Mogginn á áframhaldandi niðurleið

Eigendur og ritstjórar Morgunblaðsins hafa nú tekið ákvörðun um að segja Elvu Björk Sverrisdóttur, blaðamanni Morgunblaðsins til margra ára og varaformanni Blaðamannafélags Íslands, upp störfum. Þannig hefur Morgunblaðinu tekist að losa sig bæði við formann og varaformann Blaðamannafélagsins úr störfum hjá sér, sem þó eru báðar afburðablaðamenn en greinilega ekki eigendum og ritstjórum þóknanlegar.

Í tilviki Elvu er vísað til niðurskurðaraðgerða frá sl. hausti en Elva átti að hefja störf nú um áramótin eftir fæðingarorlof. Þetta er ekki síst merkilegt í ljósi þess að á þeim mánuðum sem hafa liðið frá „skipulagsbreytingunum“ hafa blaðamenn verið ráðnir inn á ritstjórn Morgunblaðsins. Það er því deginum ljósara að Morgunblaðið vildi losa sig við Elvu, hvaða ástæður sem þar búa að baki. Kannski var nóg að í viðtali við RÚV hafði Elva, sem varaformaður Blaðamannafélagsins, lýst áhyggjum af trúverðugleika blaðsins með Davíð Oddsson í farabroddi og félagið gagnrýndi þá ráðningu. Kannski þótt Elva „of pólitísk“ en þann stimpil er auðvelt að setja á blaðamenn til að reyna að rýra trúverðugleika þeirra. Því miður tekst það alltof oft og blaðamenn vinna jafnvel hver gegn öðrum í þeim efnum.

Í tilviki Elvu hefur pólitíkin þó ekki meiri en sú að hún hefur ekki tekið þátt í starfi eins einasta stjórnmálaflokks. En hver veit, kannski var það líka ástæða til að láta Elvu fara, hún hefur jú aldrei verið í Sjálfstæðisflokknum, öfugt við flesta strákana sem voru ráðnir inn á síðustu mánuðum ársins sem leið.

Fyrir okkur sem börðumst ötullega fyrir því að gera Morgunblaðið að vinnustaði karla og kvenna er sorglegt að horfa á þær breytingar sem nú hafa orðið. Örfáar konur eru eftir á ritstjórn Moggans og kvenkyns yfirmönnum hefur snarfækkað. Það er líka sorglegt að fylgjast með trúverðugleika Morgunblaðsins hrynja, enda vorum við mörg sem eyddum miklum tíma og orku í að byggja hann upp. Sumir áttu sér það fyrir ævistarf.

Í bjartsýni væri hægt að segja að það væri ekki of seint fyrir eigendur Moggans að snúa blaðinu við. Enn starfar þar afspyrnu gott fólk í að búa til blöð. Mogginn ber ennþá höfuð yfir önnur íslensk dagblöð, núverandi og fyrrverandi, í umbroti og uppstillingu og hefur löngum verið skrifaður á vönduðu, íslensku máli. Mannauðurinn er til staðar, eða var til staðar öllu heldur, en eigendurnir ákváðu frekar að nota blaðið í þágu þröngra, pólitískra hagsmuna. Kannski er hægt að snúa við. En ég óttast að það sé að verða of seint.

Prev PostOrðsporið að skána?
Next PostÞetta er veganestið!