Maybe I should have?

ARGOUT_PLAKAT_FINALHeimildamyndin Maybe I should have? var frumsýnd í Háskólabíói í gær við góðar undirtektir. Rétt er að taka fram að Gunnar Sigurðsson, leikstjóri og aðalsöguhetjan, er faðir minn og þess vegna ansi langt frá því að ég geti sett fram hlutlausa gagnrýni á myndina!

Hvað sem því líður þá þótti mér myndin heppnast vel í flesta staði. Ég get varla annað en dáðst að framtakssemi fólksins sem að myndinni stendur en hún er gerð fyrir mjög takmarkaða peninga og margir lögðu á sig ómælda vinnu, oft launalaust eða launalítið.

Styrkur myndarinnar liggur án efa í því að hún sýnir venjulegan mann (eða svona … nokkuð venjulegan!) sem vaknar upp einn daginn við þann vonda draum að efnahagskerfi landsins hans er að hrynja til grunna. Og hann rís upp úr sófanum, eins og allt hitt fólkið sem tók þátt í búsáhaldabyltingunni.

Oft er talað eins og búsáhaldabyltingin hafi átt sér stað fyrir ári síðan og henni lokið á nokkrum dögum. Ég vil hins vegar meina að byltingin standi enn. Og kannski er hún bara rétt að byrja. Þessi mynd er mjög gott og þarft innlegg í byltinguna og ætti að verða flestum áminning um að staldra ekki við heldur halda áfram að krefjast breytinga.

Í myndinni þvælist pabbi ásamt sínu fólki milli staða, sem á einn eða annan hátt tengjast efnahagshruninu á Íslandi. Viðtöl við erlenda fræðimenn styrkja myndina, sem og við þá Íslendinga sem hafa fylgst vel með gangi mála. Stór galli á myndinni er hins vegar sá að karlar eru í miklum meirihluta viðmælenda og þótt margir hafi margt gott fram að færa þá eru nokkrir sem bæta litlu við myndina og þá hefði að mínu mati mátt klippa út. Viðtölin finnst mér þó flest passa vel við framgang myndarinnar og það gera líka úrklippur úr blöðum og bútar úr sjónvarpsfréttum og -þáttum.  Það er líka áhugavert að sjá í mynd hús á Tortóla sem á að hýsa mörg þúsund fyrirtæki og gamalt fólk á Guernsey sem missti allt sitt sparifé eftir að hafa treyst hinum aldagamla, trausta, íslenska Landsbanka fyrir peningunum sínum. Einnig kemur fram sá mikilvægi punktur að þótt heyra megi að Íslendingar séu einhvers konar fórnarlömb í alþjóðlegri fjármálakreppu þá voru hinir íslensku útrásarvíkingar líka arkítektar að henni. Hún varð vegna bankamanna eins og þeirra sem Íslendingar fluttu út á erlenda grund. Einn þeirra, Björgólfur Thor Björgólfsson, kemur illa fyrir í myndinni og talar eins og sparifé sem fólk hefur unnið sér inn á allri sinni ævi geti bara gufað upp sísona. „… lot of money goes to money heaven …“ segir hann. En kannski er peningahimnaríki Björgólfs á Tortola eða í Lúxemborg, hver veit.

Maybe I should have? er gott innlegg í umræðuna á Íslandi í dag. Hún fer í almennar sýningar 5. febrúar nk. en verður ekki sýnd oft. Hvet ég alla til að ná sér í miða, bæði því að myndin er áhugaverð og því að við viljum að á Íslandi sé eftirspurn eftir svona myndum.

Prev PostAðstoð óskast við að skrifa söguna
Next PostJafnrétti í reynd