Halla

Ættir

Ég er fædd í Reykjavík þann 8. janúar 1981 og að mestu leyti uppalin í Mosfellsbæ. Móðir mín heitir Guðbjörg Magnúsdóttir og faðir minn Gunnar Sigurðsson. Stjúpfaðir minn heitir Sigurður Óskar Lárusson og ég á fjórar hálfsystur: Þrúðu, Kristínu Ýri, Unni Regínu og Erlu Sigríði. Móðuramma mín, Halla Georgsdóttir, og móðurafi, Magnús Lárusson heitinn, áttu ríkan þátt í uppeldinu, enda dvaldi ég mikið hjá þeim sem barn og unglingur.

Nám

Ég útskrifaðist með stúdentspróf úr Kvennaskólanum í Reykjavík árið 2000 og fór síðan beint í Kennaraháskóla Íslands. Þaðan útskrifaðist ég sem grunnskólakennari árið 2003. Haustið 2005 settist ég aftur á skólabekk og þremur árum síðar lauk ég meistaranámi í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands.

Vinna

Fyrstu launin fékk ég fyrir afgreiðslustörf í Snælands Video í Mosfellsbæ. Pabbi rak sjoppuna með harðri hendi og ég lærði að hegða mér almennilega í vinnu. Ég vann í sjoppunni í mörg ár og í tveimur sjoppum til. Enn þann dag í dag finnst mér erfitt að fara inn í sjoppur því að ég hef svo sterkar skoðanir á því sem fyrir augu ber.

Ég fór fljótt að vinna með börnum og unglingum, fyrst sem leiðbeinandi í íþróttaskóla fyrir lítil börn, síðan sem leiklistarkennari (það má að vísu saka mig um að hafa færst örlítið mikið í fang þar), fótboltaþjálfari, æskulýðsfulltrúi og loks sem kennari. Ég starfaði líka eitt sumar sem sundlaugarvörður og síðar á lager hjá Sól-Víking, sem var án efa með skemmtilegri fyrirtækjum sem ég hef unnið hjá.

Eftir útskrift úr Kennó fékk ég starf sem blaðamaður á innlendri fréttadeild Morgunblaðsins. Ég tók strax ástfóstri við blaðamennskuna og við Moggann um leið. Þar var gott að læra að vinna og þótt ég skryppi burtu til annarra starfa eða til útlanda hélt ég alltaf öðrum fætinum inni á Mogganum.

Ég reyndi fyrir mér sem kennari hjá Barnaskóla Hjallastefnunnar til skamms tíma en rótleysið gerði að verkum að ég ákvað að gerast ekki kennari í bili. Haustið 2004 fór ég hins vegar um landið, heimsótti grunnskóla og hélt fyrirlestra fyrir kennara um lokaverkefni mitt við Kennaraháskólann - Úr viðjum vanans.

Mín fyrstu skref í þáttastjórn steig ég á Skjá einum, nánar tiltekið í Sunnudagsþættinum í félagi við þau Katrínu Jakobsdóttur, Illuga Gunnarsson og Ólaf Teit Guðnason. Ég hafði þó aðeins verið með þeim í nokkra mánuði þegar Skjár einn þurfti að draga saman í rekstri og þættirnir lögðust af. Þá tók ég að mér að búa til tólf þætti fyrir fréttastöðina skammlífu NFS. Þættirnir hétu Þetta fólk og þar fjallaði ég um eitt land í hverjum þætti; fékk til mín fólk sem þekkti vel til og rabbaði um menningu, sögu og daglegt líf. Nokkrum árum síðar, sumarið 2008, fékk ég það tækifæri að vinna samskonar þætti fyrir Rás 1 en þeir kölluðust Umhverfis jörðina. Ég byggði þá upp með svipuðu sniði en tónlist fékk auðvitað veigameira hlutverk í útvarpinu en hún hafði fengið í sjónvarpinu.

Árið 2007 fastréð ég mig á Morgunblaðið í stöðu þingfréttaritara og var það með skemmtilegri störfum sem ég hef unnið. Tveimur árum síðar lagði blaðið hins vegar niður stöðu þingfréttaritara, í framhaldi af margumræddu efnahagshruni, og mér var sagt upp störfum. Ég var atvinnulaus (en langt í frá verkefnalaus) í tvær vikur en þá hafði Ögmundur Jónasson, nýr heilbrigðisráðherra, samband við mig og bað mig um að aðstoða sig við ákveðin verkefni í heilbrigðisráðuneytinu. Ég ber nú þann virðulega titil að vera aðstoðarmaður ráðherra og hef fengið tækifæri til að læra á nýjan málaflokk, sem er sannarlega engin smámálaflokkur …

Ferðalög

Þegar ég var í Kennaraháskólanum fór ég til Danmerkur sem Erasmus-skiptinemi og dvaldi þar einn vetur (2001-2002). Þar bauðst nemendum að fara utan í æfingakennslu og fyrir röð tilviljana fór ég til Tælands í janúar 2002 og kenndi ensku og fótbolta við Suphan Buri Sports School. Þetta var að sjálfsögðu frábær reynsla og eftir nokkurra vikna kennslu og ferðalag sneri ég aftur heim til Danmerkur. Þá var ljóst að ekki varð aftur snúið. Ég hafði smitast af ferðalagabakteríunni og um leið komist upp á lagið með að ferðast ein. Það þýddi að ég þyrfti ekki að bíða eftir að aðrir hefðu tíma, orku og peninga til að ferðast með mér.

Árið 2003 fór ég til Kúbu og dvaldi í einn mánuð. Þaðan hélt ég til suðausturhluta Asíu og þvældist í fjóra mánuði um Tæland, Laos, Víetnam, Kambódíu og Malasíu.

Seinni part árs 2004 fór ég svo til Rúmeníu og í mars 2005 í fyrsta skipti til Írans. Árið 2006 sótti ég Malí í Vestur-Afríku heim og það sama ár dvaldi ég í fjóra mánuði í Ástralíu og tók þar eina önn í alþjóðasamskiptanáminu, nánar tiltekið við University of New South Wales í Sydney. Árið 2007 fór ég aftur til Írans en þá í þeim tilgangi að safna efni fyrir meistaraprófsritgerðina mína.

Í ársbyrjun 2008 fékk ég tækifæri til að sinna kosningaeftirliti í Georgíu og hafði gagn og gaman að.

Ég leita þó ekki alltaf langt yfir skammt því að ég hef yndi af að ferðast um Ísland og hef tvisvar sinnum tekið saman mitt hafurtask og flutt út á land yfir sumarið. Í bæði skiptin urðu Austfirðir fyrir valinu. Árið 2002 þjálfaði ég fótbolta á Fáskrúðsfirði og árið 2007 fór ég til Neskaupstaðar í sömu erindagjörðum.

Áhugamál

Ég hef alltaf verið óþægilega mikil félagsvera og átt erfitt með að slappa af heima hjá mér. Þegar ég var yngri tók ég helst þátt í öllum félagsstörfum sem ég komst í og efast ég um að stjórnendur hafi alltaf kunnað mér þakkir fyrir, enda fór stundum meira fyrir kappseminni en hæfileikunum. Þannig flosnaði ég t.d. upp úr kór og lúðrasveit á unglingsárunum en annað varði lengur. Þar má nefna óþrjótandi leiklistaráhuga og svo að sjálfsögðu fótboltann, sem er enn mitt aðaláhugamál. Ég tefldi líka töluvert og hef enn gaman af því og auðvitað að spila öll möguleg spil. Mér finnst gaman að vera úti og ég nota eigin orku sem mest til að koma mér milli staða. Í seinni tíð hef ég reynt fyrir mér í gítarleik en það gildir með hann eins og sönginn að gleðin er meiri en hæfileikarnir.

Þá væri eiginlega hálfkjánalegt að telja upp áhugamál án þess að nefna það einfaldasta: Að tala. Ég held ég fái aldrei nóg af því …