið þar sem ég fór að ljúga því að ég ætti kærasta heima á Íslandi. Ekki af því að mér þætti það eftirsóknarvert heldur einfaldlega vegna þess að ég gafst upp á að útskýra fyrir Víetnömum að ég sé á lausu. Hér er hjónaband nefnilega mikilvægasta stoð samfélagsins og fyrirbærið “happily single” ekki til.

Hæsta fjall S-Víetnam sigrað

Frá Nha Trang til fjallabæjarins Dalat – eins vinsælasta áfangastaðar Víetnama í brúðkaupsferð. Tilfinningin að sigra Lang Biang, hæsta fjall í Suður-Víetnam (2169 m), var dásamleg. Ég hélt ég væri að skrá mig í hópferð en svo kom á daginn að ég skyldi þvælast ein með leiðsögumanninum Nam, ferðamenn eru einfaldlega ekki svona vitlausir að halda sig geta vappað þarna upp án nokkurs undirbúnings. Nam fer þessa ferð þrisvar til fjórum sinnum í viku og blés því ekki úr nös á meðan við klöngruðumst upp hlíðina. Sjálf var ég móð og másandi með hugann við allar mögulegar og ómögulegar afsakanir fyrir að snúa við. Að sjálfsögðu var bröltið þess virði þegar komið var á toppinn. Það rifjast upp fyrir mér minningin úr Lat Village, litlu þorpi fyrir utan Dalat, sem við Nam heimsóttum. Ég þvældist inn í hóp tilvonandi leiðsögumanna sem voru þarna að læra um menningu þorpsbúa. Ég söng og dansaði, þambaði hrísgrjónavín úr stærðarinnar krukku og reyndi eftir fremsta megni að skilja alla skemmtilegu leikina.

Frá Dalat til Ho Chi Minh City (áður Saigon) stærstu borgar í Víetnam. Þar fór ég meðal annars á stríðsglæpasafnið og fékk illt í hjartað yfir grimmdinni í þessum heimi. Skemmtilegastur var þó 8. mars, alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Mér tókst að hafa uppi á hátíðarhöldum heimamanna sem ganga aðallega út á söng og glaum með tilheyrandi skreytingum eins og jólaseríum, diskóljósum og reykvélum. Þrátt fyrir að vera höfðinu hærri og öðruvísi útlítandi en allir þátttakendur var ég boðin velkomin og þar með afsannaðist kenningin um að kynþáttafordómar stafi af einskærum ótta við hið óþekkta.

Undarlegt andrúmsloft

Ég á svo erfitt með að skilja andrúmsloftið í Víetnam. Svo virðist sem þjóðin hafi byggt um sig þykkan skráp eftir allar hörmungarnar sem hún hefur mátt þola. Túrismi hefur kannski vaxið of hratt sem gerir umhverfið svolítið fjandsamlegt. En um leið og komið er út fyrir túristastaðina tekur við hlýja og bros sem nær til augnanna. Ennþá virðist ríkja ákveðin óeining milli norðurs og suðurs enda kannski ekki furða þar sem Ameríska stríðið (betur þekkt sem Víetnamstríðið á Vesturlöndum) er ekki nema einni kynslóð í burtu. Lega landsins hjálpar eflaust ekki til en landið er langt og mjótt og því mikil fjarlægð frá norðri til suðurs.

Og þar sem ég ligg í rúminu þetta síðasta kvöld rifjast upp fyrir mér allar tilfinningarnar sem ég hef upplifað í Víetnam. Gleðin yfir litlum hlutum eins og brosi frá barni. Pirringurinn yfir ágengum sölumönnum. Reiðin yfir óréttlætinu og grimmdinni í veröldinni. Einmanakenndin og heimþráin. Óöryggið í nýjum hópum. Léttirinn yfir að þekkja einhvern á barnum og þurfa ekki að sitja ein. En fyrst og fremst hamingjan yfir að hafa tækifæri til að ferðast.

Að lokum lognast ég út af vitandi að á morgun leggst ég til rekkju í nýju og framandi landi, Kambódíu, þar sem ég mun upplifa nýja hluti og án efa enn fleiri tilfinningar.

02.04.2004

 

Grein frá Laos
Birtist í Morgunblaðinu, 2. apríl 2004

Viltu vera memm?

HEIMSHORNA Á MILLI: Halla Gunnarsdóttir skrifar frá Laos

Náttúrufegurð, fátækt og lífsgleði eru þau þrjú orð sem koma fyrst upp í hugann þegar ég hugsa um dvöl mína í Laos. Ég myndi seint segja að ég hafi séð landið eins og það leggur sig enda eyddi ég aðeins tíu dögum þar.

Náttúrufegurð, fátækt og lífsgleði eru þau þrjú orð sem koma fyrst upp í hugann þegar ég hugsa um dvöl mína í Laos. Ég myndi seint segja að ég hafi séð landið eins og það leggur sig enda eyddi ég aðeins tíu dögum þar.

Í Laos ganga hlutirnir oft hægt fyrir sig og það getur verið erfitt fyrir Vesturlandabúa sem eru vanir miklum hraða að skilja hvers vegna skipulagið er ekki öðruvísi og nær okkar veruleika. Samgöngur eru víðast hvar erfiðar enda vegir ekki í besta ásigkomulagi og stærðarinnar fjöll helst einkennandi fyrir landslagið. Það getur tekið fjóra og jafnvel fimm klukkutíma að ferðast 150 kílómetra vegalengd svo að ferðalangar þurfa að hafa tímann með sér.

Laos er eitt af minnst þróuðu löndum Asíu og jafnframt eitt af fátækustu löndum heims. Árlegar tekjur á hvern landsmann nema um 260$ eða um 18.000 krónum. Saga landsins er löng og flókin en það státar af þeim vafasama titli að vera eitt mest sprengda land í heimi. Í Ameríska stríðinu, sem er betur þekkt sem Víetnamstríðið á Vesturlöndum, átti Laos að kallast hlutlaust land. Það aftraði hins vegar ekki Bandaríkjamönnum frá að láta sprengjum rigna yfir landið en samanlagt voru þær fleiri en þeir létu falla í allri seinni heimsstyrjöldinni. Ósprungnar sprengjur valda enn gríðarlegum skaða og frjósamar jarðir standa ósnertar. Það er óheyrilega dýrt og tímafrekt að sprengjuhreinsa landið og lítil hjálp kemur frá þeim sem upphaflega hentu sprengjunum.

Ferðast með “lókal”-rútu

Byggingar í höfuðborginni Vientiane eru oft illa farnar og það er vissara að hafa augun hjá sér því að í gangstéttum og vegum leynast oft óvæntar sprungur og jafnvel stærðarinnar holur.

Líkt og alvöru bakpokaferðalangur tók ég “lókal”-rútuna frá Vientiane norður til Vang Vieng enda mun ódýrara en að þvælast með túristarútum sem bjóða upp á meiri þægindi líkt og eitt sæti á mann. Í sömu ferð var verið að flytja stærðarinnar glerplötur og þeim var að sjálfsögðu komið fyrir á miðjum ganginum. Ég byrjaði því á að klifra um borð og var heppin að fá sæti við glugga. Þarna virtist gilda ein regla og hún var sú að engum skyldi vísað frá svo að ég prísaði mig sæla fyrir að sitja í kremju fremur en að standa alla leiðina.

Það er alltaf erfitt að lýsa náttúrufegurð. Rómantísku skáldin reyndu það á sínum tíma og hlutu titilinn rómantísk fyrir vikið. Vang Vieng er lítið þorp, umlukið fjöllum og hefur orðið nokkurs konar samkomustaður bakpokaferðalanga. Í gegnum þorpið rennur á sem ásamt því að vera helsta lífslind þorpsbúa býður upp á ýmiss konar afþreyingu fyrir ferðamenn. Kajakferðir eru vinsælar og við árbakkann er úrval veitingastaða þar sem leikin er afslappandi tónlist fyrir gesti. Vinsælast er þó að “tjúba” en það felst í því að ferðast niður ána á gúmmíslöngu og stoppa á börum á leiðinni í þeim tilgangi að neyta matar eða drykkjar. Sjálfri fannst mér skemmtilegast að leigja hjól og þvælast um smáþorpin í kring þar sem daglegt líf er öðruvísi en við eigum að venjast.

Að breyta heiminum

Frá Vang Vieng lá leiðin til Luang Prabang sem var höfuðborg Laos fram til ársins 1545. Í þetta skiptið splæsti ég á mig túristarútu en þessi leið er einstaklega torfarin og bílveikum því nokkur vorkunn. Luang Prabang er fallegur bær og franskra áhrifa gætir þar svo um munar enda var Laos frönsk nýlenda til margra ára. Í kringum bæinn er hægt að komast í góða snertingu við náttúruna, hvort sem farið er í gönguferð, hjólreiðatúr, siglingu eða bíltúr.

Það sem mér fannst erfiðast við dvölina í Laos var að sjá fátæktina þar og vera minnt á það enn og aftur hve lífsins gæðum er misskipt. Að sjá lítil börn horfa löngunaraugum á hvíta fólkið gæða sér á ávöxtum og öðrum munaði. Börn sem aldrei munu eiga sömu tækifæri og þau börn sem fæðast í okkar landi. Daglegt líf meirihluta landsmanna gengur út á að hafa í sig og á og það þýðir lítið að hafa áhyggjur af morgundeginum enda getur enginn vitað hvað gerist þá. Þrátt fyrir þetta og allt sem á undan er gengið eru landsmenn lífsglaðir og taka sérlega vel á móti gestum.

Á meðan ég gægðist inn um gluggann hjá Laosbúum og fann allar tilfinningarnar sem fólk með hjarta finnur á þessum slóðum var ekki laust við að ég velti fyrir mér hvað ég legg af mörkum til að breyta þessari veröld sem við lifum í. Jú, ég ræði málin, deili reynslu minni með öðrum og bölsótast jafnvel út í ríkisstjórnina fyrir lág framlög til þróunarmála. Ég læt jafnvel nokkrar krónur af hendi rakna til jólasöfnunar Hjálparstarfs kirkjunnar en þó ekki nærri eins mikið og ég hef möguleika á. Ég held nefnilega fast í aurana mína og bægi frá mér þeirri hugsun að með því að sleppa tveimur bjórum á barnum geti ég séð barni í þriðja heims ríki fyrir menntun.
Nú hef ég játað þetta fyrir alþjóð svo að næsta skref er að hætta að röfla eingöngu um hlutina og byrja að breyta því sem ég get breytt. Vilt þú vera memm?