Ég veit ekki hvað ég var gömul þegar ég byrjaði að lesa Morgunblaðið. Ég man samt að ég las það aftur á bak og ég man að mamma vildi stundum fá forgang í blaðið yfir morgunmatnum. Þá las ég íþróttafréttirnar í staðinn. Ég hef látið Moggann elta mig úr Mosfellsbæ til Reykjavíkur, á Fáskrúðsfjörð og í Neskaupstað og aftur til baka. Ég hef beðið íslenska gesti um að taka hann með sér til Danmerkur og til Ástralíu. Ég hef verið áskrifandi frá því að ég fór að standa á eigin fótum.

Árið 1999 kom ég í fyrsta sinn inn á ritstjórnarskrifstofu Moggans. Þá ákvað ég að þar vildi ég vinna. Það tók sinn tíma en í millitíðinni tókst mér að kynnast Styrmi Gunnarssyni, Karli Blöndal og Árna Jörgensen. Karl spurði mig í hvaða átt ég læsi Moggann. Þá byrjaði ég alltaf á aðsendu greinunum. Núna byrja ég alltaf á byrjuninni. Síðar kynntist ég Ólafi Stephensen og hann réði mig til starfa sem blaðamann á innlendri fréttadeild. Ég hóf störf 2. júní 2003.

Styrmir mundi alltaf eftir óðamála stelpunni sem datt inn á skrifstofu hans árið 2000. Hann hafði gaman að mér og stundum stakk ég af úr blaðamannasætinu, drakk te á skrifstofu Styrmis og reifst við hann um pólitík.
Ég þvældist til útlanda en kom alltaf aftur. Kom og fór og kom og fór og einu sinni sagði Styrmir: Halla, þú átt heima hérna. Og þannig leið mér. Ég átti heima þarna.

Styrmir kallaði mig byltingarsinna, Ólafur kallaði mig bláeygan kommúnista og einhvern tímann heyrði ég talað um marxistann á Morgunblaðinu. Mér er skítsama um Marx, sagði ég, og hvað veit ég um kommúnisma? Ég var bara átta ára þegar múrinn féll. Hann féll í svarthvítu sjónvarpi. Og nei, ég veit ekki hvernig það var.

Ég skrifaði fréttir um dúxa í framhaldsskólum, endalausu leitina að síldinni, skipulagsmál á Laugarvatni, kaldan veruleika vændis, nýjustu kofana á smíðavellinum við Hlíðaskóla, elsta stuðningsmann Víkings, ömmu Víking, já og vissuð þið að ef þið missið tönn eigið þið að geyma hana í mjólk?

Í viðhorfspistlum mátti ég segja allt sem ég vildi. Ég hrópaði: Herinn burt! Og skammaði Íslendinga fyrir að elska ekki náttúruna, karla fyrir að brjóta á konum og heiminn fyrir að vera svona ranglátur. Ég var Moggablaðamaðurinn sem afsannaði regluna: Ung, róttæk, hávær, vinstri sinnuð kona. En var samt í liðinu.

Smám saman fór ég að einbeita mér meira að pólitískum fréttum og náði þá að sameina áhugann á stjórnmálum við ástríðuna fyrir að skrifa. Við árslok 2006 var staða þingfréttaritara laus og ég rétti upp hönd. Í stórum yfirmannahópi Moggans voru skiptar skoðanir og þegar ég var við það að fá nei breyttist neiið í já og ég varð þingfréttaritari.

Út undan mér heyrði ég gagnrýniraddir. Ég væri alltof pólitísk í starfið. Gæti ekki verið hlutlaus. Hlutlaust fólk hlýtur að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, í mesta lagi Framsókn. Að vísu rugluðust sumir gagnrýnendurnir, sem héldu að ég væri í raun og veru bróðurdóttir Styrmis, og þeim þótti ég alltof hægrisinnuð í starfið. Fréttirnar mínar voru því gagnrýndar þvers og kruss, vinstri og hægri.

Flestir þingmenn tóku mér vel en ákveðinn hópur innan Sjálfstæðisflokksins sætti sig aldrei við að þingfréttaritari Morgunblaðsins væri ekki þeirra. Þeir kvörtuðu undan öllu sem þeir gátu og sennilega tók steininn úr þegar forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins hringdi sjálfur í ritstjóra Morgunblaðsins og kvartaði undan orðalagi í undirfyrirsögn. Ég tók þetta ekki nærri mér, enda stóð ritstjórinn með mér. Ef ég gerði mistök þá leiðrétti ég þau en gagnrýni á að fréttaskrif mín væru lituð af pólitík lenti utan skotskífunnar. Í þingbréfum gat ég hins vegar tjáð mínar skoðanir og ég hafði gaman af að gagnrýna þingstörfin og segja frá lífinu í litla þingfréttaritaraherberginu.

Ég kvaddi Styrmi með söknuði 2. júní 2008. Við borðuðum köku honum til heiðurs en skáluðum svo fyrir nýja ritstjóranum, Ólafi Stephensen. Hann var ungur og átti að tákna nýja tíma – íhaldssamur prestssonur, fyrrum formaður Heimdallar. Drengurinn sem byrjaði á Morgunblaðinu 19 ára gamall og varð aðstoðarritstjóri 33 ára gamall. Hann pússar gleraugun sín með Morgunblaðinu og hefur alltaf skrifað með zetu, þótt hún hafi verið afnumin áður en hann byrjaði í skóla. Hann var tákn nýja tímans á Morgunblaðinu.

Mér samdi vel við Ólaf. Ég held honum hafi fundist þingfréttaritararugludallurinn skemmtileg fígúra og mér þótti gaman að kynnast svona hressilega borgaralegum manni. Blaðið breytti um takt. Og sennilega var tími til kominn.

Mér leið vel sem þingfréttaritari. Ég var Moggablaðamaður af lífi og sál. Ég lagði mig alla fram. Fór í vörn fyrir blaðið og man eftir einu atviki þar sem ég hækkaði róminn við sambýlismann minn, sem hafði ýmislegt við það að athuga að vinningsljóð í ljóðasamkeppni hefði ekki verið birt: Ég þoli þetta ekki hér í mínu eigin eldhúsi! Við erum undir brjáluðu álagi. Moka, moka, moka. Heldurðu virkilega að við höfum tíma til að leggjast í samsæri vegna birtingar ljóða úr grunnskólasamkeppni?!

Staðreyndin er nefnilega sú að á Mogganum voru ekki haldnir skipulagðir plottfundir þar sem hver einasta fyrirsögn í fréttum og myndbirting var ákveðin með það að markmiði að gera lítið úr sumum og ekki öðrum. Og ég upplifði alltaf að velflest samstarfsfólk mitt væri mjög áfram um að þvo Sjálfstæðisflokksstimpilinn af blaðinu. Við unnum að því hörðum höndum og okkur var alvara. Þarna vann og vinnur enn kröftugt og metnaðarfullt fólk sem hefur ástríðu fyrir að búa til dagblað. Dagblað sem er skýrt og vel upp sett, fullt af úrvalsljósmyndum. Dagblað sem höfðar til allra aldurshópa, hefur að geyma fréttir, fréttaskýringar og vandaða menningarumfjöllun og er um leið vettvangur fyrir almenna umræðu.

Fyrir ári síðan var ég oft spurð hvort ég óttaðist að missa vinnuna. Ég sagði nei, ekki nema að blaðið fari á hausinn. Svo vel leið mér í Moggahópnum og svo vel voru störf mín metin.

En …

… svo kom hrun. Bankahrun. Kerfishrun.

Völdin færðust að nýju í stjórnmálin. Þingið nötraði dag eftir dag. Meira nötraði Sjálfstæðisflokkurinn. Þar kom fólk saman og velti fyrir sér hvernig mætti vera að flokknum gengi svona illa. Ástæðurnar voru margar og að sjálfsögðu allar utanaðkomandi. Ein af ástæðunum var ég.

Halla Gunnarsdóttir flytur ræðu á borgarafundi.
Eggjum er kastað í þinghúsið.
Ergo: Halla kastaði eggjum í þinghúsið.
Halla er óvinur ríkisins.

Einhvern veginn svona virtist rökhugsun sumra vera, a.m.k. þeirra sem aldrei höfðu séð mótmælafund annars staðar en í sjónvarpi. Hægri vefmaskínan reyndi hvað hún gat til að gera mig tortryggilega. Ég var tengd við VG, flokkinn sem í huga Sjálfstæðismanna á þeim tíma stóð einn og sér að búsáhaldabyltingunni. Hugsunin um að til væri fólk sem sjálft risi upp, án þess að vera handbendi stjórnmálaflokka, var ekki til í hugum þeirra.

Ég fór aldrei leynt með það að áður en ég varð þingfréttaritari var ég félagi í VG og aldrei reyndi ég að þvo af mér þann stimpil. Meðan ég gegndi starfi þingfréttaritara var ég hins vegar ekki félagi í neinum flokki, nema Sjálfstæðisflokknum um tíma, en í hann höfðu einhverjir gamansamir vinir mínir skráð mig, að mér forspurðri. Ég kom til dyranna eins og ég var klædd.

Og staðreyndin er sú að aldrei fékk ég marktækar athugasemdir við þingfréttaskrif mín, nema einu sinni, en þá skammaði Styrmir mig fyrir að hafa ekki gert stjórnarandstöðunni nógu hátt undir höfði í umræðum um utanríkismál. Ég skildi aldrei af hverju sumir sjálfstæðismenn (alls ekki allir) höfðu svona miklar áhyggjur af því að ég myndi misnota aðstöðu mína. En seinna áttaði ég mig: Þeir hefðu gert það sjálfir.

Ég tók þessi læti aldrei nærri mér. Ég var vön þessu og hélt bara áfram að skrifa fréttir. En síðan breyttist eitthvað.

Það er fín lína milli ritskoðunar og ritstjórnar.

Ég þurfti ekki mikla næmni til að átta mig á hvað var í gangi. Ég veit samt ekki hvernig það gerðist. Mánaðarmótin nóvember/desember var ég viss um að mér yrði sagt upp. Þar sem ég var oftast niðri í þingi en ekki í Hádegismóum þá var þetta furðuleg tilfinning. Þrátt fyrir fjarlægðina vissi ég hvað var í gangi.

Mér fór að líða illa í vinnunni. Ég varð stressuð. Sjálfsritskoðunin varð ýktari og þar með hættulegri. Ég reyndi jafnvel að komast hjá því að skrifa þingbréf og kannski er það engin tilviljun að á meðan búsáhaldabyltingin var gerð lá ég heima með magakveisu.

30. janúar 2009 var mér sagt upp störfum á Mogganum. Á leið upp í Hádegismóa til að taka við uppsagnarbréfinu hringdi ég í mömmu og mína bestu vini og sagði þeim að ég væri að verða atvinnulaus. Leigubílstjórinn hlustaði. Hann beið eftir mér þegar ég kom út. Vildi telja í mig kjark.

Þresti Helgasyni, ritstjóra Lesbókarinnar, var líka sagt upp störfum. Ástæðan fyrir báðum uppsögnum var hagræðing. Innanhúss hristist allt. Þetta voru síðustu uppsagnir blaðamanna áður en nýir eigendur tóku við, áður en skuldaafskriftirnar fóru fram. Það var löngu orðið ljóst að staða Ólafs yrði ekki sterk í nýjum eigendahópi og ég þóttist viss um að hann færi sömu leið og ég. Það tók hins vegar lengri tíma.

Ég les ennþá Moggann yfir morgunmatnum og ég hafði hugsað mér að gera það áfram. Sex ára gamall stjúpsonur minn er kominn upp á lagið með að skoða barnablaðið og jafnframt farinn að lesa skrítlurnar. Nú hafa hins vegar runnið á mig tvær grímur. Ráðning hins nýja ritstjóra og fylgisveins hans setur málin í allt annað ljós og veltir upp spurningum um hlutverk Morgunblaðsins á næstu mánuðum. Á það að vera vandaður fréttamiðill eða er tilgangurinn öðru fremur að berjast gegn aðild að ESB og koma Sjálfstæðisflokknum aftur í ríkisstjórn?

Ég vildi líta svo á að enn ynni á Mogganum það öfluga fólk sem kann að búa til gott blað. En því hefur fækkað svo mikið að alls óljóst er hvort hægt verður að gefa áfram út almennilegt dagblað. Ég veit ekki hvernig þeim fáu sem eftir eru gengur að vinna undir þessum nýju kringumstæðum. Þeim óska ég alls hins besta.

Ég hef hins vegar misst traust á Mogganum, hvort sem hann er lesinn aftur á bak eða áfram. Hans á ég eftir að sakna sárt.