Eitthvað virðist UEFA hafa gert óþarflega litlar kröfur til útsendinga frá EM í Finnlandi. Útsendingin dettur reglulega út og við blasir svartur skjár. Ég er ekki sérlega fróð um sjónvarpsútsendingar og vel má vera að þetta hafi eitthvað með Ríkisútvarpið að gera. Það breytir þó ekki því að svona gæði myndu aldrei viðgangast í karlaboltanum, og eiga ekki að gera það í kvennaboltanum. Þannig horfði ég á Birgit Prinz, leikmann Þýskalands, þeysa upp völlinn áðan og leggja boltann fyrir en síðan kom bara svartur skjár. Þegar myndin kom aftur mátti sjá Þjóðverja fagna sínu fyrsta marki í leiknum.

Útsending frá EM karla í fyrra datt að vísu út í undanúrslitaleik (að mig minnir). Það var mjög dramatískt að fylgjast með áhorfendum á götum úti í Berlín en vita ekkert hvað var að gerast í leiknum. Útsendingatruflanirnar í EM kvenna eru hins vegar ítrekaðar og gerast í nánast hverjum einasta leik. Þetta hlýtur að standa til bóta.