Stjórn Kvenréttindafélags Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem forvalsreglum Vinstri grænna í Reykjavík er fagnað. Í framhaldinu hafa spunnist nokkrar umræður um reglurnar en til að taka af öll tvímæli er rétt að útskýra í hverju þær felast:

Forvalsreglur VG í Reykjavík taka mið af leiðbeinandi reglum sem stjórn VG samþykkti í fyrra. Samkvæmt þeim er fléttuleiðréttingu aðeins beitt ef hallar á konur í úrslitum forvals. Þessar reglur má rekja til þeirra spurninga sem upp komu þegar konum fór að ganga betur í forvali VG (einkum á höfuðborgarsvæðinu) en áður og þá stóð flokkurinn frammi fyrir því, vegna reglna um fléttulista, að draga konur niður og lyfta körlum upp. Í einhverjum tilvikum óskuðu karlar eftir að vera ekki færðir upp en í öðrum tilvikum tók uppstillingarnefnd ákvörðun um að færa konur ekki niður á listanum. Þetta olli nokkrum rökræðum innan hreyfingarinnar þar sem sumum félögum þótti eðlilegt að tryggja jafnt hlutfall kynjanna á framboðslistum.

Þar gæti þó nokkurs misskilnings því að markmið femínísks flokks hlýtur að vera að konur og karlar komi jafnt að ákvarðanatöku. Enn hallar verulega á konur bæði á Alþingi og innan sveitarstjórna. Konur hafa í gengum tíðina alltaf komið verr út úr prófkjörum en karlar á heildina litið og það þjónar því engum tilgangi að draga konur niður sem ná árangri í þeim leik. Þegar hins vegar hlutfall kynjanna er orðið nokkuð jafnt inni á Alþingi og í sveitarstjórnum, þá þarf að endurmeta þessar reglur og taka ákvörðun um hvort kannski verði kominn sá tími að ekki þurfi lengur að beita sérstækum aðgerðum eða hvort hugsanlega þurfi að hífa karla upp.

Þegar kemur að innra starfi VG, eins og t.d. stjórn flokksins og svæðisfélaga, þá ber að tryggja jafnt hlutfall kynjanna. Þá er eðlilegt að konur þurfi að víkja sæti fyrir körlum ef þeir eru í minnihluta, því að markmiðið er jú jöfn kynjahlutföll við ákvarðanatöku.

Því miður hafa ekki öll svæðisfélög VG gert þessar leiðbeinandi reglum að sínum, en það stendur vonandi til bóta. Þetta er sérstæk aðgerð, sem miðar að því að leiðrétta skekkjuna í pólitík sem allir femínístar viðurkenna að sé fyrir hendi. Þannig byggjum við Ísland upp á nýtt.