Fréttablaðið birtir í dag viðtal við Tor Iversen, heilsuhagfræðing, sem er hér á landi á ráðstefnu norrænna heilsuhagfræðinga í Háskóla Íslands. Iversen er beðinn um ráð til handa Íslendingum og rauði þráðurinn í hans svörum er að styrkja eigi grunnheilbrigðisþjónustu. Þetta er einmitt það sama og kom ítrekað fram á stórum vinnudegi með starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar sem haldinn var í apríl sl. Þessi sýn er einföld en um leið ein af stærri áskorunum íslenskrar heilbrigðisþjónustu á næstu árum. Stefnan hér á landi hefur raunar verið frá grunnþjónustu og til mikillar sérfræðiþjónustu og þannig er komið að margt fólk þverneitar að leita til „venjulegra lækna” og vill aðeins dýra sérfræðiþjónustu. Dýr sérfræðiþjónusta getur vissulega verið nauðsynleg en ekki í þeim mæli sem hún er nýtt hér á landi.

Öruggur heimur hernaðarhyggjunnar

skric3b0dreki

Norrænu heilsuhagfræðingarnir eru þó ekki einu Norðurlandabúarnir sem heiðra Ísland með nærveru sinni þessa dagana. Hinn stríðsglaði Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO og fyrrverandi forsætisráðherra Dana, sótti Íslendinga heim í gær og spjallaði við utanríkisráðherra og forsætisráðherra. Rasmussen þessi þverbraut allar hefðir í dönskum stjórnmálum árið 2003 með ákvörðun sinni um að Danmörk yrði þátttakandi í stríðinu við Írak. Danir eru vanir að gera allar tilraunir til að ná fram samstöðu um veigamikil mál en þessi ákvörðun var tekin í skyndi á danska þinginu, með naumum meirihluta ríkisstjórnarflokkanna og Dansk Folkeparti. (Rasmussen lagði að vísu það ómak á sig að koma málinu í gegnum þingið, sem er meira en íslenskir starfsbræður hans gerðu). Síðan þá hafa dönsku vinstri flokkarnir reynt að koma þeirri lagabreytingu í gegn ákvarðanir um þátttöku í stríði skuli taka með 2/3 hlutum atkvæða. Það hefur ekki gengið eftir og mun ekki gera það, a.m.k. ekki undir núverandi stjórnvöldum, sem telja nauðsynlegt að Danmörk geti farið í stríð.

Hlutverk Rasmussens núna er að sýna heiminum fram á að hægt sé að búa til öruggan heim með hernaðarhyggju, hernaðaruppbygingu og myndun hernaðarbandalaga. Eða eins og NATO auglýsir: „Peace and Security: That’s our mission.” Þvílíkur léttir!