Þegar ég vann sem þingfréttaritari hlustaði ég alltaf með athygli á nýja þingmenn flytja jómfrúarræður sínar. Það var eitthvað hátíðlegt við það að fylgjast með fólki stíga sín fyrstu skref í ræðustóli, oft dálítið stressað, og mjög oft með miklu betur undirbúnar ræður heldur en almennt heyrðust á þingi. En það er önnur saga.

Þeir þingmenn sem í salnum sátu fylgdust líka vel með þessum fyrstu ræðum og ákveðin virðing var borin fyrir því að þarna væri nýr þingmaður sem þyrfti dálítið andrými til að koma sér áfallalaust frá sinni fyrstu tilraun, jafnvel þótt hann væri að mati sumra þingmanna í salnum að fara með hið heimskulegasta mál. Þannig man ég ekki til þess að kallað hafi verið fram í fyrir þingmanni sem var að flytja sína fyrstu ræðu.

Síðustu mánuði hef ég ekki getað fylgst jafn vel með jómfrúarræðum og ég gerði sem þingfréttaritari og vel má vera að þarna hafi orðið einhver kúltúrbreyting. Jómfrúarræðu dagsins fylgdist ég hins vegar vel með (enda stendur flutningsmaður mér nærri). Það kom mér satt að segja talsvert á óvart hversu mikið var um frammíköll undir ræðu nýliðans. Einhvern veginn hélt ég að það væri sjálfsögð kurteisi að leyfa fólki að flytja sínar fyrstu ræður óáreitt, þótt sjónarmiðum geti verið svarað skýrt í andsvörum eða næstu ræðum. Kannski heyrir sú tillitsemi sögunni til?