Í febrúar árið 2007 var frumvarp hóps Samfylkingarþingmanna um Lánasjóð íslenskra námsmanna tekið til umræðu á Alþingi. Frumvarpið fól í sér að þriðjungur námslána gæti breyst í styrk að námi loknu. Eins og svo mörg önnur mál þá fór það inn í nefnd og aldrei út úr henni aftur.

Enginn Sjálfstæðisþingmaður tók þátt í umræðunni en Gunnar Birgisson, sjálfstæðismaður og þáverandi stjórnarformaður LÍN, svaraði röksemdunum í grein í Fréttablaðinu. Þar áréttaði hann, með vísan í útreikninga Ríkisendurskoðunar, að helmingur námslána væri nú þegar styrkur, enda væri vaxtaprósentan svo lág, það er 1%. Ríkissjóður þyrfti að leggja út 51 krónu með hverjum 100 krónum sem væru lánaðar.

Hvers vegna að rifja þetta upp? Jú, lán Orkuveitu Reykjavíkur til Magma Energy, sem á svo að nota til að kaupa hlut í OR, er á 1,5% vöxtum. Afborgunin fer að vísu fram með eingreiðslu og að sjö árum liðnum en á móti kemur að lánið er ekki verðtryggt, það er veitt í dollurum og OR tekur á sig alla gengisáhættuna! Og með þessu á að koma erlendu fjármagni inn í landið. Með öðrum orðum: Við lánum útlenskum köllum útlenska peninga og hrósum svo happi yfir að hið erlenda fjármagn sé notað til fjárfestinga á Íslandi. 2007, einhver?

Það væri sannarlega gaman að sjá útreikninga Ríkisendurskoðunar á því hversu hátt hlutfall láns OR til Magma er í raun og veru styrkur. Erlent fjármagn með dágóðum afslætti frá almenningi (því það er jú alltaf hann sem borgar á endanum) til kaupa á orkuauðlindum landsins hlýtur að teljast frétt til næsta bæjar, eða hvað?