Mbl.is segir frá því í þessari frétt að foreldrum í Smárabíó hafi verið brugðið þegar sýnd var pókerauglýsing á undan sýningu á Ísöld 3 um helgina. Viðbrögð forsvarsmanns bíósins eru eftirfarandi: „Við höfum ekki fengið neinar kvartanir yfir þessu,” segir Björn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Senu sem rekur Smárabíó. Hann segir auglýsingar sem eru ógnvekjandi eða gera út á nekt ekki sýndar á barnasýningum en téð auglýsing hafi ekki þótt til þess fallin að særa blygðunarkennd fólks. Berist kvartanir segir Björn að athugað verði að taka hana úr umferð á Ísöld 3.

Þessi viðbrögð eru mjög svo dæmigerð. Ekki þarf að huga að neinu nema kvartanir berist. Það er ekki nóg að það sé alveg út í hött að birta pókerauglýsingar á undan barnamynd (og reyndar yfirleitt út í hött þar sem slíkt er ólöglegt á Íslandi), kvartanir verða að berast, og þá má skoða að taka hana úr umferð.

Ég man eftir því þegar ég fór í bíó í Ástralíu hvað mér fannst auglýsingarnar áhugaverðar. Hvers vegna? Jú, því að þar höfðu aðstandendur bíóanna vit á því að selja auglýsingar eftir markhópum. Ef ég var að horfa á heimildamynd um baráttu samkynhneigðra í Ísrael voru engar líkur á að mér væru sýnd kynningarmyndbönd úr lélegum amerískum bardagamyndum, sem jafnvel gera út á hómófóbíu. Fyrir vikið þjónuðu margar auglýsingarnar þeim tilgangi að upplýsa mig um aðrar myndir, viðburði eða vörur sem ég gæti haft áhuga á.

Hér á landi er hins vegar öllum auglýsingum grautað saman, alveg óháð því hver líklegur markhópur er í bíósalnum. Og einmitt þess vegna er birt pókerauglýsing á undan barnamynd.