Dæmalaus pistill Hermanns Guðmundssonar, forstjóra N1, hefur vakið mikla athygli en þar ber hann blak af þeim brotum sem Baldur Guðlaugsson, núverandi ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu og fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, er sakaður um. Hermann telur það sjálfsagðan rétt hvers manns að verja sig og fjölskyldu sína fyrir stóráföllum. Þurfi hann að fremja lögbrot eins og það að misnota innherjaupplýsingar þá sé það allt í lagi. Hermann lítur á Baldur sem fórnarlamb ófullkomins kerfis.

Þetta mætti hæglega færa upp á aðra glæpastarfsemi. Kona sem getur ekki borgað af íbúðinni sinni af því að mánaðargreiðslur hafa rokið upp úr öllu valdi hlýtur þá að mega ræna búð allt að því mánaðarlega til að bjarga sér fyrir horn. Karl sem ekki getur gefð börnunum sínum að borða vegna þess að örorkubæturnar hans hafa lækkað hlýtur að mega selja fíkniefni, nú já eða útlenskar konur í kynlífsþrælkun. Þau eru bara að reyna að bjarga fjölskyldunni sinni. Eða hvað? Eiga kannski önnur lögmál við um hvítflibbana? Mega þeir brjóta lög til að halda stöðu sinni í samfélaginu, fjárhagslegri og samfélagslegri?

En Hermann er líka með lausnina: “Málið sýnir að afar óheppilegt er að háttsettir starfsmenn ríkisins séu almennir fjárfestar í íslensku atvinnulífi. Hugsanlega væri skynsamlegt sé að bjóða slíkum aðilum að leggja frekar sitt sparifé inná vaxtareikning hjá Seðlabanka Íslands sem tryggði ávöxtun markaðarins án þess að kaupa verðbréf.”

Bíddu nú við, á að gefa út ríkisábyrgð á sparifé háttsettra ríkisstarfsmanna þar sem þeir fá betri og öruggari kjör en gengur og gerist? Betri af því að kjörin vill Hermann miða við markaðinn en ekki venjulega innlánsvexti sem flestir landsmenn þekkja og öruggari því að þeir geta þá ekki tapað peningunum.

Þessi sjónarmið lýsa því enn á ný hvað viðskiptalífið (og stjórnsýslan að hluta til) var orðið veruleikafirrt. Þar trúa menn því að um þá eigi að gilda sérstakar reglur af því að þeir séu svo frábærir og æðislegir og góðir fyrir land og þjóð. Þeir eiga að fá svimandi laun, og þá ekki bara tvöföld eða þreföld laun manneskjunnar á gólfinu, nei 10föld, 20föld, helst hundraðföld. Ábyrgðin er svo mikil. En ábyrgðina mega samt aðrir axla. Og það gerum við hin núna