Efnahagstillögur Sjálfstæðisflokks eru áhugaverð lesning. Á tímum sem þessum er vissulega gott að fá sem flestar hugmyndir fram til að ræða stefnuna sem taka skal. Þannig hafa skapast fínar umræður um tillögur sjálfstæðismanna um skattlagningu lífeyrissjóðsgreiðslna og auðvelt er að taka undir þá áherslu í efnahagstillögunum að ekki eigi að skera flatt niður (eins og Sjálfstæðismenn reyndar gerðu) heldur forgangsraða þannig að mikilvæg þjónusta skerðist sem minnst. Þetta er umræða sem þarf að fara fram í samfélaginu því að verði stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fylgt eftir er ljóst að ekki verður hægt að halda úti öllum þeim verkefnum sem ríkið sinnir. Þá þarf að velta upp ýmsum viðkvæmum spurningum um hvaða verkefni á að leggja niður og hverju á að halda áfram. Á ríkið t.d. að styrkja einkaháskóla og opinbera háskóla jafnt? Á að beina fjármagni inn í opinberar heilbrigðisstofnanir eða einkareknar? Á að halda úti skógræktarverkefnum? Hversu miklu fé er réttlætanlegt að verja til stjórnmálaflokka?  Svona má spyrja áfram. Umræðan verður sársaukafull, en nauðsynleg.

En í efnahagstillögum sjálfstæðismanna kemur fram áhugaverð forgangsröðun. Samkvæmt þeim á að skera meira niður í ríkisrekstrinum en þegar er áætlað en alls ekki má skera niður útgjöld til framkvæmda. Áherslur sjálfstæðismanna á að minnka eigi umsvif ríkisreksturs ná nefnilega til stjórnsýslunnar og velferðarkerfisins en mega alls ekki ná til allra vafasömu samninganna þar sem ríkinu er gert að borga eða láta af hendi aðgang að auðlindum almennings en einkaaðilar eiga að græða.  Hins vegar á auðvitað að halda áfram sveltistefnunni sem rekin var í velferðarkerfinu í áratugi. Þetta er þeirra forgangsröðun. Dælum peningum í störf fyrir karla en rekum konurnar heim til að sinna nauðsynlegum störfum velferðarkerfisins, ekki fyrir lág laun eins og nú, heldur ókeypis, eins og áður, áður þegar allt var svo gott.

Við þetta má auðvitað bæta að þeim mun minni geta sem er til staðar í stjórnsýslunni þeim auðveldara er að halda áfram að endurreisa Ísland í sömu  mynd og það var fyrir hrun. Í því samfélagi þarf nefnilega veikt fjármálaeftirlit, veikt umhverfisráðuneyti, veika löggjöf og svo framvegis.

Sjálfstæðismenn kostnaðargreina þá þætti sem þeir telja að geti aukið tekjur ríkisins en láta hins vegar ógert að tilgreina þá peninga sem þarf til að uppfylla efnahagstillögurnar. Hvað kosta t.d. allar framkvæmdirnar sem alls ekki má minnka framlög til? Ef við sendum fleiri ríkisstarfsmenn á atvinnuleysisbætur, hvað kostar það samanborið við sparnaðinn af því að reka þá? Hver verður kostnaðurinn fyrir komandi kynslóðir? Já og hvernig á að vera hægt að afnema gjaldeyrishöft og lækka um leið stýrivexti? Er ekki nær að gera hið síðarnefnda og bíða með hið fyrrnefnda?

Að lokum, eftirfarandi setning úr plaggi Sjálfstæðisflokksins skýrir sig sjálf:

“Skynsamleg nýting auðlinda og verndun þeirra er kappsmál Sjálfstæðisflokksins. En sú vernd má þó ekki ganga svo langt að skynsamleg tækifæri séu slegin út af borðinu undir merkjum umhverfisverndar.”

Einmitt!