01.05.2003

Ræða flutt á kaffisamsæti Femínistafélags Íslands
1. maí 2003

Og seinna börnin segja
sko mömmu! hún hreinsaði til
og seinna börnin segja
þetta er einmitt sú veröld sem ég vil.

Það vill svo til að ég er þetta barn sem sungið er um. Og ég segi svo sannarlega: Sko mömmu! Hún hreinsaði til…. Ég hef ýmis réttindi sem ekki hafa alltaf þótt sjálfsögð. Ég hef rétt til að stunda nám, rétt til að stjórna mínum barneignum, rétt til að vera fjárhagslega sjálfstæð og rétt til að ráða yfir mínu eigin lífi.
En eitthvað stendur í mér að segja: Þetta er einmitt sú veröld sem ég vil!
Mig langar til að segja ykkur frá mér og vinkonum mínum, níu kvenna hópi. Við njótum okkar frelsis og eltum draumana okkar eftir fremsta megni. Þannig eru flestar okkar í háskóla, flestar höfum við dvalið erlendis og allar höfum við unnið störf sem samræmast okkar áhugasviði.
Engu að síður er eitthvað sem ekki samræmist veröldinni sem ég vil:

  • Fimm okkar eiga feður eða stjúpfeður sem eru alkóhólistar og hafa þurft að alast upp við það óöryggi og ofbeldi sem fylgir þeim sjúkdómi.
  • Ein okkar hefur fengið búlemíu og ein snert af anorexíu.
  • Átta okkar eru eða hafa verið óánægðar með holdafar sitt.
  • Þrjár hafa farið í fóstureyðingu, þar af ein eftir nauðgun.
  • Fjórum okkar hefur verið nauðgað.

Það er nauðsynlegt að taka það fram að við erum mistilbúnar að ræða vandamálin og þess vegna er alls óvíst að ég viti um allan þann vanda sem hefur hrjáð þessar vinkonur mínar. Ógnvænlegasta staðreyndin er sú að hátt í 50% okkar hefur verið nauðgað. Enginn þessara nauðgara hefur verið kærður. Allir ganga þeir frjálsir. Þetta þýðir að ef ég hitti fyrir níu stráka væru líkur á því að fjórir þeirra væru nauðgarar. Nefnilega þeir sem nauðguðu helmingnum af okkar hópi…

Kynferðislegt ofbeldi er grófasta birtingarmynd þess kynjamisréttis sem fyrirfinnst í þjóðfélaginu. Vændi, klám og mansal flokkast undir kynferðislegt ofbeldi. Í mörgum þessara efnisflokka er talað um frelsi til að velja. En valfrelsinu fylgir einn órjúfanlegur þáttur, nefnilega frelsi til að hafna! Og hann er sjaldnast virtur.
Við getum eflaust ekki sigrast á kynferðislegu ofbeldi hér og nú. En við getum mörgu breytt. Ég tel eitt brýnasta verkefni ofbeldisvarnarhópsins vera að setja skömmina þar sem hún á heima. Hún á ekki heima hjá þeim sem verða fyrir ofbeldinu!! Hún á heima hjá þeim sem fremja það.

Kynferðislegt ofbeldi er margfalt algengara en flest halda. Það er að sjálfsögðu misgróft, allt frá fullum karli sem grípur um brjóst konu á bar og upp í hrottafengnar nauðganir, ítrekaða misnotkun á barni eða mansal.
Ég þori að fullyrða að öll hér inni þekki dæmi um kynferðsilegt ofbeldi. Kámvæðingin sannfærir svo gerendur um að hegðun þeirra flokkist sem eðlilegt kynlíf.

ÞETTA ER EKKI SÚ VERÖLD SEM ÉG VIL!