Á vordögum árið 2008 samþykkti Alþingi frumvarp þar sem orku- og auðlindalögum var breytt. Breytingarnar voru að mestu til hins betra en náðu ekki eins langt og til hefði þurft og stjórnarflokkarnir Sjálfstæðisflokkur og Samfylking ásamt Framsókn veiktu frumvarpið í meðförum þingsins.

mjolklarvirkjun

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að orkuauðlindir ættu að vera að minnsta kosti að 2/3 hlutum í eigu opinberra aðila, það er ríkis og sveitarfélaga. Því var breytt í 51% eignaraðild, en í reynd þýðir það að til dæmis Magma Energy gæti eignast 49% hlut í HS-orku. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að ríkjum og sveitarfélögum væri óheimilt að framselja eignarrétt á vatni fyrir virkjanlegt afl umfram 7 MW. Þingið hækkaði viðmiðið í 10 MW en aðeins Vinstri græn greiddu atkvæði gegn þeirri breytingartillögu. Þannig varð heimilt að einkavæða Mjólkárvirkjun, sem er í eigu Orkubús Vestfjarða og Andakílsvirkjun, sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Hefði 7 MW viðmiðið staðið væri það ekki leyfilegt. Upphaflega stóð reyndar til að miða við 1 MW og þá hefði til að mynda ekki verið hægt að einkavæða Elliðarárvirkjun, eins og OR er heimilt samkvæmt lögunum. Með því viðmiði hefði verið staðinn raunverulegur vörður um vatnsaflið en vitanlega hugnaðist það ekki Sjálfstæðisflokknum, sem hefur alltaf viljað einkavæða auðlindir landsins, hvaða nafni sem þær nefnast.

65 ára nýtingarréttur

Þetta kom skýrt fram þegar frumvarpið var rætt á þingi. Þar sagði Sigurður Kári Kristjánsson, þáverandi þingmaður og núverandi aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins:

„Það er ekkert launungarmál að ég hef efasemdir um að það sé skynsamlegt að banna framsal með þeim hætti sem frumvarpið kveður á um vegna þess að slíkt bann hefur í för með sér, eins og Friðrik Már Baldursson segir, að það sé ekki efnahagslega skynsamlegt eða hagkvæmt að grípa til slíkra takmarkana.”

Og með vísan í ákvæði sem heimilar ríki og sveitarfélögum að veita afnotarétt af auðlindum til allt að 65 ára sagði flokssystir Sigurðar Kára, Ragnheiður Elín Árnadóttir:

,,Eins og ég sagði við 1. umr. þessa frumvarps er það almennt skoðun mín að hagkvæm og best nýting auðlinda sé betur tryggð með því að þær séu í einkaeigu og ég ætla ekki að draga dul á þá skoðun mína. Niðurstaðan er sú að ákvæðið um 65 ára leigutíma standi óbreytt og styð ég þá niðurstöðu. Nefndin leggur hins vegar til þá mikilvægu breytingu að handhafi afnotaréttar skuli að liðnum helmingi afnotatímans eiga rétt á viðræðum við leigjanda um framlengingu. Þetta finnst mér afar mikilvæg breyting sem eyðir óvissu við rekstur þessara fyrirtækja og þeirra miklu fjárfestinga sem um ræðir í þessum bransa. Þessi breyting skiptir því miklu máli og færir þetta nær því sem væri um að ræða ef þetta væri í einkaeigu og þrátt fyrir að skiptar skoðanir séu um það í þessum sal þá fagna ég því.”

Norðurorka lagði til að markið yrði 100 ár fremur en 65 og margir sjálfstæðismenn voru á því máli. Blessunarlega var 65 ára viðmiðið þó ekki hækkað og enn betra hefði verið að lækka það en Frjálslyndi flokkurinn lagði til 35 ár og Vinstri græn studdu það. Rétt er að taka fram að ekkert segir að samningarnir verði að vera til 65 ára. Þeir mega allt eins standa til tíu ára.

Hvað gera sexmenningarnir?

Á félagsfundi VG í Reykjavík sl. mánudagskvöld höfðu nokkrir á orði að þeim liði eins og þeir væru komnir aftur til ársins 2007 og REI málið væri að endurtaka sig. Leyndarhjúpur yfir samningum, fum og fát, óttaáróður, flóttaleg augu. Viðskiptahættir í anda ársins 2007. Sum okkar trúðu því að með REI málinu og síðar hugmyndafræðihruninu sem varð sl. haust myndu einkavæðingarflokkarnir taka stefnu sína til endurskoðunar. En nei, það er ennþá einlægur vilji Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að koma auðlindunum í einkaeigu, eða eins nálægt henni og komist verður í ljósi núgildandi laga.

Á þriðjudag verður hinn stórskrítni samningur Orkuveitu Reykjavíkur við Magma Energy um sölu á hlut OR í HS orku ræddur í borgarstjórn Reykjavíkur. Umræðan um hann er aðeins hluti af deilum um hvort einkavæða eigi orkuauðlindir Íslands eða ekki. Nú reynir að nýju á borgarfulltrúana, og þar með talið sexmenningana í Sjálfstæðisflokknum sem þóttust hafa viljað standa gegn spillingunni í REI-málinu. Það verður fylgst vel með atkvæðagreiðslunni.

Mynd af Mjólkárvirkjun, fengin af bb.is