Grein frá Kúbu
Birtist í Morgunblaðinu, 30. janúar 2004
Ósáttir nágrannar
Heimshorna á milli: Halla Gunnarsdóttir skrifar frá Kúbu um nágrannaerjur
Englendingur í Che Guvera-bol sat við hlið mér á sundlaugarbakka á hóteli í Pinar del Rio sem er mikill ferðamannabær í austurhluta Kúbu. Í miðju samtali okkar um heimsins vanda benti hann mér á tvo kúbanska unglingsstráka sem báðir voru með klút um höfuðið í amerísku fánalitunum. Þetta varð efni mikillar umræðu um samskipti Bandaríkjanna og Kúbu og muninn á róttæku ungu fólki á Kúbu annars vegar og í okkar vestræna veruleika hins vegar. Þriggja nátta dvöl okkar á þessu hóteli var hluti af þriggja vikna dagskrá fertugustu norrænu brígöðunnar en hátt í 160 manns taka þátt í henni að þessu sinni. Árlega heimsækir fjöldi fólks Kúbu í sama tilgangi og við en ásamt því að fá fræðslu um afrakstur byltingarinnar fáum við innsýn í landbúnaðarstörf á Kúbu og leiðsögn um merkustu staði í Havana og nágrenni. Í ár eru einmitt 45 ár síðan byltingin náði fram að ganga hér í landi og hafist var handa við uppbyggingu ríkis með hugmyndafræði kommúnisma og sósíalisma að leiðarljósi.
Ósætti í áraraðir
Það er kannski ekki svo undarlegt að Kúbönum séu samskipti við Bandaríkin hugleikin en það hefur andað köldu milli þessara ríkja í áraraðir. Viðskiptabann Bandaríkjanna hefur reynst Kúbu þungur baggi og siðapostulatilhneiging heimsveldisins hefur ekki skilað friðsamlegum samskiptum við Kúbu fremur en við mörg önnur lönd heims. Að auki standa ríkin fyrir alls ólíka pólitík og aðferðirnar við að ná jöfnuði kommúnismans samræmast engan veginn kapítalískum hugmyndum um frjálsan markað og mikilvægi einstaklingsframtaksins.
Bandaríkin hafa verið hörð í gagnrýni sinni á mannréttindabrot á Kúbu en það verður að teljast tvíbent afstaða að mótmæla slíkum brotum þar á meðan mannréttindabrot í Bandaríkjunum eru látin óátalin. Núna sitja fimm Kúbanar í fangelsi í Bandaríkjunum en fyrir nokkrum árum voru þeir sendir á vegum kúbönsku ríkisstjórnarinnar til að rannsaka hryðjuverkasamtök á Miami sem samanstanda af Kúbönum sem hafa andúð á Fídel Kastró og öllu sem hann stendur fyrir. Mennirnir komust á snoðir um fyrirhuguð hryðjuverk sem áttu að beinast gegn Kúbu og var þá haft samband við bandarísk yfirvöld vegna málsins með von um samstarf. Það fór þó ekki eins og við var búist en mennirnir voru handteknir og ákærðir fyrir njósnir og hryðjuverkamennirnir látnir óáreittir. Lög og reglur um réttarhöld voru brotin í málsmeðferðinni og mennirnir voru allir dæmdir í lífstíðarfangelsi og gott betur en það en lengsti dómurinn var tvöfaldur lífstíðardómur og 15 ár að auki. Það er rétt benda á að hver sem tilgangur mannanna hefði hugsanlega getað verið þá höfðu þeir engan skaðað og þetta hljóta því að teljast nokkuð þungir dómar. Mikil samstaða hefur skapast á Kúbu um að berjast fyrir málstað mannanna fimm og er sérstök áhersla lögð á að aftur verði réttað í málinu og þá annars staðar en í Miami þar sem andstaða við Kúbu er einna mest.
Mannréttindabrot á Kúbu
Þetta breytir því þó ekki að á Kúbu eru mannréttindi jafnframt brotin en þegar brígadistar hafa spurst fyrir um þau ganga svörin iðulega út á að benda á mannréttindabrot annars staðar í heiminum. Því er svo fylgt eftir með fögrum orðum um öll þau réttindi sem Kúbanir hafa sem aðrar þjóðir búa ekki endilega við og einn fyrirlesari sagði vaxandi atvinnuleysi vera eitt helsta mannréttindabrot í Evrópu. Ef menn eru dæmdir í fangelsi eða til dauða hér í landi þá hljóta að vera einhverjar ástæður fyrir því og kúbönsk yfirvöld verða að standa með þeim ástæðum ætli þau að halda trúverðugleika.
Það er óskandi að Kúba og Bandaríkin geti tekið upp friðsamlegri samskipti en til þess að það verði þarf mikið vatn að renna til sjávar. Yfirvöld landanna tveggja þurfa að mætast á jafningjagrundvelli með það að leiðarljósi að bæði ríki geti hagnast á betri samskiptum.
23.01.2004Grein frá Kúbu
Birtist í Morgunblaðinu, 23. janúar 2004
Á byltingarslóðum
HEIMSHORNA Á MILLI: Halla Gunnarsdóttir tínir appelsínur á Kúbu
Tilfinningarnar sem bærast í brjóstinu þegar lagt er af stað í margra mánaða ferðalag eru um margt erfiðar. Spennan yfir því sem framundan er blandast óttanum við hið óþekkta. Framundan er mánaðardvöl á Kúbu og svo flug aðra leiðina til Bangkok sem verður mín helsta heimahöfn á ferðalagi um Suðaustur-Asíu.
Ætlunin er að dvelja í þrjár vikur í kúbönskum vinnubúðum og ferðast svo í tíu daga á eigin vegum. Búðirnar kallast Brígaða og eru kenndar við Julio Antoniomella sem barðist fyrir kúbanska stúdenta og verkalýð og var myrtur í Mexíkó vegna stjórnmálaskoðana sinna árið 1929.
Misjöfn viðhorf til kommúnisma
Á vinnudögum er unnið í fjóra klukkutíma við ýmiss konar störf, s.s. við að tína appelsínur eða baunir, snyrta tré, hreinsa steina af akri og aðstoða við byggingarvinnu. Eftir hádegi og á kvöldin fáum við fræðslu um sögu Kúbu og innsýn í einstakt menningarlíf Kúbana sem einkennist af dansi og söng. Að auki förum við í skoðunarferðir. Hér eru tæplega 160 manns frá Evrópu á öllum aldri, þar á meðal þrír frá Íslandi. Við erum í vernduðu umhverfi. Búðirnar eru afgirtar og öll þjónusta til taks, s.s. læknir, hjúkrunarfræðingur, tannlæknir, öryggisverðir og fleira. Hver hópur hefur aðgang að túlki sem jafnframt býður fram aðstoð sína ef eitthvað vantar.
Það sem er einna mest spennandi við þessa dvöl er að fá tækifæri til að öðlast þekkingu á kúbanskri sögu, stöðunni á Kúbu í dag og kynnast Kúbönum. Þó þarf að sjálfsögðu að huga að því að hafa gagnrýnin gleraugu á nefinu þar sem það er alfarið í höndum skipuleggjenda búðanna hvaða fræðslu brígadistarnir fá.
Vestrænir fjölmiðlar hafa oftar en ekki verið fremur einhliða í umfjöllun sinni um Kúbu. Í íslenskum fjölmiðlum hefur til dæmis verið talað um ógnarstjórnina á Kúbu en sambærileg lýsing fylgir sjaldnast fréttum af stjórnvöldum annarra landa. Kúba er ýmist kennd við kommúnisma eða sósíalisma, en hér er vanalega talað um sósíalisma. Á Vesturlöndum er þó yfirleitt talað um Kúbu sem kommúnískt svæði en kommúnisminn, líkt og aðrar pólitískar stefnur, á sér blóðuga sögu. Þess vegna er algengt að alið sé á ótta gagnvart þessari pólitík sem boðar frið og jöfn kjör án þess að það markmið hafi nokkurs staðar náðst. Þetta hefur litað viðhorf vestræns almennings til Kúbu en ofan á það bættist hræðsluáróður þeirra sem auðinn áttu en hann átti rætur sínar að rekja til óttans við að missa auðæfi sín og um leið völdin sem þeim fylgja.
Samstarf fremur en samkeppni
Á hinn bóginn hafa verið, og eru, gróf mannréttindabrot framin í því skyni að fá kommúnismann til að ganga upp. Tjáningar- og ferðafrelsi hefur verið heft og ríkisvaldið verið með nef sitt ofan í einu og öllu. Hvort sem það er af þessum sökum eða öðrum þá flýja margir Kúbanir til annarra landa og bíða þess eins að Kastró syngi sitt síðasta í von um að þá verði annars konar stjórnunarhættir teknir upp.
Hér í búðunum er mikið lagt upp úr að öllum líði vel. Leiðtogarnir bjóða okkur velkomin með brosi sem nær til augnanna og sífellt erum við minnt á að við séum að vinna saman og að við eigum að búa hér sem ein stór fjölskylda. Þannig verður hugmyndin um samstarf fremur en samkeppni strax ofan á sem er kannski ekki það við erum vön í hinum vestræna veruleika.
Þegar við vorum boðin velkomin tjáði forstöðumaður búðanna okkur að við ættum ekki að fara til heimalanda okkar og segja Kúbu vera paradís á jörð því að það væri fjarri lagi. Hins vegar væri hér margt gott og í einlægni bað hann okkur að koma með opinn huga og segja svo fólki frá upplifun okkar. Það er því ætlun mín að verða við þessari ósk hans og fyrsta skrefið er að opna hugann og ýta burt hugmyndum um að kommúnismi sé annaðhvort alvond einræðisstefna eða fullkomin samhjálparstefna.
15.01.2004Óbirt grein frá Bangkok
Bangkok – þar sem allt er falt
„Pussy open a bottle show. Excuse me, madam, special price. What are you looking for?” Ég hvæsti nei út um samanbitnar varir en maðurinn lét sér ekki segjast og hélt áfram að bjóða mér hinar og þessar sýningar án þess að taka eftir því að þetta setti mig algjörlega úr jafnvægi. Þetta var í Patpong í Bangkok en ásamt því að vera mekka vændisiðnaðarins er þar jafnframt að finna einn stærsta næturmarkað Tælands. Ég lofaði sjálfri mér að þangað færi ég aldrei aftur.
Við vorum fimm saman á þvælingi, þrír strákar og tvær stelpur. Strákarnir þorðu ekki fyrir sitt litla líf að yfirgefa okkur stelpurnar því að hefðu þeir ekki okkur til að grípa í drukknuðu þeir í ágengum sölumönnum sem vildu selja þeim hvaða part kvenmannslíkamans sem var. Barnungar, fáklæddar stelpur reyndu með tælandi augnarráði að lokka okkur inn á skemmtistaði og alls staðar voru vændiskonur með tóm augu.
Bangkok er borgin þar sem allt er falt. Alls staðar eru sölumenn og sennilega fátt sem ekki er mögulegt að kaupa. Eftirlíkingar af helstu merkjavörum heims fáanlegar fyrir spottprís hvort sem um er að ræða fatnað, úr, skartgripi eða hvað annað sem hugurinn girinist.
Bækistöð bakpokaferðalanga
Borgin er jafnframt nokkurs konar bækistöð bakpokaferðalanga í suðaustur Asíu. Á Thanon Khao San safnast þeir saman, versla, djamma og hitta aðra bakpokaferðalanga sem eru annað hvort að hefja ferðalag sitt, ljúka því eða á leið í nýtt ævintýri. Á þessari litlu götu, sem er ekki lengri en eins og hálfur Laugarvegurinn, er ekki þverfótað fyrir sölumönnum, ferðamönnum og leigubílstjórum. Þar er umferð, mengun, fólk, tónlist, matarlykt, auglýsingar og í raun allt það áreiti sem hægt er að safna saman í eina götu. Flestir ferðamenn gefast upp eftir þrjá til fjóra daga í Bangkok og þrá fátt heitar en að komast út úr þessari hringiðu.
Svartasta hlið Bangkok er án efa vændisiðnaðurinn sem virðist síst fara minnkandi ár frá ári. Samkvæmt heimildum Lonely Planet rekur skelfileg fátækt fjöldann allan af konum og börnum út í vændi. Þá er einnig algengt að ættingjar selji börn og konur til iðnaðarins sem svo starfa við mjög svo nöturlegar aðstæður þar sem hættan á eyðnissmiti er gríðarleg og allt gengur út að nýta þau sem best til að hámarka gróðann. Það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir umfangi barnavændis hér en samkvæmt tölum frá Barnaheillum Sameinuðu þjóðanna er meira en milljón börn þvinguð í vændi í Asíu.
En vændisiðnaðurinn þrífst ekki vegna þess að allt er til sölu. Vændisðinaðurinn blómstrar í Tælandi, sem og annars staðar, vegna þess að eftirspurnin er til staðar og eftirspurnin kemur úr vestri. Ábyrgð ferðamanna er því mikil og ég hvet alla sem fara á þessar slóðir til að hugsa sig vel um þegar ákveðið er í hvað peningunum skuli varið.
Vinaleg stemmning
Þrátt fyrir að sólin nái ekki að skína alls staðar í Bangkok þá hefur borgin svo sannarlega upp á margt að bjóða. Söfn, næturlíf, klaustur, veitingastaðir, nuddstofur, markaðir (þar á meðal einn fljótandi) og verslanir eru meðal þess sem gæti heillað ferðalanga. Í leit að friði og ró er hægt að koma sér fyrir í einum af fallegu görðum borgarinnar og skoða fólk eða lesa góða bók.
Sjálf fyllist ég , eins og margir bakpokaferðalangar, undarlegri heimatilfinningu þegar ég kem til Bangkok. Ég kom þangað fyrst fyrir tveimur árum og stoppaði þar nokkrum sinnum á ferð minni um Tæland. Það gladdi mig óneitanlega þegar ég kom aftur að allt skyldi vera svipað og áður enda fylgir því ákveðin öryggistilfinning að vita hvar hlutina er að finna. Þrátt fyrir allt brjálæðið er hér mjög vinaleg stemmning og svo sannarlega auðvelt að kynnast fólki sem hlýtur að teljast plús fyrir mig sem er ein á ferð. Nú er hins vegar kominn tími til að kveðja Bangkok og halda norður á bóginn og svo áfram til Laos þar sem umhverfið er án efa allt annað, hvort sem það er í landfræðilegum, menningarlegum eða pólitískum skilningi.
10.01.2004Viðhorfspistill
Birtist í Morgunblaðinu, 10. janúar 2004
Af tilfinningarökum
Það er í raun mikil óvirðing gagnvart tilfinningum okkar að afskrifa þær algjörlega.
Tilfinningarök hafa verið mikið í umræðunni undanfarið í hinum ýmsu málefnum. Ber þar hæst umræðuna um Kárahnjúkavirkjun þar sem náttúruunnendur voru sagðir stjórnast um of af tilfinningum og því ekki mark á þeim takandi.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slík orðræða ræður ríkjum í mikilvægum málefnum hér á landi. Þegar konur gerðu þá kröfu að komast á þing var því t.d. haldið fram að þær gætu aldrei orðið þingmenn einfaldlega vegna þess að þær væru of miklar tilfinningaverur til að geta tekið rökréttar ákvarðanir.
En hvers vegna eru tilfinningar svona lítils metnar í okkar hugum?
Eitt sinn vann ég sem fótboltaþjálfari og kennari í nokkrar vikur í fjarlægu landi þar sem hugsanagangur og siðir eru ólíkir því sem við erum vön. Stundvísi og skipulag var ekki þýðingarmiklir þættir þar í landi og ekki óalgengt að kennslutímar eða fótboltaæfingar féllu niður með skömmum fyrirvara.
Þegar boðið var út að borða var sjaldnast vitað klukkan hvað ætti að leggja af stað en þegar ég spurðist fyrir fékk ég engu að síður ótal svör. Fólk virtist frekar vilja giska en svara engu.
Þetta olli skipulagsóða Íslendingnum að sjálfsögðu talsverðu hugarangri. En þrátt fyrir ýmis samskiptavandamál, hvort sem það var vegna mismunandi þankagangs eða tungumálaörðugleika, var eitt sem ég átti sameiginlegt með öllu fólkinu þarna. Það voru nefnilega tilfinningar.
Tilfinningar eins og t.d. ótti, gleði, skömm, von, kærleikur og hamingja. Ég skildi þrá gestgjafa minna eftir öryggi, virðingu, ást og umhyggju. Ég fann þegar fólk var pirrað eða leið illa og ég sá þegar brosið náði til augnanna. Þegar ég skildi tilfinningarnar sem bjuggu að baki átti ég mun auðveldara með að skilja viðbrögð þessara vina minna. Tilfinningar eru nefnilega sammannlegar. Við höfum öll tilfinningar þó að við hlustum mismikið á þær. Því hlýtur að teljast óeðlilegt að útiloka þær úr allri umræðu um mikilvægar ákvarðanir.
Á sumum sviðum höfum við viðurkennt gildi tilfinninga fram yfir hagsmuni. Til dæmis þykir eðlilegt að til skilnaðar komi hjá hjónum fremur en að þau lifi í óhamingjusömu hjónabandi ævilangt. Þrátt fyrir að það henti vinum og vandamönnum mun betur að hjón séu gift þá áfellist þau enginn fyrir að skilja ef þau treysta sér ekki til að lifa í hjónabandi. Já, og jafnvel þótt fjárhag hjónanna væri mun betur borgið ef þau héldu fast í ráðahaginn.
En tilfinningar eru engu að síður útilokaðar sem rök í stórum málum sem varða þjóðarheill. Þá þykir fínna að vitna í hagfræðilegar tölur og vísindalegar rannsóknir. Þegar virkjunarmál eru rædd skiptir áætlaður hagvöxtur öllu máli. Fólk sem ekki vill fórna náttúrunni fyrir nokkrar krónur og takmarka möguleika komandi kynslóða til annars konar uppbyggingar er sagt stjórnast af tilfinningum en það þykir víst ekki sérlega göfugt.
Ég hef oft verið spurð að því hvers vegna ég sé femínisti og er svar mitt ævinlega það að ég hafi rekið mig á svo marga veggi sem ekki væru til staðar nema vegna kyns míns. Stundum er ég spurð hvort einhverjar rannsóknir séu fáanlegar þar sem fram kemur að konur reki sig á veggi þannig að hægt sé að ganga úr skugga um að þetta sé ekki bara bull í mér. Sumir ganga svo langt að segja mér að þetta sé fullmikið bull í mér en þeir hinir sömu eru þá vanalega hvítir, gagnkynhneigðir, vel stæðir karlmenn, m.ö.o. menn sem einna minnstar líkur eru á að reki sig á áðurnefnda veggi.
En sama hvað hver segir eru þessir veggir til staðar og ég veit það því að ég hef rekið mig á þá og það hefur stundum verið helst til óþægilegt.
Að sjálfsögðu er miklu auðveldara að afskrifa allt sem ekki hentar okkar ljósbleika veruleika með því að segja fólk vera að bulla. En þótt ég halli mér aftur í mjúka hægindastólnum breytir það því ekki að veruleikinn bankar upp á fyrr eða síðar. Það er í raun mikil óvirðing gagnvart tilfinningum okkar að afskrifa þær algjörlega.
Rökhugsun er góðra gjalda verð en það getur varla talist gott að byggja ákvarðanir eingöngu á henni.
Tökum hjón sem dæmi. Ef hagvöxtur og rökhyggja stjórnuðu öllu væri lífið kannski frekar grámyglulegt. Hjónin vöknuðu á hverjum morgni á sama tíma enda er það vísindalega sannað að það er best að sofa í átta tíma og besta hvíldin næst milli 24 og 8 á morgnana. Matmálstímar væru skipulagðir viku fram í tímann og innkaup um leið til þess að ná sem mestri hagkvæmni. Fæðan væri alltaf í fullu samræmi við markmið Manneldisráðs og unnið væri myrkranna á milli til þess að auka hagvöxt. Sérstakir heimsóknartímar væru fyrir vini, með tímamörkum að sjálfsögðu, enda er það ekki gott fyrir hagvöxt að eyða of miklum tíma í vitleysu. Kynlíf væri stundað reglulega þar sem rannsóknir sýna að það skili sér í auknum vinnuafköstum. Svona gæti ég haldið lengi áfram. Það gefur auga leið að þetta hagkvæma líf byði ekki upp á mikla tilbreytingu eða skemmtilegar skyndiákvarðanir.
Tilfinningar lita lífið nefnilega á svo skemmtilegan hátt. Tilfinningar eru þverpólitískar og eiga heima í öllum stéttum og öllum menningarheimum. Það er því fjarstæða að halda því fram að það sé göfugt að leggja tilfinningarnar til hliðar þegar ákvarðanir eru teknar enda er það oftar en ekki hjartað sem finnur hvað er rétt og hvað er rangt.
06.01.2004Viðhorfspistill
Birtist í Morgunblaðinu, 6. janúar 2004
Fótbolti og ég
Eftir mikið stress fyrsta mánuð haustsins sem leið voru örfá aukakíló farin að láta á sér kræla svo gallabuxurnar voru óþægilegri en vanalega. Á sama tíma var hugurinn orðinn frekar ofnotaður og þurfti á því að halda að losna undan daglegu stressi og sálin þráði hvíld frá sínum áhyggjum. Það var þá sem ég uppgötvaði að mér hafði láðst að hreyfa mig eitthvað af viti í öllum hamaganginum. Ég ákvað því að rífa fram skóna og fór að mæta í fótbolta með mínum gamla, góða hópi. En hópurinn sá hittist aðeins einu sinni í viku og það þótti mér ekki nóg. Ég spurðist því fyrir í vinnunni og komst að því að þar var starfrækt þetta fína knattspyrnufélag. Eftir að hafa gengið úr skugga um að nýliðar væru velkomnir boðaði ég komu mína í næsta tíma.
Fréttin fór eins og eldur í sinu um vinnustaðinn. Nú yrði brotið blað í sögu félagsins því að í fyrsta skipti myndi stelpa spila með.
Ég mun seint saka vinnufélaga mína um að hafa ekki tekið vel á móti mér en hins vegar fannst mér frekar stressandi að þetta skyldu þykja svo stór tíðindi.
Þónokkur fjöldi fólks hefur sýnt þessu uppátæki mínu áhuga og ég hef fengið að heyra frasa eins og að nú sé síðasta vígið fallið. Þá er ég reglulega spurð hvernig gangi og ég veit til þess að fótboltafélagar mínir hafa verið spurðir hvort ég sé að standa mig. Í kjölfar þessarar stemningar sem hefur myndast rifjuðust upp fyrir mér öll skiptin sem ég hef labbað inn á fótboltavöll og spurt: Má ég vera með?
Þegar ég var sex ára tók ég nefnilega upp á því að hafa áhuga á fótbolta. Að sjálfsögðu var enginn til staðar til að ýta undir þennan áhuga minn og þónokkuð oft var reynt að draga úr honum. Ég man það eins og það hafi gerst í gær þegar ég í fyrsta skipti gekk út á völl til strákanna og óskaði eftir að fá að spila með. Ég valdi úr vinalegan bekkjarbróður minn en hann vísaði mér áfram á leiðtoga hópsins sem tjáði mér að það gengi ekki upp. Ég gafst þó ekki upp strax og svo fór að lokum að ég fékk leyfi til að þvælast inni á vellinum. Þá voru bekkjarbræður mínir komnir með þónokkurt forskot á mig enda búnir að spila mun meira. Ég spilaði frímínútna fótbolta í tvö til þrjú ár áður en ég skoraði í fyrsta skipti. Það var jafnt á með liðunum og bjallan var byrjuð að hringja en við höfðum það fyrir reglu að leiknum væri lokið þegar bjallan væri hætt að hringja. Mikil kös myndaðist í vítateig andstæðinganna og allt í einu lenti boltinn beint fyrir framan mig og mér tókst að sparka honum í netið svo að sigurinn var okkar. Andstæðingarnir urðu öskureiðir, markmaðurinn bölsótaðist út í lélega vörn en fékk sjálfur skammir fyrir að láta stelpu skora hjá sér.
Síðar uppgötvaði ég að til væru fótboltaæfingar. Þegar ég byrjaði að æfa voru sameiginlegar æfingar fyrir allar stelpur sem höfðu áhuga á fótbolta. Ég var níu ára en sú elsta sem æfði með var fimmtán ára ef ég man rétt. Í fyrsta æfingaleiknum mínum fékk ég að spila í fimm mínútur en leikurinn varði í klukkutíma. Helgina sem mitt fyrsta Íslandsmót fór fram þvertók ég fyrir að fara í sumarbústað með foreldrum mínum. Amma kom að horfa á en … ég fór ekkert inn á. Við lentum í öðru sæti en það voru ekki til nógu margir verðlaunapeningar svo ég fékk engan.
Ég efa að ég þurfi að fara mörgum orðum um að reynsla karlkyns bekkjarfélaga minna af fyrstu fótboltasporunum var svo sannarlega ekki sú sama. Ég fer því ekki ofan af því að ég væri mun betri leikmaður í dag, og þá sérstaklega með betri tækni, hefði ég fengið sömu hvatningu frá umhverfinu og sömu þjálfun og þeir.
Mótvindar geta reynst fólki miserfiðir en í þessu tilviki gafst ég ekki upp, ólíkt ótal stelpum sem sýndu áhuga á fótbolta. Ég er enn að og held áfram að ganga út á völl og spyrja hvort ég megi vera með. Mér er svo sannarlega misvel tekið. Fyrir tveimur árum bjó ég á heimavist í Danmörku og spilaði reglulega fótbolta með strákunum þar.
Einn daginn ákváðu strákarnir að stofna fótboltalið sem skyldi keppa í neðstu deildinni en eftir að þeir fóru að æfa hafði ég ekki lengur félaga til að spila með. Ég spurði því hvort ég mætti ekki æfa með en kannski hefði ég látið það ógert hefði ég vitað allan þann vanda sem fylgdi í kjölfarið sem meðal annars varð til þess að áður góðir félagar mínir urðu hálfgerðir óvinir mínir.
Stjórn fótboltafélagsins hafði nefnilega bundið í lög að liðið væri ekki fyrir stelpur. Aðalleiðtoginn í hópnum sagði mikilvægt að liðsmenn fengju að vera strákar í friði og því ekki við hæfi að ég væri að þvælast með. Vinir mínir innan liðsins fóru fram á að þetta yrði tekið upp á æfingu og mér skilst að fjórir strákar af 23 hafi verið á móti því að ég æfði með. Að lokum var því ákveðið að ég mætti æfa með liðinu ef ég borgaði ársgjaldið en þá átti ég eftir að búa það stuttan tíma á heimavistinni að það hefði kostað mig í kringum 100 danskar krónur fyrir hverja æfingu. Að sjálfsögðu kom ekki til greina að veita mér afslátt af ársgjaldinu.
Þessi reynsla mín er ekki einsdæmi en staða kvennaknattspyrnunnar hefur sem betur fer stórbatnað á Íslandi síðan ég hóf minn takmarkaða feril. Þó er það enn svo að strákar fá mun meiri hvatningu en stelpur í þessum efnum og það er án efa í hina áttina í “kvenlegri” íþróttagreinum. Ef við ætlum að bjóða börnunum okkar upp á raunverulegt val þurfum við að taka til í hugum okkar og hætta að ýta þeim inn í fyrir fram ákveðin hlutverk.