26.04.2001

Aðsend grein
Birtist í Morgunblaðinu 26. apríl 2001

Skólamál

KVEIKJAN að þessari grein er umfjöllun um menntamál í Morgunblaðinu sunnudaginn 8. apríl síðastliðinn. Þar var mikil umfjöllun um skólamál og rætt við nokkra einstaklinga sem höfðu ýmislegt um málefni grunnskólanna að segja. Það var rætt við skólastjóra í fjölbrautaskóla, rektor, menntafulltrúa Samtaka atvinnulífsins, formann Félags grunnskólakennara, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar og fleiri. Það fyrsta sem vakti athygli mína var að það var ekki talað við neinn einstakling sem er “bara” grunnskólakennari. Hvað þá heldur einhvern sem er vel að sér í kennarafræðunum, s.s. þá kennara sem ég hef í Kennaraháskóla Íslands. Ég skil varla hvernig er hægt að halda uppi umræðu um menntamál án þess að hafa þetta fólk með í ráðum og mér finnst lítið gert úr þessari stóru fagstétt sem kennarar eru. Þeir sem rætt var við höfðu margt merkilegt að segja varðandi þróun skólamála. Flestir vilja miklar og róttækar breytingar og flestir viðurkenna að við þurfum að eyða meiri peningum í menntakerfið.

Samkeppni eða samstarf?

Bogi Pálsson, formaður Verslunarráðs Íslands, talaði mikið um samkeppni. Ég get ekki neitað því að hugmyndirnar virðast við fyrstu sýn mjög góðar. Að nýta samninga hins nýja hagkerfis (ég vissi reyndar ekki að það væri nýtt!), fá hæfustu einstaklingana til starfa, samkeppni hugmynda og aðferða, samkeppni milli skóla, samkeppni milli nemenda, samkeppni milli kennara og svo samkeppni og aðeins meiri samkeppni. Samkeppnin hefur jú virkað á mörgum sviðum atvinnulífsins. Það er hægt að sanna með því að benda á hina ýmsu einstaklinga sem náð hafa langt í samkeppnisþjóðfélagi. En það gleymist yfirleitt að líta á hina sem ekki eru samkeppnishæfir, sem hafa ekki það sem til þarf. Ég skil ekki hvaða vanda samkeppni á að leysa í skólum. Ég held einmitt að samstarf ólíkra einstaklinga sé miklu nær því að vera lausnin. Ég spyr: Hvernig á að leggja mat á það hvaða kennarar standa sig vel og hverjir ekki? Hvaða kennari er hæfur? Er það sá sem skilar góðum einkunnum eða er það sá sem ver mestum tíma í skólastofunni? Það fara því miður ekki allir kennarar af stað með sama “hráefni”. Bogi telur að með markaðshyggjuhugmyndunum geti skólarnir keppt um hæfustu starfskraftana. Hann gleymir því að hingað til hafa hæfustu starfskraftarnir sótt í kennarastarfið en margir þeirra hrekjast þaðan smám saman af því að þeir vilja geta séð fyrir fjölskyldunni.

Menntun eða jeppi?

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hafði margt gott um menntun að segja. Ég er sammála Kára í því að það þarf að kalla samfélagið til ábyrgðar en ekki bara einstaka menn. Ennfremur er ég sammála því að almenn menntun sé betri en sérhæfing í grunnskólum. En það er margt í orðum Kára sem ég get engan veginn sætt mig við. Kári, eins og margir Íslendingar, talar nefnilega út frá hag ríka mannsins. Hann fer fögrum orðum um einkaskólana í Bandaríkjunum en gleymir að hugsa út í það að það geta ekki allir sent börnin sín í einkaskóla. Orð hans um að leyfa foreldrum frekar að kaupa menntun fyrir börnin sín heldur en jeppa hljóma vel… fyrir ríka manninn! En hvað með þá sem hafa ekki efni á jeppa og hvað þá á því að fjárfesta í menntun barna sinna? Það þarf ekki að hugsa lengi til að sjá hvernig það myndi enda: Bilið milli ríkra og fátækra myndi aukast og það er nógu breitt fyrir!

Hvað er að gerast í skólunum?

Með hverjum degi aukast kröfur á hendur skólanna. Kennararnir eiga hreinlega að geta reddað málunum, bjargað þjóðfélaginu frá glötun! Út úr skólunum eiga að koma fullmótaðir einstaklingar og það á ekki að skipta neinu máli hvaða “hráefni” er lagt af stað með. Nýlega var ég í tveggja vikna æfingakennslu. Miðað við það viðhorf sem samfélagið virðist hafa bjóst ég við því að í kennslustofunni væru óvirkir nemendur og þreyttur kennari. Vinnubækurnar væru helsta agatækið og að kennararnir þekktust varla. En sú varð ekki raunin. Í árganginum sem ég kenndi í var mikið og öflugt samstarf milli kennara. Kennsluaðferðir voru fjölbreyttar og bekkjarandinn sérlega góður. Mikil áhersla var á að virkja hæfileika hvers og eins en ekki steypa alla nemendur í sama form. Svona gæti ég haldið lengi áfram.

Ég bið formennina, forstjórana, stjórnarformennina og alla þá sem telja sig hafa hagsmuna að gæta innan skólanna að biðja hver um sig um að fá einn af þessum nýju viðbótarkennsludögum að láni hjá skólunum og kenna það sem þeim finnst nauðsynlegt. Á þann hátt gætu allir orðið ánægðir!

Höfundur er nemandi í grunnskólaskor í Kennaraháskóla Íslands.