Íris og Andy

Íris og Andy

Árið 2006 lagði ég land undir fót og flutti mitt hafurtask til Sydney til að vera í nokkra mánuði við nám. Ég þóttist sjóuð í langferðum en mig hefði aldrei grunað hversu erfitt getur verið að fljúga yfir á hinn helming hnattarins og lenda þar tveimur dögum eftir að lagt var af stað. Ég var því ansi ringluð þegar ég vaknaði fyrsta morguninn á gistiheimili sem kirkjan í hverfinu rak og nýmenum frá útlöndum var plantað á meðan þeir leituðu sér að varanlegu húsnæði. Fyrsta manneskjan sem ég hitti var vingjarnlegur skoskur strákur sem sagðist heita Andy. Hann var nokkrum árum yngri og í ljós kom að hann hafði aldrei smakkað mat sem ekki var annað hvort skoskur eða dæmigerður skyndibiti. Strax á fyrsta degi gat ég kynnt hann fyrir undrum asískrar matargerðar og á meðan talaði hann um djúpsteikt marssúkkulaði.

Þennan sama dag slóst í för með okkur mexíkósk stelpa að nafni Íris. Hún hafði takmarkaðan orðaforða í ensku en talaði engu að síður mjög mikið og oft varð útkoman fyndin. Einhvern tímann sagði hún “fokkjú” ítrekað við Andy, sem varð orðinn ansi móðgaður þegar kom í ljós að Íris var að reyna að segja “focus”.

Ég kunni vel við Írisi strax frá upphafi. Hún var lífsglöð, fyndin og klár. Hún skammaði mig þegar ég talaði um “american people” með vísan til Bandaríkjamanna. “Ég er frá Ameríku,” sagði hún ákveðin og allar götur síðan þá hef ég vandað mig mjög við að kenna Bandaríkjamenn bara við Bandaríkin, þótt það geti hljómað ankannanlega á ensku.

Á öðrum degi í Ástralíu kynntist ég Nityu. Hún var í sameiginlega eldhúsinu á gistiheimlinu að borða indverskan mat. 24 ára gömul með svo skemmtilega kaldhæðinn glampa í augunum. Í ljós kom að hún kunni ekkert að elda og mamma hennar hafði sent hana með tilbúinn mat að heimann sem hún geymdi í frystinum og kom henni að gagni fyrstu dagana. Með tímanum lærði Nitya þó að elda og varð hinn besti kokkur. Ég bauð henni líka einu sinni í indverskan kvöldverð og montaði mig af að hafa farið á matreiðslunámskeið. Hún borðaði matinn með bestu lyst og sagði: “Þetta er mjög gott en ég hef aldrei bragðað neitt þessu líkt.”

Þegar ég kynntist Nityu skildi ég tal um að hægt sé að eiga sálufélaga úr allt öðrum menningarheimi. Við náðum vel saman og margar ógöngur sem við höfðum ratað í voru svipaðar. Það var gaman að fylgjast með Nityu fóta sig í nýjum heimi. Hún hafði raunar aldrei staðið á eigin fótum og alls ekki vön sama frjálsræði og ég. Ég hvatti hana áfram til að gera það sem hún vildi en hún hikaði oft og talaði um að hún gæti ekki logið að foreldrum sínum. Pabbi hennar hringdi reglulega og spurði hvað hún hefði gert þann og þann daginn.

Nitya var hrædd við að labba ein heim á kvöldin og ég fylgdi henni oft heim. Með í för var oftast Otur, hundurinn sem ég bjó með, risastór og mjög skemmtilegur. Hann hlýddi mér alltaf, nema ef hann sá kanínu, þá lyftust eyrun og hann hljóp af stað. Nitya bjó í hálftíma göngufjarlægð frá mér og þegar ég hugsa til Ástralíu þá get ég gengið þessa leið í huganum. Man hverja tröppu, hvern runna, lélega ljósastaura.

Nitya kynnti mig fyrir indverskum vinum sínum, við fórum saman í bíó og í bíltúr út á land. Ég kenndi henni að fara á barinn en um leið og við komum inn og ég rétti henni bjór sagði hún: “So, what do we do now?” Ég sagði henni að slappa af og njóta lífsins en hún náði einhvern veginn aldrei tökum á þessari afþreyingu. Fannst hálffurðulegt að drekka dýra drykki og horfa á annað fólk í billiard.

Nitya var að læra skapandi skrif og reglulega fékk hún þá flugu í hausinn að í raun og veru ætti hún að vera að í MBA námi. Ég spurði alltaf hvers vegna og svarið var yfirleitt byggt á þeim mikla þrýstingi sem Indverjar af milli og efri stéttum búa við: Þeir eiga að “verða eitthvað”. Og vandi Nityu var sá að hún var enn ógift og leiðin sem hún sá út gagnvart fjölskyldu sinni var að “verða eitthvað” rosalega merkilegt.  Ég reyndi alltaf að tala Nityu ofan af því að elta hugmyndir annarra um hvað hún ætti að vera og gera. En ég skildi líka að veruleiki hennar var allt annar en minn.

Nitya er af ágætlega stæðu fólki, annars hefði hún aldrei getað verið í Ástralíu. Það er Íris líka og ef ég man rétt þá varð pabbi hennar efnaður af því að selja Nike skó. Þær þekkja stéttskiptingu en þær þekkja líka tilfinninguna að koma í annan heim þar sem uppruni þeirra er allt í einu talinn þeim til minnkunar. Í gegnum þær fékk ég smjörþefinn af því.

Ég og Íris vörðum minni tíma saman en við Nitya og að stóru leyti má klaga það upp á mig. Ég var langþreytt og löt og nennti ekki út á lífið með Írisi og hinum skiptinemunum. Frekar vildi ég drekka te með Nityu og slappa af heima. En við Íris spiluðum fótbolta saman og borðuðum stundum kvöldmat og þegar ég flutti heim frá Ástralíu hélt hún mexíkóskt kveðjupartí mér til heiðurs. Þegar ég kvaddi hana var ég einhvern veginn viss um að ég sæi hana aftur. Það sama mátti segja um Nityu sem hjálpaði mér að bera ferðatöskurnar út í leigubílinn. Hún átti eftir að vera í Ástralíu eitt misseri til og mánuðina eftir að ég kom heim vorum við í reglulegu sambandi. Smám saman minnkaði sambandið en stundum átti hún það til í að hringja og spyrja hvernig ég hefði það. Þá talaði ég við hana í fimm mínútur en um hana í klukkutíma á eftir ef einhver var til að hlusta.

Þau sem hafa nennt að lesa blaðrið í mér alla leið hingað eru kannski farin að halda að þetta sé minningargrein um Indverja og Mexíkóa. Sem betur fer er tilefnið gleðilegra. Ég er nefnilega að skoða möguleika á að leggja land undir fót og heimsækja Nepal og Indland nú fljótlega og mér voru að berast þær skemmtilegu fréttir að Íris verður í Delhi í lok nóvembermánaðar. Þar gætum við hist allar þrjár, sem kynntumst á miðjum áströlskum vetri í júlí 2006. Og satt að segja þá get ég varla beðið.