Fall er fararheill

Hörkubarátta um boltann

Eins og margir Íslendingar sat ég límd við skjáinn áðan og horfði á stelpurnar okkar mæta Frökkum. Það er eflaust að bera í bakkafullan lækinn að blogga um leikinn, en ég ætla samt að leyfa mér það. Líklega hef ég sjaldan verið eins spennt yfir fótboltaleik í sjónvarpi, enda eins og bent hefur verið ítrekað á undanfarið merkilegur dagur í íslenskri fótboltasögu. Þegar Ísland komst síðan yfir með glæsilegu marki eftir stuttan leik var þetta of gott til að vera satt, sem síðan kom á daginn.

Vítaspyrnurnar tvær sem Frakkarnir fengu voru á gráu svæði, a.m.k. sú fyrri. Hin var kannski dómur í harðari kantinum en engu að síður klaufalegt af hálfu okkar varnarmanns. Sennilega má kenna reynsluleysi um að okkar stelpur náðu sér ekki aftur á strik. Spennan var einfaldlega of mikil og þegar vonbrigði bætast ofan á reynir mjög á sterkustu karaktera.

Frönsku stelpurnar fengu of mikið pláss fyrir framan okkar mark og þannig kom mark númer þrjú. Síðan var alveg hræðilegt að við skyldum ekki nýta okkar vítaspyrnu og þar með komist aftur inn í leikinn. En nú er þessi leikur að baki og þá er lítið annað að gera en að sætta sig við það og horfa fram á við. Íslensku stelpurnar eru nú reynslunni ríkari og miðað við karakterinn sem þær hafa sýnt þá geta þær rifið sig upp og mætt fílefldar til næsta leiks. Áfram Ísland!

Mynd fengin af vefsíðu KSÍ

Prev PostGestir frá Norðurlöndum
Next PostPóker á barnamynd