Hún var furðuleg fréttin í Fréttablaðinu í gær þar sem Norðurál lýsir því yfir að fyrirtækið þurfi aðeins helming orku frá fyrirhuguðum virkjunum á Suðurlandi til að byggja álver í Helguvík. Við hliðina á fréttinni er birtur mjög svo upplýsandi listi yfir virkjanakostina sem Norðurál segir að þegar séu fyrirhugaðir á svæðinu. Vissulega eru til teikningar þar sem Ísland er sundurskorið með virkjunum en það mætti kannski minna Norðurálsmenn á að Landsvirkjun hefur ekki úrslitavald um virkjanir sem ráðist er í á landinu.

Á listanum má sjá Hellisheiðarvirkjun, Hverahlíð, Bitru, Búðarháls og Reykjanesvirkjun en þær virkjanir gefa samtals  495 MW. Þetta dugar auðvitað ekki Norðuráli og bætt er við virkjunum í neðrihluta Þjórsá en þær  gefa samtals 265 MW. Síðan kemur annar listi yfir virkjanir sem ekki hafa farið í umhverfismat (Eldvörp, Gáruhnjúkar, Krýsuvík, Norðlingaalda) og út úr því fæst hin háa tala sem Norðurál miðar við eða 1415 MW. Síðan eigum við væntanlega öll að anda léttar því að Norðurál ætla bara að nota helminginn af allri þessari orku?

Á listanum sem Norðurál vísar til eru virkjanir sem vægast sagt eru mjög umdeilanlegar. Nærtækasta dæmið eru virkjanir í neðrihluta Þjórsá sem hafa mætt mikilli andstöðu, og ekki að ástæðulausu. Í stjórnarsáttmála VG og Samfylkingar segir: “Engar frekari ákvarðandir tengdar virkjun Neðri-hluta Þjórsár verði teknar þar til rammaáætlun liggur fyrir.”

Norðurálsmönnum til upplýsingar má benda á að rammaáætlun liggur ekki fyrir og kannski ætti fyrirtækið að beina lobbýisma sínum að því að hraða þeirri vinnu. Þar fyrir utan þá næst seint sátt um það hér á landi að nota alla þessa orku til eins álvers. Þá er nefnilega mjög lítið eftir til skiptana fyrir annars konar atvinnustarfsemi.

Orkan sem Norðurál vísar til og vill fá til að knýja álver í Helguvík er því ekki fyrir hendi, eins og umhverfisráðherra hefur ítrekað bent á.  Það er því ekki hið sjálfsagða umhverfismat vegna Suðvesturlínu sem stendur í vegi fyrir að álverið geti tekið til starfa. Ég segi tekið til starfa því að í Helguvík er unnið hörðum höndum að því að byggja álver án þess að búið sé að fjármagna það og án þess að orka sé í boði. Góður bissness það.