25.10.2003

Ræða flutt á landsráðstefnu Samtaka herstöðvaandstæðinga
25. október 2003

Virðulegu herstöðvaandstæðingar,

Ég er grunnskólakennari. Þeim titli fylgir að sjálfsögðu óþrjótandi áhugi á starfi með börnum og unglinum. Núna kenni ég fimm og sex ára börnum en að auki hef kennt í íþróttaskóla, starfað sem fótboltaþjálfari, æskulýðsleiðtogi og leikstjóri. Þessi störf hef ég innt af hendi samtals í þremur löndum.
Eitt er það sem einkennir þetta starf mitt og það er að passa upp á að öllum börnunum líði vel í hópnum hverju sinni. Það getur reynst miserfitt. Reglulega koma upp deilur sem geta valdið vanda.

Það eitt að setja tvö 5 ára börn saman inn í leikstofu getur valdið miklum usla. Til dæmis var það vandi fyrir fimm ára stelpur að það var bara einn refur í fatakörfunni sem mátti leika sér með. Þetta tekur heilmikið á. Það þarf að ræða hver á að hafa refinn og hversu lengi. Við kennararnir þurfum oft að aðstoða við þetta. Oftar en ekki reynum við að hafa vísi að lausn í öllu sem er í boði.

Þegar upp koma vandamál þarf að leggjast á eitt við að leysa þau. Ef einhver meiðir vin sinn óvart þarf að ræða það, segja fyrirgefðu, þurrka tárin og halda áfram að leika.
Í eldri barna hópum eru oft öðruvísi vandamál. Þar getur vandinn verið duldari. Það sem þó er sameiginlegt með starfi leiðtogans, sama hvaða aldur er um að ræða, er að til þess að börnunum líði vel í hópnum þarf að skiptast á með hlutina, koma fram við aðra af virðingu og kunna að segja fyrirgefðu. Þegar stór vandamál koma upp er það jafnframt mitt hlutverk að ræða við einstaklinga um málin. Ég rýk ekki inn og skipa einhverjum að segja fyrirgefðu því að ég veit að það hjálpar engum. Aftur á móti ræði ég málsatvik við báða eða alla aðila. Þetta gefst ótrúlega vel! Ég hef hitt ótal börn og unglinga á mínum starfsferli, þótt stuttur sé, og aldrei hef ég lent í því að ná engan vegin til barns. Það tekur að sjálfsögðu mismikinn tíma og reynir oft á þolinmæðina.

Þetta er allt saman æfing í því sem síðar kemur. Börnin verða fullorðin og þurfa að takast á við sambærileg vandamál í heimi fullorðinna. Þá vantar oft sáttasemjarann og þau þurfa sjálf að leysa málin. Öll börn sem ég hef haft afskipti af eru sammála um að það sé mikilvægt að okkur líði öllum vel og eru tilbúin að leggja sitt af mörkum til þess að það gangi upp. Þau skilja mikilvægi þess að skiptast á, biðjast fyrirgefningar og leysa málin með því að ræða þau en ekki með því að grípa til ofbeldis. Að auki eru þau sannfærð um að peningar og veraldleg gæði færi okkur ekki hamingju ein og sér heldur þurfi marga mannlega þætti til að okkur geti liðið vel.

Þegar stríð geysar í heiminum eiga börnin mjög erfitt með að skilja það. Þau biðja fyrir friði á fjarlægum vígstöðum. Þetta átti líka við um mig þegar ég var barn. Þegar ég svo varð eldri fór ég að gera mér grein fyrir að stríð er ekki eins og náttúruhörmungar sem við höfum enga stjórn á. Stríð er nefnilega mannanna verk. Það eru menn sem fara í stríð. Ástæðan fyrir stríði er einföld: Græðgi. Græðgi í peninga og völd. Öll óhamingja sem býr í þessum heimi á upptök sín í misskiptingu auðsins og því valdaójafnvægi sem ríkir í heiminum. Stríð sprettur af því að menn kunna ekki þá einföldu hluti sem leikskólabörnin mín eru fær um: Að skipta á milli sín og biðjast fyrirgefningar í auðmýkt!

Þegar barnið ég óx úr grasi sá ég að það væri mitt hlutverk að benda á þessa einföldu hluti. Ég gerði það eftir fremsta megni en fékk alltaf sama svarið: Þetta er ekki svona einfalt.

Með tímanum fór ég hreinlega að trúa því að þetta væri ekki svona einfalt og að ég væri bara að misskilja svona hrapalega. Sundið með straumnum varð mér eðlilegt. Ég sætti mig við að hlutirnir væru ekki svona einfaldir en fann mér friðþægingu í því að hugsanlega væru hlutirnir svona vondir úti í heimi en ekki hér á Íslandi enda er það lenska hér á landi að staðsetja allt vont í útlöndum.

Ég man ekki einu sinni hvenær ég gerði mér grein fyrir að það væri her á Íslandi. Það angraði mig þó ekkert þegar ég uppgötvaði það enda tengdi ég herinn eflaust frekar við bíómyndir en við raunveruleg stríðsátök. Þannig gat ég haldið áfram að lifa í þeirri blekkingu að ég tilheyrði þjóð sem elskaði frið.

Bakslagið kom í raun ekki fyrr en á þessu ári. Forsvarsmenn ríkisstjórnar Íslands kipptu mér niður af mínu ljósbleika skýi með stuðningi sínum við stríðið gegn Írak. Stríð sem var háð af hrokafyllstu þjóð þessa heims og landið mitt sagði: Já, okkur finnst þetta góð hugmynd! Ég velti því lengi fyrir mér hvers vegna þessir tveir valdamiklu ráðherrar Íslands tóku afstöðu með stríðinu. Ekki það að ég hefði búist við því að þeir hefðu kjark til að taka afstöðu gegn stríðsrekstri en það hefði verið svo auðvelt fyrir okkur að fela okkur bak við hlutleysið og ástina á friði. Ég get ekki ímyndað mér að ótti þeirra við stórkarlaleg orð George Bush, um að sé þjóð ekki með Bandaríkjunum sé hún með óvininum (sem að sjálfsögðu er ósýnileg ógn með ýmis konar nöfn!), hafi verið svona áhrifarík.

Mín niðurstaða er einfaldlega sú að á bak við þessa ákvörðun hljóti að liggja það afl sem hefur hvað sterkust tök á valdamönnum þessarar veraldar: Peningar.
Þessi grunur minn staðfestist þegar Bandaríkjamenn vildu minnka við herrekstur sinn í Keflavík og íslenskir ráðamenn lögðust á hnén og grátbændu um að svo skyldi ekki vera. Allt tal gamalla ráðherra um að hér skyldi ekki vera her á friðartímum varð krúttileg hugmynd um veruleika sem ekki getur átt við rök að styðjast í dag. Enda þarf Ísland nauðsynlega á þeim aurum að halda sem fylgja bandaríska hernum og það er okkur ekki nóg að vera meðal ríkustu þjóða heims, við þurfum að vera ríkust!

Valdapíramídinn sem herinn byggir á tákngerir valdaójafnvægið sem ríkir í veröldinni. Þannig fer fólk hreinlega að trúa því að það sé eðlilegt að sumir menn séu valdameiri en aðrir. Já og að sumir menn megi niðurlægja aðra og beita þá ofbeldi í skjóli valda. Her byggir nefnilega á furðulegri karlmennskuímynd sem felur í sér blóð og svita en engin helvítis tár. Innan hersins ríkja svo stjórendahættir sem leikskólabörnin mín myndu aldrei getað unað við. Innan hersins geta menn falið sig á bak við nafnbót. Hvort sem það er óbreyttur hermaður, liðsforingi eða einhver virðulegri titill. Þegar hermenn eru í hópi eru þeir ekki David, Harry og Brian heldur bandarískir hermenn eða hvaða þjóð sem þeir nú tilheyra. Í skjóli þessarar nafnleyndar eru framdir ógeðfelldir glæpir þar sem eini tilgangurinn virðist vera að sýna vald sitt með því að niðurlægja fólk. Þannig eru nauðganir nánast eðlilegt vopn í stríði!

Vera bandaríska hersins á Íslandi stendur fyrir allt sem er vont í þessum heimi: Misskiptingu auðsins, valdagræðgi, ofbeldi og feðraveldishyggju. Persónugerving hersins er hvítur, vel stæður, gagnkynhneigður karlmaður sem telur sig öðrum æðri, þolir ekki mismunandi lífgildi og stjórnast umfram allt af dýrslegum hvötum. Til þess að leysa vandamálin sem blasa við honum grípur hann til ofbeldis enda er það eina leiðin til þess að sýna kellingum, hommum og helvítis útlendingum hver ræður!

Ég þori að fullyrða að öll þau börn sem ég þekki vilja ekki samþykkja veröld sem stjórnast af valda- og peningagræðgi. Börnin vilja frið, fyrirgefningu og mannsæmandi kjör fyrir allt fólk.

Það er því okkar hlutverk að hætta að ljúga að þeim að hlutirnir séu ekki svona einfaldir og styrkja þau í trú sinni um að þessari veröld sé hægt að breyta.