Áhugaverðar upplýsingar koma fram í þessari frétt. Ekki þó því að Pétur Gunnarsson sé kominn til starfa á enn einn fjölmiðilinn, enda varla saga til næsta bæjar. Það var aftur á móti þessi lína sem vakti athygli mína: „Pétur hefur að undanförnu sinnt verkefnum fyrir Varnarmálastofnun …”. Þá hljóta að vakna spurningar: Hvaða verkefnum sinnti Pétur hjá Varnarmálastofnun? Hvenær kom hann þangað til starfa? Hvernig fór sú ráðning fram? Hvers vegna var ekkert vitað um starf hans fyrr en eftir að hann hættir?

Það vill svo til að fyrir nokkru barst mér til eyrna að Pétur sinnti verkefnum fyrir Varnarmálastofnun. Ég átti bágt með að trúa því og leitaði á vefsíðu stofnunarinnar af tilkynningu um ráðningu hans. Hana fann ég ekki. Ég spurðist fyrir í kringum mig og var sagt að jú, hann væri að vinna einhver verkefni á Keflavíkurflugvelli en að leynd hvíldi yfir því um hvaða verkefni væri að ræða. Rétt er að minna á að þetta er ríkisstofnun!

Staðreyndin er sú að utanríkisráðherra hefur lýst því yfir að til standi að leggja Varnarmálastofnun niður í núverandi mynd. Löngu áður en hann lýsti því yfir lá í loftinu að ekki væri pólitískur vilji fyrir því að halda kostnaðarsamri starfseminni á Miðnesheiði áfram óbreyttri, enda var aldrei pólitísk sannfæring fyrir stofnun Varnarmálastofnunnar, hvorki á hægri né vinstri vængnum. Þetta var einfaldlega verk embættismanna. Pólitískur vilji hefur þó ekki haldið Varnarmálastofnun frá því að auka umsvif sín enn frekar og ráða til sín starfsfólk í hin ýmsustu verkefni á meðan aðrar ríkisstofnanir segja upp fólki.

Ólíklegt hlýtur að teljast Pétur Gunnarsson hafi verið ráðinn til að sinna ratsjáreftirliti eða hafa umsjón með húseignum. Hans sérgrein er PR-mennska og nafnbótin spunameistari er ekki úr lausu lofti gripin. Það þarf því ekki miklar samsæriskenningar til að geta sér til um að Pétri hafi verið falið að auka hróður stofnunarinnar og hjálpa forsvarsmönnum hennar að halda lífi í verkefnum sem byggja á úreltri hugmyndafræði. Um leið er lýðræðinu gefinn fingurinn og embættismannaveldið tekur málin í sínar hendur. Flott vinnubrögð það!