Flokksráðsfundur Vinstri grænna sem haldinn var á Hvolsvelli sl. helgi var mjög gagnlegur og góður í alla staði. Það duldist engum fyrir fundinn að mjög skiptar skoðanir voru um tvö fyrirferðamikil mál sumarsins: ESB og Icesave. Síðarnefnda málið virðist komið í farveg sem hugnast breiðum hópi VG fólks en titringurinn vegna hins fyrrnefnda lifir enn, einkum meðal landsbyggðarfólks. Um þetta var tekist á með málefnalegum hætti á fundinum.

Stóra áskorunin fyrir VG á næstu misserum lýtur að róttækni í öllum málum sem hreyfingin kemur að. Þá dugar ekki að nota gömul meðul frjálshyggjunnar heldur á einmitt að hugsa hlutina upp á nýtt með hagsmuni norræna velferðarsamfélagsins að leiðarljósi. Forgangsröðunin þarf að vera skýr. Ég spáði því á fundinum að það væri einungis tímaspursmál hvenær AGS færi að knýja á um einkavæðingu velferðarþjónustunnar til að minnka skuldir ríkisins, eins og sjóðurinn ráðlagði okkur árið 2001. Þá stendur ekki á okkar svari. Það er NEI.

Ályktarnir flokksráðsfundar eru aðgengilega hér.