Það er mikill akkur í því að fá hagfræðiprófessorinn og Nóbelsverðlaunahafann Joseph Stiglitz til landsins á þessum tímum. Stiglitz var áður aðalhagfræðingur Alþjóðabankans og í bók hans Globalization and its discontents má lesa hvernig hann smám saman fékk efasemdir um hugmyndafræðina sem Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvíla á.

Stiglitz var í Silfri Egils í gær og er óhætt að mæla með því viðtali. Hann var jákvæðari í garð AGS en oft áður og sagði sjóðinn gera margt betur hér en víða annars staðar. Hann varaði þó eindregið við því að fara of skart í niðurskurð en AGS hefur ansi bratta áætlun í þeim efnum. Varla er annað hægt en að taka undir þessi varnaðarorð. Með of miklum niðurskurði er ekki aðeins vegið að undirstöðum velferðarkerfisins heldur eykur hann einnig atvinnuleysi, sem aftur getur haft mjög slæmar langtímaafleiðingar.

Það er áhugavert að líta til þess að AGS fæst nú við ríki sem fylgdi hugmyndafræði sjóðsins að miklu leyti. Einkavæðingarmantran náði vel eyrum íslenskra stjórnvalda en blessunarlega var látið ógert að fara að ráðum AGS um einkavæðingu í heilbrigðis- og menntakerfinu. Þá fyrst stæðum við illa.

Þau tæki sem keyrðu Ísland í kaf verða ekki notuð til að reisa það úr rústum að nýju. Hugmyndafræði AGS er löskuð og tækifærið notar sjóðurinn vonandi til að breyta um hugmyndafræði, ekki til að lappa upp á hana með nýju orðfæri. Íslendingar eiga að standa í lappirnar gagnvart sjóðnum og nota reynslu annarra ríkja til að koma í veg fyrir afglöp. Hlustum á ráð Stiglitz!

stiglitz


Stiglitz flytur fyrirlestur í Háskóla Íslands kl. 12:30 í dag.

Mynd fengin frá abc.net.au