Að gefnu tilefni er rétt að benda á að ræða félagsmálaráðherra frá þingi ASÍ í gær er aðgengileg í heild sinni á heimasíðu ráðuneytisins. Sú miklar gagnrýni sem orð hans hafa fengið minna okkur á muninn á hægri og vinstri en hann snýst öðru fremur um forgangsröðun. Á meðan öryrkjar og aldraðir taka á sig skerðingar, sjúklingar aukna greiðslubyrði, börn fá minni kennslu, fólk missir vinnuna og lækkar í launum og svo framvegis þá þverneitar stóriðjan að taka á sig nokkrar byrðar og sama má segja um sjávarútveginn, sem þó hagnast á lágu gengi krónunnar. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn taka undir kröfur um að byrðarnar leggist á alla aðra en þá sem raunverulega eru aflögufærir og fyrrnefndi flokkurinn heldur því ennþá fram að hægt sé að sleppa öllum skattahækkunum og skera bara meira niður, væntanlega hjá börnunum, öryrkjunum og sjúklingunum.

Hvernig væri að hugsa hlutina upp á nýtt? Hvernig væri að endurreisa ekki gærdaginn, eins og félagsmálaráðherra komst að orði? Hvernig væri það?