Í dálkinum frá degi til dags í Fréttablaðinu í dag segir að ég hafi kvartað undan því á þessari síðu að blaðamaður Fréttablaðsins hafi ekki verið á flokksráðsfundi VG um helgina og hlýtt á umræður. Ég á dálítið erfitt með að skilja hvernig orðið „kvarta” getur átt við um pistilinn hér að neðan. En það er önnur saga.

Rauði þráðurinn í færslu minni frá í gær er sá að Vinstri græn eru klofin um þá lausn Icesave málsins sem nú liggur fyrir. Það vita allir sem vilja. Sá skoðanaágreiningur þarf ekkert að koma á óvart, enda hefðu Vinstri græn aldrei getað séð fyrir að þau ættu eftir að fá annað eins mál í fangið. Þetta er reyndar ekkert vandamál sem bundið er við VG, heldur er skoðanaágreiningur um málið innan allra flokka.

Hvað sagnfræðinga framtíðarinnar varðar er kannski rétt að minna sagnfræðinginn sem ritar umræddan dálk í Fréttablaðinu á eitt: Hingað til hefur verið litið svo á að fjölmiðlar eigi þó nokkurn hlut í því að skrifa söguna.

Í framhaldinu hljóta því að vakna spurningar. Hvers vegna „kvarta” fjölmiðlamenn undan því að Vinstri græn hafi ekki ályktað um Icesave á flokksráðsfundinum um helgina? Hvað átti að koma fram í slíkri ályktun sem ekki var þegar ljóst? Og hvað hefði komið þar fram sem hefði breytt þeim farvegi sem málið er nú þegar í? Átti ályktunin kannski bara að hjálpa blaðamönnum að skrifa söguna?

Við því væri gott fá svör.