Eftirspurn eftir glæpahringjum

Erlendir glæpahringir eru nú tíðræddir eftir að lögreglan hóf rannsókn á ljótu mansalsmáli og í framhaldinu umfangsmikilli glæpastarfsemi sem teygir anga sína víða. Lögreglan hefur með höndum viðamikið og erfitt verkefni við að koma þeim sem að glæpastarfseminni standa bak við lás og slá. Staðreyndin er hins vegar sú að erlendir glæpahringir starfa ekki í tómarúmi. Þeirra starfsemi gengur öðru fremur út á að komast yfir fé með hvaða hætti sem er og til þess þarf að vera eftirspurn eftir „þjónustu“ glæpahringja.

Og þá vaknar spurningin: Hvaðan kemur eftirspurnin?

Íslendingar þurfa að horfast í augu við að hér á landi er eftirspurn stúlkum sem seldar hafa verið milli landa og beittar hræðilegu ofbeldi. Sú eftirspurn kemur líka frá íslenskum körlum. Hér á landi er einnig eftirspurn eftir handrukkurum sem svífast einskis og eftir glæpamönnum sem taka að sér íkveikjur.

Baráttan gegn erlendum glæpahringjum snýst þess vegna bæði um að koma glæpamönnum bak við lás og slá og við að uppræta eftirspurnina eftir verkum þessara manna. Það er nefnilega ólöglegt að ráða sér handrukkara, fá aðstoð við tryggingasvik og að kaupa vændi. Hið síðasta er blessunarlega orðið ólöglegt en það gerðist ekki fyrr en eftir tíu ára baráttu og eftir að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar tók við völdum.

Prev PostMunurinn á hægri og vinstri
Next PostKæri Strauss Khan