Staðan á íslenskum fjölmiðlum fer versnandi dag frá degi. Fyrir margt Morgunblaðsfólk, núverandi og fyrrverandi, hefur verið sárt að fylgjast með þeim breytingum sem þar hafa átt sér stað. Að sama skapi er furðulegt það starfsmannaflæði sem hefur átt sér stað milli Morgunblaðsins og Viðskiptablaðsins. Að þeim drengjum sem af Mogganum fóru og yfir á Viðskiptablaðið ólöstuðum þá hlýtur að teljast ótrúleg ákvörðun af hálfu stjórnenda blaðsins að láta Örnu Schram, fyrrum formann blaðamannafélagsins og einn reynslumesta stjórnmálablaðamann landsins, fara til að rýma fyrir nýju piltunum. Á Morgunblaðið er síðan allt í einu ráðið fólk, þrátt fyrir að þar hafi reynslumiklum og góðum blaðamönnum nýlega verið sagt upp. Það þarf ekki mikinn sérfræðing til að átta sig á hvar úr pólitíska litrófinu nýliðarnir koma.

Staða kvenna á íslenskum fjölmiðlum er síðan áhyggjuefni út af fyrir sig. Nýliðarnir á Mogganum eru karlar og karlkyns yfirmönnum þar hefur verið fjölgað um tvo eftir að konur hurfu úr starfi. Ekki eru mörg ár síðan ég byrjaði í blaðamennsku en stór hluti þeirra öflugu blaðakvenna sem voru mínar fyrirmyndir og annarra hafa annað hvort verið reknar eða þær gefist upp á starfsumhverfinu þar sem ungum strákum er stöðugt hampað með stöðu- og launahækkunum eða þeir keyptir milli miðla á meðan konurnar sitja eftir. Þetta er ekki bara alvarlegt, þetta er óþolandi.

Staðan á íslenskum fjölmiðlum er ógn við tjáningarfrelsið og hún hlýtur að vekja alla blaðamenn til umhugsunar, sama á hvaða miðli þeir starfa. Eigendur og stjórnendur fjölmiðla verða að taka sig saman. Hlutverk þeirra er þýðingarmeira en svo að þeir geti látið stjórnast af pólitískum stundarhagsmunum.