Birtist á Smugunni 21. október 2009

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, bar sig illa í viðtali við Fréttablaðið í gær sem slegið er upp á forsíðu. Þar kvartar hann yfir því að ríkið ætli ekki umhugsunarlaust að borga framkvæmdir við höfn fyrir álverið í Helguvík. Nú má minna á að enn hefur ekki verið tryggt fjármagn til að byggja álverið og ekki er til orka til að knýja það áfram. En það skiptir ekki máli þar syðra. Álver skal rísa og fyrir það þarf stærðarinnar höfn. Reykjanesbær, segir Árni, getur ekki borgað höfnina einn, af því að þar eru svo lágir skattar. Framkvæmdin kostar ekki nema litla tvo milljarða og Árni segist hafa haft „vilyrði” frá forsvarsmönnum nokkurra ríkisstjórna fyrir að ríkið léti allt að milljarð af hendi. Fréttablaðið hefði kannski getað spurt Árna hvernig vilyrði lá fyrir. Eru til undirrituð plögg eða sagði Árni við Árna í kokteilboði að auðvitað myndi ríkið borga? Ríkið var svo ríkt og allt fyrir álið.

En hvert er samhengið þegar fjallað er um tvo milljarða sem Árni vill að hið opinbera noti í álvershafnarbyggingu? Jú, það er eftirfarandi:

  • Rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja kostar innan við tvo milljarða á ári (tæplega 1,7 milljarðar skv. fjárlagafrumvarpi fyrir 2010).
  • Reka má Menntaskólann í Hamrahlíð í þrjú ár fyrir tvo milljarða og það sama má segja um SÁÁ.
  • Tveir milljarðar eru talsvert meira en Íslendingar nota til þróunarsamvinnu (1380 milljónir á næsta ári miðað við fjárlagafrumvarp).
  • Á næsta ári er gert ráð fyrir að verja 375 milljónum í að rannsaka bankahrunið, það er til sérstaks saksóknara, Evu Joly og rannsóknarnefndar Alþingis.
  • Niðurskurður innan Landspítalans af svipaðri stærðargráðu og álvershöfnin myndi kosta þýðir að hundruð manna gætu misst vinnuna.

Þetta er nefnilega samhengið og eftir allt snýst pólitík um grundvallarspurningar. Á að byggja höfn fyrir álver eða halda úti heilbrigðisþjónustu? Á að byggja höfn eða reka skóla? Á að byggja höfn eða rannsaka bankahrunið? Og þar erum Árni og ég ekki sammála.